föstudagur, desember 31, 2004

Já, já, árið bara liðið í aldanna skaut og svona.
Og aldrei það kemur til baka.

Klassa ár. Viðburðarríkt, frábært, magnað, meiriháttar.

Ártalið 2005 er hins vegar enn svo framtíðarlegt að ég býst fastlega við því að vakna á nýársdag og sjá fólk svífa um á geimskutlum.

30.des 2003:

Í seinustu viku sá ég auglýsingu fyrir vestrænu týpuna af klósetti. Slagorðið var „SPARKLING, CLEAN, ELEGANT“. Þetta fannst mér fyndið. Í mínum huga er það sem er elegant einhver framúrstefnuleg hönnun sem Vala Matt lýsir.

31. des. 2003:

Hátíðarkvöldverðurinn var borðaður úti á götu og kostaði fjörutíu krónur. Lét síðan seinna um kvöldið henda mér með skömm út af fínni samkomu, þar sem einungis voru Indverjar staddir. Ég og þrír Bretar reyndum að smygla okkur inn með enga miða og mig fremsta í flokki. "Come on guys, they will not notice," sagði ég. Je right.
fimmtudagur, desember 30, 2004

Jarðskjálftinn og flóðbylgjurnar eru svo hörmulegar og af þvílíkri stærðargráðu að erfitt er að ná utan um það. Að minnsta kosti á ég í mesta basli með það. Horfi stóreyg á fréttirnar, strýk mér um höfuðið og vandræðast með kaffibollann.

Tala látinna hækkar og hækkar. 3000 var hræðilegt að heyra í fyrstu, úps svo voru þetta um 10.000, guð minn góður 25.000, ha hvað segirðu 50.000? 77.000 sögðu þeir í kvöld og stefnir yfir 100.000.

Vinur minn á Indlandi segir ástandið þar skelfilegt. Hann var staddur á einum af þeim stöðum sem fóru hvað verst og hafði verið á ströndinni klukkutíma áður en flóðbylgjan skall á henni.

Þetta er hræðilegt. Nú verðum við að taka höndum saman og gera það besta úr orðnum hlut.

Rauða krossinum er oft legið á hálsi fyrir að hafa mikla yfirbyggingu og heila glás af sérfræðingum. Net samtakanna er gríðarstórt. Slíkt felur í sér helling af starfsmönnum.

Þegar hörmungar eins og þær á sunnudag dynja yfir, sést hins vegar að það er einmitt stærð Rauða krossins og sérfræðiþekking sem gera hann svo færan til að bregðast við. Samtökin hafa einfaldlega áralanga reynslu af neyðarhjálp.

Það má engan tíma missa þegar brugðist er við atburðum eins og þeim sem við stöndum frammi fyrir núna. Tíminn er naumur og mannslíf í húfi. Það verður að koma vatni og lyfjum á staðina, það verður að dreifa mat og hreinsa til, enda eru farsóttir fljótar að breiðast út. Það verður að vinna eftir ákveðnu neti. Það verður að skipuleggja hjálparstarfið á hverjum stað og í samvinnu við fólkið sem þar býr. Rauði krossinn/Rauði hálfmáninn hefur landsfélög í flestum löndum heims - það er heimamenn sem vinna í nafni samtakanna (einhverjir launaðir en langflestir sjálfboðaliðar - eins og hjá Rauða krossi Íslands) og gjörþekkja aðstæður.

Það er ánægjulegt að heyra að aldrei hafi jafnhá upphæð safnast í söfnun hjá Rauða krossinum hér á landi á jafnskömmum tíma og nú. Komnar eru 27 milljónir frá 13.000 aðilum. Sameinuð stöndum vér.

Ég get hins vegar ekki annað en stoppað við þá upphæð sem íslenska ríkið gaf. Fimm milljónir. Fljótt brugðist við, frábært - en bíddu við, er þetta ekki dálítið lág upphæð? Get bara ekki hætt að hugsa um átján milljónirnar sem fóru í myndir Sigmunds fyrir stuttu.

