miðvikudagur, júní 30, 2004

Þegar bandaríski herinn fór inn í Afganistan til að uppræta hryðjuverk og leita að bin Laden, voru hópar manna teknir til fanga. Þeir voru grunaðir um að vera viðloðandi hryðjuverk.

Síðan leið tíminn. Það komu áramót og síðan önnur áramót og loks áramót á nýjan leik. Nú er komið sumar.

Margir fanganna eru enn í haldi. Þeir voru fluttir til Guantanamo herstöðvarinnar á Kúbu. Ekki hefur verið réttað yfir þeim - þeir hafa ekki einu sinni verið ákærðir. Þetta eru bara "hugsanlegir hryðjuverkamenn", lok lok og læs og allt í stáli. Geymum þá bara þarna, þá kannski hverfur vandamálið af sjálfu sér..

Nú vill svo til að þessir hugsanlegu hryðjuverkamenn eru manneskjur eins og ég sjálf. Það vill svo til að þeir eiga fjölskyldur og vini. Það vill líka svo til að þessar fjölskyldur og þessir vinir eru manneskjur eins og ég. Margar vita ekkert hvað er að frétta af föngunum. Óvissa er ömurleg, hvort sem þú ert frá Afganistan eða Íslandi. Það er ömurlegt að fá ekki að vera í samskiptum við sína nánustu.

Enginn hefur verið ákærður í máli þessara fanga og vel má vera að mennirnir hafi aldrei ætlað sér nein hryðjuverk. Kannski eru þetta fjölskyldufeður eins og þeir sem ég sá ná í vatn í Afganistan, fara í vinnuna og endurbyggja hús. Hvernig ætli fjölskyldunum reiði af nú þegar önnur fyrirvinnan, kannski sú eina, er í haldi dagana langa?

Kannski eru þetta hins vegar svarnir hryðjuverkamenn sem ætluðu sér voðalega hluti. Það má vel vera. Kannski eru þetta bæði fjölskyldufeður og hryðjuverkaplanarar.

Jafnvel þótt svo sé á þetta fólk rétt á því mál þeirra sé meðhöndlað á sanngjarnan hátt: Því sé birt kæra, málið sé rannsakað og loks sé réttað yfir því. Það á rétt á því vera haldið í gæsluvarðhaldi við sómasamleg skilyrði.

Það að fólki sé ruslað inn í ömurlega fangaklefa og það látið dúsa inni mánuð eftir mánuð án þess að nokkuð sé að gerast í málinu, er óþolandi. Í raun og veru er það svo bilað að maður trúir varla að slíkt og annað eins sé í gangi. Kannski er enn sorglegra þegar slík voðaverk eru unnin um leið og verið er að reyna að uppræta voðaverk og hryðjuverk í heiminum.

Ég skora á þá sem þetta lesa að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Hún er áskorun til ríkisstjórnar Íslands um að koma á framfæri mótmælum við bandarísku stjórnina vegna mannréttindabrotanna.

Okkar rödd er rödd í alþjóðasamfélaginu. Gleymum því aldrei. Hún er kannski lítil og lágvær en hún er þarna. Við getum ekki horft upp á svona hluti. Við vitum sjálf að við myndum aldrei líða það að svona hlutir væru gerðir við okkur eða vini okkar.

Þess vegna eigum við ekki að líða að þetta sé gert við aðra.

mánudagur, júní 28, 2004

Mánudagur. Sól og blíða. Forsetakosningarnar búnar og menn rífast um gjá á milli forseta og þjóðar, eða bíddu er hún á milli þings og þjóðar?

Mánudagur og mannfallið í Írak heldur áfram og auðvitað Evrópukeppnin í fótbolta og Ólympíuleikarnir nálgast og menntamálaráðherra er ógisslega hissa á því að úbbosí allt í einu séu svona margir að fara í framhaldsskóla og stjórnin lætur eins og þetta hafi ekki verið fyrirsjáanlegt og í Súdan magnast átök og í Serbíu voru líka forsetakosningar um helgina og í Tyrklandi var veru Bush mótmælt.

Mánudagur og nú nálgast júlí og aftur er farið að dimma smátt og smátt.
Mánudagur og ég er einum degi eldri en í gær.

