miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Vorið í Norwich er um það bil að koma og það á undan vetrinum.

Tréin eru farin að laufgast þótt grasið sé ennþá skærgrænt síðan í haust.

Flippað.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

"Over three years after the invasion, there are many signs that Iraqi women might prove to be the biggest losers in post-Saddam Iraq. Iraqi women are struggling more than ever in their day-to-day lives, trying to keep their households going, feed their families and keep everyone alive," segir í greininni Women in Iraq: Beyond the Rhetoric, sem stúlkan er að lesa og var skrifuð í fyrra.

"The insecurity plaguing Iraq has a distinct and debilitating impact on the daily lives of women and girls. Although men make up the majority of the victims of the violence, the climate of fear prevents women from participating in public life. There are reports that girls are missing weeks or even months of school or university as their parents fear for their safety in letting them leave the home. Similarly, Amnesty International and others report that many women are leaving their jobs.
...
Despite efforts by international aid agencies and diaspora women activists to support Iraqi women...it is necessary to highlight that the space for Iraqi women’s empowerment is being eroded by the policies and realities of the US-British occupation and the competition for power among different political actors inside Iraq. In the name of establishing the new Iraq, women’s rights are being sacrificed—not supported."

laugardagur, febrúar 24, 2007

Bretinn gefst ekki upp við að skella fram frumlegum útgáfum af nafninu mínu.

Sigr??ur V??is hefur lengi verið mitt uppáhald.

Í dag barst mér hins vegar inn um lúguna áður óþekkt útgáfa af Jónsdóttur nafninu:

Nsdotti.

Sigr??ur V??is Nsdotti sendir hugheilar kveðjur yfir hafið.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Bandaríkin hafna því að hætt verði að nota klasasprengjur



Bandaríkin hafa hafnað því að hverfa frá notkun klasasprengna eins og þjóðir heims hafa kallað eftir að verði gert. Fulltrúar 46 ríkja komu saman í Noregi og hétu því að leitað yrði leiða við að ná á næsta ári fram samkomulagi sem bannar notkun klasasprengna. Bandaríkin ætla ekki að vera með.

Klasasprengjur voru þróaðar til að auka skilvirkni í flugárásum. Stakar sprengjur voru ekki eins "gagnlegar" í hernaði þar sem þær náðu bara yfir lítið landsvæði. Best að teppaleggja allt svæðið hreinlega - klasasprengjur eru nefnilega fylltar með smásprengjum sem falla út eftir að sprengjunni hefur verið skotið og dreifast yfir stórt svæði - sem sé afar ónákvæmt vopn þar sem smásprengjurnar greina náttúrlega ekki á milli óbreyttra borgara og hermanna.

Eins og staðan er í dag ná engin lög sérstaklega yfir notkun klasasprengna. Samkvæmt alþjóðamannúðarlögum eru "handahófskenndar árásir" hins vegar ólöglegar. Þeir sem gagnrýna notkun klasasprengna segja að ekki sé hægt að nota þær án þess að brjóta lögin, enda feli sprengjurnar í sér handahófskenndar árásir.

Í haust bárust fréttir af því að samtökin Handicap International áætluðu að 98% af þeim sem dræpust eða slösuðust af völdum vopnanna væru óbreyttir borgarar. Fréttasíða BBC vitnar í þessar sömu tölur í gær.

Ísraelsher beitti klasasprengjum í átökunum gegn Líbanon í sumar en vísaði allri gagnrýni á þær á bug. Eftir átökin var talið að um 100.000 ósprungnar smásprengjur væru enn í Líbanon. Úps, sprengjurnar springa sko ekki allar við lendingu og geta beðið eftir fórnarlambi í mörg ár.

Klasasprengjur hafa verið notaðar í yfir 20 löndum. Bandaríkin hafa til dæmis notað þær, Bretland, Frakkland, Finnland, Holland og fleiri og fleiri. Talið er að Nató hafi dreift um 300.000 smásprengjum yfir Serbíu árið 1999. Og klasasprengjur voru notaðar bæði í innrásinni í Afganistan og í Írak. Í haust man ég eftir að hafa séð að 50 ríki ættu klasasprengjur. Hér er líka hægt að lesa um þessi vopn.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007



Portrettmynd ársins 2006
Ljósmyndari: Þorvaldur Örn Kristmundsson

Nú þykir mér yfirhöfuð stórskemmtilegt að taka viðtöl við fólk. Hvað gæti verið betra en að setjast niður með allavega fólki með ólíka reynslu og fá að spyrja það spjörunum úr?