Pokasjóður verslunarinnar gaf jafnmikið og íslenska ríkið.
Koma svo, áfram Dabbi, áfram Dóri. Þið getið betur en þetta.

miðvikudagur, desember 29, 2004

Fyrir nákvæmlega fimm árum hljóp ég út úr logandi húsi sem síðan brann til kaldra kola. Ég man daginn því þetta er brúðkaupsdagur foreldra minna. Ég man hann líka því ég hef aldrei verið jafnhrædd á ævinni, aldrei verið jafnsturluð af skelfingu, ekki lent í því áður að missa hreinlega máttinn í löppunum og titra svo mikið af hver framleiðandi höggborvéla hefði verið stoltur af. Ég fékk einn skammt af morfíni en kærastinn þrettán, enda var hann brunninn í tætlur. Minningin um aldamótin og dagana eftir er þokukennd. Nýja öldin gekk í garð meðan við vorum á sjúkrahúsinu þarna í Bandaríkjunum. Kannski fékk ég snert af taugaáfalli, ég veit það ekki.

Ég man daginn líka því hann kenndi mér að stundum gerast hlutir sem maður reiknaði engan veginn með og þá verður maður bara að taka því. Af hverju ætti lífið líka að vera fyrirsjáanlegt?

Ég man daginn því hann kenndi mér að maður getur staðið sterkari en áður eftir reynslu sem maður gæti viljað skilgreina slæma. Maður veit þá kannski bara örlítið meira um lífið og tilveruna - og um sjálfan sig, ja há.

Kannski man ég daginn fyrst og fremst fyrir það að hafa lært að það erum við sjálf sem látum hlutina koma okkur úr jafnvægi. Þeir þurfa ekki að slá okkur gjörsamlega út af laginu. Við getum annað hvort séð atburði sem vandmál eða bara gert það besta úr þeim, verið jákvæð og tekið okkur sjálf og plönin okkar hæfilega hátíðlega.

Jú jú, og fimm árum síðar tek ég hlutina einmitt passlega alvarlega. Hengi mig ekki í einhver hástemmd plön. Lifi fyrir hvern dag, mar, lifi fyrir hvern dag. Ú je.

Þessi blessaði bruni var eins og besti skóli. Ég hefði átt að fá ´etta metið inn í háskólanámið, maður. Damn.

Já og humm, heppin var ég að lenda ekki í flóðbylgjunni í Asíu. Og heppin er ég að búa á friðsælu landi. Flóðbylgja og stríð slá menn með réttu út af laginu.


KB banki - útrás í þína þágu.

Mikið er ég stolt af mínum banka að þenja sig svona út til annarra landa.
Allt fyrir mig.

Í mína þágu.

þriðjudagur, desember 28, 2004

Hér er ferðasaga sem ég var að setja á Selluna.

mánudagur, desember 27, 2004

"Talið er að eitthundrað Evrópubúar hafi farist í flóðunum í gær."

"Íslendingur í hættu."

Ja há.


Á sínum tíma flaug ég frá Chennai (Madras) á Suður-Indlandi til Tælands. Flugið tók um þrjá tíma. Flóðbylgjan eftir jarðskjálftann í gær skall á báðum stöðum. Hvernig flóðbylgjur geta ferðast jafnlanga leið og haft jafnmikla eyðileggingu í för með sér, er mér hulin ráðgáta.

En jarðskjálftinn var líka þrjúþúsund sinnum öflugri en Suðurlandsskjálftarnir árið 2000.

sunnudagur, desember 26, 2004

Nylon bókin og nylon diskurinn, ásamt Perlum Birgittu mæltust vel fyrir á sambýlinu.

Hangikjötsilmur hér og konfekt í skál.

Aðfangadagskvöldi og jóladag eyddi ég í faðmi fjölskyldunnar. Á jólunum í fyrra var ég á húsbát á Indlandi og fannst frekar vera páskar en jól. Eða kannski bara sumar.