Mánudagur og dagurinn í dag gæti verið besti dagur lífs míns.
Svona bara ef ég einbeiti mér að því.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg, dökkhærð stúlka liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmmusveinn.

Mín synd er stór. Ó systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjartað mitt, ó systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

föstudagur, júní 25, 2004

Yfir 90 manns létu lífið í Írak í gær. Níutíu á einum degi.

Þegar ég heyri svona tölur verður mér ævinlega hugsað til Afganans í Kabúl sem sagði mér að flugskeyti hefði næstum því lent á heimili hans. "Pældu í því ef það hefði gerst, þá væri ég kannski ekki hér," sagði hann. Ég hvessti augun á manninn og kinkaði kolli. Það var hálf óþægilegt að hafa einhvern svona af holdi og blóði beint fyrir framan sig. Einhvern sem hefði getað verið einn af tölulegu staðreyndunum í fréttunum.

Já, níutíu létu lífið í Írak í gær og tugþúsundir í heiminum öllum af völdum vannæringar. Rétt áðan lét líka lífið eðal rauðvínsflaska, keypt í Ríkinu tíu mínútum áður.

"Jú, ekkert mál, ég passa hana og kem með hana í partýið í kvöld," sagði ég við vinkonu mína og stakk flöskunni í fallegu hliðartöskuna sem ég keypti í Búrma á heilar 250 krónur. Hoppaði síðan og skoppaði upp Hverfisgötuna, hæstánægð með lífið og tilveruna, brosandi komin í helgarfrí, sveiflandi töskunni góðu.

Gemsinn hringdi. Ég veit ekki af hverju mér brá svona mikið en mér krossbrá alla vega. Skutlaði mér á símann í töskunni með þeim afleiðingum að taskan sveiflaðist stóran hring og pæng, beint í götuna. Úps, eitt stykki rauðvínsflaska ofan í...

Nú þykir mér rauðvín gott en hins vegar miður gott að drekkja eigum mínum í vökvanum góða: a) Töskunni sem vitanlega fylltist af skrilljón glerbrotum b) sokkabuxunum mínum (frussandi rauðvín út um allt) c) peningaveskinu mínu d) gemsanum e) skónum mínum (meig næstum því í mig af hlátri í rauðvínspolli á Hverfisgötunni með hringjandi gemsa) f) Morgunblaðinu sem ég hafði laumast til að nappa hjá foreldrum mínum og hafði í hyggju að skila aftur um kvöldið svo lítið bæri á.

End of story: Sigríður skakklappast upp Hverfisgötuna útötuð í rauðvíni með vegfarendur pælandi í því hvort hún sé alblóðug eða finnist bara svona gaman að leika sér að rauðvíni á föstudagseftirmiðdögum. Sigríður hendir rauðvínslegnu Morgunblaði í ruslið. Sigríður hringir í vinkonu sína fimm mínútur í sex: GETURÐU SKOTIST Í RÍKIÐ OG KEYPT AÐRA FLÖSKU???

Góða helgi.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Ferðalagið mitt er búið, ég er komin heim. Af hverju er ég enn að skrifa á þessa vefsíðu?

Humm. Kannski af því að mér finnst skemmtilegast af öllu að skrifa. Kannski af því að ég er orðin svo vön því að skrifa eitthvað á síðuna að ég geri það ósjálfrátt.

Það breytir samt ekki því að bloggið mitt átti alltaf að vera bara ferðablogg... Þetta skrifaði ég í september á seinasta ári:

---

Dagur 2 (e.B - eftir Blogg)

"Hvað hef ég gert?" hugsaði ég og veltist um í rúminu í nótt. Ég gat ekki með nokkru móti fest svefn. "Er ég endanlega orðin snarrugluð?" Ég var kófsveitt og gat ekki hugsað skýrt. Sá á gemsanum að klukkan var orðin hálf þrjú. Hvernig hafði ég getað látið Bloggheima ná tökum á mér? Var ég endanlega gengin neyslumenningunni og nútímavæðingunni á hönd?

