mánudagur, febrúar 27, 2006

Það er eitthvað sérlega óviðeigandi að syngja þunnur og skjálfandi fyrir Vigdísi Finnbogadóttur. Ég skal syngja glær í framan fyrir framan hvern sem er - nema hana.

Vera Ólafs Ragnars Grímssonar á fremsta bekk í Háskólabíó hefur ekki jafnstuðandi áhrif á mig og vera Vigdísar. Mér finnst eins og Vigdís sjái í gegnum mig og ég upplifi mig sem spillta æsku landsins.

Ég stend náföl á meðal altanna, hríðskelf og reyni að greina kórstjórnandann í gegnum þynnkumóðuna meðan ég iðrast gærkvöldsins, iðrast þess að hafa ákveðið að syngja í þessu ástandi og íhuga hvernig í ósköpunum ég muni lifa þetta af.

Ég hugsa með skelfingu til þess að einni mínútu áður hafði ég næstum því gengið sokkalaus inn á sviðið og í bleikri íþróttapeysu. Kórbúningarnir eru svartir og rauðir - og undir þá falla EKKI bleikar íþróttapeysur. Ég var öftust í kvennaröðinni, hafði gleymt að skipta og áttaði mig ekki á því fyrr en strákarnir voru byrjaðir að ganga inn á sviðið. Góður, Sigga.

Kæra Vigdís, ég vona þú hafir ekki heyrt hvað ég söng falskt.
Ég lofa að gera þetta aldrei aftur.

Núna liggur leiðin einungis upp á við.

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Þrjú partý, einir tónleikar og ein árshátíð.
Sumar helgar eru strembnari en aðrar.

Kókosbolluklíningurinn eftir sunnudagsmatinn var skemmtilegur.
Patrekur gerir stundum svona grillað grín, sko.

Verst hve erfitt er að ná kókosbollu úr andlitinu á sér.
Og innan úr nefinu.

Kókosbollan festist við og neitar að fara.
Það er eitthvert tonnatak falið í þessu hvíta gumsi.

Flippað, ha.

Vefsíðan mælir með greininni Þingkonur segja sögur af píkum, í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Sérlega skemmtileg tilviljun að hún er eftir sjálfa mig.

Allir síðan að fara í Borgarleikhúsið á V-daginn, miðvikudaginn 1. mars, og sjá alþingiskonur Íslands túlka Píkusögur. Þingkonur þjóðarinnar sameinast gegn ofbeldi á konum.

Magnað framtak.

Ágóði leiksýningarinnar rennur til forvarnarstarfs V-dagssamtakanna.

Miðasala er hér.

MA in Conflict, Governance and International Development.

Töööööff gráða.

Kannski ekki alveg jafn töff á íslensku þó.

Ég þarf að finna gott íslenskt heiti á þetta, og verða einhver merkilegur fræðingur, ef ég ætla að skella mér í þetta nám.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Þegar ég hringi í fyrirtæki og rödd segir við mig: "Góðan dag, þú ert kominn í samband við bla bla bla" þá er röddin alltaf kvenkyns.

Samkvæmt hávísindalegri rannsókn minni er það alltaf kona sem segir: "Þú ert númer 23 í röðinni."

Það er alltaf kona sem segir: "Því miður eru allar línur uppteknar."

Það er alltaf kona sem segir: "Ýttu á 1 ef þú vilt fá samband við þjónustuver en 2 ef þú vilt fá samband við skiptiborð (og 17 ef þú ert ekki þegar orðinn geðveikur)."

Það þykir greinilega ennþá eðlilegra að konur svari í símann en karlar. Þjónustustörf eru enn kvennastörf.

Ef selja þarf fólki eitthvað dýrt og stórt og flott og rosalegt, þá er hins vegar ævinlega notast við hyldjúpar karlmannsraddir. Þar ráða karlmenn ríkjum.

Ábyrgð og traust, það geta karlarnir.
Konurnar mega hins vegar vera í þjónustunni.

Huh.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Til hvers að fá venjulega blöðrubólgu þegar hægt er að fá sýkinguna einnig upp í nýrnaskjóðurnar og vera veikur í viku?

Nýrnaskjóður, smýrnaskjóður.

Hafði ekki hugmynd um að ég væri einu sinni með einhverjar asskotans nýrnaskjóður.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Ég sé orðið ákveðið mynstur í hegðun minni.

Ég er konan sem fékk-einungis-bólgur-sem-byrjuðu-á-bókstafnum-B.

Fyrir tveimur mánuðum kom ég til landsins með brjósthimnubólgu. Þetta gat auðvitað ekki verið sýkingalaus útlandaferð.

Nú er það blöðrubólga.

Ég er farin að undirbúa mig undir botnlangabólgu.
Við Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, erum að fiffa viðbragðsáætlun.

Er það töff eða er farið illa með mig, með því að setja mig á Paratabs RETARD?

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Mikið er ég fegin að á biðstofu Læknavaktarinnar er ekki eingöngu hægt að nálgast Herópið, rit Hjálpræðishersins, heldur einnig mörg eintök af tímariti um golf.