Rauð jól hér. Hélt lengi í vonina um að þau yrðu hvít en sá á hitamælinum í gær að það var 32 stiga hiti. Gaf þar með upp alla von.

Á Þorláksmessukvöld hitti ég tvær hollenskar stelpur og við ákváðum að eyða jólunum saman. Á jólanótt var mikið sungið.

Út yfir stilltan flötinn hljómaði „I´m dreaming of a white Christmas“. Þegar við brustum á með „Last Christmas“ með stórbandinu Wham gáfu tvær stjörnur skít í okkur og frömdu hreinlega sjálfsmorð. Fíluðu ekki Wham. Eða sönginn. Við gripum hins vegar tækifærið og óskuðum okkur. Maður á á alltaf að óska sér þegar maður sér stjörnuhrap, segja þeir. Ég má ekki segja óskina en hún byrjar á h og endar á friður. Ég er ofsa spennt að vita hvenær hún verður að veruleika. Held að ósk á jólanótt hljóti að telja að minnsta kosti tvöfalt.

föstudagur, desember 24, 2004

Þú og ég og jól.

Patrekur í hátíðaskapi, búinn að færa baðskápinn, búinn að koma upp grenigreinum í slotinu, búinn að skipta á rúmunum og búinn að borða jólagrautinn sem reyndar var ávaxtasalat og mandlan apríkósa. Patrekur er svo opinn fyrir nýjungum.

Hluti hans er að pakka inn jólagjöfunum. Til hvers að kaupa gjafir löngu fyrir jól þegar maður getur keypt þær kortér í ellefu á Þorláksmessu? Jólagjafir heimilisins eru reyndar mestmegnis heimatilbúnar. Og pakkaðar inn í dagblaðapappír því Patrekur er svo umhverfisvænn.

Gleðileg jól. Takk fyrir það gamla og allt það.
Góðar stundir.

fimmtudagur, desember 23, 2004

Í þorpinu á Suður-Indlandi, sjá næstseinustu færslu, býr ung stúlka sem heitir Saritha. Systkinin eru sex og Saritha sér um fjölskylduna. Hún vinnur auk þess fullan vinnudag við saumaskap og fær andvirði 45 íslenskra króna fyrir daginn.

Saritha er mjög góð að sauma og gæti hæglega verið sjálfstæður atvinnurekandi. Á Indlandi er mikið um einyrkja af því tagi sem Sarithu dreymir um að vera, það er fólk sem útbýr einfalda aðstöðu á gangstéttarhornum og saumar og straujar fyrir aðra. Þetta er yfirleitt gott og öruggt lifibrauð, sérstaklega fyrir góða handverksmenn eins og Sarithu. Launin eru hærri en ef menn vinna fyrir aðra.

Heimamenn segja að það myndi kosta Sarithu um 10,500 íslenskar krónur að kaupa efni, silkiþræði, nálar og annað sem til þarf til að koma starfseminni á koppinn. Það gefur augaleið að manneskja sem er með 45 króna daglaun og sér um fjölskyldu, hefur ekki efni á slíku.

10,500 kall og fjölskyldan hefur nokkuð öruggt lifibrauð. Við skulum hjálpa Sarithu að gera þetta. Þeir sem vilja vera með leggja einfaldlega peninga inn á reikninginn minn 330-13-230037, kennitala 201179-3519, og ég kem þeim áfram til Indlands. Ef meira safnast en fyrir Sarithu er fullt af hlutum í þorpinu sem þeir myndu nýtast til.

Í þorpinu eru einnig börn sem sækja heimanámsstöðina en þyrfti að styrkja sérstaklega. Munaðarlaus börn sem búa hjá frænkum, frændum eða öðrum sem hugsanlega hafa ekki efni á því að senda þau í skóla. Þúsund til tvö þúsund kall á mánuði væri nóg til að hjálpa þessum krökkum.

