fimmtudagur, júlí 28, 2005

"Gangið ekki út á götuna nema græna ljósið logi," stendur á göngubrautinni á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Hamrahlíðar.

Hvað gera Danir þegar gönguljósin hafa hreinlega verið fjarlægð í umferðarslaufuframkvæmdamaníunni miklu?

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Hvað gerir maður þegar maður vill koma út bíl sem er í rekstrarleigu og það gengur ekki neitt?

Þegar auglýsingin í Fréttablaðinu virkaði ekki og fjöldapóstur á vini og vinnufélaga ekki heldur?

Er hægt að auglýsa ókeypis á netinu eða einhvers staðar???

Þetta er VW Golf árgerð 2001 sem vantar foreldra fram í mars á næsta ári.
Kostar rétt yfir 20 þúsund á mánuði.

Verslunarráð hefur skilað drög að álitsgerð þar sem segir að ákvörðun um Verslunarmannahelgarútilegu verði tekin á morgun.

Veðurspáin verður sett í umhverfismat annað kvöld.

mánudagur, júlí 25, 2005

Áðan reyndi ég að taka strætó sem ekki var lengur til.

Er hægt að sofna standandi í heitri sturtu?
Líkurnar verða að minnsta kosti töluvert meiri eftir þriggja daga tjaldútilegu.

Getur lífið orðið betra en í fallegu skógarrjóðri í góðra vina hópi og það í stanslausri sól alla helgina?
Tæpast.

Óhóflegt snakkát, horfið eignarhald á mat og drykk, gítarspil, söngur, sundferð, íslensk glíma, útilegustemmning á KFC, sólbað, fótanudd og sögulegur varðeldur sem slökkva þurfti í, eru aðeins brot af þeim orðum sem nota mætti til að lýsa helginni.

Það eru líka dauðablanda, bananabrauð, Hringadróttinssaga í Þrastarskógi, kviksindi, Harry Potter, tyggjóát í orðsins fyllstu, fléttað hár, fótboltataktar, humar, dökkbláir útilegustólar, MSG, stíflaðar kransæðar, grillkjöt og hráar lærissneiðar úti í runna.

Kannski lýsir þó helginni best sólbakað andlit útklínt í sólarvörn, röku snakki og kryddi. Hver þarf gúrkur í fésið þegar hægt er að töfra fram lífrænan snakk-svita-sólarvarna-maska?

föstudagur, júlí 22, 2005

Um að gera að taka þetta alla leið, týna ekki einungis tjaldhælunum með tjaldinu heldur líka súlunum.

Um að gera að hafa átt tvö tjöld um ævina og þetta hafi orðið örlög þeirra beggja.
Tvö tjöld, tvær jarðarfarir.

100% árangur.

Ég geri allt 100%.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Hei, ég veit. Best að breyta og bæta, færa til stöðugildi, fara í útrás, búa til nýja miðla og finna upp á jafnsnjöllum starfsheitum og framkvæmdalegur forstöðumaður fréttasviðs.

Hvað gerir þú?
Ja, ég er framkvæmdalegur forstöðumaður fréttasviðs.

Ég þarf að punkta hjá mér að sækja um þessa stöðu.

Annars hefur verið ákveðið að ég byrji á að sækja um sem sendifröken í nýju sendiráði Íslands á Indlandi. Davíð hefur augljóslega hrist þessa stöðu fram með mig í huga.

Shalimar.
Einhverjir fleiri en ég sem kalla veitingastaðinn óafvitandi Halim Al?

Grænmetisréttur á Halim Al í góðum félagsskap er lovlí.
Og hví ekki að skella sér yfir á Kaffi Austurstræti eftir á? Stutt að fara.

Inni er sægur af fólki.
Háreysti við barinn.

- "Óli! Stella! Hættið þessu bæði tvö. Steinþegiði!"
Konan bak við barinn stjórnar með harðri hendi, grönn og útlifuð en einkennilega sjarmerandi. Óli og Stella hætta að rífast. Í bili.

