þriðjudagur, maí 31, 2005

HA HA HA HA HA HA HA

Var að fá símtal.

"The Indian President is willing to give you an interview at Nordica Hotel tonight at 10 o´clock."

Jæja já.

Hvað hef ég annað og betra að gera á þriðjudagskvöldi en að taka viðtal við forseta annarar stærstu þjóðar í heimi?

Var að reyna að plögga viðtal við manninn vegna sérblaðsins í seinustu viku. Einfalt tölvupóstsviðtal. Gekk ekki eftir því forsetinn var farinn af stað og gat ekki svarað. Indversku sendinefndinni fannst þetta svo leitt að hún hringdi í dag og bauð viðtal við manninn í eigin persónu.

"And you are gonna be the only one from the Icelandic media to get a privat interview."

Hugsið til mín, hugsið til mín.

sunnudagur, maí 29, 2005

Barnið mitt fæddist í dag.
Það var 12 merkur, ég meina 12 síður, og lítur alveg eins út og Indverji.

Móðirin er að jafna sig eftir fæðinguna.
Líðan eftir atvikum góð.

Barninu heilsast vel og er farið að heiman.

föstudagur, maí 27, 2005

Já, já... stækka Indlandsblaðið upp í 12 síður?
Akkúrat.
Einmitt.
Uuuu..

Ég segi nú bara, til hvers að vinna í átta tíma þegar hægt er að vinna í átján?

Aukablað Morgunblaðsins um Indland á sunnudag - sem gefið er út í tengslum við komu indverska forsetans til landsins og fröken Sigríður skrifar frá A-Ö - verður tímamótaverk.

Jólagjöfin í ár.

Alla vega sumargjöfin.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Þar sem ég sit við skrifborðið mitt um kvöld í Morgunblaðshúsinu, horfi á Verslunarskólann út um gluggann og drekk sjötta kaffibollann yfir daginn, verður einhvern veginn fáranlegt að hugsa til þess að hafa gengið um markað í Úganda fyrir viku.

Keypt ananas við kertaljós um kvöld í sandölum með tærnar út í loftið.
Hafa verið í Rúanda fyrr þann dag.

Mér til hróss segist að ég er að æfast í því að stökkva á milli heima.

mánudagur, maí 23, 2005

Hvað segirðu, gera aukablað með næsta Sunnudagsmogga um Indland?
Átta síður, já? Einmitt.
Ha, skila um hádegi á föstudag?

Uuu... jú segjum það.

Hjálp.

Vikan verður í boði BKI kaffis.

laugardagur, maí 21, 2005

Nú ætla ég bráðum að setjast niður og lesa hvað í ósköpunum ég var að skrifa frá útlandinu. Síðan ætla ég að skrifa allt hitt sem ég aldrei skrifaði. Segja frá konum og körlum, börnum og búfénaði sem aldrei rötuðu á vefsíðuna.

Síðan er á 5 ára planinu að setja inn myndir.
Fara í einhver fleiri skemmtileg ferðalög seinna.
Hvert það verður veit nú enginn. Fyrst ætla ég að einbeita mér að íslenskum útilegum og grillveislum.

Tunglið á Íslandi snýr vitlaust. Það er lóðrétt en ekki lárétt.
Mér finnst það flottara liggjandi á bakinu en standandi upp á rönd.

Sólin er líka eitthvað að misskilja þetta. Skín bara og skín og fattar ekki að fara niður klukkan sex á kvöldin.

Ef þetta væri í Afríku væri hún sökuð um að vera bæði vitlaust og löt.
Að hún nennti hreinlega ekki að fara niður.
Eða væri svo óupplýst hún vissi ekki að það væri til siðs að láta sig hverfa eftir kvöldmat.

Pepsi Max. Brauð með nóg af osti. Brauð með lifrarkæfu. Flatkökur. Brazzi. Seríós. Kjörís og mikið af honum. Skúffukaka. Pönnukökur með rjóma.

Velkomin heim.

Ég borðaði meira fyrsta daginn minn heima en í heila viku úti. Fékk kvíðakast úti í matvörubúð. Valið var svo mikið að ég gat ekki valið. Velkomin í paradís, velkomin í allsnægtirnar. Búðarferðin endaði með því að ofan í pokann fór bókstaflega allt sem mig langaði í. Á matseðli dagsins í gær, og sem ég gat ekki með nokkru móti troðið ofan á öll lögin í maganum á fimmtudag, var meðal annars skyr, meira Pepsi Max, epli, reyktur lax, slátur og nóg af osti. Skuggalegur grautur af hinu og þessu íslensku og óíslensku sem ég hafði saknað.

Mar er kominn í neysluna aftur.
Kaupa, kaupa. Neyta, neyta. Meira, meira.
Áfram Ísland. Setja heimsmet í neyslu.