Mig dreymir um að finna einhvern til að styrkja hvert einasta barn í þorpinu sem þarf á því að halda. Ég ætla ekki að hætta að tala um þetta fyrr en það tekst. Hafið samband í s. 690 1175 eða á siggavidis@hotmail.com ef þið viljið hjálpa.mánudagur, desember 20, 2004

Kannski ég sendi Agli bara jólakort. Við Pétur Blöndal vorum líka að spá í að skiptast á uppskriftum.

Silfrið má nálgast hér. Velja þarf "Silfur Egils"... Hægt er að smella á "Flóttamenn, Sigmund ofl." ef menn vilja einungis það allra besta úr þættinum. Mú ha ha.

Túrílúrílú. Jibbý jei. Húrra.

Allt að gerast á Indlandi - heimanámsstöðin tilbúin.

Eftir var að mála þegar þessar myndir voru teknar. Það er búið núna og húsið tekið í notkun.

Margir lesendur þessarar síðu gáfu peninga til að þetta mætti verða að veruleika. Sko, hverju við getum komið til leiðar.

Húsið er í litlu þorpi á Suður-Indlandi, ekki svo fjarri Chennai (Madras). Þetta skrifaði heimamaður um þorpið:

In a way the villagers are not cared by anyone except during elections. Among these people were few voluntary workers who started working for the people like Vinnoli, Edward, Basha and Ravi. They managed with very little facilities. For nearly 5 years they helped all the children in the village with evening tuition centre in a thatched (palm leaves) house without electricity.

Þetta tuition centre (staður þar sem börnin koma eftir skóla) sá ég þegar ég kom í þorpið í janúar. Það var opið (engir veggir) og laufþakið fór illa yfir seinasta regntímabil. Hugmyndin að því að byggja varanlegt hús fyrir starfsemina var hugmynd heimamanna. Í fimm ár hafa þeir hjálpað börnunum í þorpinu sínu eftir vinnu á daginn. "Það þarf að hvetja börnin til að læra. Menntun skiptir höfuðmáli." Þetta fólk eru hetjur, algjörar hetjur.

Kannski var það hálfgert grín að mana Íslendinga til að gefa peninga fyrir húsinu sem vini mína langaði að byggja. Ég átti að minnsta kosti ekki von á svona góðum undirtektum. 140.000 krónur söfnuðust. Afganginum söfnuðu heimamenn.

Vandamál heimsins eru mörg. 120 milljón börn njóta engrar menntunar. 1000 milljónir ganga hungraðar til hvílu. Að ætla að breyta þessu er erfitt, mjög erfitt. Við getum ekki breytt heiminum öllum, si svona. Við getum hins vegar tekið lítil skref, farið fetið og haft í huga að margt smátt gerir eitt stórt.

Hús í þorpi á Suður-Indlandi breytir ekki heiminum. Það breytir hins vegar miklu fyrir heimamenn og þau hundrað börn sem stunda starfsemina.

sunnudagur, desember 19, 2004

Húsbrunar eru ekki óhjákvæmilegir. Flestir verða þeir út frá kertalogum. Pössum kertin og kertaskreytingarnar um jólin, kæra fólk, og við aukum til muna líkur okkar á því að eiga gleðilega hátíð.

Það á aldrei að fara út úr herbergi þar sem kerti logar. Aldrei. Ekki einu sinni til að fara á klósettið.laugardagur, desember 18, 2004

Skilaboð á talhólfinu á föstudagskvöldi.
"Sæl, þetta er Egill Helgason. Viltu hafa samband við mig í eftirfarandi númer... ? Takk."

Hálftíma síðar.
"Halló, þetta er Sigga... uu... Víðis. Ég heyrði hérna sko skilaboð frá þér... hérna í þú veist símanum mínum..."

Bla bla bla.

Ókei, ég verð í Silfri Egils á morgun að blaðra um Bobby Fischer og málefni hælisleitenda hér á landi. Og eitthvað víst um ástandið í heiminum svona rétt fyrir jólin, þróunaraðstoð, ríkidæmi og fátækt. Eitthvað annað líka en hvað það verður kemur í ljós.

