föstudagur, september 30, 2005

Í gær fór ég í hraðbanka og reyndi að taka út 100.000 krónur.

Úbbs, ætlaði að stimpla inn 400 Litai en stimplaði óvart inn 4000.
Flott hjá þér fröken.

Kortið mitt leyfði ekki svona stóra úttekt.
Sem er fínt því annars hefði ég verið með ígildi 100.000 króna í litháenskum peningum.

Vel af sér vikið stúlka.

Það hefði bara verið barinn og aftur á barinn og drífa allan bæinn á barinn, ef úttektin hefði farið í gegn. Eða kaupa banka í Litháen, bjórverksmiðju eða flugfélag.

fimmtudagur, september 29, 2005

Hvað get ég beðið um annað eftir heimsókn í kjarnorkuver, heldur en kokkteil sem samanstendur af bjór, jógúrti, hunangi og sítrónu?

Ha ha, ég dey þegar ég sé matseðilinn og verð að prófa blönduna. Blandan mín og blandan þín, jógúrt, bjór og sítróna. ???
Verð að smakka slíkan óþverra og það þótt ég sé með mjólkuróþol.
Iss, það verður að hafa það.

Þetta var í gær og ég er enn á lífi.
Fingurnir ekki enn dottnir af og maginn enn á sínum stað.

Spurning hvort ég hafi hins vegar orðið fyrir alvarlegri geislun í kjarnorkuverinu.
Ég var bílveik á leiðinni heim og verð aldrei bílveik.

Það er náttúrlega stórhættulegt að vera að þvælast þetta til útlanda.
Ég bíð eftir að hárið byrji að detta af mér.

þriðjudagur, september 27, 2005

Litháen.
Ráðstefna um aukna samvinnu landamærasvæða við Eystrasalt. Fimm kíló af ráðstefnugögnum í flottri möppu. Fullkomin heyrnartól með þýðingu sérstakra túlka á bæði rússnesku og ensku.
Ég.
Umfjöllun í Mogganum á morgun by Ms. Jonsdottir from Iceland.

Sól og blíða.
Vilníus með allar sínar kirkjur.
Svyturys bjór með fréttamönnum héðan og þaðan.
Kaffi á skemmtilega sjúskuðum pöbb.
Hvítrússneskur háskóli í útlegð. Svældir í burtu af einræðisherrum í landinu.
Lítil rakarastofa í litlu þorpi.
Furðulegur fundur með 15 embættismönnum sem sitja í röð og líta út eins og klipptir út úr grímynd. Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera þarna og þeir vita augljóslega enn minna hvað í helvede þessi stúlka í bleika bolnum, sem berst við að míga ekki í sig af hlátri, er að gera þarna.
Omnitel farsímafyrirtæki og Litu peningaseðlar.
Gamall maður á akri.
Kýr á beit.
Konur með skýluklút.
Epli í körfu.
Hestakerrur.
Umræður um Evrópusambandið og inngöngu Litháen í fyrra.
Rjómaterta í tilvistarkreppu sem heldur að hún sé ostakaka.
92 ára einmana kona sem nær mér ekki upp að brjósti.
Verslunarmiðstöðvar og hræódýrar vörur.

Yfir og út.

laugardagur, september 24, 2005

Æ, æ, ég "neyðist" til að vera einn dag og eina nótt í Kaupmannahöfn á leið til Litháen.

Voða voða leiðinlegt að eyða sunnudegi í Köben á hálfum dagpeningum að leika við vini sína úr Háskólakórnum, sem þar búa.

Kórinn er í bullandi útrás.
Níu meðlimir þar.

Það er ekki bara Baugur sem fer til Danmerkur.

Stundum skil ég ekki alveg þetta líf.

fimmtudagur, september 22, 2005

Rúgbrauð með kavíar - smekklegt og ljúft tvíeyki eða örvæntingarfull og óhugnanleg tilraun sársvangrar stúlkur til að seðja sárasta hungrið?

miðvikudagur, september 21, 2005

Áldórs saga Ásgrímssonar - í Morgunblaðinu í dag.

Gróf frökenin formlega gröf sína sem blaðamaður í gær, þegar hún settist niður og fannst ofsalega fyndið, eftir að hafa drukkið fimm kaffibolla, að endurnefna ráðamenn og frammámenn þjóðarinnar og gera stólpa grín að íslensku samfélagi?
Umm. Spurning.