Áfram Selma.´ Vinna Júróvísjón í kvöld.

Nei, úps, það er víst ekki hægt.
Bömmer.

Ég sem átti eftir að kaupa mér bæði grill og sjónvarp og fá það ókeypis ef Ísland ynni.
Jeddúdamía. Hvað klikkaði?

Hressandi að anda að sér fersku lofti. Drekka vatn úr vaski. Hafa aðgang að ADSL nettengingu. Senda sms. Aka bíl á nýjan leik. Hafa ísskáp. Geta fyllt hann auðveldlega í næstu matvöruverslun. Hafa heita sturtu með nóg af vatni. Vera með þvottavél. Sofa með sæng. Sleppa moskítónetinu. Hafa rafmagn og nóg af því.

Skrýtið að leggja frá sér gráu víðu buxurnar og götótta rauða kuflinn. Fara í gallabuxur, pils, peysu, jakka og úlpu. Skrýtið að skera sig ekki lengur úr hópnum. Til að byrja með er alltaf skrýtið að vera í minnihlutahópi – að líta allt öðru vísi út. Síðan venst það og á endanum er stórskrýtið að vera eins og allir hinir.

Vont að fara í lokaða skó og sokka eða sokkabuxur. Í fjóra mánuði var ég í sandölum með einföldu bandi milli tánna. Var hreinlega ekki með aðra skó með mér. Þegar ég fer í sokka núna finnst mér ég vera að reyna að kyrkja tærnar. Drepa þær hljóðlega – ef ekki úr súrefnisskorti þá eigin táfýlu.

Kalt að fá vindinn beint framan í andlitið og aftan á hnakkann á sama tíma. Ganga fyrir húshorn og fá kaldann vind á hægri hliðina, ganga framhjá húsporti og fá kaldan vind vinstra meginn.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Thad er baedi eins og thad hafi verid i gaer og fyrir morgum arum sem eg hossadist i leigubil og leitadi ad gistiheimili fyrstu nottina i Ethiopiu.

Timinn er furdulegt fyrirbaeri.

Thad var skitakuldi thegar eg for ad heiman i januar. Nu hlakka eg til ad koma heim i islenska vorid.

Thad er alltaf skrytid hvernig madur fer af stad fra Islandi med oskrifad blad fyrir framan sig. Veit ekki einu sinni almennilega hvert madur er ad fara. Sidan lidur timinn og allt i einu er madur farinn ad virda fyrir skartgripi og skinnklaednad vid strakofa i sudurhluta Ethiopiu, og lentur austur i land i kaffibod. Madur litur sidan a almanakid sitjandi i bati a stilltu vatni i nordrinu og uppgotvar ad madur er buinn ad vera tvo manudi i landinu. Tha kaupir madur flugmida annad og veit ekki hvad tekur vid.

17. mai situr madur sidan og bordar maismjol og baunir og oradna framtidin er ordin ad minningum. A oskrifada bladid skrifudu sig sterkar konur i hardri lifsbarattu i Kenya, heimagisting hja storfjolskyldu a eyju uti a vatni, dansspor vid kenyska tonlist, filar og villisvin i Uganda, flottamannabudir og matvaeladreifing, athyglisverdar rutuferdir og skaergraenar haedir og skuggaleg saga i Ruanda.

Madur hugsar um allt goda folkid sem madur hefur hitt og fer ad brosa ut ad eyrum. Thott thad seu strid og djofulgangur i heiminum er lika mikid af godum hlutum i honum - afskaplega mikid af godu folki.

Folki sem er stort og litid, mjott og feitt, laest og olaest, stuttklippt og sidhaert og alla vega a litinn. Folk sem er svona folk eins og eg og thu og hefur drauma og vonir, vaentingar og gledi.

Folk.

Af hverju ferdast eg?

Til ad laera meira um heiminn. Kannski til ad laera meira um sjalfa mig lika.
Til ad hitta folk.

Thessi ferd var einstaklega laerdomsrik.
Nu aetla eg heim ad hitta yndislega folkid mitt.

Af hverju efa eg ad eg myndi bjoda utlendingi sem eg pikkadi upp uti a landi ad gista heima hja mer i eina og halfa viku?

Ad eg aeki med hann um alla borg og kynnti hann fyrir athyglisverdum Islendingum.

Ad eg segdi ad thad vaeri mikilvaegt ad tekid vaeri vel a moti erlendum gestum og ad their faeru heim med godar minningar.

Ruanska kommunan min bidur ad heilsa.

Thar a bae vissu menn ekki um stangastokks arangur Thoreyjar Eddu okkar, fylgdust ekki med handbolta, hofdu aldrei heyrt af glaestum sigri Islendinga i thorskastridinu og hofdu ekki hugmynd um hver Selma vaeri.

You don't know Selma okkar - OUR Selma??

