föstudagur, júlí 30, 2004

Heimabakaðir kanilsnúðar komnir í plastbox. Bjór í tösku. Ullarpeysa með. Hverju mun ég gleyma þetta árið? Gleymi alltaf einhverju. Verst þegar það eru tjaldhælarnir... Jú jú, mar hefur svo sem lent í því.

Er enn að velta fyrir mér hvort þúsund króna tjald frá Landssímanum eða OgVodafone haldi vatni. Er efins mjög. Annar möguleiki er að neita slíkum kaupum og fara með morkið fermingartjald sem fannst inni í geymslu um daginn. Verst að tjaldsúlurnar fundust hvergi, ha ha.

Það má að minnsta kosti nota tjaldhimininn sem ábreiðu. Narta síðan í kanilsnúð undir myglubletti á tjaldinu liggjandi í grasinu. Anda að sér myglulykt og ilmi af fersku grasi, spýta í lófana og skella dauðri rollu á einnota grill.

Þetta verður skemmtileg helgi.

Fame, I´m gonna live forever.

Viðtal við mig og samstarfsfélaga minn í Mogganum í dag. Efnið námskeiðið okkar Í góðum málum, haldið fyrir 15 ára unglinga í Vinnuskólanum.
Sjá bls. 10 - "Áhersla á sjálfsvirðingu og hjálpsemi".

Seinasti vinnudagurinn í gær. Höfum eftir sumarið talað við 584 krakka og 73 flokkstjóra. Þetta voru dagsnámskeið og oftast um 20 manns í einu.

Efni félaga míns var hvað hægt væri að gera til að hjálpa sjálfum sér ef manni liði illa - umfjöllun um sjálfsmynd, geðheilsu og annað. Sem fulltrúi Rauða krossins ræddi ég hvað við gætum gert til að hjálpa öðrum. Við ræddum heimsástandið, hjálparstarf erlendis og alla litlu hlutina sem hægt er að gera hérna heima til að láta öðrum líða vel.

Vandræðaunglingar, smandræðaunglingar.
Krakkanir voru yfirhöfuð til fyrirmyndar, klárir og skemmtilegir. Við fórum í leiki, horfðum á vídeó, ég sýndi þeim ljósmyndir sem ég tók í vetur, við fórum í ratleik og skiptumst á skoðunum.

Kannski er þetta sú vinna sem hefur gefið mér mesta reynslu af öllum. Ha ha, ef frá er talið humarveiðiflippið í Bandaríkjunum. Það er strembið að vinna sem fyrirlesari, vera hress og skemmtilegur á hverjum degi og selja kröfuhörðum unglingum hugmyndir sínar. Algjör orkusuga – en ótrúlega gefandi.

"Unglingar pæla náttúrlega svo mikið í sjálfum sér og í vinum sínum og fjölskyldunni en kannski ekkert út fyrir þann hring. Tölurnar sem við heyrðum í dag, eins og t.d. að einn fimmti hluti fólks í heiminium lifi við algjöra fátækt, eru sláandi. Við gerum okkur kannski enga grein fyrir því hvað við erum heppin," sagði Gígja 15 ára þegar blaðamaður ræddi við hana eftir námskeiðið - sjá viðtalið. Karl félagi hennar sagðist vel geta hugsað sér að fara í einhvers konar sjálfboðavinnu í framtíðinni.

657 áheyrendur í sumar. Væri gaman að vita hversu mörgum fræjum manni hafi tekist að sá. Alla vega tveimur! Ef þau tvö ná að sá öðrum tveimur og þau fræ öðrum tveimur og þau öðrum tveimur... þá eru heimsyfirráð á næsta leyti.

Yfir og út.

Ertu að grínast í mér? Á Íslandi eru 220.000 kreditkort í notkun.

"Ég lifi í draumi, dreg hvergi mörkin dags og nætur," söng Eyjólfur Kristjáns.
"Ég lifi í draumi, dreg hvergi mörkin skulda og eigna," segi ég nú bara.

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Mynd dagsins er frá Afganistan, tekin í desemberbyrjun. Stúlka í Kabúl nær í vatn. "Jú, mér er dálítið kalt," viðurkenndi hún fyrir mér. Sagðist samt vera himinlifandi yfir nýju krönunum sem Alþjóða Rauði krossinn hafði sett upp. Nú þurfti hún ekki að ganga jafnlangt og áður til að ná í vatn. Og vatnið sem hún fær er hreint.