...

Sindri Snær hét maður, Alexandersson, Bjarmasonar, Tandrasonar. Hann bjó í Grafarholtinu, var mikill vexti, femínisti og vel á sig kominn eftir bæði body pump og spinning.

Alexía Nótt hét kona hans, ættuð úr tvílyftu húsi í Garðabænum. Sindri Snær og Alexía Nótt voru kynstór og áttu fullt hús barna, nokkur úr fyrri hjónaböndum og
tvö saman. Það voru þær Perla Mjöll og Birta Mist.

Á þessum tíma réð fyrir Íslandi Áldór Ásgrímsson. Sá siður að ríða eða ganga á milli bæja hafði fyrir löngu aflagst og landsmenn óku hvert hænuskref. Þeir hringsóluðu á bílastæðum fyrir utan verslunarmiðstöðvar, til að tryggja sér
stæði sem næst innganginum. Mannfræðingar höfðu uppgötvað þjóðflokkinn konur en um þær höfðu fáar heimildir fundist í ritum fyrri alda og efuðust sumir um að þær hefðu yfirhöfuð verið til.

...

Æska landsins var hætt að lesa og þekkti kindur einungis sem kjötsneiðar á frauðplastbakka. Hana minnti að Kalda stríðið hefði verið bíómynd með East Clintwood og hélt að múslímar væru einhvers konar eitruð skelfisktegund.

Á þessum tíma var ein af goðorðskonum landsins Álgerður Sverrisdóttir hin virka. Hún var svo nefnd sökum hlýinda þeirra er hún bar í garð hvers kyns virkjanaframkvæmda. Hún var líka afar virk við að koma áformum sínum í framkvæmd. Álgerði virku hugnuðust illa mótbárur þær er bárust frá samferðamönnum hennar, sérstaklega manni þeim er að austan var og nefndist Eingrímur Joð.

...

Nú átti það sér stað að ræstitæknir hjá Haugi kvartaði yfir slæmri vinnuaðstöðu og viðamikil rannsókn var sett af stað. Jásgeiri var gefið að sök að hafa of marga og óskipulega hauga á skrifborðinu í höfuðstöðvum Haugs, svo starfsmanninum reyndist erfitt að þurrka af borðinu. Í verkskýrslu í 40 liðum var hann skikkaður til að útrýma haugunum, taka til á skrifborðinu, pússa það með Ajax og raða lausum skjölum í möppu.

Jásgeir var maðurinn sem íslenska þjóðin ræddi um á fyrstu misserum Áldórs Ásgrímssonar í embætti. Nokkrum árum áður höfðu augu fólks beinst að fyrirtæki í Vatnsmýrinni. Þar réð ríkjum í stæðilegri höll Ári Stefánsson. Um var að ræða fullkomið sviftæknifyrirtæki sem vistaði í stórum og miklum gagnagrunnum ferðir svifs í sjó við Íslandsstrendur. Ferðirnar voru dulkóðaðar nákvæmlega til að tryggja að ekki væri hægt að rekja saman svif og sundstefnu þess.

...

Meira í Mogganum.
Út að kaupa hann.
Gerast áskrifandi.
Frið á jörð.

þriðjudagur, september 20, 2005

Hvar styður maður góðan málsstað, fær peysu sem lítur út eins og ný og grefur upp ljómandi góða inniskó? Borgar 1300 krónur fyrir allt saman.

Í Rauðakrossbúðinni á Laugavegi 12.

Inniskórnir gera sig vel í vinnunni og harmónera einmitt við litinn á tölvuskjánum. Peysan er í stíl við gleraugun.

Magnað.

föstudagur, september 16, 2005

Þema septembermánaðar verður myndaþema.

Nú er það Eþíópía.

Það er náttúrlega ekkert í Eþíópíu nema hungursneyð og Eþíópíubúar líta allir eins út.

Ble.Stelpa af Hamar þjóðflokknum í Suður-Eþíópíu. Eþíópíubúar rústa Íslendingum í stíl og skarti. Ég er að segja ykkur það.Í Eþíópíu eru líka börn í gallajökkum...Svo er fólk að setja út á að ég taki of mikið í vörina, ha ha haTöff greiðsla. Töff hálsmen.

fimmtudagur, september 15, 2005

Ég þurfti að fylla áðan út eyðublað vegna ráðstefnunnar sem ég fer á í Litháen.

