sunnudagur, apríl 29, 2007

"If policymakers had asked before going into Iraq who would maintain law and order, how quickly could local police and military maintain the peace, how would local governance be established, or what would be the source of creating jobs—and found that they had few answers—then perhaps the whole mission would have been radically reassessed."

Carlos Pascual, Vice President of the Brookings Institution, former Coordinator for Stabilization and Reconstruction, U.S. Department of State

Jæja, já.

Tíundu og seinustu ritgerðinni var skilað klukkan eitt á miðvikudag.

Núna er próflestur.
Lokapróf 8. maí.

Hvernig les maður upp þrjú námskeið í einu og á einni og hálfri viku?

Conflict, Peace and Security
Governance, Democracy and Development
Development Perspectives


Þetta verður athyglisvert.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Bloggleysi. Ritgerðaskrif.

Seinasti skóladagurinn á morgun.
Frestur fyrir seinustu ritgerðina rennur út á slaginu þrjú.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Fyrsta frétt í allan gærdag á BBC24 var eftirfarandi:

Prince William og kærasta hans Kate Middleton eru hætt saman.

Humm.

Uuuu.. ókei.

Spekingar mættu í sjónvarpssal og ræddu þetta alvarlega og augljóslega stórmerkilega mál. "Those are two young people that have grown from each other," sagði einhver spekingurinn. Það þarf augljóslega "sérfræðing" til að fullyrða slíkt.

Í aðalfréttatíma BBC1 í gærkvöldi var skipt yfir til Royal Correspondent þeirra (athyglisverður titill - maður gæti kannski orðið Bessastadir´s Correspondent heima) sem var mikið niðri fyrir í beinni útsendingu frá Buckhingham.

Það ætti víst ekki að koma neinum á óvart að öll dagblöðin - og þau eru ekki fá í Bretlandi - voru með sambandsslitin á forsíðunni hjá sér.

Maður er náttúrlega búinn að vera grátbólginn síðan maður frétti af ´essu.

fimmtudagur, apríl 12, 2007

Partur II.

Páskadagur.

Best að borða páskaeggið þótt íbúðin líti út eins og svínastía. Fyrst að borða páskaegg, svo þrífa. Maður verður að kunna að forgangsraða.

Um að gera að fara út í sólina með páskaeggið og borða það úti í grasi til að þurfa ekki að horfast í augu við syndir næturinnar.

Belgíska páskaeggið er í fyrirferðamiklum umbúðum.
Eins og öll páskeggin hérna.
Lítil páskaegg í risastórum kössum.
Umbúðasamfélagið í hnotskurn.

Stórfyrirtækin í essinu sínu:
Má bjóða þér Snickersegg? Marsegg? Smartiesegg? Galaxyegg? Cadburyegg? Quality Street egg? Kit Kat egg? Nestléegg?
(ekki það að Nestlé eigi ekki öll hin vörumerkin)

Nói Siríus er alls fjarri. Bara umbúðir og stórfyrirtæki. Allar verslanir opnar á Föstudaginn langa. Margar á Páskadag sömuleiðis.

Belgíska súkkulaðieggið reynist galtómt að innan. Inni í umbúðum dauðans er hins vegar lítill konfektkassi. Enginn málsháttur þetta árið en belgískt konfekt í staðinn.

Sólin skín, fuglarnir syngja og laufin á trjánum stækka og grænka fyrir framan augunum á okkur.

Gleðilega páska elskan.

Til hvers að þrífa íbúðina sína einu sinni þegar hægt er að þrífa hana tvisvar sömu helgi?

Páskapartýið var sérlega hresst. Úttaugaðir samstúdentar mínir helltu í sig áfengi í von um að gleyma ritgerðaskrifum um stund.

Líter af pólskum vodka kláraðist, heil flaska af bresku gini, nánast heill líter af íslensku Brennivíni, flaska af léttvíni, margar flöskur af léttvíni, enn fleiri flöskur af léttvíni.

Þegar við vöknuðum næsta morgun, sum sé á Páskadag, leit íbúðin sem við höfðum þrifið samviskusamlega fyrir partýið - og í tilefni páskanna - út eins og harðsvíraðasta bæli.

Gleðilega páska elskan.

mánudagur, apríl 09, 2007

Iraq Index er fróðleg lesning.