Það sem ég geri í dag er mikilvægt, því það fer dagur af lífi mínu í það.

Ekki það að ég þurfi endilega að afkasta einhverju gríðarlega miklu. Bara svona að njóta lífins. Vera til.
Já, já.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Fimmtudagur í Belgrad, höfuðborg Serbíu. Sólskin, kalt í veðri. Sigríður snýr sér snöggt við og rekst harkalega utan í gamla konu. Hrukkóttari en þurrasta sveskja, tannlaus, ofsa hress. "No problem, no problem!"

Sigríður og konan taka tal.
"Where I´m from? I´m from Iceland."
"Oh, I love SWEDEN! I went there once."
"Uuu... yes really?"

Talið berst að lífinu í Serbíu seinustu árin. Sprengingar Nató 1999 voru vondur tími. Menn ofsahræddir. En ekki hvað? Reglulega fær sú gamla glampa í auga og fer fögrum orðum um SVÍÞJÓÐ. "Volvo, Volvo!" segir hún og brosir.

Konan er á leið til vinkonu sinnar sem er veik. Við ákveðum að hittast aftur seinna um daginn og fá okkur kaffi. Gömul serbnesk kona sem man tímanna tvenna og elskar Volvó, er athyglisverður viðmælandi.

Skjálfandi hendi skrifar konan nafnið á kaffihúsinu niður á blað. "Cabenea" virðist standa þarna. Við kveðjumst að sinni og ég er nærri því búin að missa út úr mér "volvo" í stað "good bye". Skellihlæ að öllu saman. Ó, ó, ó, ég er alltaf að hitta svo athyglisvert fólk.

Kaffihúsið stendur við eitt aðaltorgið. Nafnið á torginu er líka á blaðinu frá þeirri gömlu. Ég skil ekki skriftina en náði framburðinum: "Rúskí Sar". Tíu mínútur í fimm hef ég leitina að kaffihúsinu Cabenea. Sú gamla sagði að allir vissu hvar það væri og þetta væri auðfundið. Mér til mikillar furðu horfa menn skrýtnum augum á mig.

"Cabenea - you don´t know?" endurtek ég við gangandi vegfarendur. Nei, enginn veit. Klukkan tifar. Ég er orðin sein. Shit, hvar er þetta jevla kaffihús? Hvar er konan?! Ég man ekki einu sinni hvað hún heitir. Kalla hana í huganum Volvókonuna.

"YOU REALLY DON´T KNOW WHERE THIS FAMOUS CAFE, CABENEA, IS???!" spyr ég mann sem selur hamborgara. Orðin pirruð. Hvað er að þessu fólki, að vita ekki svona lagað? Hver myndi ekki vita hvar Kaffibrennslan væri, ef hann ynni við að selja hamborgara á Austurvelli? Huh!

Klukkan er orðin hálfsex og ég búin að ráfa fimmtíu hringi á torginu, skil ekki neitt í neinu. Á ég að prófa að kalla VOLVÓ?

"What´s wrong with everybody, not knowing this place," röfla ég í ungum þjóni á útikaffihúsi. Hann horfir kíminn á mig og segir síðan: "I think what is wrong is the note you are holding. Cabenea is a GIRLNAME - definately NOT a name of a café. You must have misunderstood the whole thing."

Úps.

Konan heitir þá Cabenea og óskiljanlega skriftin fyrir neðan er nafnið á kaffihúsinu. Ha ha, ég er bara búin að spyrja 57 manns að því hvar kaffihúsið CABENEA sé.

Humm, hvað myndi ég sjálf segja við útlending sem héldi því statt og stöðugt fram að á Austurvelli væri kaffihús sem héti ÞORGERÐUR JÓNA?
Og fussaði bara ef ég héldi því fram að sá staður væri ekki til...

Ha ha, vitnað í Sellugreinina mína í Fréttablaðinu í dag. "Af netinu".
Babbaræ.

Söfnuninni lýkur þriðjudaginn eftir Verslunarmannahelgi.
Hún gengur súper vel.
Allir himinlifandi.

Pælið í hvað það er magnað hversu miklu við getum áorkað í sameiningu?

Húrra.

mánudagur, júlí 26, 2004

Hér er greinin 286 þúsund kall sem ég skrifaði á Selluna.

föstudagur, júlí 23, 2004

Ég er himinlifandi.

Kannski hélt ég að ákveðin gjá hefði skapast á milli þjóðar og þurfandi. Að fáir myndu taka vel í söfnunina fyrir vini mína á Indlandi. Að samkenndin hefði grafist undir torfu af auglýsingabæklingum og pitsukössum, skolast út með grillsósum og gúmmelaði.