Þegar ég valdi landið Ísland af lista yfir öll lönd heimsins, var þar ekkert Iceland. Hins vegar fann ég Icel And.

Ég er Sigridur Vidis Jonsdottir fra Icel And.
Töff.

mánudagur, september 12, 2005

Sigga, viltu fara til Litháen á vegum blaðsins???

Ha ha ha, snilld.

Tinni goes to Lithuania in two weeks time.

Ég þarf að punkta hjá mér að eiga fleiri svona mánudaga, þar sem mér er boðin utanlandsferð.

sunnudagur, september 11, 2005

Hvað gerir maður þegar nágranninn bankar upp á til að kvarta yfir partýinu?

Nú, býður honum inn, brosir út að eyrum, blikkar manninn - réttir honum bjór og fyllir kauða markvisst, fljótt og örugglega.

Svínvirkar.
Maðurinn veltur út mörgum klukkustundum síðar, himinlifandi yfir þessum yndislegu og skemmtilegu stúlkum í húsinu.

Patrekur náði áður óþekktum hæðum um helgina í hugdettum og framkvæmd þeirra.

Af hverju að eiga fulla tannkremstúpu þegar hægt er að eiga túpu sem þarf að kreista í kortér til að fá eitthvað úr henni? Arg.

Og ekki bara eina í slíku ástandi heldur fjórar.

Ha ha ha.

Konurnar sem söfnuðu tómum tannkremstúpum.

föstudagur, september 09, 2005

Tinni fór til Kongó.
Sigga fór til Grænlands.Málverk eða sena úr mynd eftir Tolkien?
Nei, bara Grænland.

Ma-hagnað land.
Ís út um allt.
Emmess og Kjörís hafa ekki roð í Grænlendingana.
Dótahúsin, ísjakarnir, fjöllin, hundasleðinn, þvotturinn á snúrunum, ja hvar er ísbjörninn?
Kannski bara þarna.
Kannski bara dauður.
Ísjaki í höfninni í Kúlusúkk.
Kúlusúkk er bærinn í 20 mínútna göngufjarlægð frá flugvellinum og þar búa 300 manns.
Á öllu Austur-Grænlandi eru 7 byggðir og íbúafjöldi nær ekki 4000.
Dótahúsin í Tasillaq, part II.
Ég fór með þyrlu frá Kúlusúkk yfir fjörðinn til Tasillaq.
Húkkaði mér síðan far með báti til baka.
Tinni með stórborgina í Kúlusúkk í baksýn.
Auglýsing í kjörbúðinni hinum meginn við fjörðinn.
Skákfélagið Hrókurinn hélt skákmót.
Ruslabíllinn í Kúlusúkk er grafa.
Gráa húsið er baðhúsið í þorpinu, þar sem hægt er að fara í sturtu og þvo þvott.
Það eru ekki allir með rennandi vatn, jú sí.
Íslenska lambið?
Nei, ísbjarnarkjöt.
Framreitt með Bearnise-sósu.
What?
Þennan langar til Parísar á menningarhátíð.

---

Búið.

fimmtudagur, september 08, 2005

"Rich countries spend $1 billion every day on supporting their farmers. If they pledged the same amount every year to a permanent emergency fund at the UN, preventable crises like Niger and southern Africa would not happen because money would be available as soon as a country needed it," segir í yfirlýsingu hjálparsamtakanna Oxfam á síðunni All Africa.

Sorgleg staðreynd.
Snilldar vefsíða.
Fréttir og fróðleikur frá Afríku.

Þegar ég ætla að pikka inn á tölvuna orðið maður skrifa ég sérlega oft orðið maur.

Það sem er sorglegra er að þegar ég hef drukkið of mikið kaffi finnst mér það bráðfyndið.

miðvikudagur, september 07, 2005

Í heiminum búa 6,5 milljarðar.
6500 milljónir.

Sexþúsundogfimmhundruð milljónir.

Á Íslandi búa 291.000.

Í þróunarlöndunum - "æ, harna löndunum harna langt í burtu, harna sem hinir búa" - lifa fjórir fimmtu hlutar mannkyns. Fjórir af hverjum fimm.

Hverjir eru normið og hverjir undantekningin í þessum heimi?

Nei, mér datt það bara svona í hug.