Í fátæklegum blaðarekkanum finnst einnig bæklingur um Volvó eða einhvern annan bíl. Mig minnir það vera Volvó.

Öllu má síðan renna niður með bók um stofuplöntur.
Ekki einni, heldur tveimur.

???

Nágranninn: "Heyrðu, já, eitt að lokum. Hver er eiginlega þessi Patrekur? (bendir á dyraspjaldið, þar sem stendur fagurlega útskornum stöfum: Patrekur. Jólagjöfin mín til Höllu í fyrra)

Ég: "Uuuu... já voruð þið að velta því fyrir ykkur..."

Nágranninn: "Nei, ja, jú. Það kemur nefnilega aldrei neinn póstur til hans, sko."

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Stúlkan hefur víst verið næld.
Já, já, best að bregðast við, betra er seint en aldrei.

4 störf sem ég hef unnið

Sem humarveiðimaður
Sem lopapeysu- og lundasölukona
Sem sérlegur arfareitingameistari
Sem stuðningsfulltrúi - það er líklega flottasta starfsheitið (stuðnings-what?? Vann á sambýli)

4 staðir sem ég hef verið í fríi á

Egyptaland.
Ibiza.
Seyðisfjörður.
Fnjóskadalur...

4 Sjónvarpsþættir sem ég elska að horfa á

Hjálp.
Sjónvarpsleysi kemur í veg fyrir sjónvarpsgláp.
Horfi þó á Kastljósið á netinu.
Fréttir.
Eikkva svona.
Og náttúrlega sunnudagsþáttinn.

4 staðir sem ég hef búið á

Vesturgata á Akranesi
Surnadal í Noregi
Maine í Bandaríkjunum
Brussel í Belgíu

Í framhaldinu leyfi ég mér að bæta inn stórskemmtilegum lið sem heitir 7 staðir sem ég hef búið á í miðbæ Reykjavíkur og vesturbænum

Tjarnargata
Hjarðarhagi
Hagamelur
Eggertsgata
Njálsgata
Flókagata
Laugavegur

4 vefsíður sem ég dinglast inn á daglega

www.mbl.is
www.ruv.is
www.visir.is

Og alls kyns blogg.

4x besti matur

Lambalæri a la móðir mín.
Slátur með kartöflumús og JAFNINGI.
Öll matargerð í góðum félagsskap.
Kolaportsflatkökur með osti eftir heimkomu til Íslands.

4 staðir sem ég vildi vera á

Í Norður-Kóreu.
Hjá frænkum og fjölskyldu í Bandaríkjunum.
Í Himalaya með Dalai Lama.
Í Hvíta húsinu að veita ráðamönnum alvarlegt tiltal.

4 bækur sem ég get lesið aftur og aftur

Franskbrauð með sultu eftir Kristínu Steinsdóttur
Sólin sest að morgni eftir Kristínu Steinsdóttur
Kleinur og karrý eftir Kristínu Steinsdóttur
Engill í vesturbænum eftir Kristínu Steinsdóttur
(ólöglegt samráð?)

Til hamingju með daginn, Valentínus.
Vona þú hafir fengið fullt af blómum.

Valentínus, hann kann sko að stunda bissness.

Í yfir 50 löndum þjáist fólk vegna átaka og afleiðinga þeirra.

Hverjir ætli græði mest á vopnasölunni í heiminum?

Vopn spretta ekki úr tómi.
Þau eru bissness.

Stríð spretta heldur ekki af engu.
Þau eru mannanna verk.

Þau eru ekki óhjákvæmileg.

Þess vegna megum við aldrei samþykkja átök og segja sem svo að "þetta sé bara svona" og "verði bara að vera svona".

---

Á þriðjudegi uppi í sófa, með heimskortið á veggnum fyrir framan mig, verður allt skyndilega svo skýrt.

Meirihluti mannkyns borðar ekki með hníf og gaffli, heldur prjónum eða höndunum.

Íslendingurinn ég með mína gaffla og hnífa er ekki miðja alheimsins heldur undantekningin.

---

Í sama sófa, með sama heimskort, heldur allt áfram að vera ofureinfalt.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Oft hef ég klínt í mig tannkremi við tannburstun.
Ég hef tjáð mig lengi og ákveðið við yfirmenn mína með væna tannkremsklessu á kinninni - alls ómeðvituð um huggulegheitin.

Ég náði hins vegar nýjum hæðum í tannkremsútklíningum í morgun.

Nýjum hæðum, nýjum víddum.

Ég skaust í morgunkaffi til móður minnar á leið til vinnu og uppgötvaði þá tannkrem á eftirfarandi stöðum:

- Höku
- Vinstri framhandlegg
- Vinstri úlnlið
- Pilsinu
- Efst á rauða bolnum
- Í miðjunni á bolnum (stór klessa)
- Neðst á bolnum

????!!!!!!!

Ég hefi nú íhugað að verða milljóner og fara í samstarf við Colgate um persónulega kynningu á vörum þeirra.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Múslimar - þáttur tvö.

