mánudagur, ágúst 30, 2004

Í dag fékk ég bæði vinnu og flutti inn í nýja íbúð. Það var gaman.

Í dag komst ég að því að 72% þingfulltrúa Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum er andvígur hjónabandi samkynhneigðra. Það var ruglað.

Þetta var mikill dagur.

Mánudagur til mæðu?
Bull og vitleysa.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

2,6 milljarðar jarðarbúa búa við óviðunandi hreinlætisaðstöðu.
Það eru 40% alls mannkyns.

1 milljarður er án ómengaðs drykkjarvatns.
Það eru þúsund milljónir.
Það eru þrjúþúsund og fjögurhundruð sinnum allir Íslendingar.

Það er svona fólk eins og konurnar í eyðimörkinni í Egyptalandi fyrir fjórum árum. Þær báru vatn heim sem var á litinn eins og þunnt kaffi. Ég varð hræðilega veik og ældi bæði lungum og lifur. Ríki Vesturlandabúinn reddaði sér síðan bæði hreinu vatni og sýklalyfjum.

Fólkið sem drekkur mengaða drykkjarvatnið er svona fólk eins og strákarnir í Malawi sem töfruðu fram tréstóla og borð með vasahníf að vopni. Þá drakk ég hreinsað vatn, tók dýrar malaríutöflur og svaf undir moskítóneti. Ekki ætlaði ég að smitast af malaríu, ussu suss.

Á hverjum einasta degi deyja 3000 börn úr malaríu. Frá Malawi, Tansaníu og nágrannalöndum kom ég sjálf heim án malaríu en með útskorna stóla, algjörar gersemar. Þeir kostuðu 500 krónur, gamla stuttermaboli og sokka sem ég var með í bakpokanum.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Hah, nú má sko fara að rigna. Búin að gera við þakið hjá mömmu og pabba. Ræ ræ ræ.

Dreymdi ekkert nema vatn í nótt. Heyrði regndropana detta á þakið, í gegnum þakið og seitla inn undir rjáfrið. "Jú, ekkert mál, ég massa þakið," hafði ég sagt um eftirmiðdaginn og spýtt í lófana. Skellti mér síðan bara á tónleika því það "rignir ekkert fyrr en á morgun samkvæmt spánni og svona".

Droparnir ásóttu mig í nótt. Dripp, drapp, splitt, splass.

Nú eru þakmál hins vegar í góðu lagi og ég ætla út í garð að dansa regndans. Eins gott það fari þá almennilega að rigna eftir puðið.

Ég baka ekki bara, elda og þríf - heldur geri líka við þök.
Efnileg?

Kvenkosturinn tekur á móti tilboðum á stefnumót á netfangið spáðuímig@þámunégspáíþig. Æskilegt er að viðkomandi sé liðtækur í eldhúsinu, jafnt sem uppi á þaki. Hörundslitur er engin fyrirstaða og ætt eða stétt skipta ekki teljandi máli.

Sjálf get ég annað hvort mætt í dömulegum skóm með veski og eyrnalokka eða í vinnugallanum og hnyklað stælta framhandleggsvöðvana.

Þegar ég hugsa um beinagrindur á köldu gólfi í vöruhúsi í Bosníu veit ég að ég skil ekki alveg það sem ég sá dag nokkurn í maí. Kannski mun ég aldrei gera það.

Sundurskotin bein og svartir ruslapokar og hárflóki af löngu myrtum manni. Minningar um fólk sem var hrúgað í fjöldagrafir.

Það sem ég veit aftur á móti er að ég er heppin að vera á lífi, lánsöm að vera heilbrigð og hafa aldrei upplifað slíkan hrylling.

Þegar ég hugsa um svörtu ruslapokana skipta aukakíló og yfirdráttarheimildir, tíska og töff föt engu máli og verða einhvern veginn asnaleg og úr samhengi.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

„Góðan daginn, fröken!“ segir glaðlegur gamall maður við mig, þar sem ég hálfhleyp niður götu í borginni Chennai á Indlandi. Ég er að missa af lest og rétt gríp undir kveðju mannsins. „Hvernig hefurðu það?“ spyr hann en ég er rokin í burtu. „A-ha, einn af þeim,“ hugsa ég á harðahlaupum. Á Indlandi úir og grúir af betlurum.

Afgangurinn af þessari grein er á Sellunni. Indverskur betlari með eina löpp.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Þar sem ég skóflaði í mig brauði með osti á laugardagsmorgun kl. 10:03, sá glampandi sólina úti og heyrði að fólk væri tekið að safnast saman fyrir Reykjavíkurmaraþonið, fannst mér ég vera aumingi með hor. Letingi á leið í taumlausan gleðskap um kvöldið.