Mig langaði að hjálpa baráttufólkinu úti en vissi ekki hvað gera skyldi. Ætti ég að auglýsa eftir aðstoð?

Ég gerði það hikandi. "Þetta fer alla vega ekki verra en djöfullega," muldraði ég þegar ég setti inn seinustu færslu. Síðan hló ég hátt.
"Já, það þýðir sko ekkert annað en að synja aðgerðarleysi og skjóta málum til þjóðarinnar," sagði ég og fannst ég ægilega fyndin. Klukkan orðin margt og kominn svefngalsi í mig.

Viti menn, klukkan rúmlega ellefu á föstudagsmorgni hefur fjöldi fólks lagt inn á reikninginn og safnast 56,493 krónur! Að auki veit ég um nokkur framlög sem berast um næstu mánaðarmót.

VIÐ ERUM KOMIN YFIR SEXTÍU ÞÚSUND KRÓNUR kæra fólk.
Hvað get ég sagt?

Jú, sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér - og ég er himinlifandi.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Tæplega sjötti hver jarðarbúi er Indverji.  Ekkert skrýtið að þar úi og grúi af fólki. 
Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, Indverji. 
Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, Indverji.  
   

Tók þessa mynd á indverskum markaði í janúar.

Ein af leiðunum til að vinna gegn offjölgun í heiminum er að vinna gegn fátækt.  Þeir sem fastir eru í viðjum sárrar fátæktar, eignast mikið af börnum til að hafa fleiri vinnukrafta.  Munnarnir eru vitanlega fleiri til að metta - en um leið geta fleiri unnið úti og skaffað í búið.  Þar sem ekkert velferðarkerfi er til staðar, þar ertu líka í vondum málum þegar þú verður veikur eða of gamall til að vinna.  Þá er nauðsynlegt að eiga nóg af börnum til að sjá um þig.
 
Menntun er mikilvæg til að reyna að losna úr vítahring fátæktar. 
Menntun barna er grundvallaratriði - það eru þau sem munu erfa landið. 
 

Í janúar hitti ég þessi börn á Suður-Indlandi. 
 
Þau búa í litlu þorpi sem ég heimsótti og hef oft skrifað um hér - sjá til dæmis 12. janúar. 
Þarna voru heimamenn búnir að koma saman sérstöku skýli þar sem þeir kenna börnunum í sjálfboðavinnu og hjálpa þeim við heimanámið.  Ég hef sjaldan séð jafnmikið baráttufólk.  Kennararnir sem voru potturinn og pannan í byggingu skýlisins voru með andvirði nokkurra þúsunda króna í mánaðarlaun.
 
Um þessar mundir eru mikil flóð á Indlandi.  Þar er regntímabil.  Ég var að fá tölvupóst frá félaga mínum sem er í tengslum við þorpsbúa og heyrði að nú flæði inn í skýlið.  Þar eru engir almennilegir veggir, bara stólpar og þak úr laufum.  Ég sá þetta, hnyklaði brýr, skoðaði myndirnar mínar frá Indlandi og ákvað að hjálpa til við að byggja veggi á skýlið svo það megi nota allt árið um kring.  Þetta mál snertir nokkra tugi barna og möguleika þeirra á bjartari framtíð.  Áður redduðu kaupendur BA ritgerðarinnar minnar rafmagni fyrir skýlið (ágóðinn rann þangað) og nú er bara að redda veggjunum.
 
Ég ætla að gefa tíu þúsund kall.  
Ég er búin að fara í útilegur þrjár helgar í röð. 
Fyrst ég gat keypt grillkjöt, bjór, snakk, rauðvín og bensín fyrir öll partýin - þá get ég líka alveg gefið til þessa.
 
Ég er bara stúlka á Flókagötunni í Reykjavík og get ekki bjargað heiminum ein. 
Ég skora því á þá sem eru aflögufærir, þó ekki nema um nokkra hundrað kalla, að leggja þá fram til verkefnisins.  Margt smátt gerir eitt stórt.  Hundrað kall hér, þúsund kall þar, gera stóra upphæð - upphæð sem skiptir máli.
 
