laugardagur, ágúst 30, 2008

Sumar vikur eru viðburðarríkari en aðrar.
Þessi sló flest met.

Í fyrró er það síðan mágkonu/tengdamömmu/mömmu-bröns, sum sé einungis stúlkur og engin börn. Svo á leynifund, ha ha ha, bíðið bara, og síðan heim að gera sig klára fyrir brúðkaup, nema hvað.

Af einhverjum ástæðum hefur græni sumarkjólinn minn gufað upp, stórundarlegt mál. Ég mæti í bleiku í staðinn. Það er hægt að kaupa ýmislegt fyrir 2500 kall á Dýrlandi.

Seinasta kórbrúðkaup var stórkostlegt. Ef ég þekki hópinn rétt og hina vini brúðhjónanna verður þetta pottþétt skemmtun. Ú je.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Ritstuldur?
Tjah.

Brostu!

Hvergi í heiminum er fylgst jafnvel með fólki í gegnum myndavélar og í Bretlandi. Þar eru fleiri eftirlitsmyndavélar en í nokkru öðru landi.

Áætlað er að meðalmaður í London sé í mynd um það bil 300 sinnum á dag.

Fylgst með fólki


Myndavélarnar eru kallaðar CCTV, sem stendur fyrir Closed Circuit Television. Talið er að í Bretlandi séu að minnsta kosti fjórar milljónir slíkra véla – ein á hverja 14 íbúa.

Vélarnar geta haft ýmsa eiginleika, til dæmis borið andlit saman við gagnagrunna og þekkt þannig fólk í mannfjölda. Aðrar bera kennsl á neikvætt hegðunarmynstur og geta í framhaldinu látið vita hvað er í uppsiglingu. Í fyrra var kynnt til sögunnar áætlun um talandi myndavélar.



BRESKUR, STÓR BRÓÐIR?

Ég hélt fyrst að öryggisvörðurinn í hverfisversluninni í Norwich í Bretlandi væri að grínast. Hann bað mig um að taka vinsamlega niður loðhettuna á úlpunni minni.
- „Ha, ég er nú bara með hana á höfðinu því það er rigning úti...“ sagði ég létt og brosti til mannsins. Ég var búin að koma reglulega í búðina í nokkra mánuði, við vorum orðnir félagar. Eða ekki. Maðurinn hljóp á eftir mér.

„Í alvöru. Ég verð að biðja þig um að taka hettuna niður. Núna! Annars sést ekki framan í þig á öryggismyndavélunum.“

Ég tók taugaveikluð tók niður hettuna, vissi sem var að í Norwich var ég iðulega í mynd einhvers staðar – í strætisvögnum, í verslunum, á kaffihúsum, á skólalóðinni, á barnum, í bönkum, á aðalgötunni. Ég vissi bara ekki að andlitið yrði að sjást svona skýrt og greinilega. Hver fylgdist eiginlega með mér í gegnum myndavélina?

Samkvæmt stofnuninni Privacy International er Bretland það Evrópuland sem mest eftirlit hefur með þegnum sínum og stendur sig verst þegar kemur að verndun persónuupplýsinga. Notkun svokallaðra CCTV eftirlitsmyndavéla eykst stöðugt, bæði af hálfu einkaaðila og hins opinbera.

Mikið af upptökunum eru einungis skoðaðar komi eitthvað upp á – rán, árásir eða annað. Þegar morðin á vændiskonunum í Ipswich voru framin árið 2006 fór rannsóknarlögreglan í gegnum gríðarlegt magn upptaka úr verslunum, farartækjum og öðru, til að reyna að finna fórnarlömbin á einhverjum þeirra, átta sig á hvar þau hefðu verið og raða saman atburðarrásinni.

Að lokum fannst upptaka af einni stúlknanna, Annelli Alderton, í lestarvagni í Essex seint um kvöld. Á myndskeiðinu sást hún spegla sig í glugganum á vagninum, laga hárið, girða upp um sig buxurnar – allt augljóslega í þeirri meiningu að hún væri alein. Sem hún var. Nema að í vagninum var auðvitað eftirlitsmyndavél.

Nokkrum dögum síðar var Alderton komin í kalda gröf en upptakan fyrir framan augu milljóna manna. Sjónvarpsstöðvarnar margsýndu myndskeiðið. Enginn er lengur einn með sjálfum sér – eða hvað?

En ekki eru allar upptökur einungis skoðaðar eftir á. Íbúar Norwich eru raunar undir vökulu auga starfsfólks í miðlægri stjórnstöð borgarinnar. Á 33 sjónvarpsskjám er fylgst í rauntíma með myndskeiðum úr vélum sveitarfélagsins – allan sólarhringinn. Sjái starfsfólkið eitthvað misjafnt er umsvifalaust haft samband við lögregluna.

