sunnudagur, október 31, 2004

"Bush vinnur í Ohio."
"Nei, Kerry tekur þetta."
"Hver vinnur? Úff, ég er hræddur um að Bush vinni. Hræðilegt alveg."
"Kerry hefur rekid svo mikla kosningabaráttu hérna að hann malar þetta."

Í Ohio er gríðarleg spenna og allt virðist geta gerst í kosingunum á þriðjudag. Allt virðist líka geta gerst eftir kosningar.

"Ohio verður næsta Flórída," sagði heimamaður og hristi höfuðið. "Alls kyns málaferli og rugl mun fara í gang."

Í Ohio er krökkt af lögmönnum fyrir kosningarnar. Demókratar og repúblikanir hafa ásakað hvorn annan á víxl um kosningasvindl.

Kjörmenn Ohio eru 20 og því til mikils að vinna fyrir sigurvegarann. Önnur fylki þar sem munar litlu á framboðunum og kjörmenn eru margir eru Pennsylvania með 21 og Flórída með 27.

laugardagur, október 30, 2004

Ég á heimsins yndislegustu frænku, hana Kristínu Elísabetu Steinsdóttur/Kristin Elisabeth Jonsson.

Hún er orðin níu mánaða gömul og ég er að sjá hana í fyrsta sinn.

Kristín styður Kerry...

"Arrogance and ignorance is bad foreign policy," eins og skáldið sagði.

Brjáluð stemmning í Ohio.
Hvor vinnur, Kerry eða Bush???

Viti menn, Bush og Schwarzenegger mættu á svæðið í kvöld. Enginn sem ekki hafði áður skráð sig og lýst yfir stuðningi við repúblikana mátti hins vegar koma og hlusta á þá. Ussu suss.

Í gær var hins vegar 30.000 manna Kerry samkoma hérna í borginni þangað sem allir máttu koma. Ég rétt missti af henni, við mamma vorum ekki komnar í hús fyrr en um miðnætti.

Í fyrramálið heldur kona John Edwards, varaforsetaefnis demókrata, fund og ég ætla að mæta. Er að vinna grein fyrir Moggann, sem birtist á mánudag.

Úrslitin í Ohio gætu skipt sköpum fyrir útkomu forsetakosninganna og áróðurinn er því massívur. Heimsótti áðan kosningamiðstöðvarnar og ræddi meðal annars við aðaldemókratann í sýslunni. Ofsa vinalegur. Var handviss um að Ohio yrði næsta Flórída, því miður. Alls kyns málaferli myndu fara í gang eftir kosningarnar og ekki yrði hægt að skera strax úr um það hver yrði forseti.

Ohio - þar sem hlutirnir gerast...

fimmtudagur, október 28, 2004

Hvað get ég gert til að hjálpa til í þessum heimi?

Ég tel mig hafa gefið allt sem ég get til hjálparstarfs og ég er ekki í aðstöðu til að fara á vettvang. Já, hvað get ég gert?

Jú, til dæmis gerst félagi í alþjóðlegu samtökunum Amnesty International. Þetta eru mögnuð samtök sem berjast fyrir mannréttindum um allan heim. Þau sinna rannsóknum og grípa til aðgerða til að hindra og stöðva brot á mannréttindum. Víða er fólki til dæmis ruslað í fangelsi fyrir það eitt að segja skoðanir sínar og það jafnvel tekið af lífi.

Eitt af því sem Amnesty gerir og er ótrúlega sniðugt er að félagsmenn senda áskoranir til stjórnvalda og ráðamanna víða um heim, ýmist með tölvupósti, faxi eða bréfum í pósti. Skyndilega berast þúsundir bréfa á sama staðinn sem öll segja það sama: Losaðu þessa úr fangelsi, hættið skipulegum brotum á þessum og svo framvegis. Viti menn - þetta virkar. Að jafnaði verður breyting á í 42% mála sem Amnesty tekur fyrir á þennan hátt! Þrýstingur virkar sem sé - það virkar að ráðamenn viti að fylgst sé með þeim.

Hér má sjá fréttir af fólki sem notið hefur góðs af starfi Amnesty International.

