þriðjudagur, desember 30, 2008

Og þá er 2008 bara búið.

Janúar. Týndi mánuðurinn. Patrekur í faðmi sjálfs síns. Skoðaði íbúðir. Stúlkan hafði tekið ákvörðun fyrir áramót að vinna frekar sjálfstætt sem blaðamaður en sem launþegi og byrjaði á því fyrsta janúar.

Febrúar. Undirritaði kaupsamning vegna Barmahlíðar 6. Afhend í lok maí. Keypti skyndiákvörðunarmiða til Mexíkó og ákvað að fara í eins mánaðar ferðalag þangað. Ummm, sem endaði einhvern veginn sem þrír mánuðir í Erlandi, með heimkomu rétt fyrir íbúðarafhendingu. Fer á spjöld sögu minnar sem einna minnst útpælda ferðalag sem ég hef dröslað mér í. Sem er þó alls ekki endilega löstur.

Mars. Mexíkó. Heimsækja Fernando og Rosanne.

Apríl. Ítalía. Sviss. Barcelona - bjó með móður minni í íbúð þar í borg og skrifaði greinar.
Barcelona


Sviss


Ítalía

Maí. Barcelona continued, pabbi kom út til okkar. Heim síðan á klakann eftir sex vikur í Barce. Flutti út af Laugavegi og inn í Barmahlíðina þann 31. maí. Vú hú.


Júní
. Spennandi að taka upp úr kössum og enduruppgötva löngu gleymdar eigur. Endalaus sól úti í garði í Barmahlíðinni. Skógarhögg norður í landi. Sólbrennd og veðurteppt í gönguferð á Hornströndum.

Júlí. Brúðkaup. Brúðkaup. Útskrift í Bretlandi og dásamlegt re-union. Heimkoma Kristínar, Daníels og Kristinar eldri. Þrastarskógur, útilega. Sólskin. Garðurinn í Barmahlíð og endurtekin samvera fjölskyldunnar á Miklatúni. Í endurminningunni er sól allan júlí.Ágúst. Heimkoma Steina bróður. Ferð í Flatey. Sumarbústaður í Grímsnesi. Fjölskyldan, fjölskyldan. Partý, partý. Brúðkaup.

September. Kreisí vinnumánuður. Fullt af brjálæðislega skemmtilegum verkefnum. Ferð til Danmerkur í lok mánaðar, þar sem blaðakonur slepptu því meðal annars markvisst að fylgjast með fréttum í fjóra daga. Heimkoma daginn fyrir yfirtökuna á Glitni. Táknrænt? Frá gamla Íslandi fór hún og til nýja Íslands snéri hún.

Október. Ó, var Ísland reist á sandi?

Nóvember. Lánalínur lokast ein af annarri. Freelansarar eru þeir fyrstu til að vera fleygt frá borði í sökkvandi skipi. Bwaaaaa. Best að fresta ferðinni til Sýrlands og Ísrael sem var í kortunum. Enda ekki alltof mikinn gjaldeyri að fá.

Desember. Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir verðbólguskot, þjóðargjaldþrot - þá er desember fáranlega kósý og skemmtilegur mánuður.

Gleðilegt ár!

Fyrir 36 árum giftu foreldrar mínir sig. Þann 29. desember.

Fyrir 29 árum kom lítil stúlka í heiminn, sem nefnd var Lára. Þann 29. desember sömuleiðis.

Tuttugu árum síðar, fyrir 9 árum, flaug ég í frosti og byl í sjúkraþyrlu af eyju í Maine upp á meginlandið. Það var þó skárra en sambýlingurinn sem flaug með sjúkraflugvél beint á aðalsjúkrahúsið í Portland. Sum sé þann 29. desember, sem er ein af þessum einkennilega eftirminnilegu dagsetningum. Minningin um aldamótin er þokukennd - árið 2000 læddist hljóðlega inn meðan ég virti fyrir mér bólgna, brennda fingur sem voru svo afskræmdir að ég hélt að þá yrði aldrei hægt að hreyfa eðlilega framar.

