þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Á svipuðum tíma og ég gekk um með svo þykkan góm að ég mátti vart mæla, bar ég út Tímann og Þjóðviljann. Ég átti erfitt með að skilja það þegar sumir, sem keyptu blöðin ekki, gagnrýndu þau. Hvernig voru þau öðruvísi en Morgunblaðið? Allt sem var á prenti og allt sem kom í fjölmiðlum var sannleikur.

Eða hvað? Árin liðu og gómur breyttist í teina. Heimsmyndin tók að breytast og verða flóknari. Það fór að renna upp fyrir stúlkunni að fréttir eru skrifaðar af fólki. Fyrirsagnir eru ákveðnar af fólki.

Meira um það í þessari grein minni á Sellunni - "Þegar heimurinn varð flókinn".

mánudagur, nóvember 29, 2004

"Afturhaldskommatittsflokkur".

Og maðurinn er utanríkisráðherra sem vill að við tökum hann trúanlegan?
Ha ha.

Hvenær fer Dabbi að fjasa um hommatitta, spyr ég nú bara.
Ble ble.

Þrjár einfaldar leiðir til að hjálpa til í kringum sig: Búin að nefna blóðgjöfina. Þá er það að versla í Rauðakrossbúðinni á Laugavegi 12. Þetta er í húsinu þar sem Týndi hlekkurinn var einu sinni, rétt neðan við Mál og menningu. Þarna er hluti þeirra fata sem gefin eru Rauða krossinum seldur og allur ágóði fer til hjálparstarfs. Þeir sem vinna í versluninni gera það í sjálfboðavinnu.

Í dag festi ég kaup á slæðu á 300 krónur, handprjónuðum barnaullarsokkum á 500 krónur og litlum handprjónuðum trefli fyrir 300 krónur. Prjónahópar á vegum Rauða krossins prjóna fyrir búðina og gefa alla sína vinnu.

Þriðja leiðin: Fara með matvæli, föt eða annað til Fjölskylduhjálpar Íslands, Eskihlíð 2-4. Þetta er í húsi sem blasar við þegar ekið er upp Miklubraut, vel merkt. Þarna er á mánudögum og þriðjudögum frá kl. 13-17 tekið við hverju því sem nýst getur öðrum. Glaðleg kona sem ég talaði við sagði fjögur hundruð manns vera á skrá hjá þeim. Á bak við hvern eru oftast nokkrir í fjölskyldu. "Þörfin er mikil," sagði konan og tók við pokunum.

Mútta og pabbi gáfu pasta, bakaðar baunir, súpur og sitt hvað sem við fundum í skápunum þeirra. Ég keypti skyr, mjólk og brauð. Gleymdi Pepsi Maxinu mínu í pokanum og gaf það óvart. Verði þeim að því.


laugardagur, nóvember 27, 2004

Mútter með dóm í Mogganum í dag.

"Saga Kristínar Steinsdóttur um sól sem sest á lífsmorgni unglingsstúlku er lítill gullmoli sem á vafalaust eftir að vekja samúð um leið og hann er kærkomið ljós inn í liðna tíð."

Húrra.

Ég hjólaði næstum því á ísskáp á leið heim úr vinnunni áðan.
Hvað hann var að gera á miðjum gangstíg veit ég ekki.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Ég er lengur að aka leiðina Hlemmur-Seltjarnaes en hjóla. Tuttugumínútur og þrjátíu og sex sekúndur mældi ég á bíl áðan. Ég er aftur fimmtán mínútur að hjóla í vinnuna.

Ég spara mér bensínpeninga á því að hjóla, spara mér þá peninga sem kostar að reka eitt stykki bifreið. Spara mér ómakið af því að svitna í loftlausum líkamsræktarsal innan um appelsínuhúð og ærandi tónlist. Geri umhverfinu greiða. Legg mitt af mörkum til að sporna gegn einkabílisma og umferðarteppum.

Á hverjum einasta degi græði ég helling vegna þess að ég á ekki bíl.

Svei mér þá - einn daginn verð ég ein af þeim stóru.
Ó, þetta líf.



Það vantar blóð í Blóðbankann. Einn, tveir og þrír og allir nú. Blóðbankinn er í gráu húsi við Barónsstíg. Þar er opið til fimm í dag og til sjö á mánudaginn.