Reikningsnúmerið er 330-13-230037 og kennitalan 201179-3519.  Þetta hljómar náttúrlega eins og eitthvert grín því þetta er reikningsnúmerið hjá sjálfri mér.  En málið er hins vegar ekkert grín og ég get ekkert annað gert en beðið um traust.  Peningunum sem safnast mun ég síðan koma til vina minna úti.  Legg nafn mitt að veði við það að þetta fer ekki í að borga bjór og grillkjöt undir mig fyrir Verslunarmannahelgina!  Ha ha. 
 
Aðra stundina er ég dálítið skeptísk að sjá viðbrögðin, pínulítið hrædd um að verða vonsvikin.  Kvíði því að segja vinum mínum úti að ég hafi ekki getað safnað meira en tíu þúsund krónunum frá sjálfri mér.  Hina stundina veit ég hvað til er mikið af góðhjörtuðum Íslendingum.
 
Þá brosi ég breitt og verð glöð.
    

Annað sem við þurfum að vinna í er að finna fleiri til að styrkja mánaðarlega munaðarlausu börnin í þorpinu.  Sjö eða átta vinir og kunningjar hafa hjálpað til og þar með er búið að tryggja jafnmörgum börnum skólavist og betra líf.  Húrra!  Betur má hins vegar ef duga skal.  Það eru enn krýli þarna sem vantar reglulegan stuðning til að geta komist í skóla og yfirhöfuð til að hafa í sig og á.  Akkúrat núna eru þau í umsjá annarra þorpsmeðlima sem eiga erfitt með að sjá fyrir þeim.  Þúsund kall á mánuði er nóg fyrir þessi börn. 

Þúsund kall á mánuði.  Hvað kostar einn tíu raða lottómiði?   

Skrifið mér póst á siggavidis@hotmail.com ef þið viljið hjálpa til í þessu máli.


þriðjudagur, júlí 20, 2004

Það er útilokað að pabbi og mamma verði hjón.
Pabbi ætlar að giftast annarri konu.
 
Það er komið nýtt rúm fyrir mig inn í vinnuherbergið hans.
En ég sef ekki þar.
Ég er alveg hættur að gista í Grafarvoginum.
Pbbi má aldrei vera að neinu - nema hún komi með.
 
Ég man ekki einu sinni hvað hún heitir.
 
---
 
Mamma segir að ég eigi að koma til sín þegar ég vaki.  Það geri ég líka stundum.  En maður fer ekki endalaust upp í hjá mömmu sinni og ég get alveg eins byrjað að venja mig af því strax.
 
Það er eins og maginn í mér sé fullur af einhverju sem ég veit ekki hvað er.  Einu sinni var ég hjá tannlækni og nóttina á eftir dreymdi mig að ég hefði gleypt borinn.  Getur verið að hann sé að bora og veki mig?  Í fyrra flaug fiðrildi upp í mig og ég kyngdi því óvart.  Kannski er það búið að eignast önnur fiðdrildi sem fara hring eftir hring og finna enga útgönguleið.  Hvernig sem ég gapi fljúga þau ekki út.
 
Ég vildi óska þess að það væri rennilás á maganum á mér.  Þá læddist ég út á svalir á nóttunni, opnaði hann og léti fiðrildin fljúga út í buskann.  Svo renndi ég upp aftur, færi í rúmið og héldi áfram að sofa.
 
---
 
Þessar tvær sögur eru úr bókinni Engill í vesturbænum.  Mamma skrifaði hana.  Um helgina fékk bókin enn ein verðlaunin:  Vestnorrænu barnabókaverðlaunin.  Þá eru verðlaunin orðin sex.  Húrra!
 
Mamma mín er algjör engill. 

mánudagur, júlí 19, 2004

Enginn sem keyrir Hellisheiðina kemst hjá því að sjá áminningu Umferðarráðs, tvo klessta bíla og skilti með tölu látinna í umferðinni á árinu.
 
Um þar seinustu helgi þegar ég ók hjá var talan 11.  Daginn eftir keyrði ég heim og þá var hún 12.  Í næsta skipti þegar ég ók hjá, seinasta föstudag, var hún 13. 
 
"Mun hún hækka um einn í hvert skipti sem ég ek hjá?" hugsaði ég og handfjatlaði bjórkippurnar og grillkjötið.  Ætti ég kannski að hætta að aka Hellisheiðina?  Talan "13" ein og sér sagði ekki mikið en ef ég hópaði saman 13 manns í huga mér og hugsaði að þetta væru þeir sem hefðu látist, bara síðan í janúar, þá horfði málið öðru vísi við.
 