Thad verdur natturlega ad hjalpa thessu folki ad brjotast ut ur fafraedinni.

mánudagur, maí 16, 2005

Operation Rwanda er lokid.
Eg held til Uganda med rutu i fyrramalid.
Timinn flygur hratt a neyslubrjalaedis old.
Flugid mitt er a midvikudag.

Eg er ad fara heim.
Heim i heidardalinn.

Eg fer fra Uganda um morguninn og verd komin i pulsu med ollu, kokomjolk, skyr og slatur um kvoldid.

Flugsamgongur heimsins eru magnadar.

Eg skildi Kenyubuana eftir i rykmekki i hlaupinu a sunnudag. Theysti af stad og hljop thetta an thess ad blasa ur nos. Svitinn lak hins vegar af Kenyubuunum sem komid hofdu til landsins og their nadu vart andanum i brekkunum.

Ha, nei var thad ofugt?
Jaeja.

15 ara heimamadur hof ad hlaupa vid hlid einnar af islensku marathonkonunum. Hann var skradur i halfmarathon. Thegar hann hafdi lokid thvi - SKOLAUS nota bene - akvad hann ad skella ser 21 kilometra i vidbot. Ja ja, hlaupa bara alla leid med okkur konu. Fara si svona 42 kilometra og thad berfaettur. I glampandi sol, upp og nidur brekkur. Ja ja, um ad gera bara. Hvad gerir madur ef madur a ekki sko?

Sjalf fekk eg hins vegar haelsaeri eftir finu hlaupaskona sem Islendingarnir toku med fyrir mig fra Froni. Ha ha, gott a mig.

laugardagur, maí 14, 2005

Sunnudagsmogginn og fréttatími Ríkisútvarpsins á morgun.
Stay tuned.

Jónsdóttirin tjáir sig um Alþjóðlega friðarmaraþonið sem hlaupið verður í Rúanda klukkan átta í fyrramálið. Grein og viðtal við Íslendinga í Mogganum og babl í hádegis- eða kvöldfréttum útvarpsins.

Friðarmaraþonið er merkilegur viðburður. Risaatburður í Rúanda. Í raun fyrsti stóri, jákvæði viðburðurinn eftir þjóðarmorðin 1994. Búist er við 2000 keppendum, flestum frá Rúanda og nágrannaríkjunum en hér eru einnig 200 Vesturlandabúar.

3 íslenskar konur ætla að hlaupa fullt maraþon. Ég stefni sjálf á að komast lifandi í mark eftir 5 kílómetra „run for fun“ skemmtiskokkið. Lítil börn og fólk með barnavagna tóku fram úr mér í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. Ég hef haldið mig algjörlega frá hlaupaæfingum seinustu daga af ótta við að þær dragi úr mér kjarkinn, ha ha. Hef hins vegar stundað andlegar æfingar ötullega. Horft á keppnisnúmerið og farið yfir brautina í huganum, jamm og já.

Friðarmaraþonið er hugmynd Soroptimista - alþjóðlegra samtaka kvenna sem reyna ásamt öðru að vinna að friði í heiminum. Tákn friðar hefur alveg sérstaka þýðingu á stað eins og Rúanda sem þekktur er fyrir allt annað en frið. Verkefnið er unnið í samvinnu við rúönsku ríkisstjórnina og hún hyggst taka við þessu og reyna að gera þetta að árlegum viðburði. Það er óskandi að Rúanda verði þekkt fyrir friðarmaraþon í framtíðinni.

Hugmyndin er að á morgun hlaupi Hútúar og Tútsar hlið við hlið og það sem Rúandabúar. Að fólk í Rúanda geri eitthvað jákvætt. Að útlendingar komi til landsins. Að Rúanda fái jákvæðari ímynd.

Gott mál.

Já, já, hressandi bara að skreppa á laugardagsmorgni og vera viðstaddur réttarhöld yfir manni sem sakaður er um þátttöku í óhugnaðinum fyrir ellefu árum. Upplagt að skella sér óétin, kaffilaus og syfjuð og hlusta á fólk lýsa því hvernig viðkomandi drap föður þeirra, brenndi hús og elti uppi nágrannana.

Vitnaleiðslur í gacaca - local réttarhöldum vegna þjóðarmorðanna - eiga sér stað um allt land í mörg þúsund litlum hópum. Flestir hittast einu sinni í viku. Fólk úr hverfinu kemur saman og talar um hvað gerðist, segir sína reynslu og reynir að fá fram sannleikann. Síðan eru þeir sem fundnir eru sekir dæmdir.

Við vorum um 150 manns í réttinum í morgun, að hálfu undir berum himni. Einn af öðrum stóð upp og lýsti því hvað hinn ákærði hafi gert. Ég gat ekki slitið augun af manninum. Hann stóð álútur á miðju gólfi, svitnaði og neitaði öllum sakargiftum. Hann horfði í augun á mér. Ég horfði í augun á honum. Hvorugt leit undan. Hvernig drapstu nágrannann - hjóstu af honum höfuðið með sveðjuni eða stakkstu hann í hjartað?

