mánudagur, janúar 30, 2006

Hárspennur, eyrnalokkar, klink, pennar, sokkar, dagblöð, bréfaklemmur, óskilgreint rusl, hárteygjur, bók.

Það er alltaf hressandi að skúra undir rúmi.

Athyglisvert líka að vera alltaf jafnhissa yfir því hversu mikið lífríki leynist þar undir.

Það tók mig annars mjög langan tíma að muna orðið "bréfaklemma" þegar ég ritaði þessa færslu. Ég horfði sljóum augum á bréfaklemmu sem lá á skrifborðinu mínu í vinnunni og gat ekki með nokkru móti munað hvað þessi hlutur héti.

Öryggisnæla? Nei, þetta er ekki öryggisnæla.

Öryggisnæla? Nei, fáviti, þú veist að þetta er ekki öryggisnæla.

Örygg.... Arg.


Ég er augljóslega ekki búin að drekka nógu mikið kaffi í morgun.

Í skjóli nætur fæ ég hugmyndir eins og að þvo bleiku ullarpeysuna mína aftur og reyna að teygja hana upp í fyrri stærð.

Ég bylti mér í rúminu og ákveð á sama andartaki að vera duglegri að taka vítamín og að það sé kominn tími til að jarðarbúar hætti helvítis stríðsbröltinu í heiminum.

Ég ákveð að skoða alvarlega mastersnám í haust og muna sömuleiðis að vökva plöntuna í stofuglugganum.

Um miðjar nætur hættir öll forgangsröðun.

Já, já, álftin Svandís bara snúin óvenjusnemma aftur á Bakkatjörn.
Þangað hefur hún haldið á hverju vori undanfarin 12 ár.

Svo segir Morgunblaðið og ekki lýgur Mogginn.

Ferlega flippað hjá Svandísi að snúa aftur í janúar en ekki maí.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Hvað gerir maður þegar maður er með hor í nös og höfuðverk en í vinnunni er brjálæðislega mikið að gera?

Þegar það sést ekki í skrifborðið fyrir óskipulögðum blaðabunkum og unnið er í fimm skjölum í einu.

Þegar klukkan tifar.

Maður fær sér meira kaffi.
Og síðan enn meira.

Það hressir - Bragakaffið.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Samkvæmt nýrri úttekt eru nærri 80% af íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum um karlaíþróttir og karlkyns íþróttamenn.

Merkilegt.

Tæp áttatíu prósent.

Rannsóknin er samstarfsverkefni milli Austurríkis, Litháens, Noregs, Íslands og Ítalíu.

"Aðspurður hvort eitthvað í rannsókninni hafi komið honum sérlega á óvart segist Kjartan (Ólafsson, sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun HA) hafa átt von á því að Ísland hefði komið betur út en samanburðarlöndin í ljósi þess hversu löng hefð kynja og jafnréttisbaráttu er hérlendis. Leggur hann áherslu á að umfjöllun um konur í íþróttum eigi ekki að bæta upp með hugmyndum um að auka vinsældir kvennaíþrótta með kynferðislegri hlutgervingu kvenna eða örum þvingandi og stöðluðum kynhlutverkum. Mikilvægt sé að auka umfjöllun um konur á íþróttum á jákvæðan hátt."

Jamms.

mánudagur, janúar 23, 2006

Lærdómur helgarinnar er að endurteknar æfingar á stökkatriðinu fræga úr Dirty Dancing, veitir gríðarlegar harðsperrur.

Líka að leika lauf í vindi, dansa tangó og fara í sjómann.

Ógisslega flippað, sko.

Kór vikunnar hjá vefsíðunni er Háskólakórinn.

Hvað eru margir búnir að græða á telaufunum sem ég sé týnd úti á akri í Fjarskanistan en finn síðar í hillu í Hagkaupum?

Hverjir voru það sem græddu?

Ég fann miða frá Kenýa í skrifborðinu mínu.

---
Föstudagskvöld í Kismu:

6 stórir bjórar, 3 Vodka Ice, 3 kúffullir diskar af gómsætum kjúklingarétti.

Samtals 800 kenýskir shillingar.
640 íslenskar krónur.

---
Já - flugmiði til Fjarskanistan er kannski dýr.
Nei - það er ekki dýrt að dvelja þar.

föstudagur, janúar 20, 2006

Föstudagur, já.

Hvað varð um vikuna?

