miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Fréttavaktin á NFS í morgun:
Vopnahlé í Úganda.

Hægt að horfa á Vísi velja VefTV, velja NFS undir liðnum "í beinni", finna Fréttavaktina, velja 30. ágúst, spóla ca. 10 mínútur fram í þáttinn (kl. 9.15) og horfa á stúlkuna. Flókið? Nei nei.


Ég var farin að óttast að geta aldrei skrifað þessa frétt, því ég óttaðist að vopnahlé myndi hreinlega aldrei nást. Á laugardag náðist sögulegt vopnahléssamkomulag í deilunni í Norður-Úganda:

Barnahermenn koma úr felum

Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Vopnahlé er hafið á milli stjórnarhers Úganda og skæruliða í Andspyrnuher Drottins sem haldið hafa uppi árásum á óbreytta borgara í Norður-Úganda í 20 ár. Vopnahléið tók gildi í gær og gefur tilefni til bjartsýni um að endanlegir friðarsamningar náist í átökum sem kostað hafa þúsundir lífið og sent hátt í tvær milljónir manna á flótta.

Jan Egeland sem samhæfir hjálparstarf hjá Sameinuðu þjóðunum fagnaði í gær vopnahléinu en hann og ýmis mannúðarsamtök hafa ítrekað lýst ástandinu í Norður-Úganda sem einum mestu hörmungum í heimi sem þó hafi verið látin algjörlega afskiptalaus.

Skæruliðar í Andspyrnuher Drottins hafa nú þrjár vikur til að koma úr fylgsnum sínum og safnast saman í búðir í Suður-Súdan, þar sem þeir munu njóta verndar suður-súdanska hersins.

Börn eru stór hluti hópsins, enda Andspyrnuherinn einna þekktastur fyrir barnahermennsku, að nema börn á brott og neyða þau til liðs við sig.

---

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir mig um átökin í Norður-Úganda: Barnastríðið sem gleymdist. Hér er niðurlagið í greininni:


Allir sem ég ræddi við í Norður-Úganda höfðu sögu að segja og hver einn og einasti hafði misst einhvern nákominn. Kona sá bróður sinn drepinn og karlmaður vaknaði um miðja nótt og heyrði bróður sinn og öll hans börn numin á brott. "Guð einn veit hvað í ósköpunum þau eru að gera núna eða hvort þau eru yfirhöfuð enn lifandi. Andskotans, helvítis. Mér ofbýður þetta," sagði hann.

Kvennahópur sat þögull og starði út í loftið. Í hverju hafði hann lent? Þungbúinn maður sagði mér að flóttamannabúðirnar væru eins og fangelsi en flóttafólk gæti ekki snúið aftur heim meðan liðsmenn Andspyrnuhersins gengju enn lausir. Á sjúkrahúsi voru vannærð börn og börn með margvíslega sjúkdóma. "Það er ekki hollt að hírast í flóttamannabúðum," hvíslaði hjúkrunarfræðingur.

Í norðrinu blöstu við yfirgefin þorp, land í órækt og hús sem brennd höfðu verið til ösku. Í flóttamannabúðunum stóð strákofi við strákofa, sums staðar svo þétt að þökin snertust.

Og svo voru það börnin. Börnin sem horfðu flóttalega í kringum sig og hvísluðu dauðskelkuð að þeim gæti verið rænt í nótt. Mörgum mánuðum síðar heyrði ég hvíslið ennþá og sá fyrir mér stúlkurnar sem ég hitti í Guscu-miðstöðinni. Í Guscu voru börn sem numin höfðu verið á brott en ákváðu að flýja frá Andspyrnuhernum - og tókst það. Sumar stúlknanna horfðu samanbitnar fram fyrir sig og héldu á kornabörnum. Hjálparstarfsmaðurinn Shanty Francis benti á að þeim hefði verið misþyrmt af herflokknum. "Og hvað heldurðu að gerist í framhaldinu? Nú, stúlkurnar verða óléttar. Þótt þær séu sjálfar varla komnar af barnsaldri," sagði hann.

Þegar myrkrið skall á í bænum Gulu streymdu átján þúsund börn inn til bæjarins; unglingar, lítil börn og smábörn. Börnin bjuggu í sveitunum en þorðu ekki að sofa þar um nætur. Af ótta við að vera drepin eða numin á brott gengu þau marga kílómetra í öryggið í bænum sem verndaður var af stjórnarhernum. Sum höfðu gert það svo árum skipti.