Eitt af skemmtilegri viðtölum sem ég tók í fyrra verður þó að teljast viðtalið sem ég tók í Sunnuholti þegar við Þorvaldur ljósmyndari vorum send austur á land. Við höfðum hálfan dag lausan og tókum skyndiákvörðun um að skella okkur á Seyðisfjörð þar sem við bönkuðum uppá hjá Sunnuholtsbræðrum. Heimsóknin var óvænt en okkur var velið tekið. Í stofunni tók Þorvaldur síðan myndina sem um seinustu helgi var valin portrettmynd ársins.

Þorgeir kemur til dyra og býður okkur inn í eldhús. Þeir bræður sitja að snæðingi. Á borðum er reykt folaldakjöt með kartöflum og rabarbarasultu. Úr útvarpstæki heyrist í Rás 1. Við erum nýbúin að borða, afþökkum bita en þiggjum kaffi. Hitakanna með kaffi siglir á borðið. Yfir kaffi úr glasi og rjómasúkkulaðidropum frá Mónu fáum við að vita að þeir bræður ganga undir því einfalda og þjála nafni Bræðurnir. "Það er ekki verra en hvað annað."

Í kringum Sunnuholt úir og grúir af bílum sem þeir hafa sankað að sér í gegnum tíðina.

"Þetta byrjaði fyrir mörgum árum. Fólk var kannski með bíla sem það þurfti að koma í burtu en vildi ekki sjá á eftir á haugana," segja þeir. "Við leyfðum því bara að koma með þá til okkar. Þetta urðu hálfgerðar flóttamannabúðir...flóttabílabúðir..."

Meira kaffi er hellt í glösin. "Þetta er þyrnir í augum margra. Hinir og þessir hafa reynt að fá okkur til að taka til og losa okkur við þetta," segir Þorgeir. "Já, það var á tímabili að við vorum litnir hornauga með þetta," segir Sigurbergur hæglátur.

Og svo var kæró bara á leiðinni.

Blaðamannaverðlaunin voru veitt um seinustu helgi.
Auðunn Arnórsson vann í mínum flokki og var vel að því kominn.

Mín mesta eftirsjá var að komast ekki í ókeypis fimm rétta máltíðina eftir verðlaunaafhendinguna og missa af partýi. Staðgenglar mínir borðuðu og drukku fyrir mig og urðu samkvæmt óstaðfestum heimildum ákaflega ölvaðir, mú ha ha.

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Laera, leara, laera.

"Laera" litur meira ut eins og listaverk en ord thegar madur skrifar thad a tolvu sem neitar ad breyta ur ensku lyklabordi yfir i islenskt.

Eg skil ekki folk sem hangir a bokasafninu i skolanum og aepir i farsima a svaedi sem a ad vera farsimalaust, hleypur svo ad prenturunum og kallar a hvert annad yfir "hljodlausa" salinn. Muuuu.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Sá sem hannaði stundatöfluna stúlkunnar fyrir vorið hefur haft grunsamlega margar klukkustundir í sólarhringnum.

Sjálf skilur hún ekki hvernig nokkur maður á að geta haldið á þriðjudegi hálftíma lærðan fyrirlestur um grunnorsakir átakanna í Súdan - talað á fimmtudegi spaklega um mikilvægi þess að gaumgæfa hvað sett er í rannsóknartexta (og náttúrlega blaðagreinar) og hvað ekki - og á föstudegi mætt vel undirbúin fyrir málstofu um mismundir aðferðir við að vinna með HIV/AIDS í Úganda og Suður-Afríku.

Auk þess að mæta í alla venjulega tíma í skólanum.

Já og skrifa svona eins og eina ritgerð fyrir Conflict, Peace and Security sem skila á í næstu viku.

Meira kaffi? Já, takk.

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Ja-há.

Stúlkan fékk sms á laugardagsmorgni sem hún skildi ekki alveg. Hún smellti sér í framhaldinu á netið og sá þá þetta:

Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna ársins 2006:

Besta umfjöllun ársins 2006:

Auðunn Arnórsson, Fréttablaðinu, fyrir ítarlega, aðgengilega og vandaða umfjöllun um Evrópumál í greinaflokknum “Ísland og Evrópusambandið.”

Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Kastljósi, fyrir tímabæra, upplýsandi og notendavæna greiningu á hugtökum og staðreyndum úr orðræðu stjórnmálamanna um skattkerfið og þróun þess.