Veit ekki enn með hverjum ég verð þarna, hversu lengi eða klukkan hvað. Veit bara að á að mæta upp á Stöð 2 klukkan hálf tólf í fyrramálið.

Ha ha, þetta verður rokk. Kannski verður Sæmi rokk líka þarna.
Töff.

föstudagur, desember 17, 2004

Sko Bono. "Við eigum peningana, við eigum lyfin, vísindin eru til staðar - en höfum við viljann? Höfum við viljann til að útrýma fátækt?" spurði hann.

Fyrir ári síðan hljóp ég undan gamalli konu sem hugðist rista af mér siggið á löppunum með ryðguðum hníf. Ég hélt hún væri fótanuddari og hafði hlammað mér hjá henni. Hún brosti, fékk glampa í auga, dró upp hnífinn og otaði honum að fótunum á mér.

Fyrir ári síðan íhugaði ég lengi hvort ég ætti að kaupa miða í bestu sætin eða þau næstbestu í indversku bíóhúsi. Fyrri miðinn kostaði sem svaraði 92 íslenskum krónum, sá seinni var á 59 krónur. Mismunurinn var heil máltíð.

fimmtudagur, desember 16, 2004

Kæri Bjúgnakrækir, ég held þú hafir eitthvað ruglast. Ég bað um náttkjól í skólinn en fékk g-streng. Rauðan g-streng. Rauðan Che Guevera g-streng, bobbo bobb.

Samt betra sko að fá g-streng en kartöflur. Stelpan sem étur allan matinn minn úr ísskápnum og talar nóttina langa upp úr svefni myndi sko kolfalla á atkinskúrnum með allar þessar kartöflur og öll þessi kolvetni.

Sumir trúa ekki á þig en það geri ég. "Amma trúir heldur ekki á homma," sagði vinkona mín í fyrrakvöld og skeiðaði upp Laugaveginn. "Í alvörunni, trúir bara ekki að svoleiðis sé til."
Það fannst mér athyglisvert komment.

En heyrðu jóli, þú gleymdir að borða bjúgun sem ég skildi eftir fyrir þig inni í ísskáp.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Fréttablaðið vitnar í stúlkuna í dag. "Óþægilegar hugsanir" á bls. 25.

Níu dagar til jóla. Um helgina ætla ég í fyrsta skipti að grafa lax. Skyld´að vera jólalax? Ég veit ekki hvað sambýliskonu minni finnst um þetta laxavesen. Kannski hún segi "ekki í mínu nafni". Í dag fyrir vinnu ætlaði ég að skella í eina smákökusort (íhaldstitti) en ákvað að gefa blóð í staðinn.

Munið að gefa reglulega blóð og munið að bækurnar SÓLIN SEST AÐ MORGNI og VÍTAHRINGUR eru jólabækurnar í ár. Sú fyrri fyrir fullorðna, sú seinni fyrir börn.

Afinn
hefur tekið saman gagnrýni á bækur konu sinnar - á síðu hans má sjá dóma um bækurnar: Fimm um Sólina og tvo um Vítahring.

Nýjasti dómurinn er á Kistunni og þar segist gagnrýnandi ekki fá betur séð en að Kristín Steinsdóttir hafi skapað framúrskarandi verk.

"Sólin sest að morgni er meitlað, sérstætt og ljóðrænt verk um bernskuminningar þar sem lífsgleði er blönduð ugg og sorg."

"Þessi litla perla á eftir að verða mér hugstæð lengi."

Kannski er Sólin einmitt besta bók móður minnar til þessa.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Íhaldstittir og undirlægjustubbar.

Skellti þessari grein inn á Selluna í gær.

Skyldulesning.

Gagnrýnendur (fjölskyldan) hafa kallað verkið "snilld", "tímamótaverk" og "rós í hnappagat höfundar".