Ég horfði í gaupnir mér, fékk mér meira kaffi og blótaði því að hafa verið of löt til að nenna að skrá mig í hlaupið áður daginn áður. „Nennti bara ekki að hjóla upp í Glæsibæ,“ sagði ég afsakandi. Mig langaði að vera glaðbeitt á leið í tíu kílómetra hlaup, frískleg og í finu formi. Staðreynd málsins var hins vegar að ég hafði ekki hugmynd um hlaupabuxurnar mínar, hafði ekki notað þær síðan seinasta sumar, og hafði ekki stundað líkamsrækt síðan á steinöld.

Það var samt kannski ekki það versta. Það sem helst nagaði mig var að sitja heima og taka ekki þátt. Vera ekki með. „Andskotinn, maður á að vera virkur þátttakandi í þessu samfélagi,“ sagði ég ákveðin og borðaði meira brauð.

Viti menn rétt fyrir hlaupið heyrði ég í útvarpinu að enn væri verið að skrá fólk. Nú gat ég ekki lengur skorast undan. Tókst að grafa upp gömlu íþróttaskóna og æddi niður í Lækjargötu. Náði þangað ellefu mínútur í hlaup í stuttbuxum með svitaband. Einni og hálfri mínútu síðar og ég stóð í garði við Lækjargötu, skellti mér í rauðan Reykjavíkurmaraþons-stuttermabol og festi á mig keppnisnúmerið. Ég hafði skráð mig í þriggja kílómetra skemmtiskokk. „Maður má ekki ofgera sér, sko,“ stamaði ég. Faldi dótið mitt undir tré. Einn, tveir og þrír og ready!

Ég geystist af stað. Ánægð með lífið og tilveruna, ánægð með Reykjavík, ánægð með Menningarnótt, ánægð með alla hina virku samfélagsþegnana, ánægð með að hafa drifið mig. Ó, þetta líf var yndislegt!

Glaðhlakkalegt brosið smá fraus. Sex ára strákur spændi fram úr mér. Kona með barnavagn skildi mig eftir í rykmekki. Tvær litlar stúlkur með hárið í tagli skokkuðu léttilega fram úr mér. Lokatakmarkið breyttist úr því að koma á góðum tíma í mark yfir í að ná að hlaupa alla leiðina. Einbeita sér svo Sigríður. Anda inn, út, inn og út.

Á lokasprettinum náði ég að taka fram öðrum hlaupara. Endurheimti þar með brotabrot af sjálfstrausti mínu. Reyndi eftir megni að horfa framhjá þeirri staðreynd að kauði var ekki deginum eldri en sjö ára.

Átta mínútum eftir að ég náði endastöð kom félagi minn í mark. Hann hafði þá lokið TÍU kílómetrum, ha ha. Rústaði sínum flokki.

Þetta fannst mér svo fyndið að ég endurheimti gleði mína. Gekk um svæðið, sólaði mig, drakk fínan orkudrykk, teygði á eins og sannri íþróttahetju sæmir og fór loks heim sem sigurvegari. Ég hafði nefnilega tekið þátt og til þess var leikurinn gerður.

Næsta ár verða það hins vegar sjö kilómetrar, þá tíu, loks hálfmaraþon og svo maraþon. Að því búnu heimsfriður og heimsyfirráð.

Ónefnd kona sem ég þekki ákaflega vel stytti í morgun buxur sem hún hafði nýlega keypt. Eftir styttinguna áttaði hún sig á að hún hafði stytt sömu skálmina tvisvar. Önnur skálmin var því skósíð en hin náði rétt niður fyrir hné.

Verst að þetta eru röndóttar buxur þannig að það verður enginn barnaleikur að skeyta þessu saman aftur. Ha ha.

Ég hló svo mikið að ég gubbaði næstum því.
Saumakonunni fannst þetta ekki jafnfyndið.

laugardagur, ágúst 21, 2004

Kleinur og kakó til sölu.

Hvet unga sem aldna til að fylkja sér á Menningarnótt um kleinusölu starfsmannafélags Rammagerðarinnar. Seljum nýbakaðar menningarkleinur og heitt menningarkakó fyrir framan verslunina í Bankastrætinu. Þetta er þar sem Skólavörðustígur sker Laugaveginn, við hliðina á Delí.

Verð sjálf á staðnum á milli níu og tíu og lofa extra miklum rjóma í kakóið. Lukkugrísinn fékk óvænt vinnu í Rammó í tæpar tvær vikur og vinnur nú hörðum höndum að því að ná nafnbótinni starfsmaður mánaðarins. Slíkir titlar hafa reyndar ekki verið veittir í versluninni hingað til en ég mun tala ötullega fyrir því. Ef enginn hlustar hyggst ég mæta sjálf með mynd af mér í ramma og hengja á vegginn.

Sjáumst í kleinum, kakó, rjóma og menningu.

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Fimmtudagskvöld í indverskum fjöllum. Stjörnur á himni. Skuggi af háum fjallatind á vinstri hönd. Himalaya. Götuljós í hlíðinni fyrir neðan. Hús kúra utan í brattanum. Þarna er klaustrið þar sem Dalai Lama býr.