Augnablikið er furðulegt. Það voru ekki bara einhverjir sem drápu einhverja í einhverju furðulegu brjálæði í landi langt í burtu. Nei, það var fólk eins og nákvæmlega þessi maður sem gekk um og drap - og fólk eins og maðurinn við hliðina á mér sem lenti í ofsóknunum. Fólk eins og gamla konan á móti sem brosir svo fallega til mín. Fólk eins og unga konan í gallapilsinu með flottu hárgreiðsluna. Strákurinn í íþróttaskónum með gemsann.

Þegar augnablik eru skrýtin fer maður sjálfur oft að hugsa furðulega hluti. Þegar karlmaður lýsir því hvernig hinn ákærði drap átta manna fjölskyldu verður maður allur asnalegur og fer allt í einu að hugsa um hvernig veðrið sé heima og hvað manni langi mikið í kaffi. Við það verður maður enn asnalegri því það er fáranlegt að hugsa um eitthvað eins og kaffibolla og veður á svona stundum.

Jamms. Best að skella sér á mótorhjóli eftir réttarhöldin upp á hótel til Íslendinganna, drekka kaffibollann langþráða og kjafta á íslenskunni ástkæru.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Í gær hitti ég 17 Íslendinga sem komnir eru til Rúanda til að taka þátt í friðarmaraþoni á sunnudag. Við stofnuðum samstundis Íslendingafélag. Ég skipaði sjálfa mig stjórnarformann, framkvæmdastjóra og gjaldkera, og ákvað að félagsmenn skyldu beina kröftum sínum að útbreiðslu íslensks menningararfs. Það verður að kenna þessum Afríkubúum að meta sviðakjamma og hrútspunga, drekka eins og villimenn og eyða um efni fram.

Mogginn, tópaspakki, ættrakningar og ástkæra ylhýra málið gerðu gærdaginn. Hressandi að tala íslensku. Ég fékk líka að fara í sundlaug á fínu hóteli, í heita sturtu og borða af hlaðborði. Jedúddamía.

Annars er rúanska kommúnan mín í gúddí fíling. Sérlega upplífgandi að koma heim um kvöld og finna þrjá Rúndabúa, ungar stelpur, í fletinu í náttfatapartý. Drekka mjólkurte á morgnanna. Skoða myndir í Michael Jackson myndaalbúmi. Hlusta á Abba tónlist, Britney Spears og Bryan Adams. Kenna íslensku. Ræða framtíðarhorfur í Rúanda. Þykjast hafa vit á enska boltanum.

Jess, jú nó, Guddjónsen is fromm Æsland end hí is a fabjúlus stræker.

Úganda var snilldar land.
Uuu... er snilldar land.

Einfalt og öruggt að ferðast þar um - svo fremi sem maður se ekki að þvælast eitthvað í norðrinu. Upplagt sem byrjunarland fyrir þann sem langar að fara til 3ja heims ríkis en er ekki alveg viss um hvert hann ætti að fara. Líkur á að vera rændur í Barcelona og laminn í London eru miklu meiri en í Úganda.

Úganda er græn og falleg og þar eru ljón og krókódílar og mögnuð tónlist og brosandi fólk og sjúklega flott handverk og lystilega gerðir minjagripir og möguleiki á að fara í rafting á Níl og górillur í fjöllunum og athyglisverðir markaðir og eldfjöll sem má klífa og furðulegir ávextir og mjólkurte sem gert er einungis úr mjólk en engu vatni og leigubílar sem eru ekki leigubílar heldur leiguhjól og maður er reiddur á áfangastað.

Í Úganda má finna hraðbanka sem taka alþjóðleg visakort og vegabréfsáritun er hægt að fá á landamærunum eða flugvellinum. Gæti ekki verið einfaldara.

Og Rúanda?

Þar er hægri umferð en ekki vinstri eins og í Úganda. Bílarnir eru þó flestir frá Úganda. Stýrið er öfugu meginn miðað við umferðina. Verst fyrir bílstjórann.

Í Rúanda nota menn francs - rúanska franka. Þar er allt vaðandi í gaurum úti á götu sem vilja skipta pening á svörtu. Í Rúanda er enginn hraðbanki fyrir visa en hægt er að láta strauja kortið í aðalbankanum í höfuðborginni og fá fé út á kreditkortið. Þá er samt best að vera ekkert að drífa sig - ´etta tekur allt sinn tíma.

Í Rúanda er jafnvel enn flottara handverk en í Úganda. Þar er allt á frönsku og þar eru einungis eitt annað tungumál - kinyarwandan - en ekki áttatíu eins og í Eþíópíu.

