fimmtudagur, janúar 31, 2008

Endilega mætið á fyrirlesturinn minn á laugardag lömbin mín. Þetta er ca klukkutími niðri í miðbæ og til dæmis hægt að fara á kaffihús eftir á...
Sýni ljósmyndir og vídeóbrot og eikkva svona:

UNIFEM-UMRÆÐUR um Kongó og Súdan

Laugardaginn 2. febrúar fer fram annar fundurinn í fundaröðinni UNIFEM-UMRÆÐUR. Markmið fundanna er að varpa ljósi á stöðu kvenna í þróunarríkjum og á stríðshrjáðum svæðum sem og að kynna starf UNIFEM. Fundurinn sem stendur í um klukkutíma verður haldinn í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna að Laugavegi 42 og hefst kl. 13.

Á fundinum munu tvær konur varpa ljósi söguna, pólitíkina, jafnrétti kynjanna og ástand samfélaganna í Suður-Súdan og Kongó út frá eigin reynslu.

Sigríður Víðis Jónsdóttir blaðamaður og þróunarfræðingur
-Er eitthvað annað en stríð í Súdan?-

Bergljót Arnalds rithöfundur og leikkona
-Kongó: Helvíti í paradís-


Á eftir verða umræður. Ókeypis inn og allir velkomnir!

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Nú á ég svona um það bil sjö hluti sem kosta meira en 15.000 krónur:

- Rúm sem ég keypti af gamalli konu á 25.000 krónur
- Sjónvarp sem mér var gefið og er reyndar sem stendur í geymslu hjá vinkonu minni
- Fjögurra ára gamla ferðatölvu
- I-pod
- Myndavél
- Skartgripir sem ég erfði frá Sigríði Víðis eldri.
- Líkamsræktarkort sem gildir í þrjá mánuði.

Ekki rekur mig minni til þess að ég eigi flík sem kostar meira en 15.000 krónur en á hins vegar hrúgu af kjólum og hælaskóm og slæðum og dóti keyptu á skransölum. Og helling af bókum en hver og ein þeirra kostar ekki mikið, nema kannski orðabækurnar.

Hjólinu mínu var stolið, gítarinn kostaði 5000 kall í Malasíu, ég á ekki bíl, skrifborðsstóllinn minn kostaði slikk, veit ekki hvað jólgjafagemsinn kostaði, gönguskórnir voru á útsölu, sömuleiðis bakpokinn, pottar og pönnur í einhverjum kössum eru ekki nema nokkurra þúsunda kalla virði, ég á ekki sófa og borð, húsgögnin í Norwich voru seld og gefin. Það sem ég á mest af er litla dótið sem er ekki endilega hægt að verðleggja.

Hvert var ég komin?
Jú, það var þetta með 15.000 kallinn fyrir einstaka hluti.

Einu verulegu útgjöldin sem ég legg í og hef lagt í eru flugmiðar. Og mér finnst peningar leiðinlegir, alveg hryllilega leiðinlegir.

Seinustu daga hefur stúlkan hins vegar umbreyst í undarlegan kapítalískan aurapúka sem íbygginn reiknar upp vexti og talar um hundrað þúsund kalla eins og þeir séu skiptimynt. "Tvö hundruð þúsund krónur eru bara á endanum tvö hundruð þúsund kall." "Hálf milljón til eða frá, maður drepst ekki á því". "Hundrað þúsund kall er bara það: Hundrað kall."

Undarlegt að hlaupa allt í einu á hundrað þúsund köllum - milljónum - þegar stúlkan fyrir nokkrum dögum gekk út úr búð vegna verðs á íþróttaskóm sem henni þótti beinlínis glæpsamlegt.

Ætli það sé ekki morgundagurinn sem verður dagurinn stóri: Já, nei, eða eitthvað annað?

Jú, sjáið, stúlkan vinnur í því að festa sér eign.

Kannski að plott og peningatal síðan á sunnudag endi bara á barnum annað kvöld... hver veit.

sunnudagur, janúar 27, 2008

Hver veit nema að á plottfundi með lektornum í kvöld hafi stúlkan stigið hið mesta gæfuspor? Sjáum hvað kemur út úr því.

