sunnudagur, nóvember 30, 2008

Í gær fór ég í útgáfuteiti, pastaveislu og partý.

Í partýi númer þrjú voru 11 manns - hitt og þetta skemmtilegt fólk.

Þar af voru 6 atvinnulausir - sum sé meirihlutinn.

Velkomin til nýja Íslands.

föstudagur, nóvember 28, 2008



Hvar er Valli?

Pabbi sendi mér þessa mynd.
Í dag er kreppulausi dagurinn.
Á þessum föstudegi í lok nóvember finnst mér jafnskrýtið að aldarfjórðungur sé síðan þessi mynd var tekin og að Ísland hafi hrunið og allir embættismennirnir sitji enn. Hvorugt registrerar í kollinum á mér.

Skrýtnast af öllu þykir mér þó - og það finnst mér í alvörunni afar undarlegt - að þarna er ég yngri en snillingarnir Snæfríður Eva Eiríksdóttir og Kristín Elísabet Steinsdóttir eru í dag.

Eiki er fimm ára á myndinni, mútter 35 ára, ætli þetta sé ekki olnboginn á Steina sem sést í þarna hægra megin. Vinstra megin eru Jonni og Kalli frændi. Yfir og út, góða helgi, sjáumst á Austurvelli á morgun.

fimmtudagur, nóvember 27, 2008

Þegar maður verður hissa á því að lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum feli í raun í sér alvöru peninga, sum sé svona pappírspeninga sem hægt er að hafa í hendi og telja og raða upp í bunka - og var einhvern veginn viss um að þetta hlyti heldur að vera svona tala á tölvuskjá virkjuð með enter-takkanum í einhverju koffínfylltu bakherbergi - er maður þá ekki kominn pínu langt frá raunveruleikanum?

- Já, hvað segirðu, eru þetta að öllum líkindum alvöru peningar sem við fáum?

Peningar höfðu hætt að vera alvöru.

Sem er kannski það alvarlegasta af öllu.

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Borgarafundurinn á mánudag:

SVJ: Mig langar að spyrja Geir og Ingibjörgu: Teljið þið ykkur bera einhverja ábyrgð á því sem gerðist? Og ef svo er, í hverju felst hún?

Fundarstjóri: Geir, ertu til í að svara þessu? Og Ingibjörg, eldsnöggt bara.

Geir: (byrjar á að kommentera á aðra spurningu). Auðvitað bera allir einhverja ábyrgð í þessu máli. En við munum setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd sem mun komast að því nákvæmlega (kliður í salnum og púað...), hver ber hvaða ábyrgð, já, þið... hver ber hvaða ábyrgð í þessu máli, aðdragandi málsisns, orsakir þess sem gerðist, hvað fór úrskeiðis. Við munum bara komast að því, hvort sem fundarmönnum hér í kvöld líkar það betur eða verr. Við munum komast að því!

Fundarstjóri: Fyrirgefðu Geir, má ég spyrja þig aftur, þú segir alltaf „það bera allir ábyrgð“- þú varst spurður að því hvort þú bærir ábyrgð.

Geir: Ég mun ekki skorast undan neinni ábyrgð þegar þessi skýrsla kemur fram, það er alveg af og frá.

Fundarstjóri: Takk. Ingibjörg.

Ingibjörg: Já, ég get bara svarað því, ég ber eflaust einhverja ábyrgð í þessu máli og kannski er höfuðábyrgðin sú að hafa ekki gengið harðar eftir því að það væru byggðar hér upp öflugar varnir fyrir íslenska fjármálakerfið á þeim sextán mánuðum sem ég var í ríkisstjórn.

...

Geir fær stóran mínus hjá spyrjanda fyrir ábyrgðardreifinguna og að hann skuli ekki sjá neinn flöt á því hvar hans eigin ábyrgð gæti mögulega legið - hann muni bara gangast við henni verði hún sönnuð á hann.