Rúanda er pínulítið - fjórum sinnum minna en Ísland - en þar búa 8 milljónir. Það ættu sum sé að vera 32 milljónir á Íslandi. Við verðum að herða okkur kæra fólk.

Í Rúanda eru franskar kartöflur sérlega vinsælar. Gerðar úr ekta kartöflum. Úr einhverjum kartöflugarðinum heima í einhverjum rúönskum Þykkvabæ. Kartöflur eru ein undirstöðufæðan hérna.

Höfuðborgin er falleg - byggð á milljón hólum og hæðum. Rúanda er ekki "land hinna þúsund hæða" fyrir ekki neitt.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Mer segir svo hugur um ad eg hafi verid i Speglinum a manudag.

www.ruv.is - Ras 1 - Spegillinn - 9. mai - hlusta.

Yfir og ut.

mánudagur, maí 09, 2005

Í sunnudagsblaði Moggans - sum sé í gær - var grein um Eþíópíu.
Þessi grein er litla barnið mitt.

Ég tengdist Eþíópíu einhverjum undarlegum böndum.
Þetta land var miklu flóknara og margbreytilegra en einfalda myndin sem fjölmiðlar og eigin fordómar draga upp.

Þið verðið að lesa greinina.
Bókstaflega verðið.
Upplýsandi og ánægjulegur lestur yfir góðum kaffibolla.
Já já.

Þið megið alveg láta mig síðan vita hvað ykkur fannst og hvort þið ætlið ekki bara að skella ykkur til Eþíópíu.

British Airways og Lufthans fljúga bæði þangað.

Hef ég eitthvað annað að gera á föstudegi en að ímynda mér hvernig það er að vera sardína í dós? Troðast ásamt sjö öðrum inn í venjulegan fólksbíl – fjórir frammi í og fjórir aftur í – og aka að landamærum Rúanda? Rútan kom aldrei og ég tróðst inn í umræddan bíl, gekk yfir landamærin og smyglaði mér inn í rútu á leið til höfuðborgarinnar Kigali.

Nú, á föstudagseftirmiðdegi hef ég eitthvað gáfulegra að gera en að líta á landakort af Rúanda og pikka stað út af handahófi, finna minibus þangað frá borginni og skella mér af stað? Butare hljómar vel. Ég hef að vísu ekki hugmynd um hvað er í Butare en það skiptir ekki öllu. Butare skal það vera.

Jæja, já, á laugardegi, hef ég eitthvað annað og betra að gera en að reyna að gera mig skiljanlega við starfsfólk gistiheimilis sem talar einungis frönsku – Rúanda var belgísk nýlenda og síðar frönsk, sorrý þú ef þú drullaðist ekki til að taka frönsku í menntaskóla.

Hef ég eitthvað annað að gera en að ganga um Butare og vinna rannsóknarvinnu: Hvaðan í ósköpunum er allt þetta fólk þarna að koma? Það er grunsamlega mikil traffík frá ákveðnum stað.

Já, já þar með get ég spurt sjálfa mig: Hef ég eitthvað annað að gera á laugardegi en að vera viðstödd jarðarför? 7. maí 1994 áttu sér stað ein allra verstu fjöldamorðin í Butare og þess vegna minnast íbúarnir morðanna þennan dag. Enn er fólk að finnast í fjöldagröfum og þar sem því var ruslað niður hér og þar. Fólkinu sem finnst er búin viðeigandi hvíla 7. maí ár hvert.

Já, já, best að skella sér á útijarðarför i Rúanda í glampandi sólskini, ásamt hundruðum annarra, örugglega þúsundum. Horfa upp í bláan himininn og bólstraskýin þegar ég skil ekki bofs í ræðunum. Virða fyrir mér litríka kjóla rúanskra kvenna, hlusta á mannfjöldann syngja og líta fallegar grænar hæðirnar. Landslagið í Rúanda er öðruvísi en Úganda – landið er jafngrænt en hér er það hæðótt. Hér er hæð við hæð við hæð við hæð, mjög fallegt.

Andartakið er stillt og umhverfið yndislegt. Stundin er tær og ég verð að viðurkenna að hun er falleg. Falleg a einhvern furðulegan hátt því tilefnið er sorglegra og furðulegra en ég á að venjast. Fjöldamorð á 800.000 manns á þremur mánuðum er náttúrlega serlega furðulegt og allt í kringum það hlýtur að vera storskrýtið.

Kona brestur í grát og byrjar að æpa. „Þeir ætla að drepa mig, þeir ætla að drepa mig, þeir eru að koma.“ Þetta er tútsi sem lifði hausaveiðarnar af. Hversu hrædd var þessi kona ekki meðan óskapnaðurinn átti sér stað?