Í tilefni þess er ekki úr vegi að vitna í Gæfusporin hans Gunnars Hersveins, sem stúlkan blaðaði einmitt í á ljómandi huggulegu laugardagskvöldi - enda varð heimspeki þema helgarinnar eftir fyrirlesturinn í HÍ í gær með slóvenska heimspekingnum Slavoj Zizek:


Manneskja sem býr við mannsæmandi aðstæður stendur frammmi fyrir ótal möguleikum, vegirnir eru opnir, aðeins augu okkar sjálfra loka þeim.


Lífið er leit en ekki stöðnun, linnulaus leit að vísbendingum um svar. Lífið er tilraun því ekkert er endurtekið. Lífið er áhætta og heimurinn er svelgur og ef við sofnum líðum við áfram dáleidd í hringiðunni. Hver dagur iðar af möguleikum og tækifærum sem við getum gripið. En innri hindranir leiða stundum til þess að dagarnir verða sjaldan að ævintýrum.

En það er líka í lagi að vera stundum óánægður - eins og Gunnar bendir á: Óánægjan hefur þó gildi því hún beinir sjónum að því sem við eigum að forðast.

Þakklæti er tilfinning um lánsemi og ályktun um hlutdeild annarra í heinni. Það er að kunna að gefa og þiggja og sýna gleði yfir hvoru tveggja.

Þakklæti er nátengt hamingjunni. Sá sem kemur auga á gildi þess sem hann hefur nú þegar kemst ekki hjá því að nema hamingjuna og þakka lífið.

Hamingjan er ekki annars staðar. Hún er spunnin úr aðstæðum sérhvers manns og kjarki til að taka ákvarðanir um líf sitt. Hamingjan er hamur. Hún er ekki óljós tilfinning. Hún er ekki stundin sem líður, ekki gleðin sjálf, hún er hamurinn sem fólk íklæðist. Hamingjan er ekki annars staðar eða í öðrum, hún er hér.

föstudagur, janúar 25, 2008

Uppþot í ráðhúsinu. Fundur settur, fundi slitið, atkvæðagreiðsla, hver verður kosinn út, hver vinnur á endanum Survivor?

Björn Ingi segir af sér. "Hann var drengur góður." "Gott að vinna með honum". "Pólitískt animal". Klökkar raddir, óvænt samstaða í hópi þar sem rýtingar standa annars út úr bökum. Slökkt á kyndli Binga, hann vinnur ekki þessa þáttaröð af Survivor. Eða hvað? Hér getur allt gerst.

Ástþór Magnússon býður í gjörningaveislu lýðræðinu til handa. Leggur 40 milljónir á borðið í 2000 króna seðlum. Bjóðið ykkur fram, ég borga!

Allt í beinni.

Gjörningar í beinni.
Meint lýðræði í aðalhlutverki.

Góði kallinn, vondi kallinn, tár, bros, spenna, æsingur, frammíköll - þrusugott sjónvarpsefni. Persónur og leikendur: Pólitíkusar. Áhorfendur: Íslenska þjóðin.

Fimmtudaginn 24. janúar náði raunveruleikasjónvarp nýjum hæðum.

Út að kaupa blaðið, börnin góð.


Má bjóða þér 16,657% verðhækkun?

Mörgum í Búrma hefur líklega svelgst á í byrjun árs. Rúmlega 160-föld verðhækkun á sjónvarpsleyfum var ekkert eðlileg, eða hvað?

Og þó, kannski voru einhverjir orðnir vanir dyntum herforingjastjórnarinnar og fátt gat komið þeim lengur á óvart. Í byrjun janúar kvisaðist nefnilega út að árgjöld fyrir gervihnattasjónvörp myndu hækka úr 6000 kyat í 1.000.000 kyat – úr sem svaraði 300 íslenskum krónum í tæpar 60.000.

Hið nýja verð var á við þreföld meðalárslaun kennara í hinu bláfátæka Búrma og var langt utan greiðslugetu almennings. Þetta var raunar eins og ég sjálf ætti skyndilega að borga margar milljónir fyrir að hafa hjá mér gervihnattasjónvarp. Ætli ég myndi ekki neyðast til að losa mig við gripinn.