Í einu af næturskýlunum sem hjálparsamtök höfðu sett upp var líf og fjör. Hundruð barna sváfu í hverjum sal fyrir sig, stelpur saman og strákar á öðrum stað. Litli níu ára drengurinn sem kom ásamt yngri systur sinni í skýlið var feiminn en útskýrði að nokkrir liðsmenn Andspyrnuhersins hefðu gert árás nálægt heimili hans þremur nóttum fyrr. Drengurinn var logandi hræddur.

Á bekk sátu tvær stúlkur og tveir drengir sem sloppið höfðu frá Andspyrnuhernum. Þau hvesstu á mig augun. "Við þurfum bara að einbeita okkur að því núna að vera góðar manneskjur," hvíslaði 11 ára stúlka eftir langa þögn. Í morgunsólinni í Gulu sáust þúsundir smávaxinna fóta síðan trítla heim til sín á nýjan leik.

Ef vopnahléið sem hófst í gær heldur geta börnin sofið heima hjá sér næstu vikur. Og náist friðarsamningar geta börnin í Gulu sagt endanlega skilið við næturskýlin.

Ha ha ha ha, það er hægt að stilla tölvuna sína á annað tímabelti en það íslenska og kjósa Magna.

Í stað þess að vera tíu mínútur í ellefu um morgun er klukkan í tölvunni minni núna tíu mínútur í eitt um nótt í Hawaii - og ennþá opið fyrir atkvæðagreiðslu á rockstar.msn.com.

Magni hefur fengið mitt atkvæði.

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Bloggleysi.

Amm.

Vinna og meiri vinna, félagslíf og meira félagslíf.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Til hvers að missa af einum strætó þegar hægt er að missa af tveimur?

Tvöföld ánægja.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Pikknikk í Hljómskálagarðinum er snilld. Flippað fyrirbæri. Eitthvað nýtt og ferskt, annað og frumlegra en kraðakið á Austurvelli.

Snilld að borða nýbakað bakaríisbrauð og ost í grasinu úti í sólskininu.

Skoða Íslandskortið í Ráðhúsinu. Ókeypis og alltaf skemmtilegt.

Skjótast inn á Listasafn Íslands - ókeypis fram í lok september.

Rölta í kringum Tjörnina og virða fyrir sér mannlíf og andalíf. Hringja í lögguna því að í tjörninni marar fatnaður í hálfu kafi og stýri af hjóli stendur upp úr vatninu, frekar furðulegt. Enginn ofan í vatninu þó. Svo er líka ókeypis að hringja í Neyðarlínuna.

Skoða styttur í bænum, fuglaspjöld við Tjörnina og pæla í gömlum húsum - ókeypis.

Ganga svo aftur heim - einnig ókeypis.

Koma heim í bullandi gróða.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Strætó rennir upp að Smáralind.
Einn, tveir, út og eyða.

Vopnuð inneignarnótu frá því í desember 2005, merktri notist fyrir 11/09, halda tveir Íslendingar inn í verslunarrisann. Það er ekki seinna vænna að eyða tíu þúsund króna nótunni þar sem hún er að renna út og flutningar til útlanda auk þess fyrirhugaðir. Það þýðir ekki að sitja lengur aðgerðarlaus hjá þótt manni finnist Smáralind óhugnanlega erfiður staður.

Rápið um Lindina verður hálf óreglulegt. Það er eitthvað skrýtið við að vera með tíu þúsund kall í verslunarmiðstöð og geta eytt honum í hvað sem er. Nema reyndar matvöru og drykkjarvöru þar sem Bónus er ekki á staðnum og Ríkið neitar að taka við ávísuninni.

Ávísunin verður hálfstressandi - arg, í hvað á að eyða þessu? Hvað er skemmtilegast? Skynsamlegast? Bestu kaupin? Ó, ó, Íslendingarnir tveir í Smáralind eiga við velmegunarvandamál að stríða. Valið er svo mikið að þeir geta ekki valið.

Klukkan tifar.

Heyrðu, sko, einn, tveir og eyða.

Þremur tímum síðar setjast tveir, sveittir búðarráparar niður með troðinn poka. Þetta tókst. Rápararnir duttu niður á útsölu á karlmannsfötum.