Nýjasta viðbótin eru talandi myndavélar í tveimur almenningsgörðum í borginni. Vélarnar eru tengdar hátölurum sem spila rödd vakthafandi í stjórnstöðinni. Röddin getur sagt fólki til í gegnum hátalarana – skipað því að hætta ólátum, hirða upp eftir sig rusl og annað þvíumlíkt.

„Stóri Bróðir fylgist ekki einungis með þér,“ ritaði Time á dögunum um þessa nýjung. „Stóri bróðir vill líka tala við þig.“

Norwich er einungis einn af 20 stöðum í Bretlandi sem fékk styrk frá ríkisstjórninni til að takast á þennan hátt við það sem hún kallar „andfélagslega hegðun“. Stjórnin lýsir yfir ánægju sinni með áætlunina en aðrir eru ekki jafnhrifnir. Richard Thomas, sem sér af hálfu stjórnarinnar um að framfylgja lögum um persónuvernd, varar við því að Bretland sé að breytast í eftirlitssamfélag.

sunnudagur, ágúst 24, 2008



Þessi yrði flottastur í borgarstjórastólnum.

Traust, ferskleiki, frumkvæði.

Fjölskyldan er að vinna í slagorðunum.

Við höfum þó fastsett að málefnasamninginn verður kallaður "Leikum okkur áfram".

Níu brúðkaup á einu og hálfu ári.

Þannig verður það orðið þann 20. desember, samkvæmt ánægjulegum brúðkaupsfréttum gærkvöldsins.

Ég hef níu líf.

Wedding singer?
Tjah.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Ég reyndi að útskýra nýjustu byltinguna í borginni fyrir bandarískri mágkonu minni. Að þeir sem mynduðu bandalag eftir kosningar hefðu gengið í gegnum dramatískan skilnað en væru teknir saman á ný. Og að fjórði borgarstjórinn á tæpu ári væri tekinn við.

– Ha, er ekkert mál að skipta bara um? Ráða borgarbúar því ekki hver stjórnar?

– Jú, fólkið ákveður sko hvaða 15 það kýs í borgarstjórn. En svo geta þeir... tjah... gert það sem þeir vilja.

Mágkonan horfði rannsakandi á mig: – Mega þeir láta stólinn ganga á milli sín eins og þeim hentar?

Að útskýra þetta með orðum yrði of erfitt. Ég náði í liti og blað, hafði oft þusað yfir því að bandarísk pólitík væri undarleg og órökrétt. Skýringarmyndin mín myndi útskýra lógíkina á Fróni.

– Fyrst voru bláir og grænir saman en síðan byrjuðu grænir að leika við alla hina litina, sérðu: Rauðan og appelsínugulan og ljósbláan. Svo urðu ljósbláir dálítið litblindir og þáðu borgarstjórastólinn af bláum, sem ákváðu að þeir vildu samt frekar leika við græna. Skilurðu?

Myndin var orðin að ólögulegri litasúpu. Úps. Ég teygði mig eftir auðu blaði: „Málið er að með 5 flokka í 15 manna stjórn eru margir möguleikar á að mynda 8 manna meirihluta.“

Mágkonan horfði góðlátlega á mig. – Já, ég skil það alveg. Ég næ bara ekki af hverju menn skipta endalaust um lið, þótt það sé tæknilega hægt. Borgin sem þeir voru kosnir til að stjórna er augljóslega stjórnlaus á meðan!

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Nei, svona grínlaust, hversu oft endið þið með innkaupakörfur bláókunnugs fólks í matvörubúðinni? Og fólk hlaupandi lafmótt og másandi á eftir ykkur: Eeeeeerthu ekkhi að hlaða dhóti í vithlausa kherru?

Aldrei - einstaka sinnum - oft - svo reglulega að það er beinlínis rútína.

Í kvöld verða stofnuð samtök fólks um bíllausan lífsstíl.

Bendi á að forsvarsmenn þeirra hafa reiknað út að ef fólk tekur alltaf strætó, auk þess að taka 40 leigubíla á ári og bílaleigubíl í tvær vikur, sé kostnaðurinn samt sem áður ekki nema helmingur þess sem FÍB segi að kosti að reka bíl.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Áfram Akranes...

Hversu fullorðins er ekki að vera áskrifandi að Árbók Akurnesinga?
Fer fjarska vel í stofuhillu.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Familínski farin í sumarbústað.

Góðar stundir.








Hver þarf rándýrt plastdót þegar hægt er að leika sér bara með klósettpappír?!

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Þetta er fjölskyldusumarið mikla.

Sem er skemmtilegt þar sem ég á frábæra fjölskyldu.
Og fimm yndisleg frændsystkin.

Overandát.