miðvikudagur, júní 25, 2008

Ég á mjög skilningsríkan og indælan vinnuveitanda.

Hann hafði til dæmis fullan skilning á því þegar ég barði í borðið og sagði ákveðin að ég þrælaði mér sko ekki lengur út fyrir smánarlaun í öllu þessu sólskini.

Horfði síðan djúpt í augun á honum og tilkynnti að mér stæði gönguferð á Hornströndum til boða með hópi af skemmtilegu fólki og ég gæti sko ekki skorast undan því. Hvað þá því gylliboði að vera pikkuð upp í Hrútafirði eftir á til að skjótast norður í land í sumarhöllina Skaptahlíð.

Ég sagði hróðug að ég myndi koma aftur til baka um miðja næstu viku og vera netlaus þangað til og líklegast sambandslaus líka.

Vinnuveitandinn sagði bara já og amen og byrjaði síðan sjálfur að pakka ofan í tösku.

Overandát.

Sunnudagsmogginn um seinustu helgi:

Fólkið í pokunum



Ruslapokar með líkamsleifum af fólki sem myrt var í Srebrenica. Ættingjar þeirra íhuga nú mál á hendur SÞ.



Það var einn fallegan vordag sem ég stóð fyrir utan vöruskemmu í Bosníu. Í glampandi sól voru svartir ruslapokar handlangaðir út úr hvítri sendibifreið. Þetta voru líkamsleifar af fólki sem hafði verið myrt í Srebrenica eftir tryllingslegan flótta undan herflokki Bosníu-Serba. Því hafði verið safnað saman í vörugeymslu og byssukúlum dreift yfir hópinn.

„Ímyndaðu þér skelfinguna og ringulreiðina sem hefur ríkt,“ sagði viðmælandi minn Eva Klonowski alvarleg. Eva er íslenskur ríkisborgari og sérfræðingur í að lesa lífssögu fólks úr beinum þess. „Þetta fólk var einfaldlega fólk eins og ég og þú, bændur og þorpsbúar, sem voru að reyna að lifa stríðið af.“

Fólkið hafði leitað skjóls á sérstöku verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna. Hermenn Bosníu-Serba réðust hins vegar þangað inn og eltu flóttafólkið uppi. Meðan heimsbyggðin leit undan voru konur og karlar aðskilin – konurnar fluttar í burtu í rútum sem SÞ voru látnar borga bensínið á, en körlum og drengjum safnað saman og þeir skipulega teknir af lífi. Hollenskir friðargæsluliðar SÞ framfylgdu m.a. skipunum herflokks Bosníu-Serba um að tæma herstöð sína af þeim þúsundum manna sem þangað höfðu leitað skjóls.

Ættingjar hinna myrtu íhuga nú lögsókn á hendur SÞ, auk þess að krefja bæði þær og hollensku ríkisstjórnina um bætur.

Inn á gólf í vöruskemmunni þessa vordaga mína í Bosníu var því staflað, innihaldinu úr fjöldagröfunum. Svörtum ruslapokum, svörtum blettum á samvisku þeirra sem litu undan. Eva horfði yfir ruslapokana og hristi höfuðið. „Þetta er allt í einum graut.“
Eftir að tal um stríðsglæpi hófst voru hinir myrtu fluttir á milli fjöldagrafa, í tilraun yfirvalda Bosníu-Serba til að hylma yfir glæpinn.

Stórvirkar vinnuvélar voru notaðar til verksins – og þær skáru líkin oftar en ekki í sundur. Upp úr fjöldagröfum komu síðar höfuðlausar beinagrindur, hálfar hauskúpur. Hverjum tilheyrði þetta handarbein?

Eva benti á að stundum kæmu ættingjar í vöruskemmuna og gengju um á milli beinahrúgnanna í leit að einhverju sem gæti hjálpað til við að bera kennsl á þeirra nánustu.

Innar í skemmunni lágu beinagrindur sem tekist hafði að raða saman. Þarna voru þeir komnir, hluti þeirra sem höfðu reynt að hlaupa í átt til frelsis aðfaranótt 12. júlí 1995 – en verið stráfelldir. Ég hafði heyrt af þeim á sínum tíma – en ég bjóst ekki við því að sjá þá níu árum eftir dauða þeirra. Þeir höfðu legið úti á víðavangi í heilt ár eftir morðin. Núna lágu þeir í röðum á steingólfi í kaldri vöruskemmu.

