mánudagur, febrúar 23, 2009

Háskólakórsfólk frá árunum ca 2001-2006 stofnaði Gleðikórinn eftir að flestir voru hættir í upphaflega kórnum. Gleðikórinn fer í árlegt ferðalag, heldur árshátíð, jólagleði og alls kyns mögulega og ómögulega hittinga, meðal annars framúrstefnulegt bollukaffi hjá snillingunum í Hæðargarði.

Gleðikórsfólk hefur nú stofnað metnaðarfullan Barnakór Gleðikórsins.
Enda annarrar kynslóðar gleðikórsmeðlimir orðnir fjölmargir.

Börnin vita sönghlutverk sitt í lífinu að vísu ekki ennþá.
En verða eins og gefur að skilja ógó glöð að frétta það:Í næsta bollukaffi Gleðikórsins munu börnin troða upp með hinu elskaða kórlagi Hjá lygnri móðu. Þeim verður tilkynnt það þegar þau verða öll byrjuð að tala.

Consideritdönn.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Elsku Kalli hefði orðið þrítugur í gær. Og á morgun hefði hann Pálmi minn einnig orðið þrítugur. Þá er stutt í að elsku Arnar hefði haldið upp á þrítugsafmælið.

Þeir voru allir með mér í bekk og eru allir látnir. Kalli og Arnar létust með 17 daga millibili árið 2000. Tveimur árum síðar var enn höggvið skarð í hópinn þegar elsku Pálmi lést.Blessuð sé minning þeirra.

Bjarki snillingur á heiður skilinn fyrir að halda þessari síðu úti.

Dagarnir líða og enn bíður stúlkan eftir grænu ljósi frá utanríkisráðuneytinu í Sýrlandi upp á að fá leyfi fyrir reporter-linked-to-a-UN-mission-bla-bla-fjölnota-vegabréfsáritun til landsins. Ráðuneytið í Sýrlandi þarf að gefa sýrlenska sendiráðinu í Svíþjóð grænt ljós fyrir að veita mér leyfið, jú sí.

Föstudagur er frídagur í Svíþjóð. Sunnudagur er það ekki - það er hann hins vegar í Svíþjóð. Passinn þarf að sendast til baka í seinasta lagi á mánudag frá Svíþjóð svo þetta nái heim til Krísulands í tæka tíð.

Sum sé, ef þetta fer ekki í gegn á morgun er ég í vegabréfslaus kona í ruglinu. Muuuu.

mánudagur, febrúar 16, 2009

Þegar ég fékk bólusetningar fyrir lifrarbólgu, mænusótt og stífkrampa árið 1999 fannst mér eins og heil öld myndi líða þangað til ég þyrfti að láta endurnýja þær.

Það myndi nefnilega ekki eiga sér stað fyrr en eftir óralanga stund - árið 2009 - sem vitanlega var svo framtíðarleg tala að þá yrði fólk augljóslega farið að svífa um á geimskipum.

Í höfðinu á mér var þetta raunar svo langt inni í framtíðinni, með öllum sínum geimskipum og guð má vita hverju, að það hvarflaði ekki einu sinni að mér að þessi dagur gæti mögulega verið að renna upp. Not a chance.

Það var hróðug kona sem leit á bólusetningarskírteinið sitt í gærkvöldi - iss, vissi sko alveg að ég var með allt draslið virkt nema kóleruvörnina en það er allt í lagi því ég er ekki á leið á kólerusvæði.

Svo skoðaði ég dagsetningarnar á fyrstu ferðamannasprautunum. Halló, halló - voru virkilega liðin tíu ár frá því að ég lét dæla öllu draslinu í mig í einu, kortéri fyrir brottför? (hafði náttúrlega gleymt því að gera þetta með fyrirvara og endaði með stokkbólgna upphandleggsvöðva af of mörgum sprautum).

Þetta þótti mér um það bil jafnundarlegt og þegar við Skagastelpurnar áttuðum okkur á því að 18 ár eru liðin frá því að við ókum norður í land í Reykjaskóla.

Sem var samt sko í gær.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Eitt er það sem mér finnst erfiðast af öllu við að fara til útlanda.

Það er ekki það að redda sér á leiðarenda, eða leita uppi gistingu á staðnum, eða rata, eða finna skemmtilegt fólk, eða stökkva í einhver ævintýri. Nei, allt sem býður upp á sköpun og skemmtilegheit það elska ég.