Mér finnst stundum að þetta gæti hafa verið í einhverju öðru lífi.

En ég er enn eldhrædd.
Eða meira svona eldmeðvituð.

Enda ekki nema gott og gáfulegt að vera eldmeðvitaður.

Flestir eru alltof óeldmeðvitaðir. Alltof áhættusæknir, sjáið til. Kveikja í eyðandi afli inni á eigin heimili án þess að veita því nokkra sérstaka athygli, valsa síðan á milli herbergja og skilja kertalogana eftir eftirlitslausa.

Hei, ég veit, best líka að vera með há kerti í völtum stjökum, jafnvel kerti í gluggum með gardínum og hafa gluggana síðan kannski bara opna til að hafa örugglega dragsúg. Og kannski batteríislausa reykskynjara eða einungis einn reykskynjara í stórri íbúð, umm og engin eldvarnarteppi eða slökkvitæki. Og vera kannski ekkert búin að spá í mögulegum útgönguleiðum, hvað þá kenna heimilisfólki rétt viðbrögð. Muuuu.

Alltof margir eru með eldvarnarmál heimila sinna í algjöru rugli.

Kreisí.

laugardagur, desember 27, 2008


Kristín Elísabet Steinsdóttir sýnir jólakonfektið í Columbus, Ohio.


Bróðir hennar Daníel Tómas Steinsson leitar að möndlu í jólagrautnum.Í jólaboði hjá Öddu og Þóri, í borg óttans á Íslandi, reyna frænkur á hinn bóginn að hrista af sér sykurmókið. Takið eftir hve sljóar þær eru orðnar af áti.


Jólagrautur í Safamýri í hádeginu á Aðfangadag. Undirrituð fékk möndluna annað árið í röð. Fjármálaeftirlitið hefur augljóslega eitthvað klikkað í eftirlitinu.Eftir jólagrautinn þurfti auðvitað að hita sig upp fyrir kvöldið og syngja nokkur jólalög.Fyrir jól fór fram laufabrauðsgerð á Flókagötunni. Afi Jón, systurnar Karítas 2ja og Snæfríður 3ja spá í afskurðinn.


Snæfríður Eva Eiríksdóttir og Amma Krilla búa til laufabrauðslistaverk.Karítas Embla Eiríksdóttir var í banastuði!

Gleðileg jól, lömbin mín.

Þögnin á RÚV, áður en jólaklukkurnar hringja jólin inn, vekur alltaf með mér sérstaka hátíðartilfinningu.

Í þetta sinn sat ég í jólakjólnum við eldhúsborðið, strauk yfir rauða hátíðardúkinn með gylltu stjörnunum - og hlustaði á þögnina.

Þögn í útvarpi.

Síðan byrjuðu klukkurnar að hringja.

"Útvarp Reykjavík, útvarp Reykjavík. Gleðileg jól."

Þá táraðist ég.

Og gat ekki hætt að tárast því mér fannst þetta allt svo fallegt og svo dásamlegt. Svo yndislegt að sitja í eigin fallega eldhúsi, í eigin fallegu íbúð, og vera búin að safna mér svona dásamlega saman.

Eiga svona mikið af yndislegu fólki að. Vera heilbrigð og svona óendanlega heppin. Búa í landi sem þrátt fyrir kreppu og svínarí býður upp á lífskjör sem meirihluti mannkyns getur einungis látið sig dreyma um.

Síðan setti ég á mig varalit og hjólaði í Safamýri þar sem þrjár yndislegar litlar frænkur biðu í jólakjólunum og með bros út að eyrum.

mánudagur, desember 22, 2008

Orð dagsins eru úr grein Bjarna Bjarnasonar í Mogganum í dag:

Undanfarna mánuði höfum við sé að íslenskt samfélag er etnískt hagsmuna- og tengslasamfélag fremur en lýðræðislegt prinsippsamfélag.