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Í nýrri ársskýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch eru Evrópuríki sökuð um að taka viðskiptahagsmuni og samstarf í baráttu gegn hryðjuverkum, fram yfir mannréttindi.

Samtökin nefna Betland sérstaklega og í þessu sambandi og segja að þarlend stjórnvöld hungsi mannréttindabrot í Rússlandi og Sádi-Arabíu til að tryggja Bretum ábatasama viðskiptasamninga.

Frakkar og Þjóðverkjar eru gagnrýndir fyrir að beita sér fyrir því að Evrópusambandið aflétti banni sem lagt var við sölu á vopnum til Kína.

Mannréttindasamtökin gagnrýna einnig Bandaríkjastjórn fyrir að hafa beitt pyntingum og illri meðferð á föngum af ásettu ráði í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þessi stefna er sögð hafa torveldað Bandaríkjamönnum að knýja á önnur ríki um að virða sáttmála um mannréttindi.

---

Ekki lýgur Mogginn.

Ég lýsi eftir því að stórveldin líti alvarlega í eigin barm.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Hvað gerir maður þegar geislaspilaradruslan er handónýt og neitar að spila langþráða tónlist?

Arg, maður ýtir á alla takka, blótar, fjasar yfir því hvernig tæknin sé að taka öll völd en sé samt svona líka meingölluð. Maður lemur á geislaspilarann, rífur í hár sitt og ákveður að geislaspilarar séu af hinu illa.

Og svo?

Fimmtíu mínútum síðar áttar maður sig á að maður var að reyna að láta geislaspilarann spila diskinn öfugan.

Þegar maður les fyrirsögnina "Dyravörður kjálkabraut ungling" sem "Dyravörður kjálkabraut kjúkling", þá ætti maður kannski að segja þetta gott í vinnunni í dag og drífa sig heim að sofa.

Ekki það að seinni fyrirsögnin sé ekki margfalt betri en sú fyrri.

Ég lýsi eftir glæpasagnahöfundi til að skrifa bókina Leyndardómar kjálkabrotna kjúklingsins.

Í Morgunblaðinu í dag er Viðhorf eftir stúlku sem er grunsamlega lík sjálfri mér.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Mér finnst fínt að nota tímann sem það tekur mig að komast í og úr vinnu, til að hreyfa mig.

Vilji ég ekki ganga heldur aka, finnst mér ljómandi að láta einhvern annan sjá um aksturinn - til dæmis strætóbílsstjórann.

Ég er á móti því að Reykjavík endi sem eitt stórt bílastæði eða 6 akgreina hraðbraut.

Ég vil frekar nota peningana sem það kostar mig að kaupa bensín, í að kaupa farmiða til útlanda.

Þess vegna á ég ekki bíl.

mánudagur, janúar 16, 2006

Sumar er hugarástand.
Þess vegna eru sumarbústaðir alveg jafnbrúklegir á veturna.

Þótt maður þurfi að leita að heita pottinum undir þykku snjólagi, þá er það bara huggulegt.

Hver er fyrstur til að finna heita pottinn???

Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Stúlkan á grein frá Rúanda.

Þar fara fram réttarhöld vegna fjöldamorðanna sem lauk fyrir 12 árum. Þúsundir dómsstóla, "gacaca", hafa verið settir upp um land allt og venjulegt fólk, Jón og Gunna, eru yfirheyrð vegna þátttöku þeirra í óskapnaðinum. Stríðsglæpadómsstóllinn í Tansaníu fer aftur á móti yfir mál þeirra sem skipulögðu allt saman.

Ég var viðstödd "gacaca" í Kigali, höfuðborg Rúanda.

Miðaldra maður strýkur sér um höfuðið og talar lágt en ákveðið í hljóðnema. "Þessi maður myrti föður minn og kveikti í heimili mínu," segir hann og horfir niður í jörðina. Nokkrum metrum frá stendur karlmaður í bleikum fangabúningi. Þetta er hinn meinti morðingi. Þeir voru nágrannar og unnu saman. Fanginn muldrar eitthvað og neitar öllum sakargiftum. Kliður fer um mannfjöldann, um 150 manns á öllum aldri. Fólkið raðar sér á bekki undir bárujárnsþaki, að hluta til undir berum himni. Níu dómarar sitja í röð við borð. Fólk réttir upp hönd til að biðja um hljóðnemann, segja frá því sem hinn ákærði gerði og spyrja spurninga.