Handþvottur. Dreg fram fötu og dembi í hana blettóttum buxum. Bretti upp ermar og byrja að skrúbba.

„Hvað er þetta á handleggnum á þér, Sigga?“ Ferðafélagi minn hnyklar brýr. Strýk hárið frá enninu og lít niður. Ég er með rauða rönd upp eftir vinstri handlegg. Hafði um morguninn tekið eftir ljósrauðri rák sem lá nokkra sentímetra upp frá úlnliðnum. Nú er ég með rönd alla leið upp að handakrika.

Andartaksþögn. Hundar gelta neðar í dalnum. Í skóginum heyrist þrusk. Eru þetta apar? Aparnir í kringum Dharamsala eru grimmir og hættulegir. Tunglið veður í skýjum, kvöldið er fallegt. „Við verðum að finna lækni. Þetta gæti verið blóðeitrun.“

Tvo vasaljós lýsa út í myrkrið. Fjórir fætur hraða sér niður í þorp. Getur einhver farið með okkur á sjúkrahús? Heimamenn eru vinalegir, gamall bíll ræstur í gang.

Vegurinn er bugðóttur. Vinstri, hægri, vinstri, hægri og halda sér fast. Lítil búddastytta og blómakrans dingla við framrúðuna. Ætlum við aldrei að koma á sjúkrahúsið?

Bið á læknisstofu. Er röndin ekki sífellt að færa sig ofar? Handfjatla indverskar rúpíur í vasanum. Er líka með tryggingaskírteinið mitt, gott að vera vel tryggður þegar háir læknisreikningar bíða.

Reikningurinn reynist vera 77 rúpíur – 120 íslenskar krónur. Fyrst er ég furðulostin, síðan hlæ ég. „Þér finnst þetta kannski lítið. Samt eru margir hér í dalnum sem myndu þurfa að koma til mín en hafa ekki efni á því,“ segir læknirinn og réttir mér sterk sýklalyf.

Blóðeitrunin reynist vera sýking sem borist hefur upp með sogæðakerfinu. Kom hugsanlega úr moskítóbiti við úlnliðinn. Ég mun ekki deyja, ekki lamast, ekki missa handlegginn. Í marga mánuði eftir á er ég hins vegar með rauða rönd upp handlegginn. Svo verður hún bleik.

Síðan hverfur hún.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Single white female óskar eftir meðleigjanda.
Ja, eða svona hugsanlega.

Er að bræða með mér hvort ég eigi að leita mér að íbúð hér heima og vinnu, er m.a.s. með vinnustað á Seltjarnarnesi í sigtinu, og skella mér á flakk eftir jól – eða hvort ég eigi bara að fljúga eitthvert fljótlega með sumarhýruna og redda svo aukapening með pistlum, viðtölum og fleiru. Taka október og nóvember einhvers staðar, eyða jólum á Klakanum og sjá síðan hvað gerist.

Mig langar til Súdan, Eþíópíu, Úganda og Rúanda. Taka púlsinn á hjálparstarfinu þar og reyna að átta mig á ástandinu. En það væri líka gaman að vera á Íslandi farsældar fróni. Þá vantar mig hins vegar íbúð og meðleigjendur. Jamm og já. Myndi leggja fram í kommúnuna stórgóða ferðatölvu með mikla sál, dúndur gítar, trumbu frá Kenýa, góða skapið og loforð um bakstur og regluleg matarboð. Ég mýg aldrei framhjá og fer reglulega út með ruslið.

Endilega hafið samband ef þið vitið um íbúð og gott fólk, eða eruð jafnvel sjálf manneskjur í kommúnu. Sameinuð stöndum vér, sameinuð búum vér, sameinuð höfum vér það huggulegt.

Þar sem ég virti Klambratúnið fyrir mér út um gluggann hjá mér í kvöld gat ég ekki annað en spurt sjálfa mig: Súdan eða Seltjarnarnes?

Berunes við Berufjörð. Sól og heitt í veðri. Ætlar sólin að skína endalaust?
Það glampar á húsþökin á Djúpavogi, handan fjarðar.

Í Berunesi er farfuglaheimili í gamla bóndabænum. Nóttin ódýr og staðurinn hreint magnaður. Kúlupanell á veggjum, tréborð á gólfum, forláta eldavél í eldhúsinu, gamaldags eldhúsinnrétting, ljósmyndir á veggjum.

Fortíð og saga, draumar og þrár, svífa um húsið. Manni finnst maður geta teygt út handlegginn og snert gamla tímann.

Lítil kirkja í hlaðinu fyrir utan. Baul úr fjósinu. Hjónin sem búa á staðnum yndisleg.

Ég ræði við bóndann um landsins gagn og nauðsynjar, fortíðina og ferðamennsku. Spyr hann meðal annars hvort hann fái marga Íslendinga til sín.

Viðmælandi minn hnyklar brýr og svarar síðan grallaralegur:
"Ekki svo mikið, þeir koma ekki mikið á svona gististað. Aka flestir um með skuldahalann á eftir sér."