Á efri hæðinni var torkennileg lykt. Innan um fullan sal af illa förnum beinagrindum lá þvældur hárlokkur. Hverjum hafði hárið tilheyrt? Ég leit undan – þetta svarta hár var of áþreifanlegt. Sneri mér síðan við og starði eins og í leiðslu á einmana hárlokkinn á gólfinu.

Í undarlegri lyktinni í vöruskemmunni urðu afleiðingar löngu liðins fjöldamorðs óþægilega áþreifanlegar. Líkamsleifar í sjúskuðum ruslapokum voru afleiðingarnar. Ráðvilltir ættingjar í leit að beinum úr ástvini – það voru afleiðingarnar.

Og hárflóki sem enginn vissi af hverjum var.

sigridurv@mbl.is
--------------


Lofað vernd

Í Bosníustríðinu 1992-1995 sátu hermenn Bosníu-Serba um bæinn Srebrenica. Öryggisráð SÞ ákvað að gera bæinn að verndarsvæði og sendi friðargæsluliða á vettvang. Þeim var ákaft fagnað, enda Bosníu-múslímar í Srebrenica yfirlýst fórnarlömb hersveita Bosníu-Serba. Verndin átti þó eftir að snúast upp í martröð.

Myrt á verndarsvæði

Hollensku friðargæsluliðarnir áttu einungis að gæta friðarins og höfðu ekki herstyrk til að knýja hann fram með valdi. Þegar hermenn Bosníu-Serba réðust inn á verndarsvæðið í júlí 1995 og tóku 30 þeirra í gíslingu fór allt úr böndunum. Fólkið sem leitað hafði eftir vernd í Srebrenica var nú innilokað á svæði sem breyst hafði í mesta hættusvæðið.

Hollendingarnir kölluðu eftir liðsauka en töluðu fyrir daufum eyrum – ekki var vilji innan SÞ til íhlutunar. Afleiðingarnar urðu skelfilegar: Á örfáum dögum lágu a.m.k. 7.400 í valnum.

mánudagur, júní 23, 2008

Um helgina bárum við sófann út í garð í bongóblíðunni og settum rauðköflóttan dúk í grasið og kaffi og köku á dúkinn og allt í einu var kominn risakaffipartý í garðinn. Það var gaman.

Um helgina drakk ég líka hellings kaffi á svölunum í Safamýri. Og átti kvalití tæm með sólarlagi á föstudagskvöldi. Það var gaman.

Nýjasta fjárfesting heimilins eru hins vegar sumarblóm og alls kyns inniblóm og fínerí. Blómamorðinginn verður kominn með Framsóknargrænafingur innan skamms, sjáiði til. Og Blómaval með stóraukinn rekstrarafgang.

Nú prýða skotið fyrir utan útidyrnar þessir líka fínu pottar með þessum líka fínu sumarblómum.

Að gramsa í mold á laugardagskvöldi og hjóla síðan vestur í bæ og kíkja aðeins í partý og spjalla svo um lífið og tilveruna upp Laugaveginn og hjóla síðan eftir Sæbrautinni og virða aðeins fyrir sér Snæfellsjökulinn og Akrafjallið elskulegt - það er sko skemmtilegt. Og skjótast aðeins út, eftir að maður er komin í náttfötin, til að virða eitt andartak fyrir sér blómafíneríið áður en maður fer í háttinn.. Og anda einu sinni enn að sér sumrinu.

Í dag fylltist Café Flóra í Laugardalnum af gömlum háskólakórsmeðlimum og þar sem við sátum við langborð í sólinni og allt í einu voru næstum því allir mættir, þá var allt í einu eins og við værum í einhverju af kórferðalögunum okkar í útlöndum hér á árum áður. Nema náttúrlega að bjórinn hafði breyst í börn.

Á kvöldgöngu í miðnætursólinni í kvöld lá í augum uppi að niðurstaða helgarinnar gat ekki verið nema ein: Þetta líf, það er sko alls ekki sem verst.