Síminn hringir.
Símtal frá samstarfskonu á Morgunblaðinu.

- Ha, nei ávísunin frá Mogganum er ekkert að renna út.
- Jú, það stendur að hún renni út 11. september.
- 11. september?
- Já, það stendur 11/09 á henni.
- Já, en það er NÓVEMBER ÁRIÐ 2009.

Þögn.

- NÓVEMBER 2009?????

Jæja, já.

Stúlka lýkur símtalinu. "Sko það mátti alveg misskilja þetta fyrir ellefta september... ha..."

Síðan segir hún ískalt að það sé nú eins gott að ávísuninni hafi verið eytt núna en ekki eftir þrjú ár. Já, já. Árið 2009 hefði hún pottþétt verið týnd . Og 10.000 krónurnar auk þess einungis dugað fyrir kleinuhring og kókómjólk, ef fer sem horfir með tveggja stafa verðbólgu. Þetta vissu verslunareigendur og létu þær þess vegna gilda svona lengi.

Heim aftur með strætó.

Döööö.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

"Hér var viðlegubúnaður eins og hann lagði sig frá Rúmfatalagernum skilinn eftir. Krakkarnir einfaldlega löbbuðu út úr fjöldunum. Svefnpokar, tjöld, dýnur, föt og töskur voru skilin eftir í hrönnum," fullyrti sá sem rekur tjaldstæðið á Akureyri um umgengnina um Verslunarmannahelgina.

Ef ég myndi segja vinum mínum í Langtíburtistan frá því að sumir Íslendingar keyptu sér tjöld og svefnpoka sem þeir notuðu bara yfir eina og helgi og hentu svo af því að þeir nenntu ekki að taka dótið saman eða væri hreinlega bara sama, held ég að þeir myndu fara að hósta.
Hiksta.
Hlæja.
Gráta.
Hneykslast.
Kannski allt saman.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Umm... hvort ætla ég að borga British Airways 6.005 kr. fyrir að ferja mig til Bretlands, Iceland Express 15.250 kr. eða Icelandair 77.660 kr???

What? Ókei, þetta er Saga Business Class en bara aðra leið.

Ó, ég get bara ekki valið.

Vopnahlé, bara.

Jæja hversu mikil er nú eyðileggingin og hversu langan tíma tekur að byggja upp það sem brotið var niður á fáeinum vikum?

Sumt er auk þess ekki hægt að byggja upp.

Bréf frá kemur inn um lúguna, merkt Mrs. and Mr. Sigríður Víðis Jónsdóttir.

Töff.
Mjög töff.

Nema ef ég væri lesbía og langaði að taka konuna en ekki einhvern Mr. með mér í veisluna sem til er boðað. Eða bara taka vinkonu mína með eða mömmu eða einhvern vin eða pabba.

En Mr. Sigríður Víðis Jónsdóttir verður vitanlega á staðnum.

Ef reikningur fyrir þráðlaust net er 5000 krónur og netið hikstar síðan allt í einu og hóstar, og liggur inn á milli alveg niðri, í 10 daga, hvað gerir maður þá?

Hringir þrisvar í þjónustusímann 1414 og hlustar á leiðinleg lög meðan maður bíður eftir því að ná í gegn. Líkurnar á því að ná í gegn eru hverfandi. Arg.

Maður nær á endanum sambandi við netþjónustuna sem vissulega er tilbúin að gera allt til að hjálpa manni og tengja mann við hina og þessa servera þar sem sá sem maður er þegar tengdur við í hverfinu er víst eitthvað lélegur. Maður bíður engu að síður í hálftíma, jafnvel klukkutíma, í símanum meðan viðgerðin á sér stað. Sami leikur á sér síðan stað viku síðar. Vandamálið er ekki innanhúss hjá manni sjálfum heldur í kerfinu hjá fyrirtækinu, ákveðnir serverar í borginni eru lélegir.

Þjónustan sem maður er áskrifandi að virkar ekki sem skyldi en er á 10. degi vonandi komin í lag.

Og hvað svo?

Fyrirtækinu, sem nota bene er þjónustufyrirtæki, dettur ekki í hug að bjóða manni afslátt að fyrra bragði. Ha, afslátt?