"Ég segi ykkur það í fullri alvöru, að þessi maður hefur margt á samviskunni," endurtekur maðurinn með hljóðnemann. Ég hvessi augun á þann ákærða, hnykla brýr og verð að viðurkenna að þetta er harla óvenjulegur laugardagsmorgunn.

Afsakið herra gatnamálastjóri, en hvar á ég að ganga ef búið er að ryðja öllum snjónum af götunum upp á gangstéttirnar?

föstudagur, janúar 13, 2006

Vefsíðan ætlar að blanda sér í Ædolið.
Hún hefur samt ekki séð einn einasta þátt í nýju seríunni og raunar bara 2 á ævinni.
Hún hefur engu að síður sterkar skoðanir á þættinum í kvöld.

Hún veit að allir keppendur eru góðir en veit jafnframt að vinkona sín er langbest.

Þess vegna ætlar hún að kjósa THELMU frá klukkan 21:35-22:00 með því að hringja í 900 9006 eða senda smsið "idol 6" í númer 1918.

Þegar Thelma verður komin áfram ætlar vefsíðan síðan að senda fulltrúa sinn í Smáralind. Vera á fremsta bekk með stjörnur í auga. Komast sjálf í Séð og Heyrt og meika það, fagurlega meikuð í framan.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Til hvers að læra af mistökunum þegar hægt er að sleppa því?

Þegar ég horfði á bíllyklana læsta inni í bíl foreldra minna vissi ég ekki hvort ég væri vakandi eða mig væri að dreyma, hvort ég væri að ímynda mér þetta eða hvort ég væri farin að fá verulega furðuleg flashback á eigin fortíð.

Ég hafði of oft horft á bíllykla inni í bíl.
Ég hafði of oft læst mig úti heima hjá mér.
Ég var fáviti.

Það gat verið þriðjudagur eða laugardagur, ég gat verið á planinu fyrir utan Moggahúsið eða stödd stutthærð í Skipholti, ég gat verið að sveima í kringum læstan bíl á Hagamelnum eða skríða inn um glugga á Tjarnargötunni eitt kvöld um haust. Ég hafði of oft læst mig úti.

Ég gat verið að hringja út um allan bæ í leit að aukalyklum, taka í læstan hún á Hjarðarhaga eða klifra upp á svalir á Eggertsgötunni til að koma mér í skjól. Ég hafði gert þetta of oft.

Og endalokin í Stóra Lyklamálinu þriðjudaginn 10. janúar?

Úps. Húslyklarnir læstir inni í bílnum og bíllyklarnir læstir inni í íbúðinni. Góður.

Allir aukalyklar, þessir-sem-svo-gott-er-að-hafa-þegar-maður-læsir-sig-úti, læstir inni í sömu íbúð. Gemsinn læstur inni í bílnum og þrír mismunandi lánssímar notaðir til að hringja út um allar trissur. Hjálplegir vinir bjóða far heim til frænda sem á aukalykil að íbúð foreldranna sem eru í útlöndum.

Og reynast aukalyklar að bílnum leynast þar?
Nei, nei, þeir eru náttúrlega læstir inni í eigin íbúð.
Alveg rétt, ég tók þá þangað fyrir helgi.
Fáviti.

Stóra Lyklamálið heldur áfram.

Stúlkan er glorhungruð því hún hefur ekki borðað síðan í hádeginu og læsti veskið inni í bílnum fimm mínútum áður en hún ætlar að kaupa sér að borða. Fjórum tímum síðar grefur hún skjálfhent upp hakk í frysti hjá foreldrunum og finnur 300 kall á eldhúsbekknum. Lukka.

Hún sefur í húsi foreldranna, gengur í vinnuna morguninn eftir og lætur opna bílinn. Þá kostar það bara 3000 en ekki 4000 á yfirvinnukaupi.

Hei, ókei, getraun: Hver gæti hafa eignast flatskjá fyrir féið sem hann hefur notað til að brjótast inn í eignir sínar og sinna nánustu?

Til hvers að ferðast í samfloti þegar maður getur dreift kröftum sínum um heiminn?

Ferðafélagið Patrekur stefnir á heimsyfirráð.
Enda hefur Patreki ekki gengið sérlega vel að samræma ferðalög sín.

Meðan félagi 85 var í Eþíópíu í mars var félagi 5 í Íran.
Meðan félagi 85 var í Súdan var félagi 5 í Reykjavík.
Þegar félagi 85 snéri aftur til Reykjavíkur fór félagi 5 til Malí.