"Hvað mun standa á skiltinu þegar ég ek í bæinn á sunnudag?" muldraði ég, hnyklaði brýr og viti menn, sá síðan ljósið:  Það vorum við sjálf, þau sem voru í umferðinni, sem höfðum það í hendi okkar.  Ef við ÖLL ækjum eins og menn, þyrfti talan ekki að hækka.  Það var ekkert náttúrlegt við það að fólk léti lífið í umferðinni - engin lögmál þar að baki - ekkert óhjákvæmilegt.
 
Ég var sofandi þegar ég ók hjá á leið í bæinn á nýjan leik og sá ekki skiltið. 
Sögulega skemmtileg útilega að baki.
Örugglega 40 manns eða eitthvað álíka. 
Ó, ó, ó, ég þekki svo mikið af yndislegu fólki.

föstudagur, júlí 16, 2004

Sólskin. 
Tveggja stafa tala á hitamælinum! 
Föstudagur. 
Góð vinnuvika að baki. 
Útilega framundan. 
 
Er ekki lífið dásamlegt?

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Maður á ekki að ljúga.
Ástæða 1: Ég myndi ekki vilja að allir aðrir lygju. Hví skyldi ég því gera undantekningu fyrir mig og leyfa sjálfri mér að ljúga?
Ástæða 2: Það getur komið manni svo asskoti í koll, ha ha.

Sena:
Sigríður er í bát á Suður-Indlandi. Hittir heimamann, konu, sem tekur hana tali. Sigríður er orðinn þreytt á að útskýra stöðugt hvar Ísland sé. Flestir misskilji það hvort eð er sem Írland og telji það í framhaldinu vera það sama og England. Sigríður hefur því fundið út að stundum, sérstaklega í örstuttum samræðum, sé hentugast að segjast bara vera frá Englandi. Í þetta skipti vill hins vegar til að konan talar góða ensku, er vel að sér í landafræði og vill vera vinkona lygarans.

Ég: "Me? Where I´m from? From England."
Konan: "Oh, really. Where about?"
Ég: "Uuu... London."
Konan: "I would love to go to London. Where in London do you live?"
Ég: (hvur asskotinn...) "Me?"
Konan: "Yes, you!"
Ég: (ókei, think fast Sigga, hugsa eitthvað breskt) "Uuuu... I live in Buckingham (damn, vont svar)... well you know Buckingham district (Sigríður þú ert slöööök í þessu - finna eitthvað annað STRAX)... or actually I prefer to refer to it as district... number eight. Yes, number eight."
Konan: "Oh, so London is divided into district with different numbers?"
Ég: "Yes. And I live in number eighteen, no I mean number eight."

Sigríður hlær taugaóstyrkum hlátri. Báturinn kemur að landi. Lygarinn og heimamaðurinn halda áfram að spjalla. Tíminn líður. Klukkutíma seinna:

Konan: "So where did you study?"
Ég: "I did my bachelor degree in the University of Iceland."
Konan: "You went to ICELAND???!"
Ég: "Uuu... (damn, Sigga þú ert auli.. þú ert frá ENGLANDI ekki ÍSLANDI, remember) yes I´m very interested in Iceland, oh yes and icelandic culture. You know I studied anthropology. Iceland is actually very interesting (ókei Sigga JARÐA SIG NÚNA)..."

Sum sé: Lygi er vond.

Þetta voru orð dagsins.

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Nú eru brjáluð flóð í Suðaustur-Asíu og á Indlandi. Sá framan á Fréttablaðinu áðan ljósmynd frá Bihar-héraði á Norður-Indlandi. Var þar sjálf í nóvember. Ætla að skrifa snöggvast tölvupóst til heimamanna sem ég hitti þar í kringum afmælið mitt (og héldu upp á það fyrir mig) og grennslast fyrir um hvernig þeim reiði af.

Merkilegt hvernig svona náttúruhamfara-hrakninga-hörmungar-neyðar-eitthvað stendur manni nærri þegar maður hefur sjálfur verið á staðnum.

Hundfúlt eiginlega.

"Við erum hrædd við hryðjuverk því þau drepa þúsundir," sagði Kofi Annan. "Við eyðum gríðarlegum upphæðum í að koma í veg fyrir hryðjuverk.

"Alnæmi drepur ekki þúsundir, heldur milljónir. Hvar eru upphæðirnar til að berjast gegn alnæmi? Af hverju hefur ekki skapast samstaða hjá þjóðum heims til að berjast gegn alnæmi? Þekkingin til að koma í veg fyrir smit er til staðar. Lyf til að auka lífslíkur smitaðra eru til staðar. Peningarnir eru til staðar. Af hverju erum við ekki að gera meira en raun ber vitni?"