"Stelpur geta ekki gefið blóð."
Rugl.
Stelpur mega gefa á fjögurra mánaða fresti en strákar á þriggja.

Þegar maður fer í Blóðbankann er ýmislegt mælt sem gott er að vita, til dæmis hversu mikið járn maður er með og hver blóðþrýstingurinn er. Blóðgjafar fá járnforðatöflur ef þeir eru með of lítið járn.

Það er með öðrum orðum gott fyrir mig að gefa blóð. Þá er fylgst með ýmsum mikilvægum atriðum. Svo fæ líka ókeypis að borða eftir á - rúnstykki, kaffi, djús, kökur, súpu, jú neim it...

Það er gott fyrir þá sem lenda í slysum eða fara í aðgerðir að ég hafi farið og gefið blóð. Það er reyndar meira en gott - það er beinlínis lífsnauðsynlegt.

Hundrað prósentvinnings hlutfall sum sé. Magnað.
Ekki einn á móti hálfri milljón eins og í lottó.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Ja há.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Vinir Indlands eru snilldar hjálparsamtök.

Á fimmtudag standa þau fyrir árlegum styrktartónleikum - safnað verður fé til að styrkja fátæk indversk börn til náms. Þetta er ein mikilvægasta tekjulind félagsins yfir árið. Allt fé sem safnast fer óskipt út og allir tónlistarmenn gefa vinnuna sína:

Elín Ósk Óskarsdóttir sópran, Snorri Wium tenór, Óperukórinn undir stjórn Garðars Corters, Arnar Jónsson leikari, Tríó Reykjavíkur; Gunnar Kvaran selló, Guðný Guðmundsdóttir fiðla og Peter Maté píanó. Sagðar verða sögur frá starfinu á Indlandi í máli og myndum.

Tónleikarnir byrja kl 20:00 og miðaverð er 2000 krónur. Miða er hægt að kaupa í Miðasölu Salarins Kópavogi, s. 540 0700 eða á netinu www.salurinn.is og hjá félögum í Vinum Indlands.

Endilega breiðið út orðið.
Fjársöfnunin skiptir máli og svo verða þetta líka brilljant tónleikar.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Afmælispartýið styrkti æskulýðsstarf á Íslandi.
Svona óbeint.

Þrír svartir ruslapokar enduðu í appelsínugulum söfnunarkassa við ÓB bensín á Snorrabraut. "Djöfull, þarf ég að tæma úr þeim og ofan í kassann??" þusaði ég sljó til augnanna og byrjaði að handlanga 578 bjórdósir, glerflöskur, vodkapela og rauðvínsflöskur inn um lítið gat á kassanum. "Ha, nei ég á ekki við áfengisvandamál að stríða," sagði ég og brosti skakkt til bílanna við umferðarljósin. "Finnst sopinn bara dálítið góður."

Endaði með bláar varir og búin að sulla mig alla út í áfengi. Hressandi svona í þynnkunni.

Það tekur á að gera góðverk.
Vona bara að skátarnir geri nú eitthvað flippað og skemmtilegt fyrir bjórdósirnar.

Ég segi nú bara af hverju að sofa í átta tíma þegar maður getur sofið í fjórtán?

Leið næstum því yfir mig af svengd og sleni þegar ég vaknaði. Vöðvarnir svo slappir að ég gat varla lyft sojamjólkurfernunni. Tennurnar loðnari en Alf bangsarnir gömlu góðu.

Ég og vinur minn klipptum einu sinni allt hárið af Alf bangsa systur hans. Okkur fannst bangsinn miklu flottari eftir á. Tæmdum líka úr einu ilmvatnsglasi yfir hann, svona smá after-shave. Vorum ofsa ánægð með þetta allt saman, búin að gera góðverk dagsins.

Systirin ærðist þegar hún kom heim. Hár út um allt - senan leit út eins Alf hefði verið kviðristur. Þung ilmvatnslykt yfir öllu.

Alf liggjandi á gólfinu með brostin augu.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Það kom að því.

Það kom að því.

Ég á afmæli í dag.

dag í ilæmfa á gÉ.

