föstudagur, október 31, 2008

Svartholið sem evrurnar mínar lentu í var hvorki meira né minna en á nýja þróunarlandinu Íslandi.

Meðan evrurnar áttahundruð voru á leiðinni frá Róm til Reykjavíkur fór Kaupþing á hausinn.

Evrurnar skiluðu sér hingað til lands en nýi Kaupþing varð hins vegar að senda þær aftur út fyrir 200 mílurnar, til baka til Rómar, því nýi bankinn hefur ekki aðgang að millifærslum yfir á þann gamla þótt reikningsnúmerin séu enn þau sömu og allar millifærslur verða í dag að fara í gegnum Seðlabankann og því munu evrurnar hafa ferðast að minnsta kosti þrisvar sinnum leiðina frá Róm til Reykjavíkur þegar þær loksins koma hingað og þetta er nú meira bullið.

Ég ákvað að ráðast á seinustu tvo kassana á skrifstofunni minni og taka upp úr þeim. Með því er allt dótið mitt komið á sinn stað í Barmahlíðinni. Halelúja.

Annar kassinn var kassinn "Sigga - gamlir pappírar" sem reyndist vera stórkostlegt bland í poka.

Upp sigldi eintak af blaðinu LÍF OG FJÖR. Ég, Eiki bróðir og Rúna nágranni gáfum þetta út sumarið 1987 og seldum í hverfinu. Þarna var m.a. viðtal við Kristínu Steinsdóttur - unnið í hennar eigin forláta Apple tölvu en þó látið eins og við þekktum viðkomandi ekki vitund. BLM: "En svo að ég spurji eitthvað um bernskuár þín, hvar fæddistu?"

Ég var að verða átta ára og sá um brandarahornið í blaðinu. Fannst þessi hérna alveg hryllilega fyndinn: "Mamma ertu viss um að þetta sé rétta leiðin til að þurrka á mér hárið? Þegiðu drengur og komdu þér aftur inn í ofninn!"

Nú, einhverju síðar fékk mamma það verk að skrifa leikhúsgagnrýni í Skagablaðið sáluga. Skagaleikflokkurinn sýndi Gosa. Ofvirka barnið ákvað vitanlega að handskrifa eiginn dóm sem það svo las upp fyrir fjölskylduna eitt sunnudagskvöldið, krumpaður miðinn kom upp úr kassanum:

"Allir söngvar voru vel sungnir en þó fannst mér álfkonan syngja best. Dálítið mikið af "Blakkátum" (þegar það er slökkt ljósið á milli atriða) var í seinni hluta sýningarinnar, þ.e.a.s. næstum því í endinn.
... Ég vil þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn við að gera þessa sýningu, hjartanlega fyrir þessa ómetanlegu skemmtun. Sigga Víðis."


Klikkaða barn.

Upp úr kassanum sigldi enn fremur skjal undirritað af Eiríki Jónssyni. Það var launagreiðsla fyrir að hjálpa honum að bera út Tímann. Allt formlegt og uppi á borðinu: "Her eru launin þin að upphæð 350 kr." Umslagið fagurlega skrautritað með bæði nafninu mínu og heimilisfangi. Nema hvað, ofan í því var ennþá 200 kall.

Lögfræðingurinn minn er að vinna í því að skipta grænu seðlunum tveimur yfir í evrur í Nýja Landsbankanum.

Jæja, upp úr kassanum sigldi bréf frá afa heitnum á 4 ára afmælisdeginum mínum þar sem hann segist hlakka til að sjá hvað ég verði orðin stór þegar fjórða árið verði liðið. Og þarna komu upp heimatilbúin Andrésblöð og útprent af fréttum sem ég vann fyrir Barnafréttir RÚV. Ha ha ha, ég var búin að steingleyma þessu. Í einni fréttinni segi ég frá pönnukökukeppni og pokahlaupi í Brekkubæjarskóla en hér segi ég hins vegar frá þrettándahátíðahöldum á Skaga (ein að reyna að vera ekki barn með skakkar tennur heldur frú fullorðin - þetta var tekið upp í gegnum skífusíma): "Veður var með besta móti. Og var kvöldið allt hið ánægjulegasta".