Einmitt, með skuldahalann á eftir sér: Fellihýsin og tjaldvagnana!

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Hér er grein sem ég setti á Selluna í seinustu viku: Hr. Einhver og ég.

laugardagur, ágúst 14, 2004

"Ég þarf að fara. Sá sem kemur og leysir mig af er ekki kominn. Þú skellir bara í lás þegar þú ferð."
"Ha, já einmitt."
Sundlaugin á Þórshöfn. Einn gestur í lauginni.

Á þvottaplaninu er verið að þvo sjúkrabílinn. Strákar á hjólum þeysa framhjá pósthúsinu. Við höfnina vagga trillur. Hér er fallegt, ótrúlega fallegt.

Hvítt hús við víkina. "Hafnar Bar-inn" málað svörtum stöfum á útvegginn. Núna heitir staðurinn Eyrin. "Við eigum eftir að mála yfir þetta," segir hressileg stelpa í afgreiðslunni. Hún, kærasti hennar og vinir voru að kaupa staðinn.

Íbúðaverð á Þórshöfn er lágt. "Við keyptum okkur tveggja hæða einbýlishús í fyrra. Þurftum reyndar að gera dálítið fyrir það. En verðið var þrjár milljónir. Maður fengi ekki bílskúr fyrir þetta fyrir sunnan."

Í hádeginu er töluverð umferð í þorpinu. Allir að aka í og úr vinnu. Þarna er frystihúsið og nú er búið að koma málum þess í lag.
Ek löturhægt um staðinn. "Hérna taka menn augljóslega U-beygjuna á rúntinum," segi ég spekingslega og bendi á far í götunni við aðra leiðina út úr þorpinu.

Rúnturinn hefur verið fundinn. Og þá er það næsta spurning: Hverjir eru óvinir ykkar?
Skagamaðurinn spyr svara og segir frá laginu "Ég aldrei í Borgarnes fer, ég bara Borgnesinga ber". Hólmarar og Ólsarar eru líka svarnir óvinir. Maður á sér alltaf sinn fjandmann.

Vopnfirðingar er svarið. Héðan eru 70 kílómetrar á Vopnafjörð.

Þistilfjörðurinn kveður spegilsléttur. Skil Þórshöfn eftir í rykmekki og ek þvert yfir Langanesið.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Síðdegissólin skín á bílaplan og hvítmálað hús. Skilti á veggnum: Verslunin Bakki.

Verslunin Bakki er Kópaskeri það sem Jónsabúð er Grenivík. Hér má fá allt frá ORA baunum til ullarsokka. Hér fæst bensínlíterinn á 111 krónur og dulítið safn myndbandsspóla er til leigu. Afgreiðslumaðurinn er glaðlegur. "Það er búin að vera einmunablíða hérna seinustu daga."

Smáauglýsingar á einum veggnum. Bókasafn Öxafjarðar auglýsir sumaropnun. Opið tvo daga í viku. Landsbankinn hefur aftur opið frá mánudegi til föstudags frá 13-16.

Klukkan sjö hefst æsispennandi fótboltaleikur á Dúddavelli. Heimaliðið Snörtur mætir Magna frá Grenivík. Á fótboltavellinum er stórt blámálað spjald með nafni vallarins.
Ætli Dúddi sé sveitastjórinn?

Skilti við veginn út úr bænum. Raufarhöfn er til vinstri.

Melrakkasléttan framundan í blankalogni og glampandi sól.
Nyrsti oddi landsins.

Skilti að sveitabænum Vatnsenda.
Heimsendi?

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Grenivík.

Marglit hús standa við spegilslétta vík. Fagurblá fjöll á móti, Kaldbakur gnæfir tignarlegur yfir þorpinu.

Jónsabúð. Matvöruverslun, sjoppa, bensínstöð. Hjarta Grenivíkur. Hingað er alltaf gott að koma. Reykt ýsa og svið, skyr og flatkökur rata ofan í innkaupakörfuna. Þjóðlegt og gott, já takk.

"Heyrðu, ég var að hugsa um sko, um hérna Netið. Hvort það væri einhvers staðar hægt að komast í nettengda tölvu hérna."

Þremur og hálfri mínútu seinna og Sigríður arkar inn á Hreppsskrifstofuna. Í Jónsabúð höfðu menn bent henni þangað.

"Sæl verið þið, hvurnig sæki ég að ykkur? Ég var að hugsa um hvort þið gætuð gert mér dulítinn greiða."

Bros og vingjarnlegheit, spjall og ættrakningar. "Ekkert mál, vinan, þú getur komist í tölvuna." Á leiðinni út aftur kemst ég að því að nýja vinkona mín á Grenivík er sjálfur sveitastjórinn. Hef ekki rætt við neinn undirmann, heldur sjálft yfirvaldið. Kveð yfirvaldið með þéttu handtaki og sterkum norðlenskum hreim.