Segjum að fimmtíu þúsund manns hafi farið fram með algjöru offorsi í Stóra Múhammeðsmálinu, brennt fána og beitt ofbeldi. Ég held meira að segja að það sé mjög ofmetið hjá mér. En segjum að fimmtíu þúsund hafi hegðað sér algjörlega fáranlega. Ég fordæmi ofbeldi alltaf, hver sem notar slíkt, múslími, kristinn, rauðhærður, tannlaus eða Reykvíkingur.

Segjum að tvöhundruð þúsund í viðbót hafi fyllt göturnar og mótmælt fremur friðsamlega. Einfaldlega verið reiðar og viljað láta það í ljósi. Ókei, ég skal gefa ykkur hundrað þúsund í viðbót, segjum þrjú hundruð þúsund.

Þá eru þetta þrjú hundruð og fimmtíu þúsund.

Nú, hvað ætli hinn 1,265 milljarður múslimanna í heiminum sé að gera?

Hinar 1256 milljónirnar.

Nei, bara pæling.

Þegar fólkið í kringum mig talar um múslíma sem "þetta fólk" og gefur í skyn að það sé allt út á götu þessa dagana að mótmæla, "enda þarf ekki annað en að líta í blöðin og sjá myndir af brenndum fánum" verð ég fyrst reið og síðan sorgmædd. Raunar ákaflega sorgmædd.

Ef 50.000 manns fylla miðbæ Reykjavíkur í kröfugöngu og 8 öfgamenn ákveða að kveikja í stjórnarráðinu, hversu lýsandi er þá ljósmynd af brunanum og vitleysingunum 8? Hvað fyndist mér þá, sem einni af stóra hópnum, um að hún væri aðalfrétt frá Reuters og AP og tekin sem dæmi "af þessu fólki sem gerir ekkert annað en að kveikja í og fara um með ófriði"?

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Múslimar eru 1,3 milljarður.

Ég frábið mér tali um að múslimar séu svona eða hinsegin.

Ég hef verið í nokkrum löndum þar sem múslimar eru ýmist í meirihluta eða fjölmennir og sorrý, ég get bara ekki séð að félagar mínir við Katar í Persaflóa eigi svo mikið sameiginlegt með félögum mínum í Malasíu, þúsundum kílómetrum austar, að þeir falli auðveldlega í einhvern "svona-eruð-þið-flokk". Ekki einungis eru þessir tveir hópar ólíkir, heldur eru þeir einnig ólíkir innbyrðis. Hér er nefnilega auðvitað um einstaklinga að ræða, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir og Gilsenegger eru ekki sérlega lík þótt þau séu ef til vill bæði kristin og tilheyri "hinum kristna menningarheimi".

Nú, ólíkir múslimunum í Katar og Malasíu voru síðan múslimar í Afganistan og múslimar sem ég hitti í Evrópulandinu Bosníu. Eitthvað hitti ég af múslimum á Indlandi og þeir voru enn öðruvísi, enda á allt öðrum stað, við allt aðrar aðstæður. Múslimarnir sem ég spjallaði við í Egyptalandi voru fjarska ólíkir indversku múslimunum og þeir örfáu sem ég hitti í Suður-Súdan litu síðan allt öðruvísi út (múslimar í Súdan eru í meirihluta í norðurhlutanum) og áttu sér annað líf.

Það er ekki samasemmerki á milli múslima og araba.
Ekki allir múslimar eru arabar.
Og ekki allir arabar eru múslimar.

Þegar við tölum um "múslimaheiminn" erum við að fabúlera um einn fimmta hluta mannkyns.

Takk og bless.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Draumfarirnar halda áfram.
Í nótt hafði dularfull græn slepja búið um sig í vaskinum á heimi foreldra minna. Í stað vatns flæddi grænn massi úr krananum. Hann breyttist síðan í vel niðurskorið grænmeti, eins konar hrásalat.

Kona spyr sig hvort samhengi sé á milli draumanna og hvort rottan sem át gsm-símann í fyrrinótt, hafi mögulega breytt honum í grænmeti.

Það er allt hægt.
Þetta er furðulegur heimur sem við búum í.

Síminn er að minnsta kosti kominn í stofufangelsi og ekki hleypt einum út í þetta ofboðslega hættulega umhverfi, þangað til draumfarirnar skýrast.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Kona spyr sig hvað það merkir að dreyma að rotta hafi étið 5110 gæða-gemsann hennar. Eftir átið hafi rottan stungið sér til sunds í straumharðri á.

Dúddamía, þetta er eitthvað ákaflega táknrænt..

Til hvers að vinna einn vinnudag á einum degi, þegar hægt er að vinna tvo, og staulast út 16 tímum eftir að maður mætti til vinnu?

Til hvers líka að tengja réttar ljósmyndir við greinarnar þegar hægt er að gera þær miklu skemmtilegri, með því til dæmis að tengja óvart ljósmynd af Dalvíkurkirkju, sem er í kerfinu, við grein um vörubílaumferð á þjóðvegum landsins?

Ha ha ha, það uppgötvaðist þó í tæka tíð.

Ég bendi annars á vörubílagreinina í sunnudagsblaðinu.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Og svo var hann bara kominn frá Malí.

Hann.
Hún.

Patrekur.