Af 3,228 bandarískum hermönnum sem látist hafa í Írak eru 1735 undir 24 ára.

Það eru 53,7%.

974 voru yngri en 22 ára.

Í Írak geisar nú borgarastyrjöld og öryggi saklausra borgara er stefnt í hættu vegna rangra og ábyrgðarlausra ákvarðana valdamesta ríkis heims, sem fer fram í nafni lýðræðis og mannréttinda.

Úr leiðara Morgunblaðsins sunnudaginn 8. apríl

þriðjudagur, apríl 03, 2007

Um helgina heimsóttu Norðvíkingar Brightonbúa, aka Andrési og Rúnu. Brighton er klukkutíma frá London. Við erum tvo tíma frá London í hina áttina.

Brighton rústaði Norwich í flokkunum kúl og trendí. Enda er líka strönd í Brighton.

Brighton er bóhemíski staðurinn, þar sem manni finnst að maður gæti leyst heimsmálin svo sem snöggvast. Í millitíðinni hefði hugsunin hins vegar getað truflast við breska frelsaða unglinga í víðum búddabuxum með dreadlocks, að dansa berfættir í sandinum. Með hippaglampa í augum og hassský allt umkring. Eða æfa bardagaíþróttir berir að ofan "í eigin heimi", en úps svona "óvart" fyrir framan alla.

Norðvíkingum fannst sunnudagssteikin í Brighton góð og útsýnið fjarska fallegt - en hins vegar heldur vanta af vanabundnum rónum og heimilislausu fólki á götunum.

Nágranninn flaug um daginn niður tröppurnar fyrir utan húsin okkar. Hann var fullur. Eins og félagi hann benti síðar á, og var ljóst frá fyrstu viku okkar á svæðinu þegar hann bankaði rúllandi fullur upp á: "He bloody drinks too much".

Maðurinn endaði þrílærbrotinn á sjúkrahúsi og hefur ekki sést síðan 11. mars, sum sé á afmælisdaginn sinn. "He bloody want forget this birthday," benti vinur hans réttilega á.

Fyrir nokkrum árum keyrði bíll á nágrannann og hann fótbrotnaði. Löppin styttist við það um 5 sentimetra og gamli maðurinn hefur haltrað síðan.

Núna er hinum fætinum haldið saman með vírum. A Russell stræti 50 velta menn fyrir sér hvort umræddur fótur muni ef til vill styttast um svo sem nokkra sentimetra við þetta og maðurinn geti hætt að haltra. Félaginn verður þá svo sem 5 sentimetrum styttri en áður og var lítill fyrir.

Það verður gott að fá Malcolm nágranna aftur, fullan eða þunnan, haltrandi eða óvenju lágvaxinn. Það vantar hreinlega eitthvað í hverfið meðan maðurinn húkir á sjúkrahúsi.

Það er ekkert grín að ætla að fara út í búð og kaupa ókynjuð barnaföt.
Við erum ekki einu sinni að tala um föt fyrir táninga, heldur ungbarnaföt.

Stúlkan var á barmi yfirliðs í verslun í gær að reyna að sigta út eitthvað sem ekki var hryllilega kynjað eða kallalegt, og það fyrir nýfæddan dreng.

Rautt, gult, grænt, appelsínugult, fjólublátt og brúnt var borið yfirliði af vemmilegum bleikum kjólum og bláum skyrtur með myndum af traktorum, skopparabuxum eða karlalegum vestum.

mánudagur, apríl 02, 2007

Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær verður hlegið að auðkennislyklunum sem bankarnir ákváðu að þröngva upp á landann - glott í kampinn yfir vitleysunni meðan tekin eru dæmi um aðrar stórkostlegar uppfinningar sem breyta áttu lífinu og tilverunni en enduðu ýmist í geymslunni eða á haugunum: Fótanuddtækin, faxtækin, símboðarnir.

Hvenær hef ég mesta þörf fyrir heimabankannn minn?
Þegar ég er ekki heima hjá mér og nálægt næsta banka - til dæmis á ferðalögum.

Hvenær er ólíklegast að ég nenni að dröslast með einhvern asnalegan, sérstakan lykil (sem passar ekki einu sinni vel í vasa) frá bönkunum til að geta skráð mig inn í bankann?

Á ferðalögum.