Yndislegt brúðkaup, yndislegt fólk.

Stysti dagur ársins, sum sé hvað sólargang varðar, fór framhjá dömunni í daginn-eftir-syndróminu. Hó hó hó.

Nú er það jólahreingerningin.
Og allt hitt.

föstudagur, desember 19, 2008

Sjö brúðkaup á einu og hálfu ári.
Og síðan þrjú sem stúlkan komst ekki í.

Ummm.

28 dresses?!

Ha ha ha.

Sko, ég er samt alveg búin að fara í sex mismunandi kjólum í þessar giftingaveislur. Bara hafa það á hreinu, ha.

Og engar áhyggjur, ég á enn nokkra til að fara í mú ha ha.

Það held ég að verði gaman í giftingu Andrésar og Rúnu. Bónorðið fór fram á afmælisdaginn hans, giftingin á afmælisdaginn hennar - á morgun.

miðvikudagur, desember 17, 2008

"Jafnréttisfulltrúar sem starfað hafa að jafnréttisáætlunum í öllum ráðuneytum síðustu árin verða skornir niður í sparnaðarskyni."

Sæll.

Hei, ég veit, byrjum á að segja að nú sé tími kvenlægari gilda kominn eftir karlaslagsíðuna miklu - og köstum svo jafnréttisfulltrúunum út.

mánudagur, desember 15, 2008

Frábær helgi með frábæru fólki og það held ég að heimilið sé orðið fullt af heimagerðu konfekti ú je.

Stúlkan og móðir hennar smelltu sér svo með tjaldstóla og handverk að Stjórnarráðinu í dag. Sitjum ekki aðgerðarlaus. Ó nei. Það verður að fara að fitja upp á einhverju nýju í þessu samfélagi.

Eftir prjónaskapinn - sem reyndar voru jólakortaskrif í tilfelli dótturinnar (hversu 2008 er ekki að skrifa jólakort í mótmælum í snjókomu ha ha) - fylltist hún reyndar fullkomnu aðgerðarleysi og krassaði kengbogin uppi í rúmi. Verkirnir komu eins og og stomsveipur - dúddamía eins og fellibylur af fjármálamarkaði í Erlandi.

1200 mg af íbúfeni og magakramparnir samt enn til staðar?
Öllu síðan skolað niður með svima og höfuðverk, lystarleysi og sljóleika.

Á svona stundu langar mig að senda handrukkara á viðbjóðslega brosandi og happý Always Ultra konurnar sem eru svo hreinlegar og penar að þær eru á LJÓSBLÁUM túr en ekki rauðum og eru svo hamó með ömurlega rakadrægu ógeðisdömubindin sín að þær leggjast til hvílu að kveldi með brosverki í kjálkunum.

fimmtudagur, desember 11, 2008

Laufabrauð með familinskí á morgun og hávirðuleg brúðkaupsbolluprófun annað kvöld, og afmæli og tónleikar á Rósenberg á laugardagskvöld og auðvitað mótmælin og bæjarröltið á laugardeginum, og virðulegt aðventujóga á sunnudag með fullt af skemmtilegum stelpum, og konfektgerð með fröken Ítalíu-nú-Bretlandi á sunnudagskvöld, og svei mér þá, konan á sósíalnum er sveeeeitt í sósíallífinu.

Sósan elskar annars boð þar sem hún þekkir suma en ekki alla, svona matarboð eins og hún var í í gær, boð þar sem er mix af alls konar fólki héðan og þaðan og svo tengist fólk alls konar fyndnum tengingum. Það má alltaf bjóða henni í svoleiðis boð. Aaaaaa, já, takk.

Annars er afar metnaðarfull piparkökuhúsagerð í bígerð. Og piparkökuhúsahönnun. Stolti íbúðareigandinn hefur m.a.s. fjárfest í hringborði undir gripinn, keyptu á heilan 100 kall í Góða hirðinum. Og jólaseríu til að hafa í kringum húsið. Sem er mjög eðlilegt. Haaa.