Fyrsta símtal dagsins til afmælisbarnsins var frá Agli Helgasyni. Það fannst afmælisbarninu fyndið, ha ha.

"Nei, veistu ég held ég segi pass. Held ég myndi ekki lúkka vel á skjánum í fyrramálið. Þynnka fyrirliggjandi, jú sí. Mikil þynnka."

"Einmitt, segjum það. Til hamingju með afmælið samt."

Rokk.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Lagnirnar í gráa húsinu á Laugaveginum, þar sem ferðafélagið Patrekur hefur starfsemi sína, lifa sjálfstæðu lífi. Minna á sig um miðjar nætur þannig að heimilismenn hrökkva upp með andfælum. Það dynur í öllu húsinu, þvílík óhljóð.

"HRINGI Í FORMANN HÚSFÉLAGSINS Í FYRRAMÁLIÐ, ARG" segir Patrekur og treður eyrnatöppunum upp í hlustina. Þar sem hann er glaðvaknaður spjallar hann síðan við sjálfan sig því Patreki finnst svo gaman að tala. Svo þagna lagnirnar og heimamenn byrja aftur að hrjóta. Já og tala upp úr svefni því Patreki finnst einmitt svo gaman að tala. Þannig leysir hann ekki heimsmálin bara á daginn heldur líka á nóttunni.

Höfuðstöðvar Patreks ganga annars þessa dagana undir nafninu Al Patjeera.

Ólöglegt samráð við Al Jazeera?
Maður spyr sig.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Er hörmungarástandið í Írak furðuleg niðurstaða af undarlegum tilviljunum?

"Ó, nei," segir Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur. "Þetta voru fyrirsjáanlegar afleiðingar ákvarðana sem teknar voru fyrir hálfu öðru ári síðan á fölskum forsendum og vegna vísvitandi blekkinga manna með pólítíska hagsmuni."

Annars er opin æfing hjá Háskólakórnum í kvöld. Neskirkja klukkan sex. Kaffi og kökur eftir á. Við bjóðum öllum sem vilja að koma, hlusta og bera kórinn ægifagra augum.

Hver segir að maður þurfi að vera í háskólanum til að vera í Háskólakórnum?

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Frökenin í Íslandi í dag í gær.

Átti maraþonhlaup inn ranghalana á Stöð 2, örfáum mínútum áður en útsendingin fór í loftið. HVAR FINN ÉG ÍSLAND Í DAG????? Hjálp, ökuferðin hafði tekið yfir hálftíma vegna umferðarteppu og snjós.

"Sorrý, sorrý. Við ko-homust ekkert áfra-ham. Það var svo mi-hikill uuuuhumferð..." Meiki klínt á Sigríði móðu í einum grænum, smá gloss og þetta verður að duga. Hjálp hárið er ógreitt og ég er í gallabuxunum úr vinnunni! Tæknimaður hleypur að mér með mæk og inn í stúdíóið með þig stúlka. Frökenin gleraugnalaus, andskotinn. Sér ekki baun.

Þórhallur og Jóhanna byrjuð að kynna efnið. Um að gera að lauma sér bara á stólinn og halda kúlinu, ha ha. Úbbs, nú er allt í einu búið að kynna mig sem "fréttamann". Babbaræ, hvaða bull. Hvaða titlavesen er þetta alltaf? Af hverju má ég ekki bara vera Sigríður Víðis Jónsdóttir MANNESKJA?

Og nú byrja spurningarnar. Best að byrja að babbla eitthvað.
Lifi rokkið.

Þáttinn má nálgast hér.
Það verður að velja "Ísland í dag" og síðan "fyrrihluta".

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Minni á frumsýningu myndarinnar Control Room annað kvöld. Ókeypis inn. Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, klukkan 19:30. Spread the word. Myndin verður síðan sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík sem hefst á morgun en þá þarf að borga inn. Eftir frumsýninguna verða umræður um myndina.



Uppáhaldsatriðið mitt í myndinni er þegar fréttamaður Al Jazeera horfir á sprengingar í Írak á sjónvarpsskjá, hallar sér aftur og segir háðulega: "Lýðræði!"