"Nei, Sigríður, ekki missa sjónar á aðalatriðinu," muldraði ég. "Bloggið þitt verður ferðablogg. Þú hefur afsökun fyrir því að skrifa um líf þitt á Netinu. Það er miklu auðveldara að blogga en að senda tölvupóst í Fjarskanistan, manstu? Þá eru menn ekki að fá einhvern fjöldatölvupóst sem þeir hafa kannski engan áhuga á að fá eða þú sjálf að gleyma að senda fólki línu. Nei, svona er málið miklu einfaldara. Punktur og basta."

Um stund varð ég rórri en hrökk stuttu síðar upp aftur. Á mig hafði sigið svefn og mig farið að dreyma að ég væri á netkaffihúsi á Indlandi að útlista í miklum smáatriðum lit hægða minna, gang meltingarinnar og magaverki eftir of sterka hrísgrjónarétti.

Úff, mitt blogg átti sko ekki að verða svoleiðis. Umrætt blogg var að vísu enn í tilvistarkreppu því það vissi ekki alveg hvernig blogg það vildi vera. Við Bloggheimar áttum eftir að ræða slík útfærsluatriði. Það var hins vegar ljóst að bloggið yrði ferðafélagi minn á nokkurra mánaða bakpokaferðalagi mínu.

Nú varð ég bara að vingast við hann.

---

Ég er komin heim, er enn að blogga og get ekki og vil ekki hætta því. Til að halda ferðaréttlætingunni inni í þessu hef ég ákveðið að halda áfram að skrifa ferðahugleiðingar frá ferðalaginu. Jamm og já.

Í sumar ætla ég að ferðast í huganum og endurtaka ferðalagið mitt. Skrifa um allt það sem ég náði ekki að skrifa um í vetur.
Nostalgía? Eða bara þörf fyrir að bera Ísland saman við útlönd? Ólýsanleg skrifþörf?

Veit ekki.
Stundum þarf maður líka ekkert að vita allt.

sunnudagur, júní 20, 2004

Forsíða Morgunblaðins í dag: BEIN EINS MANNS OFT Í MÖRGUM FJÖLDAGRÖFUM.

Forsíða Tímarits Morgunblaðsins í dag: PÚSLAR SAMAN BEINUM. Eva Klonowski, réttarmannfræðingur.
Inni í blaðinu fjögurra síðna viðtal. Mynd af beinagrindum í miðopnu blaðsins.

Á forsíðunni er ákaflega listræn mynd (skemmtileg tilviljun að ég sjálf hafi tekið hana, ha..) af svörtum ruslapokum í skipulagðri röð. Gjörningur listamanns?

Nei, DÁIÐ FÓLK Í POKUM. Fólk eins og ég og þú sem var myrt á hrottafenginn hátt í Bosníustríðinu - endaði í fjöldagröfum, var grafið upp og sett í svarta poka. Þetta eru líkamsleifar sem ég eyddi heilum degi innan um í Sarajevo, þriðjudag nokkurn í maí. Dagur sem ég mun aldrei gleyma.

Ég mæli með lesningu viðtalsins í Tímaritinu. Ekki einungis vegna þess að ég sjálf tók það, heldur einfaldlega til að halda í heiðri minningu fólksins sem var myrt. Það er mikilvægt að gleyma ekki því sem gerðist. Heimurinn er löngu farinn að hugsa um eitthvað annað - eftir stendur hins vegar að lífið var murkað úr þúsundum fólks sem var bara fólk eins og ég þú. Eftir stendur að tugþúsundir eru enn þá tilkynntar "horfnar" eftir fjöldamorðin miklu.

Stundum sé ég fyrir mér svarta hárflókann sem lá á gólfinu í vöruskemmunni þar sem ég tók viðtalið. Einu sinni var hann á lifandi manneskju í Bosníu. Í dag veit enginn af hverjum hann var.

"Þetta er allt í einum graut. Það sem við erum með eru ekki heilar beinagrindur heldur brot og oft nokkur bein hér og nokkur þar. Sama manneskja getur verið í tveimur til þremur mismunandi gröfum. Eftir að tal um stríðsglæpi hófst urðu yfirvöld Serba í Bosníu hrædd og reyndu að hylma yfir glæpi sína. Hugsunin var "engin sönnunargögn - enginn glæpur". Farið var á stórvirkum vinnuvélum að mörgum fjöldagrafanna, þær opnaðar og innihaldinu dreift í minni grafir. Vélarnar skáru líkin oftar en ekki í sundur," segir Eva í viðtalinu.