Að loknum lestri skuluð þið prenta greinina út, binda hana inn og gefa í jólagjöf. Ég ætla að vera með í jólabókaflóðinu. Ú je.


mánudagur, desember 13, 2004

Tveir þriðju ökumanna eru karlmenn.

Á seinasta ári fengu 3000 konur punkta í umferðinni. Karlmenn með punkta voru aftur 11.000.

Konur vondir ökumenn?

Uuuu...

sunnudagur, desember 12, 2004

Ó, á að vökva jólastjörnuna?

Hvernig tekst mér að gleyma alltaf að vökva blóm sem þó eru beint fyrir framan nefið á mér? Jólastjarnan verður á gjörgæslu fram að jólum. Hún er orðin lömuð vinstra meginn. Vonandi að hún verði búin að endurheimta eitthvað af fyrri mætti fyrir aðfangadagskvöld.

Sigga saves the Christmas.

Ég var að hugsa um að baka einungis fyrir jólin úr spelti og sólblómafræjum, kúmeni, hamingjueggjum og hafragrjónum. Hlusta á jólasálma og hugsa spaklega. Hræra með trésleif í lífrænt ræktuðu hráefni og strjúka speltið varlega af í fallega blúndusvuntu. Ég ætlaði að nota hráefni sem ég vissi að komið væri frá kornbændum sem komið hefði verið fram við af sanngirni og allir hefðu fengið það sem þeim bæri. Ég skildi leysa heimsmálin meðan ég raðaði smákökum snyrtilega á bökunarplötu.

Ég bakaði Bountytoppa úr kókosmjöli, miklu smjöri, venjulegum eggjum og súkkulaði. Slummaði deiginu á bökunarplötu sitjandi á gólfinu í gallabuxum með teygju í hárinu. Deigið komið út um allt. Hráefnið keypt í Bónus og 11-11. Sálmarnir víðsfjarri en útvarpsrödd sagði mér að jólin væru í boði Coca Cola. Kóklestin ók framhjá með látum og ég gaut augunum á Bountystykkin á borðin.

"I would like to buy the world a Coke," sagði ég spaklega.
"Svo jóló."

Lýsandi plastjólasveinar með frosið bros. Metersháir snjókarlar úr plasti, stungið í samband. Landsmenn eru greinilega mjög hrifnir af þessu.

Maður verður að vera með, má ekki vera púkó. Ég er spá í að gefa sjálfri mér svona plastjólasvein í jólagjöf. Við erum ekki með svalir og ekki með aðgang að prívat garði. Ég er að hugsa um að hengja sveinka bara út um gluggann sem snýr að götunni svo allir geti séð hvað ég er mikið jólabarn. Líma kókflösku í höndina á honum.

Brosandi jólasveinn hangandi í þykkum kaðli. Jóli í snörunni.
Hó hó hó.

laugardagur, desember 11, 2004

Ég elska að búa í miðbænum. Ég elska fiskibúðina við hliðina, innrömmunina, tælenska staðinn á móti, pitsustaðinn, leigubílana sem bíða á planinu og bókabúðina hjá sjoppunni. Ég elska líf og fjör.

Ég elska íbúðina, elska sambýlinginn.

Ég elska Hlemm - Hlemminn sem ég get næstum því teygt mig í út um gluggann. Ég elska fólk sem bíður eftir strætó, gelgjulega unglinga með rauða kortið, gamalt fólk með afsláttarmiða, fúllynda strætóbílstjóra, glaðlega strætóbílstjóra, fólk að drífa sig, fólk í hæga gírnum. Sumt er ef til vill að safna dósum - kannski dálítið fullt. Kannski bara fullt af minningum um furðulega fortíð og drauma sem dóu fyrir lítið fé.

Ég elska sjálfa mig. Já og kannski svolítið þig.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Ja há.
Á Íslandi eru gereyðingarvopn: Miltisbrandur.