Að taka þátt í skyndiaðgerðaneti Amnesty og senda bréf kostar varla neitt. Það kostar einungis örlítinn tíma, kannski einu sinni í mánuði. Kannski kostar það helst skilning á því að þessi heimur sem við lifum í er heimurinn okkar allra. Við getum gert eitthvað til að breyta honum.

Mátturinn er hjá okkur kæra fólk, nýtum okkur það.

miðvikudagur, október 27, 2004

Áðan hélt ég fyrirlestur uppi í MS og sýndi meðal annars þessa mynd:Á morgun held ég til Bandaríkjanna. Var að frétta að ég rétt missi af Kerry sjálfum í höfuðborg Ohio, þar sem Steini bróðir býr. Við förumst á mis um einungis nokkra klukkutíma, ussu suss. Með honum verður Bruce Springsteen, babbaræ.

Sjáum til hvort Bush mæti til Ohio.mánudagur, október 25, 2004

Þegar Halla kom heim frá Berlín fylgdi henni laumufarþegi, lítil bjalla, sem merkilegt nokk var á lífi. Heimilisfólkið bauð þennan nýja gest velkominn og gaf honum, eins og öðrum gestum, vel að drekka og borða. Bjallan var færð í glas og litlir vatnsdropar vandlega settir við hliðina á henni. Við æstumst allar upp, muldum hrökkbrauð niður og komum haganlega fyrir.

"Mér finnst hún eigi að heita Maren Dögg," sagði ég glöð í bragði og horfði á nýja vininn okkar. Heimilisfólk féllst í faðma - við vorum búnar að eignast afkvæmi.

Nokkrum dögum síðar og bitur sannleikurinn lá ljós fyrir. Mig sundlaði.

"Ég tók öll glösin á eldhúsborðinu og vaskaði þau upp í morgun!" sagði ég skjálfandi röddu. Síðan hljóp ég inn í eldhús og greip í tómt.

"GUÐ MINN GÓÐUR, ÉG VASKAÐI MARENI DÖGG UPP. ÉG SKOLAÐI VINI OKKAR NIÐUR UM ELDHÚSVASKINN."

Þannig er nú það. Ferðafélagið Patrekur vaskaði bara upp vin sinn - svona eins og maður gerir á föstudegi.

Nú erum við aftur tvær í kotinu. Inn á milli reyni ég að telja mér trú um að ég hafi í raun verið að frelsa Mareni Dögg og gefa henni tækifæri á að komast aftur til heimkynna sína í Berlín.
Synda yfir Atlantshafið og heim.

"Run Forrest run - syntu Maren syntu."

sunnudagur, október 24, 2004

Þessa mynd tók ég fyrir nákvæmlega ári síðan í Dharamsala á Norður Indlandi. Þá var Divali, ein aðalhátíð hindúa, að hefjast.

Ef ég bara loka augunum finn ég hitann af sólinni og lyktina á markaðinum.Tveir mánuðir til jóla og ég er ekki enn byrjuð að baka, ussu suss.

laugardagur, október 23, 2004

Latibær kennir vestrænum börnum mikilvægi þess að borða hollan mat og hreyfa sig. Frábært framtak enda er offita vaxandi vandamál.

Ég held samt að litlu kambódísku stelpunni, sem hneig niður fyrir framan mig því hún hafði ekki fengið að borða í langan tíma, fyndist boðskapur Íþróttaálfsins skrýtinn. Ha, þarf að benda mönnum á að borða ekki of mikið og borða hollt?

Í dag munu þúsundir barna láta lífið vegna þess að þau höfðu ekki nóg að borða. Sorglegt en satt. Ömurlegt en þarf ekki að vera svona.

Það eru meiri líkur á því að íslensk kona verði fyrir heimilisofbeldi en að hún lendi í umferðarslysi.

fimmtudagur, október 21, 2004

Kröfuganga kennara í gær var mögnuð. Troðfullt af fólki og annar hver maður með heimatilbúin skilti og spjöld. Svona á þetta að vera.

"Menntamálaráðherra kýs bara að þegja - hefur hann ekkert að segja?"

"Menntun kostar - að kenna ekki kostar meira"

"Víxlar falla - börn vaxa"

"Velferðarþjóðfélag án skóla?"

"Eru störf með börnum einskis virði?"