Bjartar sumarnætur og ég kem mér ekki í rúmið.

Það er eitthvað við björtu næturnar sem heltekur mig.

Veturnir og haustin geta oft verið kósý en ég er samt sumarmanneskja.
Ég elska birtuna, sólarlagið, miðnætursólina.

Og blómin og fuglasönginn og fjallgöngurnar og græna litinn og útilegurnar og birkiilminn og grilllyktina og kaffidrykkjurnar á svölunum og allt það.

Og frá og með síðustu mánaðarmótum: Yndislega garðinn minn.

Get ég beðið um eitthvað meira en að vera komin í paradís í Hlíðunum með skjólgóðum garði sem snýr í suður - og sólin er ekki einungis á lofti dag eftir dag heldur líka á nóttunni?!

föstudagur, júní 20, 2008

Að fá eyrnabólgu á bjartasta tíma ársins er náttúrlega ólöglegt.
Sérstaklega þegar það gerist fimm mínútum eftir að maður lýsti því yfir hversu stórkostlegt sumarið væri.

Kona spyr sig hvort hún sé mögulega búin að færa sig yfir í annan bókstaf en þegar hún gerði ekkert annað en að fá bólgur sem byrjuðu á B árið 2006? Brjósthimnubólgu, blöðrubólgu, botnlangabólgu.

Eyrnabólga, lifrarbólga, nei ókei það er L. Jæja...

Það besta við að vera heima veik er að þá drullast maður til að gera svona hluti eins og að taka upp úr kössum og hanga á Barnalandi og kaupa sófa.

Ég fæ 10.000 króna rauða flauelsáklæðissófann minn afhentan síðar í dag.

Fólk er velkomið í höllina á morgun að prófa gripinn. Hér verður sólarkaffi um eftirmiðdaginn - og auðvitað sól og blíða OG LOGN í garðinum.

Síðan sjónin í mér tók að versna og ég verð að vera annað hvort með linsur eða gleraugu til að sjá frá mér, þá hefur mér alltaf þótt merkilegt hvernig það er eins og hugurinn frjósi þau andartök sem ég er gleraugna- eða linsulaus.

Til dæmis eftir að ég er búin að taka þetta af mér á kvöldin eða áður en ég set linsurnar í á morgnanna. Eða þegar ég er að fikta í gleraugunum mínum og er allt í einu komin með þau af og úps þá spyr einhver að einhverju sem krefst íhugunar af minni hálfu og þá verð ég hafa gleraugun á mér "því ég get bókstaflega ekki hugsað án gleraugna".

Þegar sjónin er í móðu verður hugurinn líka í móðu.

Í gær hló ég að þessari vitleysu í mér við vinkonu mína sem náðarsamlegast benti mér á að þetta væri sko alls engin vitleysa, hún sjálf væri nákvæmlega eins. Við reiddum okkur alltaf á sjónskynið og það væri ekkert athugavert við að þegar það klikkaði þá klikkaði allt hitt líka, enda væru skilningarvitin svo nátengt.

Þetta fannst mér hljóma afar gáfulega (var samt sko ekki enn búin að setja í mig linsurnar) og alls ekkert klikkað. A ha.

miðvikudagur, júní 18, 2008

Að slá grasið og raka og dytta að garðinum í sól og blíðu með RÚV út um eldhúsgluggann og spjalla síðan við yndislegu nágrannana mína og fá sér kaffibolla - það er ekki nema eitt: Stórkostlegt.

Ég held að mér hafi aldrei áður þótt jafnmikið til um að slá gras.
Enda er langt síðan ég bjó á stað þar sem eitthvert gras var til að slá - og það á tíma þegar grös eru slegin.

Mér þótti svo mikið til um að raka garðinn um helgina að ég rakaði á mig stærðarinnar blöðrur. Og mætti í útskrift í rauðum og hvítum kjól með lykt af nýslegnu grasi og plástur og mold á fingrunum sem vildi ekki fara af. Mér fannst það smart.

Nú nú, þegar maður er búinn að dytta að garðinum er um að gera að fara í skokkgallann og skokka í skóginum í Öskjuhlíðinni, just around the corner. Eða skella sér yfir til allra vinanna og fjölskyldumeðlimanna sem búa einmitt líka just around the corner, vú hú.