Þegar ég horfði á svarta hárflókann svimaði mig og mér fannst ég hjálparvana. Næsta dag átti ég einn furðulegasta dag minn hingað til. Smám saman rann upp fyrir mér hvað ég hafði raunverulega séð. Það var erfitt að vinna viðtalið og ég verð að viðurkenna að nokkrum sinnum fór ég hreinlega að gráta. Eitt skiptið þurrkaði ég af mér tárin, beit á jaxlinn og hugsaði með sjálfri mér að ef ég gæti reynt að minna fólk á það sem gerðist og halda minningu hinna látnu í heiðri, þá væri að minnsta kosti eitthvað unnið.

Þess vegna vona ég að myndin mín af fólkinu í pokunum grafist ekki strax undir auglýsingabæklingum og pitsutilboðum. Ég vona að menn lesi viðtalið, hugsi um málið og finni samkennd með þeim sem lentu í hryllingnum.

laugardagur, júní 19, 2004

19. júní. 89 ár síðan íslenskar konur hlutu kosningarétt.

19. júní. Útskrifarpartý um allan bæ. Er enn að reyna að hugsa heimspekilega um möguleika mína á að vera á tveimur stöðum í einu.

19. júní. Mynd sem ég tók í Sarajevo á forsíðu Tímarits Morgunblaðsins. Fjögurra síðna viðtal inni í blaðinu við Evu Klonowski. Líklega eftirminnilegasta viðtal sem ég hef tekið. Vísað í viðtalið á mbl.is - fyrsta frétt. Jibbý!

miðvikudagur, júní 16, 2004

Vinir mínir hjá Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni, sem ég tók viðtal við í Qatar, halda áfram að gera garðinn frægan..

Nú birtu þeir ansi hressandi viðtal þar sem forsætisráðherrann í Írak kom með merkilega yfirlýsingu - yfirlýsingu sem féll ekki vel í kramið í USA. Hann lýsti því yfir að Bandaríkjamenn myndu afhenda stjórn hans Saddam Hussein þegar hún tekur formlega til starfa í lok mánaðar.

Ha ha, fyrstu viðbrögð frá USA voru óljós en síðan sögðu þeir að Saddam yrði afhentur þegar "viðeigandi skilyrðum yrði fullnægt".

Sjáum til hvenær það verður, ho ho.

Þar sem ég sat úti á svölunum með Morgunblaðið, hugsaði um lífið og tilveruna og pældi í því hvað aðgerðirnar í Írak voru yfirmáta fáranlegar og vanhugsaðar, datt mér nú bara í hug setning sem ég las í vetur:

Peace cannot be achieved by FORCE - only by UNDERSTANDING.

Flott setning. Þess vegna ætla ég að segja hana aftur:

PEACE CANNOT BE ACHIEVED BY FORCE - ONLY BY UNDERSTANDING.

Og einu sinni enn: PEACE CANNOT..
Nei, ókei bæ.

mánudagur, júní 14, 2004

Frá Afganistan förum við til Bosníu.

Ég á Selluna í dag. Þar er greinin Kúluför í Bosníu.

Fleira var það ekki.

laugardagur, júní 12, 2004

Nú get ég gengið er grein sem ég skrifaði og er á vef Rauða kross Íslands. Pælingar frá Afganistan.

Skemmtileg laugardagslesning...

föstudagur, júní 11, 2004

Þegar ég ek um stræti og torg í pilsi og gallajakka finnst mér skrýtið að fyrir ekki alls löngu hafi ég verið alltaf í sömu buxunum, í illa förnum sandölum og með poka á bakinu.

Þegar ég set á mig maskara fyrir framan spegilinn finnst mér næstum því eins og ég hafi aldrei farið.

Þegar ég horfi á PoppTíví og les fyrirsagnirnar framan á Séð og heyrt, verður ferðalagið mitt óraunverulegt og andlitin þokukennd.

