mánudagur, janúar 29, 2007

Ef plast tekur 100 ár að eyðast eins og gjarnan er bent á munu óþarfa plastumbúðirnar, sem voru utan um plómurnar sem ég keypti í dag, vera enn til staðar á jörðinni löngu eftir að ég sjálf verð komin eitthvert allt annað.

Þær munu ekki vera endanlega úr sögunni fyrr en árið 2107.

Ætli grafreiturinn verði Kína?

Samkvæmt blöðum helgarinnar er útflutningur á rusli sá útflutningur til Kína sem er í mestri sókn hjá Bretum.

"Bought in Britain, dumped in China".

Fyrir stuttu var bent á það á BBC24 að meðalmanneskja í Bandaríkjunum losar jafnmikið af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á einum degi og meðalmanneskja í Tansaníu á sjö mánuðum.

Bendi sérstaklega á blogg Mörtu Mexíkófara.

sunnudagur, janúar 28, 2007


Þegar maður er asni í marga mánuði og merkir ljósmyndirnar sínar einungis með landi og dagssetningum en ekki staðarnöfnum eða ferðalýsingu, þá getur maður að minnsta kosti farið í leikinn: Hvað sá ég þennan dag fyrir þremur árum?



Búrma, 28. jan. 2004

föstudagur, janúar 26, 2007

Á þessum sama degi í Búrma fyrir þremur árum.


Vel hlaðinn bíll af fólki og vörum. Jeppi á Íslandi með einn farþega fær falleinkunn í þessu samhengi.



Í Búrma eru flestir búddistar og allt fullt af fallegum stúpum.
Krakkar með náttúrlegt tannaka-krem framan í sér, skraut og sóláburður í senn - snilldarfyrirbæri.
Aftur fær íslenski jeppinn falleinkunn.



Mig langar aftur til Búrma.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Hnattlíkan er snilldarfyrirbæri.
Hlutirnir fá hreinlega annað samhengi þegar undrið er virt fyrir sér.

Heimurinn hættir að vera flatur og allt í einu meikar meiri sens að velta fyrir sér hvernig mennirnir eru að fara með jörðina sína og hvernig sumir búa við skort en aðrir eiga svo mikla peninga að þeir eru orðnir leiðir á því að fara til Kanarí.

Þegar stúlkan verður orðin þróunarmálaráðherra ætlar hún að beita sér fyrir því að öll heimili landsins fái lítið hnattlíkan til að hafa heima í stofu. Hnattlíkan verða líka í öllum kennslustofum landsins.

mánudagur, janúar 22, 2007

- HÖLLU SEM FORMANN KSÍ -
Halla Gunnarsdóttir býður sig fram sem formann KSÍ.

Fótbolti hefur verið líf og yndi Höllu frá því að hún var 6 ára gömul og gekk í fyrsta sinn út á völl og spurði hvort hún mætti vera með. "Ég er hins vegar ekki afrekskona, heldur fyrst og fremst leikmaður með ástríðu fyrir leiknum," segir hún sjálf. Halla hefur lengi þjálfað börn og unglinga og ekki bara á Íslandi heldur líka í Tælandi og Rúmeníu.

Sjálf hafði ég lengi haft hálfgerðan ímugust á boltanum af því að ég var aldrei "nógu góð" og bjó auk þess í knattspyrnuveldinu Skaganum þar sem afreksmennska var það sem lífið snérist um. Þeir sem ekki voru góðir og tilbúnir að fórna sér algjörlega fyrir íþróttina gátu eiginlega bara gert eitthvað annað. Halla kenndi mér fótbolti væri ekki bara fyrir atvinnumenn og eftir að við byrjuðum að búa saman var ég allt í einu farin að gera allskyns knattspyrnuæfingar með fótboltafélagi sem hún stofnaði og áttaði mig á að ég hafði meira að segja gaman að því.

Halla er snillingur.

Í seinustu viku bauð Halla sig fram sem formann KSÍ. Hún benti á blaðamannafundi að oft hefði verið einblínt á afreksmennsku frekar en fótbolta fyrir alla og að kvennaboltanum hefði einnig oft verið lítið sinnt.
"Kvennalandsliðið, sem hefur staðið sig með sóma á alþjóðavettvangi, hefur fengið skammarlega lítinn stuðning. Meðan ástandið er svona hjá bestu knattspyrnukonum landsins er augljóst að ekki er vel hlúð að þeim sem yngri eru," sagði hún meðal annars á blaðamannafundi.
Í kjölfarið fór af stað töluverð umræða um stöðu kvennaknattspyrnunnar. Þremur dögum eftir að Halla bauð sig fram tilkynnti stjórn KSÍ að ákveðið hefði verið að jafna dagpeningagreiðslur til karla og kvenna sem keppa í fótbolta á vegum sambandsins. Áður fengu karlar meira.