Einmitt það.

mánudagur, júlí 12, 2004

Sól skín í heiði þar sem ég geng mjóan stíg á milli hárra trjáa í landinu Laos í Suðaustur Asíu. Það er heitt í veðri, nánast logn, flugur suða. Framundan eru hrikaleg fjöll.

...

Afgangurinn af þessari grein er á Sellunni.
Um helgina tók til starfa ný og endurbætt Sella.
Húrra, húrra.

sunnudagur, júlí 11, 2004

Þegar ég var á Suður-Indlandi frétti ég af Íslendingnum Vilhjálmi Jónssyni sem þar byggi. Ég komst yfir símanúmerið hans, hringdi og bauð sjálfri mér í heimsókn. Í útlöndum eru allir Íslendingar vinir..

Villi hefur búið úti í yfir tuttugu ár, er giftur indverskri konu og á með henni TÍU börn, hvorki meira né minna. Fjölskyldan bauð mér gistingu og ég dvaldi með henni í góðu yfirlæti. Tók síðan viðtal við Villa.

Árangurinn er í Sunnudagsmogganum í dag.
"Tíu barna faðir á Indlandi".

föstudagur, júlí 09, 2004

Þegar ég var lítil var ég bólusett fyrir ýmsum sjúkdómum.
Eins og öll börn á Íslandi.

Hefði ég ekki verið bólusett hefði ég getað dáið úr sjúkdómunum. "Lést af völdum mislinga," hefði getað staðið á legsteininum mínum. "Dó úr lömunarveiki".

Í dag munu á milli 8000-9000 börn í heiminum deyja úr sjúkdómum sem hefði verið hægt að bólusetja þau fyrir. Bara í dag. Sama tala á morgun.

Átta til níuþúsund.

Ábót. Brjóstnippill. Flangs. Hjámiðja. Keva. Úrrek.

Horfi stórum augum á tölvuskjáinn. Skrifaði ég þessi orð einhvern tímann niður?
Rakst óvænt á skjalið "Sigga-Axelsbúð" á gömlu tölvunni hans pabba.

Nippilmúffa. Sjálfhelda. Kúluloki. Þráðarskór.

Minnið er merkilegt. Eða kannski minnisleysið. Einu sinni vissi ég hvað öll þessi orð þýddu. Einu sinni skrifaði ég sjálf þau niður í þetta tölvuskjal! Einu sinni afgreiddi ég úrgreiðslugogga og úníon yfir máð afgreiðsluborð í Veiðarfæraverslun Axels Sveinbjörnssonar á Akranesi.

Axelsbúð er í bárujárnsklæddu, lágreistu húsi á niður-Skaga. Húsið samanstendur af óreglulögum sölum og alls kyns ranghölum. Byggingin eldgömul. Langflestir í reikning, reikningarnir handskrifaðir. Fimmtíu ára gömul antík-kókkista við hliðina á Síríuslengjum frammi við afgreiðsluborð. Gulnuð blöð við hliðina á nýrri tölvu inni á skrifstofu: Leiðarvísir um notkun sjálfvirku símanna.

Skröll. Slóðaefni. Sjálfhelda.

Hver asskotinn er þetta? Ég var með þetta allt á hreinu sem 16, 17 og 18 ára gamall sumarstarfsmaður í bláum slopp með tommustokk og dúkahníf í vasanum. Nú er ég 24 ára og get ómögulega munað hvað "kamlok" er. Finnst stórmerkilegt að ég hafi einu sinni vitað það og afgreitt það si svona. Hvar skolaðist þekkingin út? Með bjórnum á Kaffibarnum, rauðvíninu á Hverfisbarnum eða bara árum sem komu og fóru?

"Í dag myndi ég ekki þekkja muninn á undirsinkuðum skrúfum og venjulegum," tauta ég og stari á tölvuskjáinn. "Myndi eflaust flaska á ryðfríum fittings og galvaniseruðum. Og tommurnar, hvernig voru þær aftur... Kvarttommu nippilhné var ekki það sama og trekvarttommu eða hálftommu. Nippilhné var ekki það sama og venjulegt hné og bíddu, voru ekki líka þarna einhver hálfhné og nippilhálfhné?"