Þetta ritaði samstarfskona mín í pistli í Lesbókinni um seinustu helgi, þar sem hún veltir fyrir sér Kárahnjúkavirkjun:

Fyrirhugað Hálslón verður ámóta víðfeðmt og Hvalfjörður, a.m.k. fimm ár verða stíflaðar, slökkt verður á 15 kröftugum fossum Jökulsár í Fljótsdal, friðland Kringilsárrana hefur verið minnkað um fjórðung, áhrifasvæði virkjunarinnar mun vera allt að 3.000 ferkílómetrum og þannig má áfram telja. Allt til að halda gangandi einni verksmiðju í firði.

Á vettvangi lítur þetta út fyrir að vera ein af þessum fyrirsjáanlegu bíómyndum þar sem vinnuvélar stórfyrirtækis ógna náttúruverðmætum (regnskógi, sögustað, leiksvæði) fyrir stórframkvæmd (verksmiðju, háhýsi, verslunarmiðstöð). Augljóst er hver er vondi karlinn en hetjurnar (oft börn) koma á síðustu stundu í veg fyrir verkið og allir enda sælir og glaðir. Hin dæmigerða fjölskyldumynd, gjarnan frá
Disney.

En fyrir austan er ekkert Disneyland. Þar halda vélarnar áfram, líka um helgar, svo hleypa megi vatni á Hálslón í september 2006.

---

Hún skrifar líka:
Ég hef lengi átt erfitt með að skilja hvernig mönnum datt í hug þetta ógnarrask, þorði samt aldrei að andmæla því ég vissi ekki nógu mikið, þekkti fáa fyrir austan og heldur ekki heimsmarkaðsverð á áli.

þriðjudagur, september 06, 2005

Fiskibollurnar sem ég tók með í nesti í vinnuna í morgun, vöktu almennan viðbjóð þegar ég var búin að hrúga tómatsósu yfir þær.

Fólk kann náttúrlega ekki gott að meta.

mánudagur, september 05, 2005

Kerlingarfjöll í glampandi sól og fersku lofti og góðum félagsskap, eru engu lík.
Hvítan Langjökulinn ber við bláan himinn og Hofsjökull er stæðilegur.
Kerlingarfjöllin sjálf alhvít eftir kulda seinustu daga.
Snæfríður snjókona sem búin er til vaktar háhitasvæðið undir fjallinu Snækolli.
Ísbreiða liggur við kraumandi vatn og heitar gufur.

Heimabakaðir kanilsnúðar eru góðir.
Það er gaman að syngja og góla í upphækkuðum jeppa með hund í skottinu.

Í sumarbústaðnum í Skyggnisskógi bíður hópur af skemmtilegu fólki.
Heiti potturinn breytist í brauðsúpu eftir þriggja tíma pottaferð.
Hver er að fara úr allri þessari húð?!
Á maður ekki bara að fara úr hárum?
Ef við myndum veiða húðina upp úr með háf gætum við hnoðað hana saman í bolta og búið til fyrirtaks brauðbollur.

Orðin kveldriða, froskafiskur og sjónhanna líða út í nóttina í æsispennandi Fimbulfambi.
„Patti“ er hundur sem misst hefur útlim.
Ha ha ha.

Matador daginn eftir lýkur með nokkrum gjaldþrotum og uppgangi voldugra hótelasamstæða.
Hvað gerðist?
Hvar er Samkeppnisstofnun?

Piparsósudollan er orðin hálf.
Hver borðaði alla þessa piparsósu?

Jæja, best að fá sér massarínuköku og kaffi.

Allir að fara til útlanda bara.
Ja há.

föstudagur, september 02, 2005

Hvað er eðlilegt að drekka marga kaffibolla yfir daginn?

Hver þremillinn.

Appelsínan sem ég skutlaði ofan í handtöskuna á leið í vinnuna, vakti lukku í strætó þegar hún valt úr töskunni og út á gólf.

Já, já, og af hverju svo sem?

Ja, það gæti tengst því að EINHVER Á HEIMILINU VAR BÚINN AÐ TÚSSA Á HANA OG GERA HANA AÐ BROSANDI KARLI MEÐ SÓLGLERAUGU.

"Við gerum þetta stundum við matinn okkar sko. Svo miklu hressilegra og persónulegra, uuuuu...."

Reminder: Athuga hér eftir hvort búið sé að mála ávextina sem ég tek með mér út úr húsi.