Maður byrstir sig og segir að auðvitað eigi maður að fá afslátt eftir svona rugl. Annað verði ekki tekið í mál. Og auðvitað eigi manni að vera boðinn afsláttur - það er ekki eins og maður dæli ekki í fyrirtækið féi í gegnum gemsa og netið mánaðarlega. Þá er maður beðinn að hringja aftur eftir nokkra daga til að vera viss um að netið sé endanlega komið í lag og hægt sé að gera sér grein fyrir því hvað tímabil ruglsins var nákvæmlega langt, og ræða afslátt.

Og hvað vill maður þá gera í stöðunni og krefjast mikils afsláttar?

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Líkurnar á því að fólk álykti að maður sé útlendingur þegar maður húkkar far við þjóðvegi Íslands?

Yfirgnæfandi.

Stúlkan veit þó ekki hvort það er gott eða vont, sem sé upp á að næla sér í far.

Vinalegi tannlæknirinn sem bauð okkur far í bæinn eftir að hver bíllinn á fætur öðrum var búinn að þeysa framhjá við Bifröst og hreinlega gefa í þegar hann sá bakpoka og gítar, er maður vikunnar.

Tannsi kom til okkar á hvíta hestinum, umm eða jeppanum, og bjargaði deginum.

Nettengingin frá OgVodafone í húsinu við Laugaveg hefur verið slöpp upp á síðkastið.

Fréttir teknar yfir netið eiga það til að stoppa, hiksta og jafnvel frjósa alveg.

Áðan fraus mynd á tölvuskjánum. Sem væri ekki í frásögur færandi nema af því að þetta var mynd af skordýri. Skordýrinu SMJÖRBUBBA.

Smjörbubbi.

???

Athyglisvert.

Athyglisverðast var þó að undir myndinni var frosið nafnið á þeim sem rætt var við: Guðmundi Halldórssyni skordýrafræðingi.

Smjörgummi?

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Þrjú ár í námspásu og stúlkan hlakkar heil ósköp til að sökkva sér ofan í námsbækurnar.

Þroskamerki???
Amm.

Stúlkan er orðin svo þroskuð í launaða sumarfríinu sínu að hún nálgast ofþroskun. Hárgreiðslukona benti henni vinsamlega á í seinustu viku að hún væri með silfurgrátt hár sem stæði út úr hársverðinum. Átti hún að kippa því í burtu? Ha... uuuu.... Hvað meinarðu??
Og á Kárahnjúkum fékk hún í fyrsta skipti hvíta hrukku í brúnt andlit.

Þroskamerki.
Ofþroskamerki.

Stúlkan mun liggja yfir námsbókunum næsta vetur, lyktandi eins og ofþroskaður ostur.

School of Development Studies er ein deildanna við University of East Anglia í Norwich á Englandi. Development Studies eða þróunarfræði er þverfaglegt nám, blanda af hagfræði, stjórnmálafræði, mannfræði og fleiru, þar sem fókusinn er á þróunarlöndin.

The last thirty years have seen major changes in our understanding of social and economic change, transition and development. These are complex processes requiring considerable attention to the specifics of local situations and circumstances, to the role of various actors and agents in any particular context. But they are also processes which are situated in a system of global interconnections and influences. Because of this tension between the global and the local, they require subtle understanding of the interplay of social, cultural, political and economic variables.We can no longer assume that there are straightforward technical fixes which can be uniformly applied to problems of poverty, social disorder, exclusion, famine, disease and deprivation. At the beginning of the 21st century, we now face the challenge of putting these new insights to work in our consideration of policy, practice and academic reflection.

Einmitt.
Og þar sem áhrif átaka á líf og kjör manna eru sérstakt áhugaefni stúlkunnar, samhliða þróunarfræðum almennt, hljómar þetta hér náttúrlega óóóóhugnanlega spennandi:

The turbulence in world politics over the past two decades has shown that it is extremely difficult to meet international development targets in the economic, human, and social sectors in states experiencing endemic political instability, violent civil conflict, gross human rights abuses, and acute crises of governance.

Markmið námskeiðins Conflict, Peace and Security er einmitt:

To encourage and promote innovative and critical debate in order to understand the roots of violent conflict and to identify the range of forms of intervention available to reduce and resolve violent conflict and to promote peace, social justice and development.

Stúlkan mun taka þrjú námskeið fyrir jól og þrjú eftir jól.
Útskrift er í september að ári.
Námið hefst 25. september.