Maður tekur dansspor. Lalli Johns birtist inn um dyrnar.

- "Góða kvöldið!" Lalli heilsar kumpánalega og klípur mig í síðuna.

- "Lalli ekki hræða stúlkurnar!"
Konan bak við barinn setur í brýrnar. Lalli hlýðir, brosir vinalega. Konan þurrkar borðið okkar.

- "Sorrý, það er dálítið klístrað."

Bjórglös sigla á borðið.
Yfir barnum stendur letrað: "Spending can seriously harm your wealth." Ha ha, magnað.

Glösin eru orðin tóm og það kemur í ljós að hjólið sem stendur læst fyrir utan er blautt. Við lítum til himins. Ekki hefur rignt.

Hefur einhver hellt bjór yfir það? Vatni? Pissaði einhver á gripinn?
Ég trúi þessu ekki upp á drykkjufélaga mína inni á staðnum.
´Etta hafa verið einhverjir vandræðaunglingar.

Hver djöfullinn. Ég held að einhver hafi raunverulega migið á hjólið.
Huggulegt.

Ekkert er fegurra en sumarkvöld í Reykjavík.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Samkvæmt nýrri breskri skýrslu hafa að meðaltali 34 óbreyttir borgarar fallið á hverjum degi í Írak síðan innrásin varð gerð í mars 2003.

Sko bara, þetta gátum við.

Ég þarf að punkta niður hjá mér gerast Sigríður Thor og kaupa mér einkaþotu fyrir einn milljarð.

Á Íslandi eru 2 sem bera nafnið Víðis – ég sjálf og Jón Víðis frændi minn.

Víðisarnir lentu á sömu blaðsíðu í Morgunblaðinu í dag, hlið við hlið.
Ha ha ha.

Víðis er í útrás, það er augljóst.

Baugur mæ es.
Víðaugur.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Bananar þurfa ekki annað en sjá töskur mínar og veski og þá svipta þeir sig lífi.
Sprengja sig í loft upp.
Þekja eigur mínar bananasafa og bananagumsi.
Reyna að myrða gemsann í gulu slími.
Sjálfsmorðsárás.
Tikkandi tímasprengja sem getur sprungið hvenær sem er í töskunni.
Ánægjuleg nestisstund breytist í óhugnað.

Eftirgrennslan mín hefur leitt í ljós að bananar hljóta að vera bæði múslímar og Pakistanar.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Okkur gæti verið rænt í nótt.

Grein í Mogganum í dag um stríðið í norðurhluta Úganda.
Frökenin skrifar frá dvöl sinni þar í lok apríl.

"Fyrir stríðið var ekki vannæring í Norður-Úganda. Þegar ég lærði til hjúkrunar höfðum við ekki dæmi eins og þetta," segir hjúkrunarfræðingur og kinkar kolli til mæðgna á nálægu sjúkrarúmi. Dóttirin er afar illa vannærð. Hvað ætli hún sé gömul? Örugglega ekki meira en eins og hálfs árs. Það kemur á daginn að hún er þriggja ára.
---

"Það er ekkert fyrir þig að óttast hér," segir starfsmaður gistiheimilisins míns og réttir mér handklæði og sápu. "Þú ert í miðjum bænum - uppreisnarmennirnir myndu aldrei koma hingað."
Ég kinka kolli. Ég veit að ég sjálf er örugg. Það er hins vegar furðulegt að hugsa um alla hina - sem búa á bæjarmörkunum örfáa kílómetra frá mér - og eru það ekki. Þeir gætu orðið fyrir árás í nótt.

---

"Þér finnst kannski skrýtið að við höfum öll flúið að heiman og hírumst í flóttamannabúðum. Sumir hafa búið þar í mörg ár. En hvað gerir maður þegar maður stendur frammi fyrir dauðanum eða einhverju þaðan af verra?"
---

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa lýst stöðunni í Norður-Úganda sem stærsta gleymda og afskipta neyðarástandinu í heiminum í dag.