Þetta er allt svo langt í burtu.

Þegar ég æði um 10/11 kemur samt mynd upp í huga mér af litlu stúlkunni sem hneig í götuna fyrir framan mig í Kambódíu, uppgefin á sál og líkama, illa vannærð.

Skyldi hún enn vera á lífi?

fimmtudagur, júní 10, 2004

Um helgina tókst mér það þrekvirki að hvolfa óvart úr handtöskunni minni þar sem ég sat í Þjóðleikhúsinu og beið eftir að leiksýning hæfist. Eins og virðulegum leikhúsgesti sæmir kallaði ég hátt og snjallt "fuck!". Á sömu stundu voru ljósin slökkt og sýningin hófst. "FUCK" hvæsti ég á nýjan leik og þreifaði niður í gólfið.
Fann ekkert af eigum mínum. Þær höfðu rúllað undir sætaröðina fyrir neðan. Góður, Sigga..

Nú er ég vön því að missa hluti hér og þar, rekast utan í, ganga á ljósastaura og álíka - og hefði svo sem ekki grátið þetta, hefði hringingin á jevla gemsanum mínum ekki enn þá VERIÐ Á. Ha ha.

Hvað gerir maður þegar maður er í leikhúsi og einhvers staðar undir fótum manns liggur síminn manns með hringinguna á? Tikkandi tímasprengja sem getur sprungið hvenær sem er.
"Halló, Sigga mín, þetta er mamma hérna.."

Já, hvað gerir maður? Uuuu.. leitar meira, vonar að sýningin verði hávær og þreifar gólfið eins og óður maður. Fattar svo að maður er í of óhentugum kjól til að liggja með rassinn upp í loftið á leikhúsgólfi. Setur vinkonu sína í buxum í málið. Traustur vinur getur gert kraftaverk. Traustur vinur þreifar leikhúsgólf á fjórum fótum og kippir sér ekki upp við athygli annarra leikhúsgesta sem halda að hann sé annað hvort snarruglaður eða sérlegur áhugamaður um þykk teppi. Traustur vinur getur gert kraftaverk - en finnur samt ekki alltaf símann manns.

"Þú verður bara að vona að enginn hringi í þig! Don´t worry honey, við finnum símann í hléi..."

Til allrar lukku hringdi enginn. Síminn fór að hringja um leið og endurfundir höfðu farið fram.

Það er það sem ég hef alltaf sagt, ég er ljónheppin. Ljónheppin að fá aðeins hringingar á réttum tímum, vera heilbrigð og eiga yndislega fjölskyldu og vini. Ljónheppin að búa á friðsælu landi, þar sem hörðustu átökin snúast um fjölmiðlafrumvörp. Ljónheppin að hafa til hnífs og skeiðar... bla bla.

Varð bara að koma með eitthvert siðferðilegt innlegg inn í þetta...

þriðjudagur, júní 08, 2004

ER DAUÐUR MAÐUR FRJÁLS?

Ha, ha, hljómar náttúrlega eins og að spyrja hversu ferkantaður hringur sé. Er dauður maður frjáls?

Já, maður getur ekki annað en spurt sig hversu frjálsir og heppnir þeir séu írösku borgararnir sem hafa verið drepnir í "mannúðaraðgerðunum" stórkostlegu. Við urðum náttúrlega að frelsa þetta fólk frá ægivaldinu.

Vonum bara að þau séu bæði frjáls og flippuð og umfram allt í gúddí fíling í gröfinni.

Í nótt dreymdi mig að her skriðdreka hefði ekið niður götuna hjá mér. Ég þaut út á svalir til að sjá hvað um væri að vera. Sem ég opnaði svaladyrnar varð ég fyrir skoti. Ég hneig niður og sá illilegan hermann hvessa á mig augun. Hann hvæsti að ég skyldi gjöra svo vel og drulla mér að heiman. Ég væri ómerkileg, ég væri glæpamaður og ég ætti ekki þessa jörð. Skriðdrekinn ók síðan á húsið og eyðilagði það.