Og kannski var það einmitt takmarkið. Aðgerðirnar þykja skipulagðar til að takmarka aðgang fólks að erlendum fjölmiðlum. Engar opinberar skýringar voru gefnar heldur kom verðhækkunin einfaldlega í ljós þegar fólk ætlaði að endurnýja leyfin. Í landi þar sem erlendir fjölmiðlar eru litnir hornauga og stjórnin birtir reglulega fréttir af því að allt leiki í lyndi, kemur sér síður en svo vel að almenningur geti fylgst með þróun mála – hvað þá vitað hvað sé á seyði annars staðar.

Meira á prenti...

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Hvað gerist þegar enn er búið að bylta í borginni og maður er búinn að drekka fimm kaffibolla? - Viðhorf, Mogginn í dag:


AÐÞRENGDIR ÆTTBÁLKAR

"Þetta fólk er mjög skrýtið, það skiptir um yfirættbálkahöfðingja eins og við skiptum um nærbuxur. Mjög erfitt er að fylgja atburðarrásinni, hver stingur hvern í bakið og hver er vinur hvers.“

Ungi íslenski fjölmiðlamaðurinn skrifaði einbeittur í dagbókina sína. Hann var staddur í fjarlægu landi, við miðbaug, þar sem forseti Íslands var í opinberri heimsókn.

„Vesen að vera alltaf að þvælast þetta og tala um jarðhita sí og æ,“ muldraði okkar maður og langaði í pulsu og kók – langaði heim. Þetta undarlega land hafði allt aðra siði en hann átti að venjast, hér slóst fólk yfir leikföngum, tapaði sér yfir undarlegri hæfileikakeppni: Afróvisjón, og hélt að það sjálft byggi í nafla alheimsins. Blaðamaðurinn var líka kominn með nóg af því að reyna að botna í ítrekuðum stjórnarskiptum. Íslenski forsetinn hafði ekki valið sérlega góðan tíma til heimsóknar. Fimm mínútur eftir lendingu hafði enn ein byltingin orðið í landinu og nú var maður af óháðum ættbálki kominn til valda.

Vestrænir kosningaeftirlitsmenn sem enn voru staddir í landinu eftir kosningarnar 2006 langaði sömuleiðis heim. Samningur þeirra hafði verið framlengdur þrisvar. Var ekki nóg komið af því góða?

„Hvernig er hægt að lama svona stjórnkerfið í heilu landi?“ heyrðist hvíslað í skúmaskotum. „Nýr maður er rétt búinn að koma sér inn í starfið þegar hann þarf að pakka saman! Og stofnanir stjórnsýslunnar, nefndir og ráð eru öll í einhverju undarlegu limbói!“

Vestrænir stjórnmálaskýrendur voru komnir til landsins eftir nýjustu byltinguna. Hinn norski Olaf T. Hardarson reyndi að létta fjölmiðlakreðsunni lífið og útskýra fyrir henni einkennilegt mál: NEI-málið, sem þótti hið allra undarlegasta. Áheyrendur sofnuðu hins vegar ýmist yfir fyrirlestri Olafs eða ruku út í reiðikasti yfir jafnórökrænni atburðarrás. Svona undarlegheit yrði aldrei hægt að skýra út fyrir lesendum heima í Evrópu.

Fyrir utan fyrirlestrarsalinn sat fréttamaður frá RÚV með blað og penna í hönd, ranghvolfdi í sér augunum og teiknaði graf yfir hver var vinur hvers. Eftir kosningarnar 2006 höfðu Álfstæðis-ættbálkurinn og Frjálsi og óháði ættbálkurinn verið vinir en síðan ekki vinir og þá höfðu Álfstæðis-fólk og Framfara-ættbálkurinn orðið félagar.