Út að kaupa Sunnudagsmoggann og ekkert rugl.

föstudagur, júlí 15, 2005

Vegna flutninga Eika bró og familíu til útlanda stendur eðalbifreið í innkeyrslunni hjá foreldrum mínum. Hver vill búa henni gott heimili?

Til leigu svartur VW Golf, árg. 2001.
Leigist frá og með deginum í dag og þangað til 3. mars á næsta ári.
Leiga á mánuði er 22 þúsund krónur - smurning og þjónusta innifalin.
Inneign í km er 21 þúsund.
Tímabil leigu er frá 15.-14. hvers mánaðar.
SP fjármögnun sér um innheimtuna.
Ekki þarf að fara með gersemina í skoðun á tímabilinu.

Fyrstur kemur, fyrstur fær.
Hafið samband ef þið hafið áhuga eða einhverjir í kringum ykkur.
Tölvupóstur og s. 690 1175.

Á sama stað er óskað eftir ábendingum um hvern þann sem gaman gæti verið að taka viðtal við eða hvert það efni sem áhugavert væri að skoða. Hverjir í kringum ykkur eru að gera eitthvað sniðugt?

Einnig er auglýst eftir karlmanni á stefnumót og heimsfriði.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Eitt er að vera myrtur en annað að vera myrtur og steyptur.
Steyptur ofan í tunnu.

Náttla algjör steypa.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Miðvikudagsmogginn er laaaangskemmtilegastur.
Þá er Patrekur í blaðinu.
Hann skiptir miðvikudögunum með sjálfum sér.

Patrekur-sem-talar-upp-úr-svefni-hlær-og-öskrar á Viðhorf dagsins í dag.
Það er um ekkikalla.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær ekkikallar komu fyrst fram á sjónarsviðið hér á landi. Lítillega er fjallað um þá í Íslendingasögunum en augljóst er að þeir hafa verið í miklum minnihluta í samfélaginu.
...

Ekkikallar eru nú orðnir ríflega 30% af þjóðinni miðað við síðustu talningu sem ég gerði. T.d. eru þeir 30% af körlum á Alþingi og 30% viðmælenda fjölmiðla.
...

Það hefur lengi verið fullkomið jafnrétti á Íslandi. Mogginn benti m.a. á það árið 1926 í leiðara sínum. Ég var ekki til þá en ég veit að það sem stendur í Mogganum er ekkert rugl.

Ég borða matinn minn með bestu lyst.

Ég drekk vatnið mitt með bestu lyst.

En missi ég matinn ofan í vatnið mitt, verður vatnið á sama augnabliki ódrekkandi.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Á Íslandi eru ekki 10 eða 20 sem bera nafnið Sindri Snær, heldur 70.

Sigríður er þriðja algengasta kvenmannsnafnið í þjóðskrá.
Það er hins vegar einungis í 17. sæti yfir vinsælustu nöfnin sem valin eru á börn í dag.

Töluvert fleiri stúlkur eru í dag nefndar Aníta en Sigríður.

Ég minni á að það er hægt að nefna í höfuðið á mér.
Eða velja nafnið Sigríður Aníta.
Eða bara Saníta.

mánudagur, júlí 11, 2005

Vefsíðan mælir með viðtali við Auði Haralds í Tímariti Morgunblaðsins um helgina:

Ég var á óbeinum reykingum frá því í móðurkviði og þar til ég byrjaði sjálf. Ég hef oft hætt en alltaf byrjað aftur og sé enga ástæðu til að hætta fyrir fullt og allt. Ég er að reyna að fremja sjálfsmorð með kólesteróli og nikótíni og mér finnst það ganga fullhægt.

Auður fer í flokk uppáhaldsviðmælenda.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Til hvers að sjóða pulsur þegar hægt er að éta þær bara hráar og dýfa þeim ofan í rækjusalat?