Aftur í Jónsabúð. Ég verð að komast í sturtu, hvað gerir maður þá?
Konan í afgreiðslunni brosir.

"Þú notar bara sturtuna heima hjá mér. Það er gula húsið í hlíðinni. Dyrnar eru opnar, þú gengur bara inn. Láttu eins og heima hjá þér."

Í sturtu hjá kaupfélagsstjóranum og á netinu hjá sveitastjóranum.
Grenvíkingar eru gæðablóð.

mánudagur, ágúst 09, 2004

Húsavík.
Brúnt, reisulegt hús er umkringt himinháum trjám. Þetta er Tún, húsið sem amma og afi bjuggu í. Ég er alnafna ömmu. Ég kalla hana alltaf ömmu, þótt hún hafi í raun verið ömmusystir. Hin rétta amma dó ung. Sigga amma bjó hjá okkur á Skaga seinustu árin og átti alltaf súkkulaðimola í fallegri skál.

Húsavík árið 2004. Ég geng upp götuna og hvessi augun á húsið. Bókabúðin úti á horni er í örskotsfjarlægð. Á móti er kirkjan, alltaf jafnfalleg. Skyndilega er ég orðin lítil stúlka með bollukinnar og hnausþykkt hár í teygju. Finnst gangan út á horn vera lengri en til tunglins. Eiki bró leiðir mig, við höfum fengið að fara og kaupa okkur litabækur.

Ágústbyrjun á nýrri öld og Tún hefur verið gert að félagsmiðstöð. Ég held í mér andanum. Ætli húsið sé opið? Hef ekki komið í Tún síðan árið 1985. Þá dó afi. Nítján árum síðar og dyrnar ljúkast upp. Ég geng andaktug inn.

Í stofunni er snókerborð og í gömlu skrifstofunni hjá afa stórt sjónvarp, heimabíókerfi og leðursófi. Í eldhúsinu er kóksjálfssali. Depla auga og sjálfssalinn er horfinn en amma sýslar í eldhúsinu, brosandi að vanda.

Upp stigann. Er þetta virkilega herbergið þar sem fjölskyldan svaf þegar hún kom í heimsókn? Í endurminningunni er það stærra en fótboltavöllur. Í dag eru hlutföllin skrýtin.

Blikka augum og vafra yfir í strauherbergið á móti. Þar straujaði amma. Sjálf strauja ég ekki nema í ýtrustu neyð. „Guð blessi straufrían fatnað,“ muldra ég. Skammast mín síðan. Ég ætla að verða jafngóð amma og Sigríður Víðis eldri. Ég ætla að vera jafnglöð og góð.

Ráfa inn í herbergið þar sem afi lagði sig á eftirmiðdögum. Geng að glugganum og horfi yfir fjörðinn. Þarna eru Víkurfjöllin, fagurblá og falleg. Hafa þau líka breyst?

Tréin í garðinum eru orðin risavaxin. Man eftir ljósmynd af mér með ömmu undir einu þeirra. Ég er í hnepptri ullarpeysu sem mamma prjónaði. Myndin brún og máð. Meira en 20 ár liðin síðan þá.

Legg ennið við kalt glerið og get ekki annað en velt fyrir mér hvar ég verði eftir önnur 20 ár.

Sporðdrekinn 23. okt - 22. nóv
Spáin gildir frá og með deginum í dag til miðvikudagskvölds.

„Nú er ekki rétti tíminn til að breyta til. Ef þú neyðist til að gera eitthvað nýtt, skaltu fara varlega í það. Áhrif stjarnanna á fjármálin verða sterk og það líður ekki á löngu unz þú færð meira fé.“

Spurning hvort maður eigi að taka mark á því að fara varlega í að gera eitthvað nýtt. Nú hef ég til dæmis aldrei komið á Raufarhöfn eða Þórshöfn en hyggst halda þangað í lok vikunnar. Það verður víst ekki of varlega farið þar. Maður veit aldrei hverju maður á von á frá „þessu fólki sem er ekki eins og við hin“. Og svo var fólk hrætt um mig á Indlandi eða í Qatar, hah.

Mér líst hins vegar vel á þetta með féið hjá stjörnunum, enda eru peningar víst hamingjan og hamingjan peningar. Hér fyrir norðan er ég reyndar umvafin fé, en það er sauðfé. Hangir utan í veginum eða einhverri hlíðinni og murkar lífið úr eilífðarsmáblómum með titrandi tár.

Versta við þetta allt að stjörnuspáin blessaða er 28 ára gömul. „Heimilis Tíminn“ frá fimmtudeginum 5. ágúst 1976 leyndist uppi í skáp. Sérlega traust blað. Ofsa góð uppskrift þar að hekluðum eldhúskappa til dæmis. Í eldhúshorninu leynast líka ljúffengir réttir úr nýrum og lifur.

Takið eftir að 5. ágúst var fimmtudagur það herrans ár árið 1976 - alveg eins og núna.
Já já.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér, margt smátt gerir eitt stórt og ég er himinlifandi. Á varla til orð.