"Mennt er máttur - ekki bara í hátíðarræðum"

"Kennsla - ekki sjálfboðastarf"


Kópavogur notar slagorð um að svo gott sé að búa í bænum.
Einn sem augljóslega er þaðan gekk um með skiltið:

"Er gott að búa í Kópavogi???"

Sveitarfélagið á alla vega ekki pening fyrir skólanum.

Uppáhaldið mitt voru samt myndir af Þorgerði Katrínu með lokuð augun. Undir stóð:

"Vakna þú mín Þyrnirós"

"Ætlar Þyrnirós að sofa í hundrað ár???"

miðvikudagur, október 20, 2004

Þriðji í kínverskri föstu og Patrekur er enn fastur fyrir.

Reyndar fékk félagsmaður 85 martröð í nótt. Hann dreymdi að hann hefði óvart borðað lambasnitsel með raspi og eyðilagt föstuna blessuðu, ha ha. En það er önnur saga.

Hlegið var að umræddum félagsmanni í vinnunni í gær. Af hverju lendir maður akkúrat á starfsmannafundi þar sem í boði er ókeypis og sjúklega girnilegt hádegishlaðborð þegar maður hefur tekið upp á því að éta ekkert nema HRÍSGRJÓN í nokkra daga...?

"Ætlarðu ekki að borða með okkur?"
"Ha, nei, ég er nefnilega á svona sko uuu... svona föstu... svona KÍNVERSKRI sko (félagsmaðurinn byrjaði að hlæja þegar hann fattaði hvað þetta hljómaði í einu orði sagt fáranlega)... hefur ekkert með kærasta eða neitt svoleiðis að gera, ha ha, en er svona sko að borða bara, humm, HUMM, sko, hrísgrjón í hérna umm... fimm daga."

"HRÍSGRJÓN Í FIMM DAGA?"

"Uuuu, já, hrísgrjón í fimm daga..."

Svo hló félagsmaðurinn þangað til tárin voru farin að leka, pantaði sér grænt te og skóflaði í sig köldum hrísgrjónum úr plastbauki meðan vinnufélagarnir réðust á hlaðborðið.


þriðjudagur, október 19, 2004

Ég fór á Skagann um helgina og skrifaði þetta eftir á.

"Við erum svo samdauna hernum að það gleymist hversu óeðlilegt ástand það er hjá fullvalda ríki að erlent stórveldi, með sína hagsmuni, annist varnir þess," skrifaði Guðmundur Andri Thorsson í gær. Rétt er það.

"Gegn hryðjuverkaógninni duga ekki hefðbundin hernaðarmeðul, tæki eða tól - þar dugar ekkert annað en að útrýma því ranglæti sem knýr fólk til slíkra örþrifaráða."

"Fylgispektin við Bandaríkjastjórn verður æ hættulegri vegna þess að stefna Bandaríkjastjórnar verður æ villtari, einkum ef svo fer sem horfir að Bush verður endurkjörinn. Til allrar hamingju hefur enginn af þeim bjálfum sem kenna sig við al-Kaída tekið eftir litla Íslandi á lista fylgiríkja Bush-stjórnarinnar, en allur er varinn góður og löngu tímabært að láta sig hverfa þaðan."


mánudagur, október 18, 2004

Patrekur er ekki á föstu en hann fastar.

Sumir kaupa vafasaman Hollywoodkúr - þrjú þúsund króna ávaxtasafa - og fasta í tvo daga. Auglýsingin segir að þessi og hinn hafi misst svo og svo mörg kíló. Af hverju ekki bara að kaupa ávaxtasafa í Bónus sem kostar hundrað kall?

Ferðafélagið Patrekur sparar hins vegar helling af peningum, kaupir fjögur kíló af hrísgrjónum og tekur kínverska föstu í fimm daga. Patrekur er svo internasjónal, svo töff, svo hagsýnn, svo ábyrgðarfullur, svo meðvitaður um gildi góðrar heilsu og þess að hreinsa líkamann af og til. Patrekur fastar ekki til að léttast heldur til þess að hvíla líkamann frá endalausu rotvarnarefnaáreiti, kaffidrykkju og sukkfæði.

Eins og nútímafólk er Patrekur nefnilega orðinn uppfullur af rotvarnarefnum og alls kyns stöffi. Hann er alvarlega farinn að velta fyrir sér hvort lík hans muni nokkurn tímann rotna.