En þótt ættbálkahöfðinginn Björn I. Mkaki hefði fengið gull og góðar stöður ákvað hann að hætta að leika því Græni-ættbálkurinn, Framfylkingarfólk og Frjálsi og óháði ættbálkurinn höfðu boðið honum að hitta sig við vatn nokkurt. Þau höfðu leikið sér við tjörnina og haft það svo skemmtilegt að þau ákváðu skellihlæjandi að bola Vil Hjálmi Kobuto og hans slekti af Álfstæðisættbálkinum frá. Málefnin kæmu síðar, fyrst var að ná völdum.

Kobuto og hans fólk urðu við þetta ævareið og sögðu titrandi röddu að þau sæi sko ekki vitund eftir ættbálkahöfðingjanum honum Mkaki. Sá svikari gat átt sig, já og sína tárvotu hvarma sömuleiðis.

„Þetta er eins og sápuópera,“ hvíslaði vestræna fjölmiðlafólkið. Einn úr hópnum hafði lengi verið aðdáandi sjónvarpsþáttanna Aðþrengdar eiginkonur og fundist athyglisvert hvernig handritshöfundar gátu sífellt fundið upp á nýjum launráðum og leyndarmálum. Aðþrengdu ættbálkahöfðingjarnir slógu aðþrengdu eiginkonunum hins vegar fullkomlega við. Eða það fannst taugaveiklaða blaðamanninum allavega daginn sem vara-ættbálkahöfðinginn Mar Grét Muboko sagði að yfirhöfðinginn í sínum ættbálki, Óla Fur Kebawi, hlyti nú allavega að senda sér boð áður en hann myndaði nýja stjórn. Sjálfur sté hann hins vegar óvænt fram og sagðist vera orðinn landsstjóri. Álfstæðisfólk hafði boðið honum gull og græn leikföng ef hann myndi bara koma og leika við það.

Þetta land var nú engu lagi líkt! Breska pressan sparaði ekki stóru orðin. „Kobuto kaupir liðsstyrk ættbálkahöfðingja! Hversu mikið kostar einn höfðingi?“

Franska pressan var sömuleiðis frökk: „Upprisan mikla! Pólitískur ferill Kobutos jarðaður fyrir 100 dögum en landsstjórastaða í seilingarfjarlægð!“ Franska pressan gerði sömuleiðis að umtali fjaðrafok sem orðið hafði í sjónvarpsþættinum Egilsgull út af kaupum á nokkrum kökufötum fyrir áramótapartý ættbálkahöfðingjanna. Á göngum og í skúmaskotum var þó mest rætt um það sem einna undarlegast þótti: Að guðfaðir meirihlutans sem hafði verið steypt væri líka guðfaðir hins nýja meirihluta!

„Hvaða steypa er þetta eiginlega?“ heyrðist í fjölmiðlafólkinu. „Þetta er alveg í samræmi við lög,“ heyrðist í heimafólki. Mar Grét Muboko var hins vegar reið. Hún ætlaði ekki að styðja stjórnina sem Kebawi hafði myndað.

Íslenska fjölmiðlafólkið leit í augu hvers annars. Abbababb, hvað myndi gerast ef Kebawi kæmist ekki á fund! Svo hló það góðlátlega að þessu undarlega, frumstæða og eilítið barnalega fólki í landinu langt í burtu sem kunni ekki alveg á lýðræðið blessaða.

Einhverjar raddir heyrðust innan hópsins að í gegnum tíðina hefði fólki í landinu verið sæmilega vel til vina, allavega hefðu ólíkar fylkingar alveg getað unnið saman. Raddirnar voru hins vegar yfirgnæfðar af fréttalestri CNN sem barst inn í herbergið:

„Erjur ættbálkahöfðingja sem farið hafa fram með ófriði hver gegn öðrum frá örófi alda og aldrei getað lifað saman í sátt og samlyndi, magnast nú með degi hverjum. Mikið er rætt um örvar og ýmiss konar vopn - þannig tala menn um að setja örvar í bak hvers annars og jafnvel að í herðakambinum á ættbálkahöfðingjum séu heilu örvasettin.“

Andartaki síðar bárust fréttir af því að sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna væri á leið til landsins til að reyna að leysa stjórnarkreppuna. Hér gat allt gerst og enn ein byltingin gat allt eins verið í burðarliðnum.

mánudagur, janúar 21, 2008

Nýr meirihluti????

Ég hélt að Deseperate Housewifes væri orðið útþynnt. Komin með helst til undarlegan söguþráð, allir að byrja með öllum og stinga alla í bakið og svona.

Aðþrengdir borgarfulltrúar slá aðþrengdu eiginkonunum hins vegar fullkomlega út. Þrír meirihlutar á kjörtímabili sem hófst fyrir rúmu einu og hálfu ári? Sæll!

Það verður að teljast hin mesta ráðgáta hvernig nokkrar stúlkur, tveir leynigestir og einn páfagaukur náðu að sulla jafnmikið niður á gólfið og á föstudaginn var, samhliða því að innbyrða jafnskuggalegt magn af vökva.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Ég er lítið tannhjól í stórri vél.
Líkamsræktarvél.

Í heilsuræktarhimnaríki Dísu og Bjössa voru í hádeginu í gær yfir hundrað manns á brettunum. Jú, börnin góð, 112 manns.

Janúar er kreisí í líkamsræktarstöðvunum segja spekingarnir. Lafmóð lufsast þjóðin á hlaupabrettum og biður um syndaaflausn og betri tíð með sixpack í haga. Já, þið ættuð bara að sjá magavöðvana á stúlkunni.

Ef ég hefði minnsta áhuga á viðskiptum og verkfræði myndi ég virkja orkuna sem gufar upp í loftræstikerfinu í Laugum og framleiða eitthvað ógó þjóðhagslega hagkvæmt með henni.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Fann þetta í New York Times um helgina, ég meina Washington Post, umm ég meina Morgunblaðinu. Jæja.

Þriggja ára og enn til friðs

Þrjú ár eru síðan sögulegir friðarsamningar, sem bundu enda á lengstu borgarastyrjöld í Afríku, voru undirritaðir í Súdan. Sigríður Víðis Jónsdóttir velti stöðunni fyrir sér en á tímabili leit út fyrir að friðurinn væri mögulega úti.

Með friði kemur svo margt. Við þurfum að standa vörð um friðinn!“ Ræðumaðurinn á útskriftinni, sem ég var viðstödd í desember 2005, var ákafur. Hann ráðlagði hinum nýútskrifuðu að fara alltaf með friði.

Mannfjöldinn var hátíðlegur, enda um stóran áfanga að ræða. Nemendunum hafði tekist að ljúka öllum átta grunnskólabekkjunum meðan á stríðinu stóð. Stúlkur hér voru raunar margfalt líklegri til að láta lífið af völdum barnsburðar en nokkurn tímann að ljúka grunnskóla.

Friðarsamningarnir milli ríkisstjórnarinnar í norðurhluta landsins og uppreisnarmanna í suðrinu höfðu verið undirritaðir í janúar sama ár og þeim fylgdu gríðarlegar væntingar. Betri tíð með blóm í haga var í sjónmáli.

„Maður getur náttúrlega bara vonað það besta,“ sagði hin unga Aluek á útskriftinni og krosslagði hendur á brjósti. Hún var ekki frekar en aðrir alveg viss um að friðurinn myndi haldast.

En þremur árum eftir undirritun friðarsamninganna ríkir enn friður í Suður-Súdan. „Afmælisfréttir eru gleðifréttir. Það eru samt ekki svo margir sem hafa áhuga á slíku. Við kæmumst hins vegar strax í fréttirnar ef stríð myndi brjótast út aftur!“ sagði ungi maðurinn Abraham og brosti kaldhæðnislega þegar við ræddum í desember 2005 um það hvort víða yrði fjallað um eins árs afmæli samninganna.

„Ég veit alveg að þannig virka fréttirnar bara. En mér finnst þetta samt dálítið fyndið...“ bætti hann við og hló.

Samkvæmt friðarsamningunum á fólki í suðurhlutanum að gefast kostur á að kjósa um sjálfstæði árið 2011. Súdan gæti þannig klofnað í tvö ríki. Í millitíðinni er suðurhlutinn sjálfsstjórnarsvæði, með eigin stjórn, auk þess að taka þátt í sameiginlegri stjórn landsins.


... Meira í Spiegel, ég meina Guardian, jæja Laugardagsmogganum þá. Þið getið grafið hann upp í bunkanum á eldhúsborðinu. Eða á kaffihúsi, eða hjá tannlækninum, já já.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Nú lítur hefðbundinn ruslpóstur sem ég fæ á netfangið mitt einhvern veginn svona út:

Ibrahim Hamza: TREAT AS URGENT AND CONFIDENTAL

Í gær urðu ruslpóstssendendur hins vegar ögn frumlegri:

Mr. Kofi Annan: Attention

sunnudagur, janúar 13, 2008

Hópferð í Borgarnes á einleikinn Brák, þriggja ára afmæli elsku Snæfríðar, kaffisopi og rölt um bæinn, lestur og svona ljómandi fín helgi.

Mæli annars með þessu hér. Stórfróðleg samantekt um hvaða leiðir hinar og þessar borgir hafa ákveðið að fara í skipulagsmálum. Og hvert stefnir með "reykvísku leiðinni". Flott myndasýning. Spóla 49 mín inn í þáttinn.

laugardagur, janúar 12, 2008

Ekki næturvaktin, nei, heldur morgunvaktin.

Verðbólga, já?

Fyrir jól kostaði víst 700 krónur að fara til læknis á skrifstofutíma.
Núna kostar það þúsund kall.

Mismunurinn er um það bil 5 dollarar sem er um það bil 50.000 kip. Jú, sjáið, kip er gjaldmiðillinn í Laos.

Svo sætti ég mig við það að borga 50.000 kip meira fyrir það að fara til læknis en áður, og borga 100.000 kip fyrir skitinn bjór á Ölstofunni - en prútta síðan við gamla konu í Laos um 5000 kip fyrir handgerða blússu.

Andskotans rugl.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Í dag eru 3 ár síðan friðarsamkomulagið í Suður-Súdan var undirritað.

Þetta var sögulegt samkomulag - með því lauk borgarstyrjöld sem staðið hafði í 21 ár.

Þessi voru ofurhress með friðarsamkomulagið, 11 mánuðum eftir undirritun þess:Þau voru ein þau allra fyrstu sem ég ræddi við eftir að ég var lent í Súdan, í bænum Rumbek, og búin að velta fyrir mér hvað í fjáranum ég væri að þvælast þetta og hvort ég væri eitthvað rugluð, búin að ráfa um eins og þorskur á þurru landi með úldinn bakpoka, að reyna að finna hvar ég átti eiginlega að sofa. Ha, átti Rumbek ekki að vera bær? Þetta var meira eins og þorp, nei, nokkur hús og malarvegur. Djöfulsins hiti.

Svo fór ég í göngutúr og hitti þetta góða fólk - og þá var einhvern veginn eins og allt yrði í lagi.

Rúmum tveimur árum síðar veltir stúlkan fyrir sér hvernig fjölskyldan hafi það - og hvernig þau haldi upp á daginn.

mánudagur, janúar 07, 2008

Jú, heilsuátak fjölskyldunnar gengur svona ljómandi vel.

Fjölskyldan er raunar mjög töff í ræktinni.

Enda veit hún að það að vera töff er hugarástand. Og felst allra síst í að klæðast svo þröngum íþróttafatnaði að óvíst er hvort viðkomandi getur andað í múnderingunni. Þess vegna mætir familían í stuttbuxum og víðum stuttermabolum og hverju því sem hún getur gripið þá stundina, án þess að blikka auga.

Örlítið minna töff er þó innkoman í ræktina, en augnskanninn þverneitar ævinlega að þekkja stúlkuna fyrr en í fimmtu tilraun og Eiki og pabbi veltast um af hlátri yfir konunni sem er ekki hleypt í gegnum hliðið - sjálfir komnir inn í himnaríki Dísu og Bjössa.