Mannfjöldinn tárast. Himininn er enn jafnfallega blár. Andartakið enn jafnfallegt og jafnfurðulegt. 3 aðrir fá taugaáfall yfir jarðarförinni. Guð minn góður, hvað hefur þetta fólk gengið í gegnum?

Við jarðarförina og minningarathöfnina hitti ég tvo rúanska fréttamenn. Þeir eru báðir tútsar. Annar var í hópi uppreisnarmannanna sem réðust inn í Rúanda þegar fjöldamorð hútúa á tútsum byrjuðu. Uppreisnarmönnunum – Rwandan Patriotic Army, RPA – tókst á endanum að stöðva óskapnaðinn og ná landinu.

Jamms, hef ég þá eitthvað betra að gera á laugardagskveldi en að ræða við fyrrverandi hermanninn um skotbardaga úti í skógi? Tala um hungur og hræðslu, vanmátt gagnvart því sem var að gerast en styrkinn sem fólst í þeirri staðreynd að það var verið að slátra tútsum – bræðrum þeirra og systrum – og enginn nema RPA var að gera nokkuð í því.

Alþjóðasamfélagið brást gjörsamlega og við megum skammast okkar ofan í tær. Bill Clinton baðst síðar afsökunar, sem og forseti Belga. Frakkar hafa ekki enn beðist afsökunar. Ólíkt alþjóðsamfélaginu héldu þeir ekki bara að sér höndum og horfðu á morðin – nógu slæmt sem það var – heldur studdu þeir beinlínis hútúa. Hjálpuðu til við allt saman.

Jæja, já, hef ég á sunnudegi svo sem eitthvað betra að gera en að fara með fréttamönnunum aftur til Kigali, ræða lífið í Rúanda, vonir og drauma, stjórnarfarið í landinu í dag – og blóðugu dagana árið 1994? Hvernig heldur líf áfram á stað þar sem einn hópur ákvað að slátra öðrum? Þegar allt er búið, hvað þá?

„Ég sá barni sturtað niður um klósett. Ég sá konu krossfesta. Ég hef séð alltof mikið og það er erfitt að gleyma. Ég var bara átján ára þegar ég ákvað að fara frá Úganda þangað sem foreldrar mínir höfðu flúið af ótta við ofsóknir, og hjálpa bræðrum mínum og systrum í Rúanda. Auðvitað sá ég oft eftir því og ég hélt oft að ég myndi deyja. Ég hafði aldrei séð dáinn mann áður en ég fór, ég var bara venjulegur krakki, örugglega eins og þú varst. Allt í einu var ég staddur í þessum óhugnaði. En eitthvað varð að gera – annars hefðu bókstaflega allir tútsar í Rúanda verið drepnir. Það er erfitt að gleyma en á endanum veit ég að ég gerði það rétta.“

Já, já, og hvað er svo sem gáfulegri að gera á sunnudegi en að rannsaka mal sex logreglumanna? Svona eins og madur gerir um helgar. Thad er eitthvad mikid bogid vid handtoku thessara gaura. Eg og frettamennirnir athugum malid.

Ja ja og er ekki upplagt ad enda sidan bara í rúanskri kommúnu? Fréttamennirnir buðu mér að gista hjá sér. Þeir tveir búa þarna og svo er á staðnum ungur strákur sem missti alla fjölskyldu sína í fjöldamorðunum og þeir buðu að búa hjá sér. Þarna eru einhverjir tveir aðrir líka sem og systir annars fréttamannsins. Ég og hún deilum rúmi.

Ákaflega huggulegt.
Kommúna í Rúanda, ha ha.

Hvað næst?

Tilkynni að ég hef unnið fullnaðarsigur á bólunni, bólgunni og sýkingunni.
Tilkynni að fjárframlög eru enn að berast inn á reikning minn.
Tilkynni að ég á pantaðan flugmiða frá Úganda til London 18. maí. Ég þarf að taka rútu alla leið frá Kigali, höfuðborg Rúanda, til Kampala, höfuðborgar Úganda 17. maí – í veg fyrir flugið.
Tilkynni að ég byrja að vinna 25. maí. Mogginn bauð vinnu.
Tilkynni sólskin í Rúanda en skúrir inn á milli. Það er regntímabil í landinu.

föstudagur, maí 06, 2005

Ég hafði velt fyrir mér af hverju það væru svona mörg gistiheimili hérna í bænum. Ég er í Kabale, rétt norðan við landamæri Rúanda.

Ég fékk svarið í morgun. Hingað streymdu rúanskir flóttamenn árið 1994. Þá myrtu Hútúar 800.000 Tútsa á þremur mánuðum. Þetta eru afkastamestu fjöldamorð sem vitað er um. Þjóðverjar drápu 6 milljónir Gyðinga en þrátt fyrir úthugsaðar útrýmingarbúðir tók það þá nokkur ár.