Af hverju?
Jú, það söfnuðust tæpar 140.000 krónur í söfnuninni fyrir vini mína á Indlandi.

HUNDRAÐ OG FJÖRUTÍU ÞÚSUND KALL!!!

Þúsund þakkir þið sem tókuð þátt.
ÞÚSUND ÞAKKIR.

Ég átti ekki von á þessu. Segi nú bara eins og stjórnarherrarnir við synjunina frægu: Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu.

Á Íslandi er augljóslega mikið af góðu fólki sem lætur sér annt um bræður sína og systur í fjarlægum löndum. Það er gleðiefni.
Einn fyrir alla og allir fyrir einn.

Hundrað og fjörutíu, ég skal segja ykkur það.

Húrra!

Sól á himni. Mjóir stígar liggja um fallegan birkiskóg. Þetta er Skaptahlíð, hingað hef ég komið næstum öll mín ár.

Í skóginum verð ég að lítilli stúlku sem finnst jafnlangt að aka norður í land eins og að fara til útlanda. Leiðin er svo löng að fjölskyldan gistir á leiðinni. Hringvegurinn er enn ómalbikaður. Allir verða rykugir upp fyrir haus í gamla appelsínugula Volvo station bílnum. Við hristumst í bílnum, borðum heimasmurt nesti og syngjum saman. Tilveran er örugg. Heimurinn Ísland og Ísland er gott.

Þytur fer um tréin í hlíðinni og ég verð enn minni. Hlúi að litlu grenitré sem fengið hefur nafnið mitt. Með sítt hár og dúkku í fangi borða ég skyr með bláberjum og drekk mjólk úr plastmáli. Ný öld og plastmálið er orðið máð. Skyr orðið punktur is.

Þar sem ég stend efst í landinu sé ég glitta í rauða þakið á steinhúsinu fyrir neðan. Loka augunum og er í huganum komin upp á þak. Heimasmíðaður stigi liggur upp að rauðu bárujárni. Systkinin hía á mömmu sem stendur fyrir neðan. „Mamma þorir ekki upp á þak, mamma þorir ekki upp á þak!“ Svimar sjálf af hæðinni en veit að bræður mínir passa mig. Það er ekkert að óttast. Ef þeir gæta mín er tilveran traust.

Tuttugu árum síðar og ég klippi birkigreinar sem vaxið hafa yfir stíga. Heyri hlátur systkina í skóginum. Þau hlaupa um og skjóta af heimasmíðuðum boga. Snæri hefur verið bundið um bogna birkigrein og örvar tálgaðar. Tarsan má vara sig.

Bogasmíði verður að skiltagerð. Nú skulu stígarnir í skóginum merktir, lengd þeirra mæld og kort dregið upp af öllu saman. Ábúðarfull systkin skrefamæla skóginn. Ágústbyrjun 2004 og málningin af skiltunum er farin af. Heimagerðu kortin orðin gulnuð. Myndi í dag mæla landið með GPS tæki.

Sumar á nýrri öld. „Þú verður að passa þig að stíga aldrei út fyrir gönguslóða og stíga,“ ómar í höfði mér. „Þú gætir stigið á jarðsprengju.“ Depla auga og er komin til Afganistan. Nei, þetta er Kambódía.

Kambódía verður að Laos. Þar er náttúran yndisleg og mig langar að hlaupa um háa skóga og þeysast upp á fjöll. En ég get það ekki, gæti stigið á sprengjur – þrjátíu ára gamlar. Mörgum var ekki hent úr nógu mikilli hæð, þess vegna sprungu þær ekki.

Sumar á Norðurlandi 2004 og ég horfi yfir Fnjóskadalinn. Fjöllin sem ég hef virt fyrir mér síðan ég var lítil stúlka breytast á augabragði í fjöllin í kringum Sarajevo í Bosníu. Hér er líka krökkt af sprengjum síðan í stríðinu fyrir tíu árum.

„Passaðu þig að þvælast ekki um svæði sem þú getur ekki verið hundrað prósent viss um að menn hafa farið um áður. Það tekur mörg ár að sprengjuhreinsa,“ segir heimamaður.

Þræði hlíðina niður að litla steinhúsinu í Skaptahlíð. Hér eru engar jarðsprengjur frá löngu liðnum stríðum. Hér eru krækiber í stað klasasprengna, hrútaber í stað handsprengna. Hér er enginn óttasleginn á flótta undan átökum.

Hér er heimurinn öruggur, lífið gott og skógurinn fullur af góðum minningum.


Fimmtudagskvöld. Blankalogn í skóginum. Fuglasöngur.

„Lindin er vatnslaus,“ segi ég og sest á tröppurnar hjá pabba. Hann sýslar úti við, er að búa til tréstyttu úr efni úr skóginum. Ég er enn móð, hljóp frá tunnunni uppi í fjallshlíðinni og niður eftir. Vatnið í Skaptahlíð kemur úr lítilli uppsprettu.