Ingibjörg fær stóran plús fyrir að viðurkenna ábyrgð og að hún hefði getað gengið harðar fram á mánuðunum sextán fyrir hrunið. Mogginn fær stóran plús fyrir að taka þetta og borgarafundinn upp á forsíðu og síðu tvö.

föstudagur, nóvember 21, 2008

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Ef einhver á prentara sem hann vill losna við eða selja ódýrt skal ég taka við honum. Sama með blandara, handþeytara og hátalara. Ég hef bara ekki metnað í að eignast svoleiðis spánnýtt úr búðinni. Einhvern tímann átti ég líka eitthvað af þessu en Allah einn veit hvar það er niðurkomið.

sunnudagur, nóvember 16, 2008

Af hverju er undantekningarlaust fyrst tilkynnt um leikkonu ársins og síðan leikara ársins?

Mér finnst alveg að leikkona ársins gæti stundum fengið að vera á eftir leikmanni ársins. Enda eru þetta álitin ein aðalverðlaunin.

Edda mín, þú hefur þetta á bak við eyrað.

föstudagur, nóvember 14, 2008

Guðminngóður talandi um fráhvarfseinkenni. Dúndrandi kaffileysishöfuðverk. Annan morguninn í röð. Spurning um að drulla sér út í búð og kaupa kaffi og málið er dautt.

Það súra er að ég er nýbúin að fara út í Kaffitár og kaupa rándýrt koffínlaust kaffi sem er svona líka ljómandi fínt á bragðið, voða kaffilegt og kósý og alveg upplagt að drekka seinnipartinn og á kvöldin eða þegar maður er orðin öll lurkum lamin af koffíni.

Núna horfir dýra koffínlausa djásnið á mig á eldhúsbekknum og ég þrái ekkert heitara en að það sé stútfullt af koffíni. Baaaaa.

Í gær öðlaðist ég annars nýja trú á mannkyninu. Grunnskólakrakkar og kennarar á Skaga hafa unnið kraftaverk og sett upp frumsaminn söngleik í fullri lengd. Og gefið út geisladisk með lögunum. Nemendurnir syngja og leika og dansa og sjá um ljósin og farða og sjá um leikmynd og miðsölu og allt en eru samt bara 13-16 ára. Þau voru sjá jákvæð og kraftmikil og frábær að allt krepputal fór út í veður og vind.

Það ættu allir að fara upp á Skaga og sjá Vítahring. Aukasýningar um helgina vegna dúndrandi aðsóknar.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008



Endilega komið á markaðinn sem við höldum á laugardaginn í Hamraborg í Kópavogi!

Vörur á góðu verði, allir gefa vinnuna sína, allur ágóði fer til styrktar Rauða krossinum í Mósambík, snilldardæmi.

Þarna verður meðal annars hægt að kaupa ódýrar töskur og skálar og skart og alls konar fínerí sem starfsmaður Rauða krossins í Mósambík keypti fyrir okkur og við komum hingað til lands, ú je.

mánudagur, nóvember 10, 2008

Eitt það flóknasta verk sem mér er falið er að fara á pósthús með bréf.

Ég skal fara til Kongó á morgun, nó prób, en bara ekki fela mér það að fara á pósthús á Krísulandi.

Til dæmis í dag, ég þurfti að fara á pósthús með reikning fyrir fyrirlestur sem ég hélt í seinustu viku.

Sorrý en þetta eru bara of mörg skref til að ég nenni að taka þau öll: Finna prentara sem virkar, prenta út blaðið, leita að heimilisfanginu, skrifa það niður, koma sér á pósthúsið, kaupa umslag, skrifa heimilisfangið á umslagið, taka númer og bíða í röð.