Hann er núna í Timbúktú.
Ó já, Timbúktú er í Vestur-Afríku.

Patrekur - ekki bara í Reykjavík, heldur líka í Timbúktú.

Til hvers að tæma ísskápinn af mygluðum mat þegar maður getur bara látið hann skríða sjálfan út?

sunnudagur, janúar 08, 2006

Á www.visir.is, VefTV, má sjá stúlkuna babbla í Silfri Egils í dag.

Ég er þessi í bleika bolnum, ekki karlmaðurinn með krullurnar.

Í Mogganum í dag má síðan lesa seinustu stóru greinina frá Súdan.

Hvernig er hjálpargögnum komið til skila ef ekki er hægt að aka eða sigla á áfangastað og ómögulegt er að lenda þar flugvél? Einn möguleiki er að varpa þeim úr flugvél á flugi. Sigríður Víðis Jónsdóttir flaug að landamærum Súdan og Eþíópíu, fylgdist með kornsekkjum falla til jarðar, bundin við op vélarinnar að aftan og reyndi að sannfæra sjálfa sig um að hún væri löngu hætt að vera lofthrædd.

föstudagur, janúar 06, 2006

Á mánudag er eitt ár liðið frá því að sögulegir friðarsamningar voru undirritaðir í Suður-Súdan.

Ég er að hugsa um að baka vöfflur.

Stundum er föstudagur eins og fimmtudagur, eða kannski miðvikudagur.

Miður dagur eins og kvöld, svona út af skammdeginu.

Vetur eins og vor, vegna óvæntra hlýinda.

Ofurlaun forstjóra eins og besti brandari.

Eða kannski sá versti.

Klói páfagaukur kann ekki einungis að segja nafnið sitt, heldur reynir hann líka að drekkja sér í vatnsglasinu sem einhver kann að drekka úr eða hanga í gleraugunum hans og gogga í Morgunblaðið.

Hann er svo flippaður hann Klói.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

HA HAHA HA HAH HA HA HA.

Stúlkan var að komast að því að eftir hana liggur verk á japönsku.

HA HA HAH AHH HA HA HAH.

Ekki það að stúlkan kunni nokkurt einasta orð í japönsku en World Food Programm hefur hins vegar látið snara greininni sem hún benti á um daginn og var á ensku, yfir á fokking japönsku.

HA HA HAH HA HA HA HAHH.

Listaverkið (því ekki skilur maður táknin...) má nálgast hér.
Áttunda saga að ofan.

Þetta fer beint í ferilskrána.

Útgefið efni:

Íslenska, bla bla bla.
Enska, bla bla bla.
Japanska, bla bla bla.

Tööööööff.

Í morgun var ég fangi í eigin úlpu.

Föst í úlpunni þegar ég kom í vinnuna.
Þurfti hjálp til að komast úr henni, eftir að hafa næstum því stórslasað mig á árangurslítilli tilraun til að losna.

Fyrir fyrsta kaffibolla hugsaði ég um kjör fanganna sem Bandaríkjastjórn heldur í Guantanamo í nafni frelsis. Datt það í hug svona í framhaldinu af því að hafa verið fangi í fjórar mínútur.

Eftir annan kaffibolla hafði ég ákveðið að skrifa einhvern tímann bókina Fangi í eigin úlpu. Þetta yrði metsölubók því nafnið væri svo smellið.

Eftir þriðja kaffibolla var ég farin að skjálfa.

Eftir þann fjórða bloggaði ég um allt saman.

Fótbrot og æla.

Mogginn í dag.

mánudagur, janúar 02, 2006

Vefsíðan mælir með brúðkaupsveislu á Gamlárskvöld. Líka matarboði á undan veislunni þar sem borð eru glimmerskreytt og svartfugl á pönnunni, humarsúpa í skálunum og hnetusteik á diskunum.

Vefsíðan mælir hins vegar ekki með því að láta umræðuþáttinn Kryddsíldina verða að svörtujakkafatakallasamkomu eins og gerðist á Gamlársdag. Það er ekki hægt að breyta þeirri staðreynd fyrr en í næstu formannskosningum að fjórir af fimm formönnum stjórnmálaflokkanna eru karlar. Það er hins vegar á valdi þáttarins að velja spyrlana. Uuu... en ekki hvað.

Svo má líka klæða sig í eitthvað meira upplífgandi en svört jakkaföt.

Gleðilegt ár.