Nú bíð ég með öndina í hálsinum eftir því að viljugar og staðfastar þjóðir ráðist á okkur. Við gætum ætlað að nota miltisbrandinn gegn þeim.

Auk miltisbrandsins vita þjóðirnar líka að það þyrfti aðeins að fixa lýðræðið hérna - koma í veg fyrir að ráðamenn taki ákvarðanir si svona og án vilja þings og þjóðar.

Tvær pottþéttar ástæður fyrir innrás. Vona bara að herinn ryðjist ekki inn til okkar fyrr en eftir jól. Það væri svo svekkjandi að þurfa að éta jólasteikina á hlaupum undan klasasprengjum.

Vona líka að Dabbi og Dóri verði ekki alltof svekktir við að vera settir af. Sjálf eygi ég þarna tækifæri til að komast í bráðabirgðarríkisstjórn.

Sigríði í stjórn - af virðingu við land og þjóð.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Söngkonan Dido er orðin ein ríkasta kona Bretlands. Samkvæmt öruggum heimildum DV ætlar hún loksins að láta drauminn rætast: AÐ FARA Í BAKPOKAFERÐALAG.

Dido ætlar ekki í lúxussiglingu. Dido ætlar ekki að gista á fimm stjörnu hótelum. Nei, hana Dido dreymir um bakpokaferðalag. Loksins, loksins er hún orðin nógu rík.

Það ætla ég að vona að hún fari ekki til Indlands. Mánaðaruppihald þar fyrir bakpokaferðalang kostar nefnilega svona 40.000 kall. Það dugar ekkert minna en að minnsta kosti tveir mánuðir fyrir Indland og það yrðu alveg 80.000 krónur. Ég veit hreinlega ekki hvort Dido er með þetta háar tekjur.


mánudagur, desember 06, 2004

Blikkandi ljósaseríur minna mig frekar á Las Vegas en jólin.

sunnudagur, desember 05, 2004Fyrir utan bæklunarmiðstöð Alþjóða Rauða krossins í Kabúl.
"Ég fékk í mig jarðsprengjubrot."

Einhvern veginn fannst mér eins og strákurinn væri mörgum áratugum eldri en ég. Hverju hafði hann lent í? Sólskin, kuldi í lofti og vopnaðir friðargæsluliðar gerðu andartakið allt óraunverulegt.

Á hverjum degi stígur fjöldi jarðarbúa á jarðsprengjur. Sumar þeirra eru margra ára gamlar. Fimmti hver sem lendir í jarðsprengju er barn - nema í Afganistan, þar er helmingurinn börn. Flest missa fót, einn eða tvo.

Fyrir fimm árum var undirritaður sáttmáli sem bannar framleiðslu og notkun jarðsprengja. 144 ríki hafa undirritað hann - enda málefnið meira en lítið þarft.

Sum ríki vildu samt ekki vera með. Eitt þeirra sem sagði nei voru Bandaríkin.

laugardagur, desember 04, 2004

Háskólakórinn, rektor, og frítt áfengi eins og hver getur í sig látið hlýtur að enda illa. Alla vega skrautlega.

Rólegt "piparkökuskreytingakvöld", sem átti að verða, endaði í glerbrotum, muldum piparkökum, gítarspili, trompetleiki og glassúr upp um alla veggi. Veit ekki hvað gerðist en grunar að það tengist rauðvínsglasi númer tvö. Eða bjór númer þrjú. Eða snittunum og graflaxinum.

Aðrir piparkökuskreytingargestir - sem misstu af forleiknum hjá rektor - skildu lítið hvað var í gangi þegar þeir mættu. Ó, átti ´etta ekki að vera svona róleg og kósí stemmning? Kórþátttakendur skildu það kannski ekki heldur, með skólatöskurnar með sér á leið að læra fyrir próf beint eftir sönginn hjá rektor klukkan fimm.