Í skotinu fyrir utan svefnherbergis- og eldhúsgluggana er alltaf logn og þar verður útlandaheitt. Það er gaman. Þetta verður stórkostlegt sumar. Fa la la.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Hver er undarlegasta umfjöllun um Ísland í erlendum miðlum sem þið munið eftir? Endilega segið mér líka af hverju hún er undarleg.

mánudagur, júní 09, 2008

Á einhver lítið eldhúsborð, helst útdraganlegt til að lána mér eða selja mér?

Einn af mörgum óborganlegum hlutum sem kom upp í flutningunum var umslag sem mamma merkti “Sigga sögur”. Þá var ég sex ára. Ég fékk umslagið afhent og skreytti það vandlega, handviss um hlutverk mitt í lífinu:

BÓKA-ÚTKÁVAN SIGGA

Stúlkan sem alltaf var að var ekki búin að vera skrifandi lengi þegar hún stofnaði bókaútgáfu. Geta til að skrifa punkta og kommur eða stafsetja rétt var algjört aukaatriði, iss piss, maður á ekki að láta svoleiðis hluti þvælast fyrir sér. Framan á umslaginu benti bókáútgefandinn hróðugur á:

SKEMILEGU BÆKURNNAR GERIR SIGGA VÍÐIS VESTUGÖTU-160-AKRANESI

Og alveg með slagorðin á hreinu:
SKEMTILEGAR BÆKUR FIRIR BÖRNIN 3 ÁRA-TIL 13.

Þetta slagorð er samt uppáhaldið mitt:
GÓÐAR ÐESAR BÆGUR!

Ha ha ha.

Hér á eftir fylgir sagan “Stelpurnar”:

1. kafli:
EINU SINI VORU TVÆ STELPUR OG ÞÆR HÉTU STEINA OG EVA OG ÞÆR ÁTU MÖMMU OG PABBA ÞAÐ VAR DAGUR OG STEINA SAGÐI VIÐ MÖMMU SÍNA VIÐ ÆLUM ÚT EVA VIÐ SKULUM FARA ÚTÍ DÚKÓ ÉG ÆLA AÐ HAVA HANA MÆJU OG ÉG ÆLA AÐ HAVA HANA KRSTÍNU BLESS BLESS KOMUM Í KARÐIN ÉG ÆLA AÐ VERA MAMMA OG ÉG LILLA STELPAN KOTU NÚ AÐ PORÐA ÞAÐ ER FISKUR O ÞÚ VEST AÐ MÉR FINS FISKU FONTUR EN EVA ÞÚ VERDUR AD PORDA HANN ANAS FÆRDU EKERT AD BORÐA ÓKEI ÉG SKAL BORA HANN EF ÞÚ VILT

2. kafli:
ÞETTA VAR PARA ALGAUR VILLEISA ÞETA ER PARA GÓÐUR FISKUR MAMMA KVADA FISKU ER ÞETA ÝSA ÉG HÉLTI AD ÞETA VÆRI ÞOSKUR MÉR FINST ÞORSKUR VONTUR TAK FIRIR MATIN VERÐ AÐ GÓÐU MAMMA KVAÐ ER KLUKAN 8TA ÉG HELTI AÐ HÚ VÆRI 6 MAMMA ÞAÐ ER PIRJAÐUR BANNATÍMIN O ÞETA HEVUR VERIÐ ALGÖRT RUKL HANN PIRJAR ALTAF KLUKAN 7 ÉG VAR SVO MIKIL VILLEISINGUR AÐ GÍKA EKKI KLUKA 7 EN EVA ÞÁ VORU VIÐ AÐ BORÐA JÁ ÞAÐ ER ALAF SVO SKEMTILEGT JÁ EN ER EKKI ALDÍLAJI ÞÓT AÐ ÞÚ MISIR AF ÞVÍ EINU SINI JÚ JÚ