"It looks like there is an effort to manage the news," segir fréttamaður CNN í myndinni eftir að Baghdad féll og heimamenn voru sýndir "fagna" og rífa niður styttu af Saddam Hussein. Fréttamenn Al Jazeera benda á að svo virðist sem fagnaðarlætin hafi verið skipulögð af innrásarliðinu. Þetta hafi verið hópur karlmanna sem allir voru á sama aldri. Þarna voru engar konur og enginn bættist í hópinn - fólk streymdi með öðrum orðum ekki út á göturnar. Voru þetta íbúar Baghdad að fagna?

"Þeir töluðu ekki einu sinni arabísku með íröskum hreim," segir einn yfirmanna Al Jazeera og glottir. "The Americans played the media intellegantly. It was a media show," segir framleiðandi hjá stöðinni.

Ja há.
Ungur maður sem vann sem fjölmiðlafulltrúi hjá bandaríska hernum og kemur mikið fyrir í myndinni sagði nýlega af sér. Honum var meinað að tjá sig nokkuð um myndina. Hann var búinn að vinna hjá hernum í 14 ár.

Sjáumst í Hafnarhúsinu!

sunnudagur, nóvember 14, 2004



Ekkert drykkjarvatn.
Matarskortur.
Brunalykt.
Tóm hús.
Sundursprengd hús.
Reykur.
Sorg.
Rafmagnsleysi.
Engin lyf.
Lík á götum úti. Lík í vegarköntum, lík við húsveggi, lík inni og lík úti.
Úps, það kemur hræðileg lykt þegar lík rotna. Leggst yfir allt.

"I cannot say how many people have been killed but after two days of bombing, this city looks like Kabul," segir maður á BBC.

Dauðabæli?
Ja, bara íraska borgin Fallujah sem við hinar staðföstu þjóðir erum að reyna að vinna. Það verður náttúrlega að frelsa þetta fólk.

HVAÐ ERUM VIÐ AÐ GERA MEÐ ÞVÍ AÐ TAKA ÞÁTT Í ÖÐRUM EINS VOÐAVERKUM OG MORÐUNUM OG EYÐILEGGINGUNNI Í FALLUJAH?

Mæli til dæmis með þessari frétt hér.

Svo kemur Davíð glaðhlakkalegur fram og segir að hann sé handviss um að stuðningur ríkisstjórnarinnar við Íraksbullið hafi verið réttur. Fyrst fór ég að hlæja þegar ég heyrði þetta, svo að gráta.

Þeir sem vissu ekki betur þá, þeir vita betur nú.
En nei - ekki Davíð. Ekki Halldór. Ekki Bush.
Oj bara.

Fallujah lyktar af rotnuðu fólki því ákváðum að fara og frelsa það.

föstudagur, nóvember 12, 2004

"Í næstu viku hefst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Bandaríska heimildarmyndin CONTROL ROOM verður þar meðal annars tekin til sýninga. Frumsýning er MIÐVIKUDAGINN 17. NÓVEMBER og er aðgangur ókeypis. Control Room hefur vakið athygli að undanförnu en hún tekur á fjölmiðlaumfjöllun um Íraksstríðið 2003, og varpar ljósi á ólíkar áherslur vestrænna, einkum bandarískra fjölmiðla, og arabísku fréttastöðvarinnar Al-Jazeera.

Eftir frumsýninguna fara fram pallborðsumræður um myndina. Þátttakendur í pallborðinu verða Karl Blöndal aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, Brynhildur Ólafsdóttir fréttamaður á Stöð 2, Sigríður Víðis Jónsdóttir sem heimsótti Al-Jazeera fréttastofuna í Katar og tók við þá viðtal, Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður, Davíð Logi Sigurðsson blaðamaður og Hjálmar Sveinsson útvarpsfréttamaður sem stýrir jafnframt umræðum."

---
Sum sé: Ókeypis bíósýning klukkan 19:30 á miðvikudag í næstu viku í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu. Pallborðsumræður eftir á. Búið klukkan 22:00.

Búin að sjá myndina og mæli með henni. Myndin og umræður um hana vekja upp vangaveltur um Íraksstríðið og það hvernig fjölmiðlar móta hugsunarhátt okkar.

Fjölmennum!!!!

Hér eru myndir sem ég tók í Katar.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Viðtal við mig í Fréttablaðinu í dag. Bls 22 í einhverju F2 fylgiriti innan í sjálfu blaðinu.