Fjórir tímar af föstu og Patrekur er enn á lífi.
Verður hann það enn á föstu-dag?

Skál í boðinu. Ósöltuð hrísgrjón, grænt te og vatn.
Langar mig í kaffi eða Pepsi Max?

Umm.

laugardagur, október 16, 2004

Skrifborð afa míns stendur niðri í Eymundsson í Austurstræti þessa dagana - ævintýraskrifborðið. Þar er líka mynd af Guðrúnu langömmu og skírnarkjóllinn hennar mömmu, árgerð ´46. Á borðinu er blóm í potti og bækur og bókastoðir.

Hefur fjölskyldan keypt Eymundsson? Mun Eymundsson brátt bera nafnið Jónsson? Næstum því. "Innsetning rithöfunda" stendur yfir í búðinni. Mútta og Hallgrímur Helga kynna sig og verk sín.

Mér finnst eins og móðir hafi skrifað Franskbrauð með sultu fyrir þremur árum en þau eru víst sautján. Svo eru bækurnar allt í einu orðnar svo margar, svo margar.

Mæli með innliti í Eymundsson.
Gott ef ekki er minnst á dótturina í sýningunni. Ræ ræ ræ.

föstudagur, október 15, 2004

Ég var að fá tölvupóst frá vinum mínum í elskulega litla þorpinu Meppedu á Suður-Indlandi. Þeir sendu þessa mynd:Þetta er grunnurinn að nýja heimalærdómshúsinu sem er í byggingu. Þökk sé rausnarlegu framlagi vina og vandamanna - og reyndar margra sem ég þekkti ekki neitt - plús dugnaði og elju Indverjanna, er húsið nú langt komið á veg.

Þann 21. júlí þegar mikil flóð voru á Indlandi sagðist ég myndu gefa 10.000 kall til byggingu almennilegs húsnæðis fyrir þá mögnuðu starfsemi sem þorpsbúar reka í sjálfboðastarfi fyrir börnin á staðnum. Ég sagðist vona að aðrir gætu látið eitthvað af hendi rakna.

Alls söfnuðust um 140.000 krónur, sem sendar voru út til Meppedu.

Jibbý, kæra fólk.
Sameinuð stöndum vér.

fimmtudagur, október 14, 2004

Beinþéttnimæling.

Bara orðið er skrýtið. Bein hvað?
Framkvæmdin er jafnvel enn skrýtnari. Höndinni er stungið inn í vél og niðurstöður prentast út. Hviss og blaðið liggur heitt og slétt í prentaranum. Spá um líf þitt næstu áratugina.

Ég fór í dag í svona mælingu í Lyfju í Lágmúla. Miðvikudagur og í dag hóf ég nýtt líf þúsund kalli fátækari. Kalkríkt líf. 800 mg á dag koma skapinu í lag - og svo skola öllu niður með D-vítamíni. Féll nefnilega á prófinu. Féll með fjóra komma níu og vaknaði úr rotinu í hópi hinna "beinrýrðu".

What the...?

Orðið "beinrýrnun" vekur með manni hroll og ekkert annað. Þetta er bróðir "beinþynningar" - næsta skref á undan. Að öllu óbreyttu verð ég komin með beinþynningu um sextugt því tölvan lýgur ekki. Obbobobb. Mun fara í ljós þrisvar í viku og mæta reglulega á beinbrotadeild. Vinkona mín ætti hins vegar ekki að eiga von á beinrýrnun - sem ég er með núna - fyrr en um áttrætt. Humm.

"Þú ert í áhættuhópi," sagði ráðgjafinn og það fór hrollur niður bakið á fallistanum. "Áhættuhópar" er eitthvað sem ég tengi venjulega við hjartasjúkdóma og hjartalínurit, gjörgæslu og annað. Ég er með mjólkuróþol og fæ því ekkert kalk úr mjólkurvörum. Svo tengist þetta erfðum. Það að það að stunda ölstofur bæjarins reglulega er líka þáttur ó jú ó jú, sömuleiðis það að vera smábeinóttur, einnig það að hafa brotnað við lítinn áverka og meira segja það að vera kvenkyns.