„Hvað ertu að segja? Er lindin þornuð aftur?“ spyr mamma og sest hjá okkur. Við erum án vatns. Samt nennir enginn að æsa sig. Í Skaptahlíð gengur lífið með ró og spekt. Upp á síðkastið hefur verið skraufaþurrt og þá er ekkert vatn.

Í Skaptahlíð er heldur ekkert sjónvarp, bara eitt útvarp sem fer að nálgast þrítugsaldurinn. Þar er engin sturta, ekkert baðkar, enginn sími. Gemsinn minn liggur óhreyfður á lágum eldhúsbekknum. Eldhúskrókurinn er sniðinn að hæð ömmu og hún var lágvaxin. Það er slökkt á gemsanum, hann virkar ekki hér.

Ég sest á tröppurnar við steinhúsið með hníf í hönd. Tálga birkigrein og dreg að mér ferskt sumarloftið. Mamma nær í sprek og kveikir upp í kamínunni inni í stofu. Blár reykur liðast í gegnum strompinn og út í sumarnóttina.

Fimmtudagskvöld í ágúst og það er eins og tíminn standi í stað.


miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Ágústmánuður kominn, sumarnæturnar orðnar dimmri og Verslunarmannahelgin að baki. Verkefnið hjá Rauða krossinum búið. Ég komin í sumarfrí, humm, eða óskilgreint frí fram að næstu vinnu, hver svo sem hún verður. Stödd á netkaffi á Akureyri í blíðskaparveðri. Búin að ná mér í nokkra bæklinga á ensku og taka bókina "Discover Iceland" á bókasafni. Póstkortakaup fyrirhuguð.

Helgin var stórskemmtileg. Ha, ha, ef þetta heitir ekki að sækja landið heim, þá veit ég ekki hvað.
- Föstudagur í Þrastarskógi á Suðurlandi með þeim athyglisverða félagsskap Andansmönnum.
- Laugardagur í Skagafirði með kórvinkonum, mökum og þeirra vinum.
- Sunnudagur á Sauðárkrók, ferðafélagið Patrekur sameinaður á ný.
- Mánudagur á Húsavík og þaðan yfir á Tjörnes á Víkingavatnshátíð mikla.

Mér telst til að ég hafi ferðast í sex mismunandi bifreiðum um helgina. Enda á ég ekki bíl sjálf. Eitt far í Þrastarskóg. Annað far norður í land, ljómandi heppni. Náð í mig í Varmahlíð, hinn bíllinn áfram á Siglufjörð. Mér skutlað í Varmahlíð aftur næsta dag þar sem aðrir pikkuðu mig upp og tóku mig með sér á Sauðárkrók. Nei, og enn sú heppni að hitta í Skagafirðinum gamla Skagavinkonu sem var á leið á Húsavík á mánudeginum! Ég hafði annað hvort ætlað þangað eða á Mývatn. Um að gera að fá far með henni og láta pabba síðan ná í sig á Húsavík. Stundum skil ég ekki alveg heppni mína.

Eins heppin og ég get verið, get ég þó verið jafnseinheppin. „Hvurslags djöfulsing framkoma er þetta?“ öskraði trylltur tjaldvörður á Bakkaflöt í Skagafirði á sunnudagsmorgun. Hópurinn hrökk upp með andfælum. Með stírur í auga renndum við vinkonurnar upp rennilásnum á tjaldinu og fengum ruslapoka beint í andlitið. Á eftir fylgdi tjaldstóll sem grýtt var inn í fortjaldið. „Andskotans sóðaskapur!” öskraði fokvondur maðurinn og grýtti öðrum tjaldstól að okkur. Þessi lenti hársbreidd frá höfðinu á mér. Við jesúsuðum okkur. Heyrðum blót og formælingar að utan frá félögum okkar. Þeir höfðu fengið bjórdósir og opna ruslapoka inn í tjöldin sín.

Hvað var að gerast? Jú, einhverjir höfðu kvartað undan úllunum, hávaðaseggjunum og sukkurunum á tjaldstæðinu og neituðu að borga fyrir gistinguna. Humm, óóóó... vorum við stödd í miðju fjölskyldugeri? Jú, jú, þarna var svo sem nóg af fínum fellihýsum, töff tjaldvögnum og neysluglöðum miðaldra Íslendingum með velmegunarbumbu og kræsingar í kæliboxi.

Meðan tjaldvörðurinn jós úr skálum reiði sinnar fékk ég augnabliks veruleikasjokk. Fann á röddinni að ég hafði verið hávær kvöldið áður og hafði allt í einu á tilfinningunni að það hefði verið ég sem hefði æst mannskapinn upp í tjútt og læti. Úbbosí, Sigríður. Ég var orðin dimmraddaðari en besti bassi, enda líka sungið fram á morgun með Andansmönnum elskulegum.