Erfiðast af öllu þykir mér þvert á móti að sækja um vegabréfsáritanir.

Sá óhugnaður kallar ekki einungis á að löngum og nákvæmum verkferlum sé fylgt, heldur þarf að muna eftir að gera þetta í tæka tíð fyrir brottför. Nýju skipulögðu týpunni fataðist flugið allverulega í þessum efnum.

Í dag helltist yfir mig gamalkunnug tilfinning: Af hverju er ég ekki búin að druuuuullast til að gera þetta fyrr? Það tekur þrjá virka daga fyrir passann að komast í sýrlenska sendiráðið í Svíþjóð, nokkra daga að gefa út vegabréfsáritunina og þrjá daga fyrir passann að komast til baka. Muuuu.

Allt sem má bara gera á einhvern einn ákveðinn veg og felur í sér milljón nákvæmnisatriði vekur með mér hroll. Ég horfi á listann og það fer að suða fyrir eyrunum á mér - ég hata skriffinnsku og ég hef nákvæmlega enga þolinmæði gagnvart henni.

Þegar ég setti öll gögnin í umslagið í dag var þoka fyrir augunum á mér - var ég ekki örugglega að gera þetta rétt, dobbúl tjékka, trippúl tjékka, úps ekki gleyma neinu, lesa minnislista dauðans yfir:

Vegabréfið sjálft, tvær undirritaðar umsóknir um multiple-entry vegabréfsáritun, tvær passamyndir, umslag með addressunni minni svo hægt sé að senda draslið til baka, tíu alþjóðleg frímerki, gögn til að útskýra af hverju ég þarf multiple-entry áritun - letter of invitation frá UNHCR í Sýrlandi á bæði ensku og arabísku, kvittun um að ég sé búin að millifæra inn á reikning sendiráðsins, ljósrit af fyrstu síðunni í passanum, hafa símanúmerið mitt örugglega með, bla bla bla.

Verður að gera þetta svona og bara svona.

Slíkt vekur með mér óhug - allt sem býður ekki upp á neina sköpun, neinn frumleika, neina nýja nálgun. Ekki hægt að spjalla sig frá því, brosa, blikka einhvern, veifa sér í gegn.

Ég væri hryllilegur skjalavörður og hörmulegur endurskoðandi.

Ég þakka guði fyrir það að ég þarf ekki sjálf að redda írösku vegabréfsárituninni. Flóttamannastofnun SÞ gerir það. Ég er að hugsa um að taka harðfisk og lakkrís með til Sýrlands til að færa elskulega UNHCR manninum sem frelsar mig undan ánauðinni.

Í framtíðinni ætla ég að ráða mér ritara til að skriffinnskast og multi-taska fyrir mig.

Sjálf skal ég bara halda áfram að vera one-taskari dauðans. Engar áhyggjur, ég verð áfram þessi sami gamli Villi.

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Athyglisverðustu fréttir vikunnar hljóta að teljast þær að sjálfur Dalai Lama er væntanlegur til Íslands.

Hann heldur fyrirlestur í Laugardalshöllinni og vááá hvað ég ætla að fara. Dalai Lama ætlar skilst mér að fjalla um lífsgildi og leiðir til lífshamingju, auk þess sem hann mun svara fyrirspurnum úr sal.

Dalai Lama hefur athygli og aðdáun um allan heim. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels og er þekktur um víða veröld fyrir að hafa aldrei kvikað frá þeirri stefnu að leita friðsamlegra lausna í málefnum Tíbets. Hann hefur verið óþreytandi baráttumaður og málsvari þjóðar sinnar frá því að hann flúði landið sitt árið 1959 í kjölfar þess að Kínverjar réðust inn í Tíbet.

Upp frá því hefur hann haft aðsetur á Indlandi og stýrt þaðan ríkisstjórn sinni í útlegð. Dalai Lama býr í McLeod Ganj í Dharamsala þar sem ég dvaldi í tvær vikur fyrir fimm árum. Þetta er magnaður bær hátt uppi í fjöllum í norðurhluta Indlands, í útjaðri Himalajafjallgarðsins. Ótrúleg náttúrufegurð og magnað andrúmsloft.

Enda magnaður maður í bænum!