Á pósthúsinu í dag ákvað ég að leika gamla leikinn að kaupa frímerki sem-er-svo-ógó-gott-að-eiga-nema-að-ég-er-alltaf-búin-að-týna-þeim-þegar-ég-þarf-að-nota-þau. Fyrst hafði ég staðið í afgreiðslunni og reynt að sannfæra sjálfa mig um að það væri í raun mjög vond hugmynd að birgja sig upp af frímerkjum. Enda verðbólgutímar og póstgjöldin bara búin að hækka næst þegar ég myndi dröslast út í póstkassa. Og ég þyrfti þá hvort eð er að fara út á pósthús að kaupa frímerkið sem vantaði upp á, ikke?

- Nei, nei, núna erum við með frímerki sem á stendur einfaldlega "20 grömm"!
- Ha?
- Já, mjög sniðugt!

Sum sé: Verðið er farið af frímerkjunum. Þau eru bara merkt 20 grömm. Sem er svona venjulegt umslag.

Ergo: Allir út í búð núna að birgja sig upp af frímerkjum fyrir næstu fimm ár og ná þeim á verði dagsins í dag. Overandát.

Bendi á að neyðarsjóður ABC Barnahjálpar í Kenía er þurrausinn.

Með öðrum orðum, hætt hefur þurft hjálp við sum barnanna þar.
Ergo: algjör óvissa ríkir um framtíð þeirra.

Þeir sem vilja gefa í neyðarsjóðinn geta lagt inn á reikning 1155-15-41411.
Kt.6906881589.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Ísland! Farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?

Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
...
Þá riðu hetjur um héruð og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
...
Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?


Nei, maður spyr sig bara svona.
Allt er í heiminum hverfult.

Ef ég mun ekki skrifa hana einhvern tímann í framtíðinni þá mun ég allavega brenna hana í huga mér söguna af breska blaðamanninum sem kom til Íslands til að skrifa um Ísland fyrir eitt aðaltímarit Bretlands. Þetta verður nokkra blaðsíðna saga, hjá honum sum sé, en hann var hér þó einungis í einn og hálfan sólarhring því hann fékk ekki meiri tíma frá blaðinu.

Þessum örfáu klukkutímum eyddu hann og ljósmyndarinn meðal annars í að versla veiðivörur. Og hestavörur. Og taka myndir af blaðamanninum/pistlahöfundinum sem hefur það sem sína óskráðu vinnureglu að tala helst ekki við fólk. Hann fylgist sko bara með því, "senses the place". En fer samt ekkert endilega út úr bílnum.

Ég var aðstoðarmaður og ég er enn að bíða eftir að einhver segi mér að þetta hafi allt bara verið djók hjá þessu annars indæla og áhugaverða fólki. Tekin hjá Audda. Taken hjá BBC, eikkva svona, aaaah, góða helgi.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Á kosningavökunni mátti kjósa.

Barack Obama hlaut yfirburðakosningu.
85%.
McCain 7%.

Í Ohio kaus Steini með alvöru kjörseðli.

Í Bandaríkjunum kusu fleiri en nokkru sinni fyrr í forsetakosningum.

Í Reykjavík felldi fröken Víðis tár yfir vinningsræðu Obama.

Í dag er góður dagur.

mánudagur, nóvember 03, 2008


Steini bróðir fór og sá Obama í gær og smellti af þessari mynd. Enda býr hann í Columbus, Ohio, sem er iðulega svona um það bil mest spennandi staður til að vera á í forsetakosningum þar vestra. Aldrei nokkurn tímann hefur frambjóðandi sigrað á landsvísu og orðið forseti Bandaríkjanna án þess að vinna Ohio.

Maðurinn á miðri myndinni er bróðir minn. Nei bíddu það er Obama. Jæja.

Steini má kjósa í fyrsta sinn í Bandaríkjunum í ár. Við Eiki bró ætlum aftur á móti að smella okkur í móttöku hjá bandaríska sendiráðinu að kvöldi kjördags, til að fylgjast með þeim sem Steini kaus innsigla sigur sinn. Plís, plís, plís.