Vú hú.

Hressó.
Sunnudagskvöld.

Karlmaður fær auglýsingu í hendurnar.
Auglýsinum er dreift um á meðal gesta staðarins – rauðum miðum með mynd af fáklæddri konu á.

Looking for some hot fun?

Konan horfir ögrandi augnaráði í myndavélina og strýkur annarri hendi niður háls sér.

???

Jú, jú, þetta er „Kampavínsklúbburinn“ (hver í óóósköpunum fann upp á þessu orði???) Strawberries í Lækjargötu 6.

Coctail Bar
Go Go Dancers
VIP Room


Og ef það er ekki nóg reddast málin örugglega.
Konan með brjóstaskoruna aftan á miðanum lofar nefnilega að þú getir fengið:

Private Parties

Ha, nei, mig langar nú eiginlega bara í kaffi, takk.
Amm.

Netleysi og gsmsambandsleysi einkennir tilveru stúlkunnar þessa dagana.

Sambandslausar Landmannalaugar, sambandslaus sumarbústaður í Fnjóskadal og batterísleysi á Kárahnjúkum, voru mögnuð.

Myndir koma einhvern tímann.

Stúlkan kom í bæinn í gær til þess eins að pakka aftur ofan í tösku og fara upp í Borgarfjörð í fjóra daga.

Það tekur á að vera í sumarfrí.
Þetta er full vinna og ekkert minna.

Enda er þetta launað.
Skrambi gott.

Fóturinn er enn á stúlkunni og orðinn nánast eins og nýr.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Til hvers að fara í eina röntgenmyndatöku þegar hægt er að nýta ferðina og fara í tvær???

Hverjar eru líkurnar á því að hafa ekki farið í röntgen í 15 ár en misstíga sig svo hrottalega á leið í fyrirhugaða lungnaröntgenmyndatöku að maður þurfi einnig ristarmyndatöku???

Yfirgnæfandi þegar fröken Sigríður á í hlut. Ha ha ha. Það besta við stúlkuna er hvað hún kann að miða hlutina út. Hárnákvæmar tímasetningar, ó já, ó já. Spurning um að nýta ferðirnar sínar.

Gangstéttarbrún varð á sunnudagskvöldi skyndilega að hættulegum óvini - bjargi sem stúlkan féll fram af með stæl. Og óhljóðum.

Já, til hvers að fara á heilsugæsluna í Hlíðunum á mánudagsmorgni einungis til að ná í beiðni sem skrifuð hafði verið fyrir helgi út af lungnaröntgeni sem maður þarf út af mastersnámi í Bretlandi? Nei, það er alltof hversdagslegt. Um að gera að koma haltrandi inn, ná í beiðnina og biðja um lækni, ganga síðan út hálftíma síðar með tvær beiðnir til að fara með í röntgendeild Domus Medica; lungnabeiðnina og aðra til að tékka hvort maður sé nokkuð fótbrotinn.

Starfsfólkið í röntgeninu hló.

Ha, slasaðirðu þig eftir að fyrsta beiðnin var gerð og þurftir aðra????

Það er sem ég segi, hárnákvæmar tímasetningar eru aðalsmerki stúlkunnar. Líkurnar á því til dæmis að fyrsti maðurinn sem haltrandi kona mætir á heilsugæslunni sé bróðir hennar? Nógu miklar til að það gerist.

- Hææææ... Hvað ert þú að gera hér???
- Það er átján mánaða skoðun í dag.

Með í för er eins og hálfs árs gömul bróðurdóttir. Af þremur gestum á biðstofunni eru tveir skyldir stúlkunni.

- En hvað í ósköpunum ert þú að gera hér????!
- Haaaa.... ummm... ég datt fram af gangstéttarbrún.

Og myndatökurnar?
Gengu glimrandi.
Stúlkan er ekki fótbrotin.
Það hefði líka ekki verið nógu góð tímasetning...

Til hvers að eiga klaka í frystinum þegar hægt er að nota úldið, fryst hrefnukjöt sem kælingu á bólginn fót?

Og svo neita menn því að hvalveiðar hefjist á nýjan leik, ussu suss.

Hvalir eru augljóslega bjargvættar. Besti vinur mannsins. Lifandi sem dauðir. Ferskir sem úldnir.