Eftir fjögur ár á ég að fara í beinþéttnimælingu á hrygg og lærlegg á Borgarspítalanum og athuga árangurinn. "Ha, einmitt," sagði fallistinn og vissi ekki alveg hvort hann átti að punkta þetta í dagbókina eða hvað. "Uuuu... 13 okt 2008, akkúrat."

Sumir æfa fyrir næstu ólympíuleika. Ég æfi fyrir næstu beinþéttnimælingu.
Töff.

Listi yfir grundvallarmarkmið lífs míns er nú:

- Stuðla að friði á jörð.

- Gleyma ekki mínum minnsta bróður.

- Taka kalk á hverjum degi. Vinna markvisst að því að bæta hag fólks með beinrýrnun. Standa jafnvel fyrir "vitundarvakningu" og stofna hagsmunafélag beinrýrðra.

miðvikudagur, október 13, 2004

Á föstudag fékk ég tölvupóst frá Qatar (landi við Persaflóa) - frá mínum manni sem ég talaði við á sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera (manninum sem nota bene heitir Jihad - "heilagt stríð").

Nokkrum klukkustundum síðar fékk ég upphringingu frá konu nokkurri hér í borg þar sem ég var beðin um að taka þátt í pallborðsumræðum í tengslum við kvikmyndahátíð Reykjavíkur í nóvember. Og hvað ætli Sigríður eigi að tjá sig um? Jú, Al-Jazeera, ha ha.

Tilviljun?

"Haaa...?" sagði ég eins og þorskur á þurru landi eða manneskja sem búin er að taka fjórar næturvaktir í röð. Var ég orðin rugluð?

Það kom í ljós að heimildarmyndin Control Room fjallar um fréttaflutning Al-Jazeera af Íraksstríðinu. Þar sem fröken Sigríður bauð sjálfri sér í heimsókn á stöðina í Qatar í vor þótti svona líka tilvalið að hún myndi flytja framsögu eftir sýningu myndarinnar og taka þátt í pallborðsumræðum.

"Spekingarnir spjalla" - mú ha ha.
Nánar auglýst síðar.

Föstudagurinn var í boði Al-Jazeera.
Rokk.

mánudagur, október 11, 2004

Löggan stoppaði mig þegar ég fékk far úr vinnunni í kvöld og kom akandi upp Hverfisgötuna. Veifaði hendi: Mátt ekki fara þarna. En ég á heima þarna...? Nei, bíllinn varð að beygja til vinstri. Á ljósunum ofan við Hlemm mátti síðan ekki beygja til hægri. Bílnum varð að leggja í nálægri hliðargötu.

Hvaða fasismi var þetta? Var hægt að banna mér að leggja bílnum fyrir aftan heima hjá mér? Þegar ég gekk frá bílnum og inn í húsið kom kuldalegur maður með talstöð hlaupandi. Vildi bara vera viss um að ég færi beint inn til mín. Habbarasvona.

Og ástæðan: Verið að taka upp A little trip to heaven. Baltasar Kormákur og kvikmyndalið og frægt fólk og myndavélar á Hlemmi, í hverfinu mínu. Mér finnst nú að Balti hefði getað spurt leyfis áður en hann byrjaði. Ég hefði boðið honum inn í kaffi.

Ég íhugaði alvarlega að snúa talstöðvarmanninn niður og hlaupa nakin yfir tökustaðinn, bara til að hleypa smá fútti í þetta. Hætti hins vegar við því það var svo mikil rigning. Ákvað frekar að reyna að sjá Juliu Stiles og Forest Whittaker út um gluggann - eða eru þau farin af landinu?

Ég bý á tökusvæði. Næstum því eins og í Hollívúdd. Babbaræ.

sunnudagur, október 10, 2004

Ég var að endurheimta bækur sem ég skildi eftir í Slóveníu. Önnur þeirra er stór og mikil, 3,5 kíló að þyngd og ber titilinn The Cultural Treasury of Serbia. Ég auglýsi eftir einhverjum til að lesa hana fyrir mig og segja mér hvað stendur í henni.

Þeim hinum sama get ég síðan lánað bókina Love thy neighbour - story of war, sem er ein besta bók sem ég hef lesið. Að minnsta kosti ein af þeim mest upplýsandi. Bandarískur fréttamaður skrifar um reynslu sína í Bosníustríðinu. Hann flutti fréttir frá Sarajevo. Þetta er mögnuð lesning um hluti sem gerðust á stað sem er ekkert svo langt í burtu frá okkur, blanda af staðreyndum um það sem gerðist og hugleiðingum höfundar.