Hvað gæti ekki gerst ef Halla næði kjöri?

Stuðningsmenn Höllu hafa opnað reikning til að standa straum af kostnaði við kosningabaráttuna, s.s. ferðalögum og símreikningnum. Reikningsnr. er: 0323-13-700581, kt. 0801812999.

Opnuð hefur verið vefsíðan http://www.halla-ksi.blog.is.

Yfir og út.

laugardagur, janúar 20, 2007

"Mér finnst íraska þjóðin skulda bandarísku þjóðinni mikið þakklæti. Það er vandamálið hérna í Bandaríkjunum. Menn velta fyrir sér hvort Írakar séu nógu þakklátir."

Þetta sagði Bush í viðtali í 60minutes fyrir skömmu, aðspurður hvort hann skuldaði Írökum afsökunarbeiðni fyrir það hvernig haldið hefði verið á málum.

Um þessi ummæli bendir Þórir Guðmunds réttilega á:

"En eftir lestur bókar Bobs Woodwards “State of Denial” kemur þetta svar forsetans við spurningu fréttamanns CBS ekki á óvart. Það veitir hins vegar sjaldgæfa innsýn í hugarheim forsetans. Bush er raunverulega hvumsa yfir því að Írakar skuli ekki vera þakklátir.

Bók Woodwards lýsir ákvarðanatöku í bandaríska stjórnkerfinu um innrásina og eftirmála hennar. Hún sýnir hvernig mistök eftir mistök má rekja til ákvarðana sem gengu gegn öllum ráðleggingum og rökhyggju. Innsæi forsetans, varaforsetans og varnarmálaráðherrans réði för.

Þannig ráku Bandaríkjamennn, þvert gegn ráðleggingum, alla félaga í Baath flokknum heim, líka kennarana sem urðu að tilheyra flokknum til að fá vinnu. Herinn var leystur upp með þeim afleiðingum að að reiðir og vel vopnaðir hermenn réðust gegn innrásarhernum.
...
Bók Woodwards sýnir fram á firringu á æðstu stöðum í Washington. Margir háttsettir embættismenn gerðu sér grein fyrir ástandinu í Írak og vissu hvaða mistök væri verið að gera. Forsetinn lifði í eigin hugarheimi og hafði ekki áhuga á að komast út fyrir hann.

Útsendarar Bandaríkjastjórnar sem komu heim frá Írak furðuðu sig á því að hann spurði ekki einu sinni spurninga. Hann virtist lítinn áhuga hafa á því sem þeir hefðu séð og reynt."

Pakistanski vinur minn sagði í gær að hann langaði að fara í ferðalag til Íran en myndi samt ekki gera það.

Af hverju ekki? spurði ég.

Nú, ég get ekkert verið með íranskan stimpil í passanum mínum, sagði hann.

Uuu.. af hverju ekki? spurði ég.

Ha ha, Pakistani með stimpil frá Íran, heldurðu að það lúkki vel þegar hann er að reyna að komast inn í vestræn lönd?! sagði hann og hló.

Hvað meinarðu, þú hefur nákvæmlega ekkert á samviskunni og ert með á skránni þinni að hafa fengið skólastyrk frá Bretum til að koma til Bretlands og ég veit ekki hvað og hvað, er ´etta ekki hystería í þér? spurði ég.

Sko, ef það er erfitt fyrir Pakistana með hreint vegabréf að komast til dæmis til Bretlands, fyrirgefðu en þá myndi Íransdvöl síður en svo gera málin auðveldari. Ímyndaðu þér manneskju í vegabréfaeftirlitinu með mitt útlit, pakistanskt vegabréf, hafandi dvalið á meðal "óvinarins" í Íran og í ofanálag búandi rétt hjá Afganistan!

Vinurinn hló enn hærra.
Svo kom strætó.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Þetta er náttúrlega ekkert nema tær snilld.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Þennan sama dag fyrir þremur árum urðu tvær ánægjulegar komur/endurkomur:

Pabbi kom með bakpoka til Tælands og slóst í för með mér.
Kristín Elísabet Steinsdóttir kom í heiminn.

Pabbi varð afi og ég varð föðursystir.
Afinn og föðursystirin fóru á tælenskan pöbb og fögnuðu endurfundum og nýju barni.

Nú er annað barn á leiðinni í USA og þrjú aðrar stúlkur komnar í fjölskylduna.
Húrra.