Á fingrunum voru blöðrur. Jú jú við höfðum tekið gítarsessjón mikla. Stolt siglir fleyið mitt hafði runnið saman við stál og hníf og söng um dalakofa og Dísur og Maríur, ástir og endurfundi. Af hverju gat ég aldrei verið bara lágvær og settleg? Af hverju gat ég ekki einfaldlega mætt á svæðið með fallega smurt nesti og verið þæg í fínum regngalla? Af hverju gat ég ekki bara dúllað mér við að troða piparosti inn í sveppi og raða klettasalati og fetaosti í skál, meðan ég ræddi þýðri röddu landsins gagn og nauðsynjar?

Tjaldvörðurinn sagði okkur að snauta okkur í burtu OG KOMA ALDREI AFTUR. Hann hafði þó ekkert haft fyrir því að kvarta meðan umrædd læti áttu sér stað. Lét sér nægja að henda tjaldstólum í okkur næsta dag. „Krakkar, við seljum DV sögu okkar,“ sagði ég meðan við pökkuðum saman. „TJALDVÖRÐURINN REYNDI AÐ DREPA MIG.“

Ókei, hópurinn hélt í burtu, flestir suður, aðrir á Akureyri. Mér hafði tekist að ná sambandi við ferðafélagið Patrek, stofnsett í Kambódíu, og við ákváðum endurfundi. Á Sauðárkrók var landsmót UMFÍ.

Brátt var Sigríður komin í óþekkt hús á Króknum hjá heimamanni sem hún hitti ekki nema í fjórar mínútur og vissi aldrei hvað hét. Svo var þarna líka fullt af öðru fólki en hún vissi heldur ekkert hvaða fólk þetta var. Um að gera samt að koma sér bara fyrir og láta eins og heima hjá sér.

Var þá sunnudagskvöldið settlegt?
Nei, einhvern veginn endaði þetta á sveittu sveitaballi með spíradrykkju í boði heimamanna og polkadansi við áttræða Skagfirðinga. Valið stóð á milli dansleiks með Birgittu Haukdal þar sem aldurstakmarkið var 16 ára eða balli innar í firðinum með Munda sjálfum. Valið var auðvelt. Þá var bara að redda sér fari þangað.

Ferðafélagið Patrekur stillti sér upp á aðalgötuna og pikkaði upp einmana rúntara. Var mínútu seinna sest inn í bílinn og á hraðri leið út úr bænum. Ha ha, believe it or not: Það kom í ljós að Árgarður, þar sem ballið var haldið, var sami staður og Bakkaflöt. Úps.
Mín-legt? Humm, já. „Og komdu aldrei aftur!!!“ ómaði í eyrum mér þar sem ég sveiflaði mér út úr bílnum á áfangastað. Babbaræ, snúin til baka - komin Í GIN LJÓNSINS!

„Hvað er betra en vera ungur og ör?“ sagði skáldið.
„Hvað er betra en að ljúga því að Geirmundi Valtýssyni að maður eigi afmæli?“ sagði Patrekur meðan hann dansaði ræl og skottís í sveitinni. Heimamenn sameinuðust í trylltum afmælissöng fyrir „afmælisbarnið“ Siggu Víðis sem stóð uppi á sviði og faðmaði vini sína fyrir að hafa „komið sér svona á óvart“. Stuttu síðar bað kóngurinn Siggu Víðis að syngja rödd Siggu Beinteins í Vertu ekki að plata mig. Heimamenn voru ósparir á afmæliskveðjur og buðu afmælisbarninu í glas. Í sveitinni taka menn eigið áfengi með sér inn á ballið. Geirmundur brosti út að eyrum. Vildi samt ekki spila Ísland úr Nató fyrir afmælisbarnið. Jafnvel þótt það bæði hann tvisvar.

Dyraverðirnir voru komnir á aldur og vissu ekki hvernig þeir áttu að bregðast við stóladansi ungra meyja að sunnan. Urðu vandræðalegir þegar þær drógu upp stjörnuljós og hófu að syngja Lifi ljósið. Sögðust myndu láta þær út fyrir óspektir. Ferðafélagið Patrekur settlaði málið hins vegar, brosti breitt og gaf öldruðum vörðunum bara stjörnuljós með sér. Maður á að deila, sko.

Eftir ballið var gengið í að redda sér fari til baka. Patreki tókst að sjarmera konu af Króknum. Hún kunni tólf erindi af Smalavísum og söng hástöfum út í sumarnóttina. Ha ha, það versta var að Patrekur tók óvart veski konunnar með sér út úr bílnum þegar hann kvaddi. Gekk bara si svona með veskið með sér inn í hús, þar sem hann hafði setið með það í kjöltunni. Konan mætti á svæðið næsta morgun og spurði hvort við hefðum TEKIÐ VESKIÐ HENNAR?? Neyðarlegt, haaaa...?

Helgin rokk?
Maður ætti kannski að íhuga að ganga í þungarokkshljómsveit eftir þetta geim.