Fyrirlesturinn er í Laugardalshöll 2. júní. Sjá dalailama.is

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Hér er grein eftir mig á Smugunni sem ég skrifaði í einhverju pirringskasti yfir því að yfirvöld væru að reyna að gera Íslendinga alla samseka.

... Allt í einu heyrðust læti innan úr eldhúsinu. Fámennur hópur veislugesta hafði staflað eldhússtólunum upp og reist úr þeim gríðarhátt virki.

– Hei, kommon strákar, þetta er farið að riða til falls, heyrðist í breskum veislugest sem kom aðvífandi.

– Nei, þetta hrynur ekki neitt! Við erum klárir og kunnum þetta! Við erum vinnusömu snillingarnir í norðri og búnir að ná tökum á þyngdarlögmálinu! öskraði skortstöðumaðurinn úr drykkjuleiknum. ...


Og svo framvegis.


Og hér er einhver undarlegasta frétt sem ég hef átt á prenti. Þá var greinin um búsáhaldabyltinguna skárri. Samskiptin síðastliðin föstudag við bresku pressuna eru efni í langa sögu á barnum. Uuuuundarlegt.

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Nýja skipulagða týpan á Nýja Íslandi vann afrek í gær og keypti sér flugmiða með fyrirvara. Ferlið allt var líka mjög gagnsætt. Lýðræðislegt. Samráð haft við ýmsa aðila. En málið þó ekki látið drepast í nefnd.

Ég á flug frá Keflavík til London og svo beint áfram til Damascus þann 27. febrúar.

Og er komin með herbergi í Damascus, mánaðarleigu á hosteli nokkru mitt í gömlu borginni.

Og verð meira að segja sótt á flugvöllinn af eigandanum, nokkuð sem ég hef aldrei drullast til að láta gera en er augljóslega bráðsniðugt.

Og er meira að segja líka með dag fyrir heimkomu: 28. maí. Reyndar hægt að breyta honum og svona og ég veit ekkert alveg hvað ég verð lengi úti en ég valdi að minnsta kosti dag á helvítis dagatalinu á flugfélagssíðunni.

Skiiiiipulagða týpan.

Ég elska íslenska sumarið. Og finnst haustið bara fínt. Og aðventan og jólin skemmtileg. Umm, en svo skal ég bara fara til útlanda. Sleppa löngu vetrarmánuðunum sem virðast einhvern veginn aldrei ætla að verða að sumri - en koma heldur bara heim í björtu næturnar.

Ég afsala mér hér mér rétti til að röfla yfir því hvað febrúar, mars og apríl séu langir og erfiðir mánuðir á Íslandi. Áttaði mig á því á sunnudag að ég hef ekki verið á klakanum nema einu sinni þessa mánuði síðan árið 2003. Muuu.

mánudagur, febrúar 02, 2009

Mér fannst dálítið kómískt að eftir ríkisstjórnarskiptin sveifluðu kallarnir sér út úr Stjórnarráðinu og stilltu sér galvaskir upp við hliðina á Jóhönnu Sigurðardóttur. Hinar konurnar fjórar stóðu hægverskar fyrir aftan, þannig að ekki sást almennilega í þær allar.

Ef ég hefði verið PR fulltrúi ríkisstjórnarinnar, ókei kannski bara ljósmyndari á staðnum, hefði ég látið lágvaxna fólkið standa fyrir framan og hina fyrir aftan.

Þá hefði myndin af hinni sögulegu ríkisstjórn - þar sem í fyrsta skipti er jafnt kynjahlutfall og það þótt komið sé árið 2009 - verið mynd sem lúkkaði ekki bara fyrir að vera mynd af Össuri Skarphéðinssyni og Kristjáni Möller..

"Sérstök staða þingfréttaritara Morgunblaðsins verður lögð niður og ritstjórn Lesbókarinnar fer undir hina almennu ritstjórn menningarmála hjá blaðinu. Efnistök ættu þó í engu að breytast, segir Ólafur Stephensen ritstjóri."

???!

Kona
- eftir Ingibjörgu HaraldsdótturÞegar allt hefur verið sagt

þegar vandamál heimsins eru

vegin metin og útkljáð

þegar augu hafa mæst

og hendur verið þrýstar

í alvöru augnabliksins

- kemur alltaf einhver kona

að taka af borðinu

sópa gólfið og opna gluggana

til að hleypa vindlareyknum út.Það bregst ekki.