Afinn og amman þurfa að íhuga að kaupa sér rútu.

Til hvers ad missa hvita trefilinn sinn ofan i drullupoll og stiga ofan a hann thegar lika er haegt ad hella kaffi yfir hann?

Hver tharf lika hreinan trefil yfirhofud.

mánudagur, janúar 15, 2007

Hvað gerir maður á laugardagksvöldi þegar kæró er á Íslandi og maður hættir si svona við að halda partý?

Sest upp í sófa, hugsar til Eþíópíu og pælir í óvæntum atburðum sem átt hafa sér stað í Sómalíu upp á síðkastið.

Augljóslega.
Rakið dæmi.

Afraksturinn er í Mogganum í dag, erlendu síðunum.

föstudagur, janúar 12, 2007

Nýjasta útspilið í harmleiknum í Írak er að senda rúmlega 21.000 bandaríska hermenn þangað til viðbótar þeim yfir 150.000 bandarísku og bresku hermönnum sem þar eru fyrir.

Nú á að "ná" Bagdhad með aðgerð sem ég sá kallaða "The Way Forward" og álitin er vera "the last chance".

Bush ætlar ekki að setjast niður og ræða við Sýrland og Íran um ástandið í Írak og leiðir til úrbóta eins og "Iraq Study Group" (magnað nafn) lagði til - og Blair vildi. Bush ætlar ekki að túlka, eða að minnsta kosti bregðast við, tapinu í kosningunum í Bandaríkjunum um daginn sem að þjóðin hafi kosið gegn stefnunni í Írak og vilji herliðið heim. Nú er áætlunin þvert á móti að auka enn frekar í liðinu og senda 17.500 hermenn og sérfræðinga til Baghdad og 4000 til Anbar héraðs.

Þegar allt er að fara til andskotans í landi langt í burtu og Súnnítar og Sjítar berjast á banaspjótum í höfuðborginni Baghdad gæti mögulega hljómað vel að senda bara helling af viðbótar hermönnum til borgarinnar og ná henni úr höndum dauðasveita og morðingja. Þetta er hvort eð er allt í upplausn og skyndiaðgerð með þúsundum nýrra hermanna gæti kannski bara virkað. Enginn vill jú að "Operation Iraqi Freedom" hafi haft í för með sér að Írak hafi fallið saman og skipst upp í 3 ríki; ríki Súnníta, Sjíta og Kúrda - eða að hið bilaða mannfall haldi áfram; skv. upplýsingum UN eru um 3000 Írakar drepnir á mánuði.

Eftir að hafa dregið andann djúpt og hugsað málin örstutta stund gæti viðkomandi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að málin séu flóknari en þetta. Þótt einungis sé fókuserað á hvernig leysa megi núverandi tragedíu og ekki farið út í neina sálma um af hverju var ráðist inn til að byrja með og hvernig það var gert, vakna ýmsar spurningar:

Hvernig "nær" maður ákveðnu svæði, sbr. Baghdad? Hvað gerist svo? Hver er munurinn á að "ná" svæði og "halda" því - hvernig viðheldur maður friði sem raunar allt eins óvíst er að maður nái að koma á, sérstaklega þegar um er að ræða flókið sambland uppreisnarmanna Súnníta, hersveita Sjíta sem tengjast inn í írösku stjórnina, óhugnanlegra dauðasveita og glæpamanna? Og hvað gerist ef þeir sem á að berjast við og eru að myrða hvorn annan færa sig hreinlega eitthvert annað? Hvar enda átökin þá? Hvenær hefur "sigur" verið unninn? Bush lýsti því yfir 1. maí 2003 að "major combat operations" í Írak væru yfirstaðnar - síðan þá hefur verið barist í 3 og hálft ár.

Hvernig vinnur þetta nýja plan með rót vandamálanna? Og í eins mikla blindgötu og mál hafa þróast, hvernig er hægt að koma á sáttum á milli fylkinga í landinu? Varðandi þá sem ráðast fyrst og fremst á erlendu hermennina en ekki aðra Íraka - til að berjast gegn "hernáminu" - hvaða áhrif mun það hafa á aðgerðir þeirra að koma fyrir enn fleiri erlendum hermönnum? Og hvernig mun það koma við íraska forsætisráðherrann, Sjíta, þegar núna verður ráðist á hverfi Sjíta en ekki fókuserað fyrst og fremst á Súnníta?

Stúlkan veit ekki svörin.
Veit bara að framhaldsplanið virðist alltaf vanta.

Þetta er sápuóperan sem gleymdist alltaf að skrifa næsta þátt af.
Nei, harmleikurinn, hryllingsframhaldsþátturinn.