Sigríður Víðis Jónsdóttir, Morgunblaðinu fyrir vandaða og viðamikla umfjöllun um úrræði í skólakerfinu fyrir börn með hegðunarfrávik og geðraskanir í greinaflokknum “Verkefni eða vandamál?”

Rannsóknarblaðamennska ársins 2006:

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, Blaðinu fyrir uppljóstrandi fréttaröð í Fréttablaðinu um margfaldan verðmun á samheitalyfjum á Íslandi annars vegar og Danmörku hins vegar.

Henry Birgir Gunnarsson, Fréttablaðinu, fyrir fréttaskrif og eftirfylgd þar sem upplýst er um mikinn mun á launum og kjörum karla og kvenna í A-landsliðum Íslands í knattspyrnu.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kompási fyrir nýstárlega, hugmyndaríka og afhjúpandi umfjöllun um bæði málefni barnaníðinga og um málefni Byrgisins.

Blaðamannaverðlaun ársins 2006:

Davíð Logi Sigurðsson, Morgunblaðinu fyrir skrif um alþjóðamál, þar á meðal skrif um Guantanamo-fangabúðirnar á Kúbu og Íslensku friðargæsluna.

Halldór Baldursson, Blaðinu og Viðskiptablaðinu fyrir skop- og ádeiluteikningar sínar og túlkun á fréttnæmum íslenskum þjóðfélagsviðburðum.

Kolbrún Bergþórsdóttir, Blaðinu fyrir fjölbreytileg og áhugaverð mannlífsviðtöl og menningarskrif sem dreifast yfir allt árið 2006.

Móðir stúlkunnar er mætt til Norwich og verður þangað til kæró kemur aftur.

Að sjálfsögðu var haldið boð móðurinni til heiðurs.

Móðirin lagði til harðfisk og reyktan silung og úr frystinum sigldi líter af Brennivíni. Móðirin bjó sömuleiðis til pönnukökur með rjóma og sultu.

Indland mætti með indverskan hrísgrjónarétt.
Pakistan setti sætar hveitikökur á borðið.
Þýskaland kom vopnað þýsku núðlusalati.
Úganda og Nígería elduðu sterkan kjúklingarétt með grjónum.
Brasilía bruggaði stórkostlega áfengan brasilískan drykk.
Mexíkó bjó til quesadillas.

Japan mætti með þang og snakk.
Holland og Singapúr sáu um rauðvín og hvítvín.

Borðið svignaði undan kræsingum.
Stofugólfið svignaði undan dansandi og syngjandi fólki.

"Ef fólk gæti nú bara lifað í jafnmikilli sátt og samlyndi og allir þessir réttir á stofuborðinu frá öllum þessum löndum, ha..." heyrðist rétt áður en seinustu gestirnir fóru.

Give peace a chance.

laugardagur, febrúar 03, 2007


Búrma þennan sama mánaðardag árið 2004.
Mætti halda að stúlkuna væri farið að klæja í fingurna að fara til Fjarskanistan?
Umm.

Brúðkaupsmynd. Af hverju ég er með brúðkaupsmynd af ókunnu fólki í bleikum fötum í myndasafninu mínu er löng saga.


Herforingjastjórnin í Búrma sér til þess að af henni hangi ljósmyndir hist og her, sérstaklega myndir sem sýna hversu "sannir Búddistar" og góðar manneskjur herforingjarnir séu (hertóku landið á sínum tíma og fótumtroða rétt landsmanna, halda leiðtoga stjórnandstöðunnar Aung San Suu Kyi fanginni osfrv).


Lært að lesa og skrifa í klaustri.

Yfir og út.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1989. Sáttmálinn er samþykktur sem alþjóðalög og felur í sér full mannréttindi allra barna.

Þegar þessi listi er skoðaður sést hverjir hafa staðfest sáttmálann og hverjir ekki.

Seinast þegar ég vissi voru Sómalía og Bandaríkin einu ríkin í öllum heiminum sem ekki höfðu staðfest barnasáttmálann. Sómalía er hins vegar ekki á þessum lista (Human Development Report 2006). Samkvæmt listanum hafa öll ríki samþykkt barnasáttmálann - nema Bandaríkin.

Bandaríkin eru einnig ákaflega einangruð þegar kemur að CEDAW sáttmálanum sem er alþjóðlegur sáttmáli um afnám allrar mismununar gegn konum - og hafa ekki staðfest hann. Sjá hér.

Og hvaða lönd ætli hafi hæsta hlutfall þingkvenna?
Rúanda og Svíþjóð.

Dagurinn var í boði tölfræði Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP