föstudagur, júní 30, 2006

Konan sem þekkti hvorki haus né sporð á hestum ákvað engu að síður að skella sér á Landsmót hestamanna.

Flippað.

If you can´t beat them, join them.

Konan sem hefur sex sinnum á ævinni farið á hestbak og var að lokum fleygt af baki, ætlar að tala spaklega um hesta alla helgina.

Hún þekkir einn hest: Orra frá Þúfu.
Það er betra en að þekkja engan.

Hún gúgglaði honum Orra sínum áðan.
Það er eitthvað furðulegt við það að gúggla hesti.

En hérna er hann Orri minn:
http://notendur.centrum.is/~holtsmul/orri1.htm

Svo gúgglaði stúlkan líka "hestalitum", til að vera samræðuhæf, og veit núna að hestar geta til dæmis verið móálóttir og bleikálóttir.

Uppáhald hennar er hins vegar www.hestar847.is þar sem gefinn er listi yfir "hin ýmsu nöfn sem fara hestum og hryssum vel"...

Álfur, Djarfur, Flinkur, Háleggur, Eðall, Iðinn, Taktur, Tenór, Úlfur, Útlagi, Einstök og Dásemd koma sterk inn...

Yfir og út.
Norður í land.
Ji ha.

fimmtudagur, júní 29, 2006

Maðurinn á ryksugunni er starfsmaður mánaðarins.

Hann ryksugaði nýja steinteppið í Hádegismóum reglulega í allan dag. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum tók ryksugan meira á taugarnar en ískrandi hávaði þegar verið var að skera gler og pússa, og drunurnar þegar borað var sem mest.

Hvernig vinnur maður með iðnaðarmenn allt í kring, steinryk í lofti og pappakassa í stöflum?

Stingur eyrnatöppunum lengra inn og fær sér verksmiðjukaffi, serverað í 2,5 lítra brúsa.

Það merkilega er að þrátt fyrir allt svífur einhver ótrúlega góður andi yfir vötnum.
Yfir vatni.
Rauðavatni.

Stúlkan hefði getað sparað sér orkuna við að pirra sig á flutningi Morgunblaðsins út í sveit. Rauðavatn hefur hingað til gengið undir vinnuheitinu Kárahnjúkar.

Frökenin tók staðinn í sátt þremur tímum eftir komu í pikknikk í fallegum lundi við hlið hússins.

Nú vinnur hún í því að fá Rauðavatn og Hádegismóa flutta á Miklatún við Kjarvalsstaði svo pleisið verði í göngufjarlægð.

Það er eitthvað fyndið við það að fara í vinnuna en finnast maður vera að fara í útilegu út á land.

Klyfjuð nesti.

Taka strætó sem ég hef aldrei tekið áður og gæti eins verið Austurleið.

Koma á staðinn og finna út að gjáin sem ég skunda yfir á seinustu metrunum gengur undir nafninu Vítisgjá.

Hér er ég komin, yfir Vítisgjá, í nýjar höfuðstöðvar Morgunblaðsins.

Morgunblaðið er orðið að Hádegisblaðinu.

Komið út í sveit uppi í Hádegismóa.

þriðjudagur, júní 27, 2006

Auglýsing aftan á DV Sport:

---
Goldfinger - höfum úrval kvenna og viskítegunda.
---

Konur og viskí til á lager á súlustað í Kópavogi.
Upplagt samhliða sportinu. Boltanum. Stöngin inn.

Dúddamía.

mánudagur, júní 26, 2006

Frábært.

Miðjan úr greininni minni í sunnudagsblaðinu datt út við uppsetningu blaðsins. Auglýsingarnar á hægri síðunni breyttust á síðustu metrunum og þegar greinin var sett upp á nýjan leik í hinu vikulega föstudagsstressi á sunnudagsblaðinu, fór annar tveggja rammanna með greininni yfir 55 línur af megintextanum.

Mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en eftir prentun.

Sum sé: Augnstungin grein eftir mig í Morgunblaðinu í gær. Hjartað farið úr. Einn þriðji greinarinnar ekki í blaðinu. Fyrirsögnin, bein tilvitnun, vísar ekki í neitt því sá kafli datt út.

Hressandi.

Hér er megintextinn í heild sinni. Stúlkan tekur sér bessaleyfi til að birta hann, í ljósi aðstæðna:


Hvernig er að ferðast yfir 8.000 kílómetra til að koma til Íslands í frumkvöðlafræðslu? Það hefur átta manna hópur frá Úganda reynt en hann hefur síðustu tvær vikur setið námskeið á vegum Háskólans í Reykjavík og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Sigríður Víðis Jónsdóttir og Eggert Jóhannesson slógust í för með fólkinu þegar það leit upp úr bókunum og brá sér í Bláa lónið.

Það er 21. júní, sumarsólstöður, og glampandi sól. Í kennslustofu í Háskólanum í Reykjavík situr fólk og lærir markaðsfræði. Út úr stofunni stíga Mary, Sarah, Audrey og Angeline og heilsa glaðlega. Þarna eru líka Christine og Grace og þeir Edward og Charles. Þau koma frá mismunandi stofnunum sem látið hafa til sín taka í Úganda. Blaðakona kynnir sig með fullu nafni. „Þú ert sem sé dóttir Jóns?" Íslensku nafnahefðirnar hafa augljóslega komið til tals.

Síðustu dagar hafa verið kaldir og þungbúnir. Þótt fólkið sé vant rigningu frá regntímabilunum heima í Úganda er kuldinn töluvert meiri hér en þar. Ofnarnir í kennslustofunni reynast hafa verið mikið notaðir síðustu daga.

Yfir kaffinu er boðið upp á flatkökur með hangikjöti. Björtu sumarnæturnar berast í tal og Edward lyftist allur upp. „Maður vissi náttúrlega vel að svona norðarlega væru bjartar sumarnætur en það er skrýtið að upplifa það sjálfur," segir hann brosandi. Mary bendir á að fyrir þann sem ekki er vanur birtu 24 klukkustundir sólarhringsins sé skrýtið að upplifa sólskin seint um kvöld. Það er ef til vill táknrænt að þennan tiltekna dag er lengstur sólargangur.

Að námskeiðinu loknu mun hópurinn halda aftur til Úganda og koma af stað frumkvöðlafræðsluverkefni í samvinnu við Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Fólkið þjálfar hóp samlanda sinna sem aftur mun kenna almenningi að reka fyrirtæki og ýta eigin rekstri úr vör.

Hópurinn gistir í miðbænum og gengur þaðan í skólann, sem stendur við Kringluna. „Auk þess að ganga höfum við tekið ólíka strætisvagna heim eftir skóla klukkan fimm, til að sjá sem flest svæði borgarinnar," segja konurnar. Þær hyggja einmitt á ferð um kvöldið út á Álftanes með tveimur strætisvögnum. „Við verðum nú að fara og sjá hús forsetans."

Þegar blaðamaður og ljósmyndari líta aftur við eftir hádegismat er rektor Háskólans í Reykjavík, Guðfinna S. Bjarnadóttir, stödd í kennslustofunni og ræðir við hópinn um frumkvöðlastarfsemi.

Á sólríkum degi eftir rigningu síðustu vikna á höfuðborgarsvæðinu sjást brosandi Íslendingar hvarvetna þegar kennarinn Magnús Orri Schram ekur út úr bænum á 11 manna bíl sem hann hefur útvegað. Hitamælirinn sýnir þó einungis 13 gráður. „Hvað segirðu, verður eitthvað heitara hér en þetta?!" heyrist í gegnum hlátrasköllin í hópnum.

Hraunbreiðan á Reykjanesinu er glæsileg í góða veðrinu. Grace bendir út um gluggann. „Þegar við ókum af flugvellinum áttaði ég mig ekki strax á því að þetta væri hraun. Heima gegnir það að yrkja landið svo stóru hlutverki að maður hugsaði ósjálfrátt að það hlyti að vera mjög erfitt að rækta nokkuð í landslagi eins og þessu," segir hún og hlær. „Er ekki sagt að maður læri í gegnum augu, hjarta og hendur – það sem maður sér, tengir við sig og þreifar á? Með því að koma hingað til lands til að læra námsefnið höfum við blandað þessu þrennu saman," bætir hún við og bendir sem dæmi á að athyglisvert hafi verið að sjá frumkvöðlastarfsemina hjá Kaffitári.

Bíllinn ekur framhjá nokkrum trjám sem hefur verið plantað. „Nei sko, þarna er skógur!" Allir hlæja.

Við Bláa lónið blakta fánar við hún. „Hva, bara næstum því flaggað úgandíska fánanum og allt!" heyrist úr hópnum. Á þýska fánanum og þeim úgandíska er einungis munur á röð litanna.
Lónið sjálft vekur lukku. Jafnmikið af heitu vatni þykir óvenjulegt og landslagið og leirinn vekja sömuleiðis athygli. „Settu þetta framan í þig, þá yngistu örugglega!" segja konurnar hlæjandi við Edward sem er einn sá elsti í hópnum. „Lít ég ekki út fyrir að vera tvítugur núna?" spyr hann eftir að hafa makað framan í sig.

Blaðakona heyrir af ferð á Gullfoss og Geysi og heimsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. „Það var satt best að segja mjög athyglisvert að fara í dýragarð með húsdýrum," viðurkennir Sarah hlæjandi. „Já, dýragarð með svínum til sýnis," bætir Audrey við. „Gleymdu ekki hænunum!" segir Christine sposk. Þótt þær séu öllu vanari gíröffum og fílum úr slíkum dýragörðum segjast þær hafa séð seli í fyrsta skipti í Húsdýragarðinum og haft gaman af.

Christine er í stjórn frumkvöðlasamtaka kvenna í Úganda. Meðlimir stunda til dæmis viðskipti með textíl og handverk. „Það er mikilvægt að styðja hver aðra og ekki spurning að það sem við lærum hér á eftir að koma til góða," segir hún. Mary kinkar kolli.

Við bakkann í lóninu heyrast köll. „Svei mér þá, ég held ég sé að verða tólf ára!" kallar Edward glaður. Hann hefur bætt enn meiri leir í andlitið.

Í kvöld er sól lengst á lofti og útlit fyrir blíðu. Hópurinn er ánægður. „Það verður náttúrlega ekkert hægt að fara að sofa í þessari birtu. En það verður bara að hafa það!"

sunnudagur, júní 25, 2006

Fjórar útskriftarveislur og eitt stórafmæli á einu laugardagskvöldi eru hressandi.

Enn hressilegra er síðan að fara inn á klósett á sjoppu á sunnudegi, líta í spegil, veina úr hlátri og átta sig á því af hverju afgreiðslustelpan var svona skrýtin á svipinn: Nafnspjaldið úr þrítugsafmælinu hangir enn á ullarpeysunni!

Þemað var norskt og gestir voru ýmist Gro Harlem Brundlandt, Mette Marit eða eitthvað annað norskt og gott.

Og sá sem kom inn í sjoppuna með bauga og úfið hár og keypti kók?

Það var Lilli klifurmús.

Ha ha ha, það besta við Lilla er hvað hann er ofboðslega klár..

föstudagur, júní 23, 2006

Sumir fundir eru betri en aðrir.

Fa la la.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Og þá var hann bara á leiðinni aftur í pössun í höllina við Laugaveg: Klói páfagaukur.

Sumir hætta ekki að treysta páfagaukapössurum þótt þeir hafi misst páfagaukinn út um gluggann og hann ekki skilað sér heim fyrr en nokkrum dögum síðar.

Sumir eru snillingar.

Klói er snillingur.

Örtröð á gangstígnum við Sæbrautina í gær, þegar sólin pompaði í sjóinn rétt til að geta komið upp aftur stuttu síðar.

Sumarsólstöður hafa sérstakan sess í hjarta stúlkunnar.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Brúðhjónin sem vinna brúðhjónaleik Smáralindar fá að velja sér gjafir fyrir eina milljón króna úr verslunarmiðstöðinni.

Uuu.

Hvað á maður að gera við gjafir úr Smárlind fyrir milljón?

Spurning hvort geymsla fyrir allt draslið fylgi með.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er sumar, þótt veðrið sýni eitthvað allt annað.

„Þessa dagana er bjartasti tími ársins. Það er sumar en ekki október," herma staðfestar heimildir.

mánudagur, júní 19, 2006

Að blogga eða ekki?

Stúlkan veit ekki.

Þetta blogg var búið til fyrir langa ferð árið 2003, svona til þess að þurfa ekki að hugsa um tölvupósta og ákveða hverjir vildu heyra fréttir og hverjir ekki. Átti að vera ferðablogg. Varð síðan að ferðabloggi sem hætti ekki. Nýjar ferðir jú alltaf planaðar og svona.

Sumarið 2006 er bloggið í tilvistarkreppu.

Stúlkan veit ekki af hverju hún heldur úti þessari síðu þegar hún er farin að blogga öðruvísi en áður og gagnrýnar færslur sem eitthvað fjör var í eiga ekki heima þar lengur.

Á hátíðisdegi nennir stúlkan hins vegar ekki að hugsa um slíka hluti.

Á bleikum degi byrjar hún aftur.
Með blogg í tilvistarkreppu.

Til hamingju með bleikan dag, 19. júní.