Breskir fjölmiðlar eru mjög skeptískir á Írak og breski herinn stefnir á að kalla herlið sitt heim í áföngum. Bent er á að "samvinnan" á milli Bandaríkjanna og Bretlands, bandalagið góða, hafi þróast út í einhliða ákvarðanatöku Bandaríkjanna. Blair hélt reyndar furðulega ræðu í dag þar sem hann minnti á að Bretar ættu ekki einungis að nota "soft power" á borð við friðargæslu, svona almennt - heldur vera "warfighters" eða eitthvað álíka. Ræðan hefði einhvern veginn hljómað betur með amerískum hreim.

Stúlkan hlakkar til að kafa djúpt ofan í þetta allt í námskeiðinu Conflict, Peace and Security sem hefst í næstu viku í skólanum. Ef hún væri ekki svona syfjuð núna myndi hún skrifa endaleysu um stríð og frið, átök og afleiðingar. Að svo stöddu ætlar hún að láta sér nægja að benda á að samkvæmt breskum fjölmiðlum er kostnaðurinn við nýju bandarísku hermennina og tilheyrandi "economic assistance to boozt the economy" 3,5 milljarðar breskra punda.

Það eru um 500 milljarðar íslenskra króna, bara fyrir þetta extra "boozt".

Öll íslensku fjárlögin er rúmlega 300 milljarðar.
Yfir og út.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Mosaic er vefsíða þar sem reglulegir vídeópistlar birtast um hin og þessi málefni Miðausturlanda - teknir saman af fólki sem býr á svæðinu og er þaðan.

Virðist vera ágæt tilbreyting frá pistlum og fréttum (hvítra karlkyns..) AP/Reuters/BBC/CNN Vesturlandabúa. Hver pistill er ca. 4-5 mín, sem sé einfalt og fljótlegt að horfa á. Þótt þetta virki dálítið heimagert hafa bandarískir fjölmiðlar greinilega tekið eftir þessu.

Skv. síðunni skrifar Los Angeles Times til dæmis: “Arab news roundup gives U.S. insight into ‘them’…by providing as much unfiltered information as possible on what viewers in the Mideast are exposed to every day.”

Þetta er tekið af síðunni hennar Sóleyjar:

"Ég hef áður birt hér skilgreiningu á femínisma. Femínisti er sá eða sú sem áttar sig á að jafnrétti kynjanna er ekki til staðar í samfélaginu og vill gera eitthvað í því. Á Íslandi er staðan svona í upphafi árs 2007:

Alþingi
23 konur og 40 karlar (stefnir í færri konur í vor)

Ríkisstjórnin
4 konur og 8 karlar

Hæstiréttur
2 konur og 7 karlar

100 stærstu fyrirtæki landsins
Stjórnarformenn
5 konur - 95 karlar

Stjórnarsæti
51 kona 434 karlar

Einkynja stjórnir
55 kvenmannslausar - 0 karlmannslausar

Myndirðu segja að þú værir femínisti í ljósi þessara upplýsinga?"

Ó þú litli heimur.

Ekki einungis dormaði stúlkan á bekk í Keflavíkurflugstöð og vaknaði við að gamall skólafélagi sat á sama bekk, heldur gekk náfrænka hennar hjá skömmu síðar. Í vélinni var síðan kunnuglegt andlit sem sat við hliðina á enn kunnuglegri manneskju, nefnilega kórvinkonu stúlkunnar.

Það þýðir ekki að ætla að smygla sér grautmygluð úr landi, ótannburstuð með bauga, í blettóttum buxum því það var svo snemma morguns og í sykursjokki, án þess að nokkur sjái.

Á Stansted velli rakst stúlkan síðan ekki einungis á bekkjarsystur úr skólanum heldur einnig prófessor með sína fjölskyldu.

Það er ákveðin huggun í því að prófessorinn var einnig í blettóttum fötum.

Norwich á nýjan leik.
Jólin búin.

Hendurnar skjálfa samt enn eftir allt sykurátið.

Nú er að byrja að pæla í lokaverkefninu áður en skólinn byrjar í næstu viku. Fyrst samt að ná sér eftir sykursjokkið. Mér telst til að ég hafi borðað ís átta kvöld í röð.

Nágranninn var búinn að gera við ruslaskápinn minn þegar ég kom aftur. Hafði líka passað að allur póstur færi örugglega inn um lúguna, "so people wouldn´t notice that nobody was around".

Svo brosti hann svo breitt að ég hélt að hann myndi fara úr kjálkalið. "I made sure that nothing happened to the apartment!"