þriðjudagur, september 30, 2003

Dagur 2 (e.B - eftir Blogg)

"Hvað hef ég gert?" hugsaði ég og veltist um í rúminu í nótt. Ég gat ekki með nokkru móti fest svefn. "Er ég endanlega orðin snarrugluð?" Ég var kófsveitt og gat ekki hugsað skýrt. Sá á gemsanum að klukkan var orðin hálf þrjú. Hvernig hafði ég getað látið Bloggheima ná tökum á mér? Var ég endanlega gengin neyslumenningunni og nútímavæðingunni á hönd?

"Nei, Sigríður, ekki missa sjónar á aðalatriðinu," muldraði ég. "Bloggið þitt verður ferðablogg. Þú hefur afsökun fyrir því að skrifa um líf þitt á Netinu. Það er miklu auðveldara að blogga en að senda tölvupóst í Fjarskanistan, manstu? Þá eru menn ekki að fá einhvern fjöldatölvupóst sem þeir hafa kannski engan áhuga á að fá eða þú sjálf að gleyma að senda fólki línu. Nei, svona er málið miklu einfaldara. Punktur og basta."

Um stund varð ég rórri en hrökk stuttu síðar upp aftur. Á mig hafði sigið svefn og mig farið að dreyma að ég væri á netkaffihúsi á Indlandi að útlista í miklum smáatriðum lit hægða minna, gang meltingarinnar og magaverki eftir of sterka hrísgrjónarétti.

Úff, mitt blogg átti sko ekki að verða svoleiðis. Umrætt blogg var að vísu enn í tilvistarkreppu því það vissi ekki alveg hvernig blogg það vildi vera. Við Bloggheimar áttum eftir að ræða slík útfærsluatriði. Það var hins vegar ljóst að bloggið yrði ferðafélagi minn á nokkurra mánaða bakpokaferðalagi mínu.

Nú varð ég bara að vingast við hann.

mánudagur, september 29, 2003

Ég ætlaði aldrei að "blogga". Bara orðið sjálft fór í taugarnar á mér. Þetta voru stælar og ekkert annað. Hallærislegt og asnalegt.

Nokkru síðar var ég óafvitandi farin að fylgjast með bloggandi vinum og kunningjum. Viðurkenndi það þó vitanlega ekki fyrr en í lengstu lög, helst ekki fyrir sjálfri mér og alls ekki fyrir öðrum. Enn hélt ég langar ræður um hvað það væri absúrd að halda opinbera dagbók.

Dagar, vikur og mánuðir liðu. Mótstöðuaflið minnkaði stöðugt. Að lokum kom að því að það var orðið ekkert. 29. september 2003 var ljóst að Bloggheimar höfðu unnið. Öll fyrri prinsipp voru fokin út á hafsauga. Ég var orðin siggavidis.blogspot.com

Lífið - svo óvænt og óútreiknanlegt.