Shit, ég var orðin heimilislaus. Hvert átti ég að fara? Nagandi óttinn læsti sig um mig. Ég leit niður og sá að það fossblæddi úr fætinum á mér. Sem ég snéri mér við og sá eldtungurnar úr húsinu mínu teygja sig til himins áttaði ég mig á því að mamma og bróðir minn hefðu verið inni og væru ekki komin út. Guð minn góður.

Svo vaknaði ég. Í svitabaði. Staulaðist fram úr og hellti upp á kaffi.

Þar sem ég hristi af mér svefndrungann og andvarpaði fegin yfir því að þetta hefði einungis verið martröð sló það mig að á að á mörgum stöðum í heiminum var fólk eins og ég að vakna - fólk sem gat hins vegar ekki hrist af sér martröðina. Hún var nefnilega veruleiki þeirra.

Hafði fólkinu sem ég talaði við í Sarajevo liðið svona? Gamli bosníski maðurinn sem brotnaði saman þegar ég ræddi við hann hafði örugglega reynt og reynt að vakna af martröðinni. Hann hafði endað í fangabúðum og misst allt sitt.

Ég tók gúlsopa af kaffi og varð síðan hugsað til Palestínu. Var á útifundi á Ingólfstorgi um helgina þar sem stríðsglæpum Ísraela var mótmælt.

Ástandið í Palestínu er skelfilegt og ótrúlegt að slíkt og annað eins sé að gerast í heimi þar sem menn berja sér á brjóst og tala um siðmenningu, frelsi og mannréttindi.

Þetta gengur ekki lengur. Hvað get ég gert? Sharon heldur áfram að vera sami þorparinn, Ísralesher fremur óhugnanlega glæpi, framkoman gagnvart Palestínumönnum heldur áfram að vera jafnsvívirðileg, Bandaríkin halda áfram stuðningi við ógeðið, vonlitlir Palestínumenn halda uppi hryðjuverkum gegn Ísraelum.

Hvað get ég gert? Mér spurn.

Jú, ég get til dæmis stutt hjálparstarf í Palestínu. Allt það fé - hver einasta króna - sem lögð er inn á reikninginn 542-26-6990, kt. 520188-1349, skilar sér til að hjálpa fólki á svæðinu. Þetta er neyðarsöfnun samtakanna Ísland-Palestína fyrir hjálparstarf á herteknu svæðunum.

Eitt, tveir og þrír og allir nú. Margt smátt gerir eitt stórt. Hvert framlag skiptir máli og hvert framlag er viðurkenning á því að við lifum saman í þessum heimi og látum okkur náungann varða.

mánudagur, júní 07, 2004

Fyrst tók það mig dágóða stund að venjast því að sleppa íslensku stöfunum við skriftir á netkaffihúsum úti í heimi.

Nuna get eg bara ekki vanid mig af thvi. Pantadi mida a Starsailor tonleikana a netinu undir nafninu "Sigridur Vidis Jonsdottir" til heimilis ad "Flokagotu 19".

Jamm og ja.

laugardagur, júní 05, 2004

Seríos og kókómjólk. Kjötbollur og kartöflumús. Thule bjór og orðljótur forsætisráðherra, sem orðinn er miklu grárri en í haust. Ilmur af nýslegnu grasi. Kunnugleg andlit á götunum. Neyslumenning og nýjasta tíska.

Ég er komin heim í heiðardalinn, komin heim með slitna skó.

Í heiðardalnum í sumar ætla ég að reyna að gleyma ekki mínum minnsta bróður. Jafnvel þótt höf og álfur skilji að. Í íslenska stressinu vonast ég til að bróðirinn kafni ekki í velmegun, drukkni í grillsósum og gúmmelaði eða lendi úti í tunnu með auglýsingabæklingum og umbúðum utan af pakkamat.

Já og amen.

miðvikudagur, júní 02, 2004

Land mins fodur,
landid mitt,
laugad blaum straumi.
Eilift vakir auglit thitt,
ofar timans glaumi.

Eg er ad bida eftir flugi heim til Islands.

A leidinni heim af Keflavikurflugvelli aetla eg ad fa mer pulsu med ollu. Og sinnepid ofan a takk. Malt i gleri med.

A eftir.