Athyglisverðir réttir fæðast klukkan sex að morgni.

Þvottavélin étur sokka.
Eða nágranninn.
Eða sokkarnir leysast á einhvern dularfullan hátt upp inni í vélinni.
Eða þeir kasta sér í eitthvert furðulegt svarthol í þunglyndi yfir að hafa verið sokkar og ekkert annað en sokkar, stöðugt traðkað á þeim, nuddað fótsveppnum í þá, krafsað í þá með kartnöglinni.

Við pörun á sokkum heimilisins eftir seinasta þvott voru 13 stakir sokkar.

föstudagur, júlí 08, 2005

Sprengingar í London.
Ja há.

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Sé einhver að vandræðast með 4.000 krónur og veit ekki hvað við hann skuli gera, mælir vefsíðan með því að læsa sig úti og láta sérfræðing síðan brjótast inn til sín í eftirvinnu.

Skilyrði er að þetta gerist þegar sambýlingurinn er úti á landi, til dæmis étandi hundasúrur og hlaupandi um á milli þjóðarblóma og stórvirkra vinnuvéla á Kárahnjúkum.

Allir aukalyklar að heimilinu, þessir-sem-er-svo-sniðugt-að-foreldrar-og-vinir-í nálægum-húsum-geymi, liggi á kommóðunni við dyrnar.

Debetkortið svíki mann og maður þurfi að spyrja sérfræðinginn hvort ekki megi "bara leggja inn hjá honum, ha."

Maður sé ekki að lenda í þessu í fyrsta sinn.

---

Lalli lásasmiður: "Ert þú sú sem hringdi? Sigríður Víðis?"

Ég: "Jú, jú það passar. Ég bý hérna ásamt annarri stelpu."

Lalli: "Já, já. Af hverju stendur þá Patrekur á dyrunum? Hver er það?"

Ég: "Já, það er ég. Eða ég meina stelpan sem býr með mér, eða þú veist, sko, ha."

Lalli: "Nei, ég veit ekki."

Ég: "Nei, einmitt, sko (Sigga, þú ert auli). Við erum Patrekur, þú veist. Ég gaf henni dyraspjaldið í jólagjöf."

Lalli: "Patrekur? Jólagjöf?" (ertu rugluð?)

Ég: "Eða sko, þú veist, þetta er sko ferðafélag." (andskotinn, Sigga)

Lalli: "Ferðafélag?" (fáviti)

Ég: "Já, sko svona Patrekur. Ferðafélagið Patrekur. (Sigga, þetta hljómar fáranlega) Við hittumst óvænt á ferðalagi."

Lalli: "Ferðafélag, einmitt það já."

Ég: "Já, einmitt. Þess vegna stendur Patrekur á dyrunum. Í alvörunni ég bý hérna."

Viðhorf dagsins í Mogganum.

Ferðir mínar til Afríku vöktu önnur viðbrögð en ferðir til Asíu.
"Ertu vitlaus, stelpa, að vera að þvælast þetta?" spurði mig áhyggjufullur maður þegar ég hélt til Afríku í fyrra sinn fyrir nokkrum árum.

Fyrst gat ég ekki sett fingur á það í hverju hræðsla fólks nákvæmlega fólst en þegar ég leit dýpra í augu þess sá ég að þarna fór gamalkunna hugmyndin um Afríku sem samsafn ómennsku og örbirgðar, hræðilegra sjúkdóma og hrottalegra átaka.

Afríka var staðurinn þar sem hungurvofan sveif á milli vannærðra barna með útblásna maga – álfan þar sem flugur skriðu í andlitum heimamanna er hírðust undir brennandi sól. Í Afríku draup ekki smjör af hverju strái, heldur alnæmi af hverjum manni. Þar bar allt sama keim, þetta voru kofar, sjálfsþurftarbúskapur og mergð af munaðarlausum börnum. Afríka var holdgervingur hungurs, stríða og sjúkdóma.