3. kafli
STELPUR VILJIÐ ÞIÐ KOMA MEÐ Í BÍO JÁ JÁ GOMIÐ INN OG FARIÐÍ KJÓLA MÁ ÉG FARA Í KVÍTA KJÓLIN OG MÁ ÉG FARA Í BLEIKA KJÓLIN FLÍTIÐ IKUR BÍJÓIÐ ER AÐ BIRJA NEI STEINA ÞÚ FERÐ MEÐ HENTINA Í HAUSIN OG EVA ÞÚ FERÐ MEÐ HAUSIN Í ERMINA STEINA ÞETA ER HAUSIN OG ÞETA ER ERMIN OG EVA ÞETA ER HAUSIN OG ÞETA ER ERMIN SVONA KOMIÐ NÚNA ÓKEIJ KOTU EVA JÁ JÁ MAMMA KVAÐ HETIR MINTIN MJALKVÍD

Í fjórða kafla var hins vegar farið í Skaganesti og keyptur ís með hrísi en síðan farið heim að sofa...

fimmtudagur, júní 05, 2008

Ég útskrifaðist sem stúdent af náttúrufræðibraut frá FVA þegar ég var 19 ára.

Þá um haustið pakkaði ég saman dótinu mínu á æskustöðvunum Vesturgötu 160 á Akranesi. Þar hafði ég búið frá því að foreldrar mínir komu með mig heim af fæðingardeildinni pínulitla, með snúinn fót og skakkt nef.

Jæja já, einhvern veginn fór það að búa á einum og sama stað í 20 ár, yfir í að vera alls staðar en hvergi næstu árin.

- Á tveimur stöðum í Maine í Bandaríkjunum í hálft ár.
- Í herbergi í kjallaranum á Tjarnargötu 44 í hálft ár.
- Á dýnu á gólfinu á Hjarðarhaga 58 í tvo mánuði.
- Á Hagamel 46 on and off.
- Á Njálsgötu 38 í þrjá mánuði.
- Í tvíbýli á stúdentagörðum, Eggertsgötu 22, í tvö ár.
- Í risinu á Flókagötu 19 í tvo mánuði.
- Á Laugavegi 135 í herbergi með Patreki í tvö ár en með einhverjum pásum inn á milli.
- Á Russell Street í Norwich í Bretlandi í eitt ár.
- Á Flókagötu 19, á gólfinu á skrifstofu mömmu í einn mánuð í haust.
- Uppi í rúmi hjá Mörtu á Miklubraut 56 í tvo mánuði fyrir jól.
- Uppi í rúmi hjá Höllu á Laugavegi í tvo mánuði á nýju ári.

Síðan telst mér til að ég hafi á tímabilinu búið svona um það bil 21 mánuð í bakpoka.

Sem er frábært.
Og þetta hefur allt verið frábært.
Og það er frábært að hafa búið með öllu þessu góða fólki - því ég hef aldrei áður búið ein.

En allt í einu gat ég bara ekki meir. Allt í einu varð ég bara að eiga einhvers staðar heima en ekki vera alltaf alls staðar einungis tímabundið. Og allt í einu varð ég bara að hafa dótið mitt hjá mér - ekki bara helminginn af því eða hluta af því eða jafnvel ekkert - og hafa ekki hugmynd um hvar hitt og þetta dót og drasl leyndist, hvort það væri á Laugaveginum eða í bílskúrnum í Safamýrinni eða bílskúrnum á Flókagötunni eða hjá vinum úti í bæ.

Ferðalögin mín eru bara rétt að byrja - en næstu árin munu þau hins vegar vera gerð út frá Barmahlíð 6. Halelúja.

Heima í Barmahlíðinni situr hún, skemmtir sér yfir dagbókum og ljósmyndum, sameinast eldra dóti, og púslar lífi sínu saman.

mánudagur, júní 02, 2008

Hamingja er...

... að safna lífi sínu loksins loksins loksins saman.

Íbúðaeigandinn er svo hamingjusamur að hann er komin með illt í kjálkavöðvana af of miklu brosi.

Nýi síminn er eitthvað lasinn þessa dagana.
Og ég er ekki komin með net.
En það er hægt að finna mig taka upp úr kössum og fara í gegnum líf mitt í fallegu stofunni minni í Barmahlíð 6, ég meina fallega eldhúsinu, ég meina fallega svefnherberginu, ég meina fallega garðinum mínum haaa. Heitt á könnunni, úúúúúúú jeeeee.