Ég geri hús sem þetta á tíu ára fresti, sjáið til. Seinast í Noregi ´98 í pínulitlum ofni á heimavist í norskum ullarsokkum. Ég sé fyrir mér opnuviðtal þegar ég mun möndla slíkt hús í áttunda sinn. Það skiptið stefni ég á að gera eftirlíkingu af Tónlistarhúsinu. Sem þá verður mögulega tilbúið. Knock-on-wood.

miðvikudagur, desember 10, 2008

Í kreppunni vissi langamma mín oft ekki hvað hún myndi setja á diskana daginn eftir. Langafi fór út á morgnanna í von um verkamannavinnu en kom oft tómhentur heim.

Langamma var þó alltaf handviss um að Guð myndi sjá um sína - og sjá til þess að á diskum barnanna yrði einhver matur.Ég fékk það hlutverk á 120 ára afmæli langömmu minnar Guðrúnar Eiríksdóttur að troða mér í peysufötin hennar. Svo voru sagðar sögur af langömmu og sungið.

Tekið skal fram að Eiríkurinn við hlið mér er ekki langalangaafi minn.

mánudagur, desember 08, 2008

Í Barmahlíð 6 var um helgina opnað Hlíða-Spa.
Kjörorð Hlíða-Spa er einfalt: Það besta í lífinu er heimatilbúið.

Í Hlíða-Spa er boðið upp á heimatilbúna andlitsmaska, heimatilbúið handakrem úr hunangi, hvítvín, súkkulaði, kerti, ástarsögur, hárblásara, agúrkur á augun og fótanuddtæki. Þangað kemur líka nuddari ef þess er óskað.

Það er ógó 2007 að fara með gæs í alvöru spa, sjáið til.

Brúðkaup 20. des, jei jei jei.

Þegar ég hélt að ég væri búin að fá allar mögulegar útgáfur af nafninu mínu í brenglaðri mynd bárust þessar hérna frá Bretlandi:

Sigridur Viois.
Sigga Durvidis.

Þessi seinni er í upphaldinu hjá mér.
Hvað gerir maður þegar kona heitir Sigridur Vidis en samt líka Sigga?

Kallar hana Sigga Durvidis.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Ég hef tilkynnt vinnuveitanda mínum að ég muni ekki hika við að fara í sérframboð verði ég látin missa vinnuna. Hann er alveg á nálum í dag, sko.

miðvikudagur, desember 03, 2008

Vikuna eftir bankahrunið eignaðist ég nýtt hjól.
Seinasta eintakið úr sumarsendingunni, á 40% afslætti.
Góður díll.

"Einhver þarf líka að halda hjólum efnahagslífsins gangandi," benti faðir minn á.

Hjólið fékk í framhaldinu nafnið hjól efnahagslífsins.

Nú ber svo við að hjól efnahagslífsins hefur stöðvast.

Rammgerður lásinn neitar að opnast og hjólið er fast við steinverkið hérna fyrir utan hjá mér. Ég hafði að engu vísbendingar um að lánshæfni lássins hefði minnkað og að þetta væri um það bil að fara að gerast, til dæmis eins og þegar gripurinn var farinn að standa á sér.

Völva Víðisstaða tekur Stóra Hjólamálinu sem ótvíræðu merki þess að viðsjárverðir tímar séu framundan í efnahagsmálum þjóðarinnar, jafnvel algjört hrun.

Nei, heyrðu, það er búið.
Jæja.

Hvað sem öllu líður vinnur völvan hörðum höndum að því að koma hjóli efnahagslífsins í gang aftur. Í næstu rigningu fer hjólið líka örugglega á flot og þá reddast þetta.

Munið samt að við berum öll ábyrgð á því að þetta gerðist.

Við kölluðum saman yfir okkur þennan mótvind, þennan brimskafl, þessar hamfarir, þennan lásamálafellibyl.