Og já, í Afríku fann ég hungur. Ég fann malaríu, berkla og alnæmi. Ég fann hræðilega hluti. Ég fann hins vegar einnig fjarskalega margt annað. Afríka er fjölbreytt, ótrúlega fjölbreytt – enda ekki land heldur heil heimsálfa. Afríka er sú álfa í heiminum sem hefur flest tungumál og flesta þjóðflokka. Í Afríku búa hundruð milljóna, sem líta ólíkt út og eiga sér ólík áhugamál.

Meira á bls. 26.

mánudagur, júlí 04, 2005

Einu sinni voru stríð fyrst og fremst á milli landa.
Í dag eru langflest stríð í heiminum innanríkjaátök.

Einu sinni voru þeir sem dóu í stríðum fyrst og fremst hermenn.
Í dag er yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem láta lífið í átökum óbreyttir borgarar - börn, konur og karlar sem ekki voru í hermannabúningi og ekki beinir þátttakendur í stríðinu. Af þeim eru flestir börn.

Flestir sem láta lífið í átökum heimsins eru með öðrum orðum börn.

Auk þess verður sífellt algengara að börn beri vopn og séu beinir þátttakendur í stríði. Fjöldi léttra vopna sem börn geta borið hefur aukist gríðarlega.
Vesgú, hér er AK-47 byssa og þú ert orðinn hermaður.

Talið er að á móti hverjum tíu jarðarbúum sé ein byssa eða rifill.

Bent hefur verið á að á þriggja ára tímabili hafi Bandaríkin, Bretland og Frakkland grætt mun meira á vopnasölu sinni til þróunarlandanna heldur en það sem þau létu þeim í té í formi þróunaraðstoðar.

Hressandi að skrifa grein um börn í stríði svona á mánudegi.

sunnudagur, júlí 03, 2005

Um þessar mundir eru tíu ár frá fjöldamorðunum í Srebrenica í Bosníu. Á örfáum dögum voru yfir 8000 drengir og karlmenn myrtir. Þetta voru múslímar drepnir af Bosníu-Serbum.

Í fyrra tók ég viðtal í Bosníu við Evu E. Klonowski, réttarmannfræðing, sem er sérfræðingur í að bera kennsl á bein. Hún var tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels í seinustu viku, ein af þúsund konum, sem þykja hafa skarað fram úr í heiminum við að vinna að friði á einn eða annan hátt.

Ég rakst á hana af einskærri tilviljun í Bosníu í maí í fyrra og eyddi degi með henni í vörugeymslu ásamt löngu látnu fólki. Ég tók símaviðtal við hana fyrir Sunnudagsmoggann í dag í tilefni af því að tíu ár eru liðin frá Srebrenica hrottaskapnum.

Eva er enn í Bosníu að bera kennsl á líkamsleifar.
Mögnuð kona.
Fálkaorðan, já takk.

Þetta er úr greininni í fyrra:

"Líkamsleifarnar sem okkur eru að berast núna eru af fólki frá Srebrenica sem drepið var í stórri vörugeymslu. Serbar höfðu safnað þeim saman. Þeir opnuðu síðan dyrnar og dreifðu byssukúlum yfir hópinn. Eftir slátrunina óku þeir inn á staðinn með gröfu, skófluðu líkunum upp og sturtuðu þeim ofan í tvær stórar fjöldagrafir," segir Eva og gengur inn í bygginguna.

Við endann á stórum sal liggja tugir beinagrinda á pappírsdúkum á gólfinu. Margar eru ekki nema hálfar og varla það.

---

Á efri hæð hússins eru enn fleiri beinagrindur. Í loftinu er torkennileg lykt og samstarfsmaður Evu reynir að púsla saman hauskúpu. Af hverju eru svona margar hauskúpur illa brotnar?