Hvernig er að flytja fréttir frá hersetinni borg? Hvernig er að vera staddur í hryllingnum og sjá alþjóðasamfélagið draga lappirnar og gera ekki neitt?

Að lokum get ég lánað bók með þann skemmtilega titil Middle East for Dummies. Fyrst þarf ég bara að klára hana sjálf.

"Bless og ekki hafa áhyggjur," sagði ég fyrir nákvæmlega ári síðan. Síðan steig ég upp í flugvél og flaug í burtu.

Eitt ár, upp á dag.

fimmtudagur, október 07, 2004

Á laugardaginn eru kosningar í Afganistan. Það eru fyrstu kosningar í sögu landsins. Hversu "frjálsar" þær verða er annað mál. Kosningarnar áttu að vera í sumar en var frestað af öryggisástæðum.

Kabúl er stadur sem ég er hálfvegis komin með á heilann. Ég var þar einungis í smástund en hugsa í tíma og ótíma þangað. Vonandi ganga kosningarnar vel - eða kannski væri nærri að segja að vonandi gangi þær ekki stórkostlega illa.

Afganar eru sundurlaus þjóð og samanstanda af mismunandi þjóðarbrotum. Ástandið í Afganistan er hvað ótryggast í suðurhluta landsins þar sem svokallaðir pastúnar eru í meirihluta. Fari hlutfallslega fáir pastúnar á kjörstað vegna skorts á öryggi, tala menn um að útkoman muni ekki endurspegla vilja þjóðarinnar. Það gæti aftur leitt til enn meiri láta.

Mynd dagsins er frá Kabúl. Mér finnst að þeir gætu nú málað og sett mislæg gatnamót þarna fyrir framan.Meðan Afganir kjósa ætla ég í æfingabúðir með Háskólakórnum.

miðvikudagur, október 06, 2004

Rannsóknarhópur sem leitað hefur að ólögmætum vopnum í Írak í kjölfar innrásar herafla bandamanna í fyrra mun birta niðurstöður sínar í dag. Hún er að engin eitur- eða lífefnavopn, hvað þá kjarnorkuvopn, sé að finna í landinu.

Í gær var lögð fram ályktun í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á ógeðinu sem Ísraelar hafa staðið fyrir seinustu daga og þeim gert að hætta því tafarlaust. Ísraelski herinn hefur farið fram með offorsi á Gazasvæðinu og myrt tugi Palestínumanna.

Viti menn, Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu í ráðinu. Á sama tíma og þau vaða áfram í "stríði gegn hryðjuverkum" neita þau að fordæma þessi voðaverk og binda endi á þau. Væri Ísraelsmönnum gert að hætta gætu þeir náttúrlega ekki notað öll fínu vopnin sem keypt hafa verið með fjárstuðningi Bandaríkjanna. Augljóslega mjög spælandi.

Þessi neitun Bandaríkjanna í Öryggisráðinu er sú áttugasta á minna en sextíu árum. Þar af hafa heilar 29 með málefni Ísraelsmanna og Palestínumanna að gera.

mánudagur, október 04, 2004

Í flugvél á leið frá Indlandi til Tælands tóku að sækja að mér efasemdir. Var Ísland ef til vill ekki miðja alheimsins? Ég lokaði augunum og sá fyrir mér landakort. Ísland var vissulega í miðjunni á kortinu. Þarna stóð það stolt upp úr miðju Atlantshafinu, Íslandið mitt, farsældar frón.

Þetta er inngangur að Sellupistli mínum í dag. Hann er hér.

laugardagur, október 02, 2004

"Er nauðsynlegt að skjóta þá?" söng Bubbi forðum daga.

"Er nauðsynlegt að skjóta þá, svona til að færa þeim frelsið?" sagði ég og horfði á ljósmynd frá Írak í Morgunblaðinu.

Síðan fór ég í vinnuna, því þetta var vinnuhelgi.

föstudagur, október 01, 2004

"Fallegur líkami - stolt hverrar konu."

Hver semur svona hrylling?!

Verst að ég man ekki hvað verið var að auglýsa svo ég get ekki ákveðið að sniðganga vöruna.