Þeir Rúandabúar sem höfðu efni á því fóru á gistiheimili en aðrir þjöppuðu sér í flóttamannabúðir. Svo var náttúrlega fullt af hjálparstarfsmönnum í kringum þetta allt.

Rúanda já. Stúlkan hefur tekið ákvörðun um að fara til Rúanda eftir hádegi. Rútan frá Kampala til Kigali, höfuðborgar Rúanda fer hér í gegn og hamsturinn ætti að geta hoppað upp í hana.

Ætti.

Er eitthvað annað í Rúanda en minningar um hrottaleg fjöldamorð?
Sjáum til.

Ég þurfti að fara aftur til læknisins. Leið eins og fordekruðu einkabarni - eða bara ríka Vesturlandabúanum sem ég er - þar sem ég skjögraði inn sjúkrahúsganginn, mætt í annað sinn á sólarhring vegna bólu. Hér deyr fólk úr malaríu því það hefur ekki efni á lyfjunum og bóla teymir mig á sjúkrahús.

Bólan ákvað að fremja sjálfsmorð. Það var óhugnanlegt morð með tilheyrandi slettum um allt.

"Hvað get ég gert? Læknirinn sagði mér að koma aftur ef þetta myndi opnast. Við yrðum að hreinsa þetta og svona," segi ég afsakandi við sjálfa mig þar sem ég skáskýt mér framhjá blóðugum manni með opið beinbrot. Hann öskrar af sársauka.

Tíu mínútum síðar öskra ég sjálf. Læknir og hjúkrunarfræðingur krafsa í draslinu. Sýkingin hefur augljóslega náð að snerta hvern einasta taugaenda vinstra meginn í andlitinu á mér. Hver þremillinn.

Bólan ákvað að ganga aftur eftir sjálfsmorðið. Hún er ekki sátt við sýklavopnahernaðinn.

Hvað gerir maður svo sem þegar weapons of mass destruction er beint gegn manni? Nú, ver sig og sína og tekur sjálfur upp vopn. Bólan stendur frammi fyrir raunverulegum sýklahernaði - fimm daga skammti af Cloxacillin - ekki einhverju George-Bush-Tony-Blair-það-gætu-verið-efnavopn-í-Írak-blaðri.

Og hvernig ver maður sig ef maður er bóla? Hvað gerir Davíð þegar Golíat ræðst gegn honum?

Jú, Davíð ákveður að kæfa andstæðinginn. Fram fram fylking. Fimmfalda sjálfan sig á hverri klukkustund. Sýna óvininum hvar Davíð keypti ölið og hvar hann bruggaði gröftinn.

Ég hef aldrei séð jafnmikið af vessum koma út úr einu sári á ævinni. Þetta er stórmerkilegt. Svo yfirgengilegt að það er beinlínis afar áhugavert.

Hvaðan draslið allt kemur veit ég ekki. Án vitundar minnar hefur bólan verið fyrrum skæruliði og hakan á mér vopnabúr. Frjór akur fyrir framtíðarárásir, geymsla fyrir stórhættuleg og lúaleg drápstól. Gróðrastía fyrir hryðjuverk, svei mér þá.

Ég segi nú bara, það er eins gott að við höfum stríð gegn hryðjuverkum í þessum heimi.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Söfnunin gengur súper vel.
Henni lýkur formlega á morgun.

Við erum að nálgast 200.000 króna markið.
Hvað get ég sagt?

Þið eruð æði.

9 börn með stuðningsforeldra.

Ú je.

Ég er slæm í handbolta og má teljast góð ef ég kemst yfir 25 metra laug, syndandi skriðsund, án þess að drekkja sjálfri mér. Ég er hins vegar ofsalega góð í að fá húðsýkingar.

Jamm.

Auðvitað gat ég ekki snúið heim án þess að næla mér í eina slíka.
Mér þykja húsýkingar mínar hins vegar vera farnar að færa sig upp á skaftið.
Þær láta sér ekki lengur nægja að koma í hönd eða fót, heldur í andlitið.
Í höku og vinstri kjálka.

Einmitt það.
Ákaflega myndrænt.

Best að hafa hossast á mótorhjóli að einhverju vatni í suðurhluta Úganda, ganga upp á fjall, skríða inn í pínulítið tjald undir stjörnubjörtum himni - og fá húðsýkingu.
Í hökuna og vinstri kjálkann.

Vakna næsta morgun og líta út eins og hamstur.
Hvur þremillinn?

Ég hafði verið farin að bólgna upp daginn áður þegar ég þrammaði um, lenti óvænt í viðtali á úganskri úvarpsstöð, bablaði um Ísland og svaraði how-do-you-like-Uganda-spurningum. Ég var farin að verða rauð þegar ég hitti 14 og 15 ára strákana sem langaði að verða læknar og spurðu hvernig höfuðborgin Kampala, liti út. Ekki höfðu þeir sjálfir komið þangað. Ég bjóst hins vegar ekki við að líta út eins og hamstur um morguninn.