Eva segir að menn hafi gjarnan verið skotnir í höfuðið. Hún stoppar við eina af beinagrindunum og bendir á hvernig viðkomandi hafi greinilega verið skotinn í höfuðið, far eftir kúlu á hauskúpunni sýni það. Hún segir hinn látna hafa verið skotinn mörgum sinnum, beinin hafi augljós kúluför.

"Þetta var drengur, augljóslega um 14-15 ára gamall," segir Eva döpur. Hún segir hluta beina hans hafa verið saman við bein annarra í skemmunni.

"Þetta er allt í einum graut. Það sem við erum með eru ekki heilar beinagrindur heldur brot og oft nokkur bein hér og nokkur þar. Sama manneskja getur verið í tveimur til þremur mismunandi gröfum. Eftir að tal um stríðsglæpi hófst urðu yfirvöld Serba í Bosníu hrædd og reyndu að hylma yfir glæpi sína. Hugsunin var "engin sönnunargögn - enginn glæpur". Farið var á stórvirkum vinnuvélum að mörgum fjöldagrafanna, þær opnaðar og innihaldinu dreift í aðrar minni grafir. Vélarnar skáru líkin oftar en ekki í sundur. Menn dreifðust þannig á marga staði. Flutningarnir gerðu enn erfiðara en ella að bera kennsl á þá. Ofan á allt bætist að sumum gröfum var ekki lokað almennilega. Dýr hafa nagað bein sem staðið hafa upp úr," segir Eva og horfir á beinagrindina af unglingspiltinum.

"Þessi drengur er dáinn en hann lifir enn í hjörtum foreldra sinna og systkina. Fyrir mig eru bein hans og fólksins hérna inni annað og miklu meira en það sem ég hef unnið með í fornleifarannsóknum hingað til. Ég álít það hreina og klára skyldu okkar að setja saman þær beinagrindur sem hægt er að setja saman. Við eigum að gera það af virðingu við hinn látna og ættingja hans. Verkið er erfitt en ef við höfum nógu mikla þolinmæði getum við gert ótrúlegustu hluti.

föstudagur, júlí 01, 2005

Allt að gerast.

Síminn ferskari en aldrei fyrr. Eins og nýr maður. Eða nýr sími.

Bandaríkjamenn endanlega búnir að fatta að Írak var rugl. Bush sögulega óvinsæll.

Kreditkortavelta íslenskra heimila búin að aukast um sjö milljarða á fyrstu fimm mánuðum ársins. 12,5% aukning síðan á sama tíma í fyrra. Ísland best í heimi.

Allir að pæla í Afríku og niðurfellingu skulda við fátækustu ríki heims. Athyglisvert.

Síðast en ekki síst:

Stúlkan búin að þróa hafragraut úr hrísgrjónum í morgunmat. Brúnum hrísgrjónum. Með sojamjólk, kanil og eplum.

Hvernig getur hafragrautur verið hrísgrjónagrautur?

Það er allt hægt á morgnanna þegar baugarnir ná niður á hæla, frökenin skjögrar fram í eldhús, opnar ísskápinn og byrjar óvart að elda sinn vanalega hafragraut úr gömlum brúnum hrísgrjónum sem leynast í ísskápnum.

Heiðurinn af þróunarvinnunni á tvímælalaust sambýliskonan sem talaði ekki bara upp úr svefni alla nóttina, heldur hló líka og öskraði. Hélt vöku fyrir Hlemmi og nágrenni, ha ha. Sjálf stefni ég á að skerpa enn frekar á hrotum mínum þannig að við náum niður á Lækjartorg.

Jæja já, best að finnast síðan ofsalega góð hugmynd að hoppa í strætó með skálina með sér og álpappír yfir gúmmilaðinu, vegna þess að maður náði ekki að borða það í tæka tíð.

Sitja síðan í strætó með slefuna út á kinn og spyrja sjálfan sig að því hvað í andskotanum maður sé að gera með bláa leirská fulla af heitum hafragraut, sem sé í raun hrísgrjónagrautur, í jevla strætó.