Í Axelsbúð var ég stúlka í karlaveldi. Veldi trillusjómanna, pípara, stangveiðimanna, smiða, múrara og karla sem komu og keyptu neftóbak í stórum dollum. Veldi Skagamanna sem héldu staðfastir með sínum mönnum í boltanum og ræddu dagana langa um sóknir, varnir og mörk sem aldrei voru skoruð.

Kannski var allra mesti lærdómurinn að ganga inn í veldið, bíta á jaxlinn, ganga í störfin og læra að svara fyrir sig fullum hálsi. "Sjáiði stelpuna, hah það er töggur í ´enni þessari." "Ka, ætlar stelpan að bera plaströrin út í bíl fyrir kallinn?"

"Þótt ég muni ekki blessuð orðin í dag lærði ég örugglega heil ósköp á þessu öllu saman," tauta ég og held áfram að rýna í tölvuskjalið og muna hvað spinnir, tengjaskott og spísahreinsari eru.

Tek á móti helginni með vangaveltum um það hvað "stokktré" geti mögulega verið.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Þegar ég hjóla eftir Ægisíðunni, pæli í stórfurðulegu seinasta útspili ríkisstjórnarinnar og drekk í mig svalt sumarloftið finnst mér eins og dvölin í Asíu hafi verið draumur.

"Gæti haldið endalaust áfram að anda djúpt," muldra ég og get ekki hætt að draga ferskt loftið ofan í maga. Getur ekki liðið yfir mann ef maður fer að anda of ótt og títt? Kannski ég fái súrefnissjokk, ha ha.

Sólin skín á rauð þökin á Bessastöðum og í Nauthólsvíkinni leika unglingar sér með bolta. Maður á línuskautum talar í gemsa. Par á hjólum er ástfangið.

Vá, hvað íslenska loftið er ferskt. Þvílíki munurinn að vera ekki sífellt í svitabaði. "Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík," syng ég með sjálfri mér.

Þegar ég renni inn Flókagötuna minnist ég sérstaklega dvalarinnar í Bodhgaya á Indlandi. Búdda fékk uppljómun sína í Bodhgaya.

"Geggjað, mar" hafði ég hugsað og setið undir trénu fræga þar sem Búdda hugleiddi. Staðurinn hreint magnaður. Um leið og ég þurrkaði af mér svitaperlur sveif grænt laufblað til jarðar. Hægt, ofurhægt, rétt eins og fjöðrin fræga í Forrest Gump.

"Ó mæ, God!" hugsaði ég og tók blaðið varlega upp. "Eða kannski Ó MÆ BÚDDA... Kræst, hér er ég undir þessu merkilega tré sem menn koma hvaðanæva að til þess að sjá - og laufblað af undrinu fellur beint fyrir framan nefið á mér. Eruði að grínast í mér?! Þetta hlýtur að vera eitthvað mjög táknrænt. Svona merkilegt laufblað hlýtur að boða gæfu."

Klukkutíma síðar geng ég blótandi um markaðinn í bænum. Búin að TÝNA gripnum merkilega. Ég er sauður. Sauður sem tókst að leggja einhvers staðar frá sér hið táknræna lukku-laufblað. Sauður sem er sveittari í rakanum en sveittasti McDonalds borgari.

Í loftinu er matarlykt, kryddlykt, ruslalykt. Konur í sarí ganga um með vatnsfötur á höfði. Hávaði, hróp og köll. Brennheit sólin á lofti.

Einhvers staðar í mergðinni er laufblaðið góða. Einhvers staðar í framtíðinni eru ævintýri í Suðaustur-Asíu.

Einhvers staðar í fjarska er ferska loftið á Íslandi.

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Haldið ekki að ég hafi fundið frétt um blessað námskeiðið mitt á vef Rauða krossins? Sigríður og úllarnir ræða hvernig bjarga megi heiminum, babbaræ.

Ég sá síðan að BA ritgerðin mín EIGUM VIÐ AÐ HJÁLPA ÖÐRUM? er enn inni á vef samtakanna. Hélt að búið væri taka hana út. Meistaraverkið, metsöluritið og blóð, svita og tár seinasta árs, má nálgast hér... Þetta er vinstra meginn á síðunni, undir liðnum "Vissir þú?"

Uppsetningin fór dálítið í köku þegar ritgerðin fór á vefinn. Horfa framhjá því, takk. Jamm og já.

mánudagur, júlí 05, 2004

Furðulegur gærdagur.

Grikkir vinna leikinn. Ég leita að peningaveskinu mínu á Selfossi eftir magnað ferðalag um helgina. Davíð mætir landsföðurlegur upp í Efstaleiti og tilkynnir að þjóðin fái ekki að kjósa um fjölmiðlafrumvarpið.