Jamm.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Rithöfundur Kristín Steinsdóttir er með sögulega marga upplestra þessa aðventuna. Ég er farin að kalla hana Birgittu Haukdal því hún gerir ekkert annað en að lesa upp. Ég bíð spennt eftir Kristínardúkkunni. Hún á samt ekki að líta út eins og Rut Reginalds.

Kristín Steinsdóttir Haukdal er í upplestrarferð á Austfjörðum um helgina. Var boðið að lesa á sama tíma upp á árlegri bómenntakynningu Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna. Þetta er á laugardaginn kl. 14 í MÍR salnum í bakhúsi við Vatnsstíg 10 í miðbænum.

Þar sem Kristín verður fjarri góðu gamni sendir hún staðgengil sinn. Hann er ég.

Fjölmennum. Ókeypis inn.

Djöfull verður maður flottur með Guðrúnu Helgadóttur og Sigmundi Erni. Djöfull verður maður sætur með Vilborgu Dagbjarts og Kristínu Ómars. Djöfull verður maður flippaður með Guðbergi Bergssyni.miðvikudagur, desember 01, 2004

Fyrir ári síðan, upp á dag, hélt ég á handskrifuðum flugmiða félagsins Ariana Afghan Airlines á indverskum flugvelli. Ég verð sjaldan sérlega taugaóstyrk - en þarna var ég með hnút í maganum. Hvaða hugmynd var það Sigríður að hefja aðventuna í Kabúl of all places? Þú getur stundum verið svo rugluð.

Í fluginu sat við hliðina á mér Indverji frá mannréttindasamtökunum Amnesty International. "Við óttumst að réttur kvenna og barna verði ekki tryggður í nýju stjórnarskránni," sagði hann einbeittur en ég hvessti augun út um gluggann á pakistönsk fjöll. Kannski bin Laden brygði fyrir?

Fyrir ári síðan, upp á dag, hætti ég að trúa skilyrðislaust tali valdsmanna um "uppbyggingu". Jú, það var svo gríðarleg uppbygging í gangi í Afganistan, sögðu stjórnmálamenn. Operation-sprengjum-Afganistan-til-að-ná-bin-Laden enda löngu búin og Írak komið á dagskrá. Afganistan búið mál - afgreitt.

Sundursprengd Kabúl, börn sem voru drepin í misgripum fyrir talibana og óöld úti á landsbyggðinni, bjuggu hins vegar um sig í huga mér og neituðu að fara fet. "Uppbygging," sögðu menn hróðugir. Jú jú hér var svo sem uppbygging og Alþjóðaráð Rauða krossins að gera ótrúlega hluti. En ástandið í landinu var slæmt - Kabúl var um það bil eini staðurinn sem var tiltölulega öruggur.

Hafði ég verið fífl að telja að þar sem kastljós fjölmiðlanna hafði farið frá Afganistan við innrásina í Írak, væru mál þar komin í farveg öruggrar uppbyggingar? Tveimur árum síðar og rafmagnsleysi, sundursprengd hús og vatnsvandamál voru veruleiki margra heimamanna. Desember 2003 og Sigríður horfði ráðvillt á húsarústir og börn að leik.

Þegar ég heyri menn tjá sig um "uppbyggingu" í Írak langar mig að æla. Við erum ekki farin að byggja upp - guð minn góður, við erum enn að brjóta niður. Við erum að brjóta niður hús, við erum að brytja niður fólk.

Í umræðum á Alþingi spyr forsætisráðherra - sem hefur vondan málstað að verja og veit það - hrokafullt hvort menn viti ekki að innrásinni í Írak sé lokið? Hann talar eins og það eina sem sé framundan í Írak núna sé uppbygging - lætur eins og stríðið þar sé hreinlega búið.

Mig langar að gubba, kannski bara gráta líka. Heppilegt að Fréttablaðið hringdi í gær. "Við þurfum álit málsmetandi fólks á þessum ummælum forsætisráðherra."

Ha ha. Málsmetandi fólk. Magnað.

Fréttablaðið í dag, síða 14.
Sigríður bablar, dálítið syfjuð eftir næturvaktina.