Best að skella sér til læknis. Alltaf hressandi að hitta lækna í framandi löndum. Best að fara samt fyrst í hádegismat til fjölskyldu eins stráksins, maður svíkur ekki loforð. Þótt maður sé sárkvalinn hamstur. Fjölskyldan býr við vatnið og hefur stórkostlegt útsýni upp í skærgrænar hæðirnar. Húsið er úr leir, með bárujárnsþaki og systkinahópurinn að leik þegar hamsturinn hoppar á svæðið. Börnin leika sér úti við með bolta sem þau hafa hnoðað saman úr grasi og stráum. Fótbolti kostar alltof mikinn pening.

Læknirinn í næsta bæ gefur hamstrinum sýklalyf seinna um daginn. Þessi sömu og venjulega. Já, er það ekki - taka þetta á sex tíma fresti allan sólarhringinn? Verður um garð gengið eftir svona þrjá daga? Jú jú, ég og Cloxacillin þekkjumst orðið ágætlega.

Ég var bólulaus unglingur. Hrósaði happi meðan skólafélagarnir litu út eins og eftir sýklaárás. Á sunnudag fékk ég hins vegar bólu. Á hökuna. Kreisti hana. Góð hugmynd á stað þar sem moldarryk og mengun sveima í loftinu. Stödd í meðalstórum bæ, þar sem ég hoppaði úr rútunni daginn áður.

Bólunni líkaði ekki meðferðin og ákvað að hefna sín. Ég spyr nú bara, hvar er náungakærleikurinn? Hvernig í ósköpunum er hægt að enda á sjúkrahúsi með sýkingu eftir bólukreistingar, lítandi út eins og skrímsli? Vera fatlaður hamstur - með sárbólgna vinstri hlið? Ha ha, það er hægt ef maður er fröken Sigríður.

Vesgú, lítið mál fyrir stúlkuna að fá sýkingu í heila klabbið: Bólgna öll upp, vera sárkvalinn, með brjálaðan hausverk og svo bólginn munn og tungu að það er nánast ómögulegt að borða. Allt eftir bólu.

Ha ha.

Detti mér nú ekki allir dauðir hamstrar úr höfði.

Rúanda, Búrúndí og Kongó - nágrannaríki Úganda - héldu ráðstefnu nýlega þar sem vopnaeign landanna var rædd. Löndin þrjú hafa öll sögu af borgarastyrjöldum og drápum.

Á ráðstefnunni var lýst áhyggjum yfir tvískinnungi Vesturvelda sem tala um að minnka verði vopnaeign í heiminum en mala um leið gull á vopnasölu til Afríku og annarra heimsálfa.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Eg sagdi um daginn fra stulkunni Anusyu sem byr i thorpinu a Indlandi sem vid hofum stutt. Hun gengur nu i haskola i bodi mommu elskulegu.

Viti menn, stulkan vard i nyloknum profum efst i ollum greinum i sinum bekk. Local bladid tok vidtal vid hana af thvi tilefni.

Thetta var ad koma fra vinum okkar ad utan:

She stood first in the college/university in all the subjects.
The entire village is very happy because she is the first one to go to college and that too doing so well.


Sko stulkuna.
Go Anusya, go.

I nordur Uganda for eg med sex trukkum og sjotiu hermonnum ut a land ad dreifa mat til flottamanna.

Skotheldu vestin i UN bifreidinni voru asskoti hressandi svona i morgunsarid.

Her er saga sem eg skrifadi fyrir hinn islenska vef World Food Programm.

mánudagur, maí 02, 2005

Spegillinn nadi ekki i gegn a fostudag.
Aetli vid reynum ekki aftur a eftir.

sunnudagur, maí 01, 2005

Ég veit að um leið og ég byrja að tala um stríð í Úganda er auðvelt að halda að Úganda sé undirlögð árásum og ógeði. Svo er hins vegar ekki.

NORDURhluti Úganda er stríðshrjáður. Hann er eins og önnur veröld. Þar terroriserar LRA - Andspyrnuher Drottins - eigið fólk. Þar hafa nánast allir íbúarnir þurft að flýja heimili sín - hátt á aðra milljón manna. Þetta eru hins vegar einungis ákveðin héruð í 25 milljón manna landi.

Afgangurinn af Úganda er yndislegur, öruggur, þægilegur og vinalegur. Þar er auðvelt að ferðast um.

Við megum ekki rugla norður Úganda saman við suður, vestur og austur Úganda. Þá endum við með að hugsa tuttugu árum síðar enn um Úganda sem land einhverrja brjálæðinga. Alveg eins og við hugsum enn um Eþíópíu sem land hungursins.

Hungursneyðin sem við öll munum eftir var 1985.
Ha ha.