"Þetta er allt vitlaust haft eftir mér!" sagði ég og fletti blaðinu súr. Þetta lúkkaði vægast sagt illa.

Faðir minn hughreysti dóttur sína í gegnum síma. "Nei, þetta er alveg ljómandi Sigga mín. Svo er myndin af þér líka helmingi stærri en myndin af Þórólfi og þrisvar sinnum stærri en myndin af Davíð og Þorgerði Katrínu."

Ha ha. Það var huggun harmi gegn.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Manneskja dagsins er móðir mín. Ekki einungis er hún eldklár kokkur, talar reiprennandi þýsku, syngur og saumar og er hress og kát - heldur var hún að gefa út sína fyrstu bók sem lendir í kategóríunni "fullorðinsbækur".



Franskbrauð með sultu kom út þegar ég var sjö ára. Mér fannst þetta tvímælalaust langbesta bók sem skrifuð hafði verið og las hana sundur og saman bæði í handriti og kilju. Sautján árum síðar stígur mamma skrefið sem hún hafði hugsað um í allmörg ár, að gefa út bók fyrir fullorðna. Ég er stolt af móður minni fyrir að láta drauminn rætast.

"Elskan mín, af hverju að drífa sig svona að ákveða hvað maður ætlar að VERÐA? Ég var orðinn fertug þegar ég hætti að kenna og ákvað að verða rithöfundur," er heillaráð mömmu.

Kannski er Sólin sest að morgni besta bók hennar til þessa. Maður brosir og hlær og tárast allt í einu. Sólin hefur það allt.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

"Why do we kill people that kill other people, to prove that killing people is wrong?!" spurði maðurinn og hnyklaði alvarlegur brýr.

"Uuu.. so you don´t think weapons are the right way to fight a war against terrorism?" hikstaði ég og hvessti augun á bandaríska fánann.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Fyrir nákvæmlega ári síðan fór ég til húðsjúkdómasérfræðings í Delhi.
Konan hafði farið í framhaldsnám á Englandi, talaði súper ensku og skoðaði mig með öllum heimsins tólum og tækjum. Lýsti handlegginn á mér upp með einhverri furðulegri græju.

Reikningurinn hljóðaði upp á 300 rúpíur - 510 íslenskar krónur. Habbarasona.


Eftir læknisheimsóknina fór ég á McDonalds, þann illa stað þar sem serverað var allt nema kjöthamborgarar. Hindúar borða ekki nautakjöt. Bic Mac var víðsfjarri og ég kannaðist ekki við einn einasta borgara á matseðlinum. Ég gúffaði í mig McAloo Tikka sem var kartöfluborgari og kostaði 37 krónur.




Ári síðar ligg ég í bælinu og drekk kalda malt sem mér var færð. Það er svo gott þegar einhver hugsar svona vel um mann þegar maður er veikur.

Í þetta skiptið ætla ég ekki að fara til sérfræðings. Það yrði að minnsta kosti tíu sinnum dýrara en á Indlandi. Svo er ég líka að safna fyrir Afríkuferð, maður.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Ég verð tvítug á laugardag eftir tvær vikur. Já eða eitthvað svoleiðis. Vinir og vandamenn eru beðnir að taka daginn frá. Ráðgjafar mínír á sviði félags- og menningarmála eru að fara yfir stöðuna. Nánari upplýsingar síðar. Á þessari stundu er þó ljóst að LAUGARDAGINN 20. NÓVEMBER ER PARTÝ.

Ja há. 20. nóvember 1979 og frökenin kom í heiminn.
20 nóvember 1980 og stúlkan sturtaði afmælisköku yfir hausinn á sér og makaði kreminu framan í sig.
20. nóvember 1985 og stúlkan lék Rauðhettu í afmælissýningu fjölskyldunnar - pabbi var amman.
20. nóvember 1991 og afmælisbarnið fékk gullhring frá Sigríði Víðis eldri - hefur gengið með hann allar götur síðan.
20. nóvember 1996 og rúnturinn á Skaganum var tekinn með stæl og ákeyrslu á kyrrstæðan bíl á bílastæði.
20. nóvember 1998 og Sigríður drakk heitt kakó og söng norsku með sextíu Norðmönnum í lýðháskóla í Surnadal.
20. nóvember 1999 og Sigríður meig í saltan sjó í Bandaríkjunum - hvernig fer maður að því að verða tvítugur í landi þar sem áfengiskaup miðast við 21 árs aldur, arg?
20. nóvember 2003 og stúlkan var færð í sarí og haldin veisla af indverskri fjölskyldu sem hún hitti óvænt daginn áður.