Stórfurðulegt mál þetta síðasta.

Ég minni á þessi orð Björns Bjarnasonar á heimasíðunni hans 3. júní:

"Ég sé, að vísu, að Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, sem helst hefur lagt sig fram um að lýsa yfir persónulegu valdi forseta til að skjóta málum til þjóðarinnar, lætur nú eins og alþingi geti bara breytt lögunum og þannig komist hjá því, að þjóðin segi álit sitt á þeim. Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni.

Davíð Oddsson lýsti því réttilega í Kastljósinu fimmtudaginn 3. júní, hver atburðarásin verður. Taka þarf ákvörðun um það, hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram og hvernig henni verður háttað. Taldi hann þjóðina þurfa um tvo mánuði til að kynna sér málið, frumvarpið yrði sent til kjósenda, en ríkisstjórnin mundi ekki beita sér frekar vegna kosninganna og Sjálfstæðisflokkurinn mundi ekki verja einni krónu vegna kosninganna."

---

Og svo hætta þeir bara við allt saman... hvað er málið?!
Ákveða nýtt frumvarp, þeir Davíð og Halldór, og ætla að keyra það í gegnum sumarþingið. Þingið sem nota bene var kallað saman til að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég verð ekki eldri.

Kannski ég ætti að bjóða þeim að koma í fræðsluna sem ég er með fyrir fimmtán ára unglingana hjá Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar?! Já, ég er ekki frá því að það sé bara hin besta hugmynd.

Við erum tvö, einn frá Geðrækt og ég frá Rauða krossinum, og erum með námskeið um það hvað við getum gert til að láta okkur sjálfum líða betur og hvernig við getum gert það sama fyrir aðra. Pakkinn heitir "Í góðum málum - að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum".

"Það eru fullt af hlutum sem þið getið gert ef ykkur líður illa, krakkar, og ef ykkur kvíðir til dæmis fyrir einhverju," segir vinnufélagi minn.

"Kids, muna að hugsa um fólkið í kringum ykkur. Þið eruð ekki ein í þessum heimi," segi ég.

Halelúja.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Mæli með blaði Amnesty International, sem fylgir Mogganum í dag. Upplýsandi og þörf lesning.

Amnesty er alþjóðleg hreyfing sem berst fyrir mannréttindum um heim allan. Með þrýstingi á ríkisstjórnir, bréfaskriftum, fjölmiðlaherferðum og áköllum berjast þau fyrir því að stjórnir komist ekki upp með mannréttindabrot, fangar séu látnir "hverfa", börnum sé att í stríð og svo framvegis.

Margir muna eftir konunni frá Nígeríu sem eignaðist barn utan hjónabands og dæmd hafði verið til dauða sökum þess. Vegna alþjóðlegs þrýstings, m.a. frá Amnesty International, var konan sýknuð. Vegna starfs Amnesty samtakanna hefur tekist að bjarga fólki um allan heim, sem til dæmis hafði verið ruslað í fangelsi án dóms og laga.

Amnesty er gott dæmi um það að við getum gert fullt af hlutum sem taka okkur stuttan tíma (sent e-mail til að mótmæla í tilteknu máli t.d.) - en sem skipta sköpum fyrir aðra. Það sem meira er: Þetta er starf sem stendur og fellur með því að við, fólkið í samfélaginu, tökum þátt.

Svo einfalt er það.

Tékkið endilega á blaðinu og heimasíðunni. Styðjið síðan samtökin og njótið veðurblíðunnar...

Ilmur af nýslegnu grasi. Síðhærð gelgja að raka tún. "Djöfull vinna Grikkir leikinn, mar." Aðrir vinnuskólakrakkar róta í stóru beði. "Metallica eru geggjaðir."

"Nau, Metallica sökkar."

Flýg í huganum af stað. Sé litlar stúlkur halda á dúkkum. Nei, heyrðu þetta eru börn, pínulítil ungabörn. Börnin eru bundin utan um stúlkurnar. Vá, þær eru ekki meira en sex ára. Strákofar, hátt fjall, grænn gróður.

"Í fyrra fengum við rafmagn. Svona rafstöð, þú skilur. Bæjarstjórinn er með rafmagn í sínu húsi og svo er líka ljósapera í gestahúsinu. Þið megið sofa þar í nótt. En það er bara rafmagn á kvöldin."

Eftirmiðdagur í litlu þorpi í Laos.