Líklega er fátt firrtara en að vera fastur í öryggishliði við munn líkamsræktarvélar landsins, þar sem vöðvabúnt eru framleidd á fimmhundruð færiböndum og hamingjan bíður í formi kreatíns - og heyra augnskanna tilkynna manni vélrænni röddu:

Your identity can not be recognised.

Ókei, gaman að sjá þig líka. Ég man sko vel eftir þér þótt þú munir ekki eftir mér.
Fáviti.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Hver þremillinn, áðan beit ég í Prins Póló sem mér þótti bragðast helst til einkennilega og vera undarlega rakt .

Jú, jú, það var best fyrir 22. janúar 2004.

Í gömlu pakkningunum hefði þetta náttúrlega verið allt í lagi, ussu suss, enda hleyptu þær inn á sig lofti...

laugardagur, janúar 05, 2008

Útgöngubann og 800 tonn af flugeldum

„40 manns skotnir af lögreglunni,“ las ég fyrir fjölskylduna á gamlárskvöld og herti takið utan um gemsann minn. Þetta var sms frá Charles félaga mínum í Kenía. Ég var fegin að fá lífsmark að utan en las skilaboðin eins og í leiðslu. „Útgöngubann frá sex um kvöld til sex að morgni. Allar verslanir og markaðir lokaðir. Allri flugumferð frestað. Bensínskortur. Vegatálmar.“

Tímasetningin var hárfín. Á sama tíma og fjölskylda mín gerði sig klára til að skjóta árinu upp, var verið að skjóta fólk í kringum félaga minn.

Eftirrétturinn var sigldur á borðið og ég veifaði gemsanum um leið og ég brast á með ræðu um að ástandið í Kenía væri afar eldfimt eftir að forsetinn, Mwai Kibaki, lýsti sig sigurvegara í forsetakosningunum sem fram fóru fyrir skemmstu. Mikil reiði braust út í kjölfarið og mótframbjóðandinn sakaði forsetann um kosningasvindl. Ágreiningurinn hefur snúist upp í átök á milli þjóðarhópa en forsetinn og mótframbjóðandinn tilheyra hvor sínum hópnum. „Spáið í hvað við búum í stórum heimi en samt litlum, ha! Á milli flugeldaskotanna okkar og byssuskotanna þar er bara eitt sms.“

... Meira í Morgunblaðinu...

Seinasta sms-ið sem ég fékk frá Kisumu er frá Wilkister sem er yndisleg kona á mömmu aldri. "Pray 4 our Kenya," skrifaði hún og bað fyrir góðar kveðjur til Íslands.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Venjulega fyllist ég ljúfsárum söknuði í lok hvers árs, finnst tíminn alltof fljótur að líða, dauðheld í seinustu daga ársins og fer yfir það skemmtilega sem búið er að gerast.

Hin nýliðnu áramót voru aftur á móti einstaklega auðveld.

Það er bara fínt að árið 2007 sé liðið og komi ekkert aftur, o sei.

Brúðkaup 070707 og heimkoma bróður og frænku voru vissulega frábær. Og ferðir til Ítalíu og Skotlands og Bandaríkjanna. Og samverustundirnar með vinunum í Norwich, sem ég dauðsakna náttúrlega og hafa núna dreifst um allar jarðir. Ég hélt ég væri að fara til Bretlands eingöngu til að læra en náminu fylgdi síðan allt þetta yndislega fólk. Og svo var fínt að sofa í desember, vera með íslensku vinunum og jólast.

Árið 2007 var og verður samt árið sem mér fannst mig vanta fast land undir fætur.

Það var árið sem ég missti matarlystina í marga mánuði, þurfti að horfast í augu við að ég var gjörsamlega búin að ofgera mér, vissi ekki hvað ég átti að gera eftir að vera búin með námið og hætt í sambandi - og vissi ekki hvar ég átti heima.

Venjulega finnst mér fínt að hafa sem fæstar áætlanir og minnsta yfirbyggingu og geta bara stokkið upp í næstu flugvél. En nú fór að plaga mig að vita ekki hvar "heima" væri, búa í kassa og vita ekki hvort ég væri að koma eða að fara frá Íslandi.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.
Árið 2008 leggst ágætlega í stúlkuna.