20. nóvember 2004 - hvað gerist þá?

laugardagur, nóvember 06, 2004

Svartamyrkur, rigning og rok á Reykjanesbraut.

Hressandi.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004




Er það nema von að ég muni sakna þessarar elsku þegar ég flýg heim aftur?

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Kerry viðurkennti ósigur í Ohio fyrir klukkutíma. Þar með hefur Bush unnið forsetakosningarnar.

Ó já.

Ó já.

Þetta hefur verið æsispennandi nótt. Svefnlaus Sigríður hérna meginn. Klukkan tólf að mínum tíma, fimm að ykkar og ég nánast ósofin. Hef sjaldan litið jafnvel út.

RÚV hringir eftir klukkutíma. Sigríður ræðir úrslitin í Speglinum beint á eftir sex fréttum. Hvað var að gerast í Ohio í nótt? Hvað með vafaatkvæðin sem þetta snérist allt saman um?

Stay tuned, mú ha ha.

Jónsdóttirin verður í hádegisfréttum RÚV í dag.

Allt að gerast í Ohio. Úrslit ljós í flestum fylkjum en staðan óljós í Ohio. Vesen í uppsiglingu.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Mikil spenna vestan hafs - mikil spenna!

Við sitjum límd við skjáinn og límd við netið. Við Kristin fórum á kjörstað í dag og þurftum að bíða í 2 klukkustundir og 11 mínútur. Bush kom hingað í óvænta heimsókn í dag, frambjóðendur voru sem sé enn að reyna að smala atkvæðum. Rákumst ekki á Bússa en hittum fullt af kjósendum sem höfðu þurft að bíða lengi. Nú þremur tímum eftir að kjörstöðum lokaði er fólk enn í biðröð.

Morgunvaktin á RÚV hringir í mig í nótt. Ég verð í loftinu einhvern tímann á milli klukkan hálf átta og hálf níu að ykkar tíma í fyrramálið. Hægt er að hlusta á þáttinn á ruv.is og velja "vefupptökur" vinstra meginn á skjánum og síðan "rás 1". Til að hlusta á Sigríði Vigdísi (úps aðeins miskynnt) í Speglinum í gær er fylgt sömu leiðbeiningum en 2. nóvember valinn á dagatalinu...

Kjördagur í Bandaríkjunum. Brjáluð biðröð á kjörstað.

"Ja,svo ætlar Schwarzenegger víst að bjóða sig fram sem forsetaefni seinna meir," sagði heimamaður við mig um daginn og hristi höfuðið. "Guð minn góður, þá held ég að álit heimsbyggðarinnar færi nú fyrst. Forseti Bandaríkjanna er THE TERMINATOR."

Meira um það í þessari grein minni á Sellunni.

Spegillinn á eftir - frk. Sigríður Víðis Jónsdóttir talar frá Ohio.

Spegillinn er fréttatengdur þáttur á RÚV, 93.5.
Snilldar þáttur beint á eftir sex fréttum - sem sé á milli hálf sjö og sjö.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Sterkari heima fyrir - virt í heiminum. Kjósum Kerry og Edwards," blasir við á leið frá flugvellinum í Columbus, höfuðborg Ohio. Aftan á bíl glittir í límmiða: "Einhvers staðar í Texas hafa þorpsbúar týnt hálfvita!" Hjá húsum með stórum görðum standa skilti í röðum: "Bush og Cheney 2004". Við hraðbrautina blaktir bandaríski fáninn.

Meira um þetta í Mogganum í dag. Greinin mín var sett á miðopnu, við hlið leiðarans, ho ho.



Elísabet Edwards, eiginkona næsta varaforseta Bandaríkjanna (ó já, Kerry verður að vinna þetta!!!) á fundi sem ég fór á. Hún er þessi á sviðinu á miðri mynd...