Svo er þetta hér það besta: "Þetta er Sigríður Víðis Jónsdóttir Á AKRANESI".

Ég hló svo mikið þegar ég fann þetta að mér svelgdist hryllilega á.

Nú nú, í kassanum var líka "Sniðmappa Siggu". Þegar ég var 12 og 13 ára tók ég stórkostlegt saumaæði. Saumaði barnaföt á öll börn í ættinni. Í dag gæti ég ekki einu sinni þrætt saumavél, undarlegt. Á sumum sviðum hefur mér hrakað allsvakalega.

Upp úr kassanum komu enn fremur nokkrar ritgerðir síðan í Fjölbraut. Meðal annars ein skrifuð í hreint stjarnfræðilega leiðinlegum líffræðiáfanga. Þetta var ritgerðin "Smyrill - Falco Columbarius". Við vinkonurnar gerðum stólpagrín að þessum ruglheimildarritgerðum sem við þurftum að framleiða - lesist koppí/peista/rugla.

Einhvern veginn tókst mér að hafa lokaorðin í meistaraverkinu svona (um fuglategund sem ég hafði ekki sneeeeefil af áhuga á):

"Ég er nú margs fróðari um smyrilinn og hef auk þess gluggað í umfjallanir um aðra fugla. Ritgerðin jók áhuga minn á fuglum og opnaði augu mín fyrir því hversu glæsilegir ránfuglar lifa á Íslandi."

What da? Lygari! Ég fékk 9,5 fyrir mestu bullritgerð sunnan Skarðsheiðar.

miðvikudagur, október 29, 2008


Mér brá svo mikið þegar ég heyrði morgunfréttirnar í morgun að ég fór að gráta. Yfir 150 manns voru látnir í jarðskjálfta sem fannst vel í Quetta í Pakistan. Ég var nývöknuð, hálfrugluð, mundi ekki í hvaða átt frá Quetta þorpið þeirra Jamali og Shamshad er og vissi ekki hvort þau voru þar eða í Quetta. Fréttirnar sögðu að þetta væri jarðskjálfti í héraðinu Baluchistan. Við höfðum alltaf grínast með það að ShamJam væru drottningin og kóngurinn í Baluchistan.

Sem betur fer svaraði Jamali á augabragði. Það var í lagi með bæði hann og Shamshad, þau voru í Quetta þar sem allt hafði hrists og skolfið og Jamali var þegar farinn í að senda hjálpargögn á vettvang. Honum líst illa á stöðuna, útlitið er ekki gott og neyðin mikil, en fjölskyldur þeirra eru sem betur fer í góðu lagi.

Manneskja dagsins er móðir mín sem færði Víðisstöðum fagurlega útsaumaðan svæfil að gjöf.

Ætti ég síðan að nefna ullarpeysuvestið (peysuvesti?) sem hún töfraði fram í síðustu viku?

Hefði mamma ekki orðið rithöfundur hefði hún orðið handavinnumeistari.
Samt fyrst og fremst manneskja sko..

þriðjudagur, október 28, 2008

Ókei, ég hlýddi kalli viðskiptaráðherra og forsætisráðherra og Sleðabankastjóra og allra dverganna sjö - og ákvað að leggja mitt af mörkum, koma með gjaldeyri inn í landið, byggja upp, Ísland er land þitt.

Fyrir 12 dögum voru millifærðar 800 evrur frá ítölskum banka Róm inn á launareikninginn minn í Kaupþingi. Kvittunina fékk ég senda í tölvupósti.

Hvar evrurnar blessuðu eru í dag veit hins vegar Allah einn.

Að minnsta kosti ekki á bankareikningnum mínum.

mánudagur, október 20, 2008

Góðærispartý á föstudag, þar sem bannað var að nefna orðið kreppa og hugsa um sorg og sút.

Stórkostlegt matarboð vestur í bæ á laugardagskvöld - heimaslátrað lamb að norðan.

Mögnuð matvælagerð á sunnudag. Lifrarpylsa og blóðmör. Og heimagerð sviðasulta. Nó kidding. Líf og fjör, gaman, gaman.

Ókei, ég er kannski ekki sú besta í heimi í að drattast út í búð og kaupa í matinn - en núna á ég allavega lán með hækkandi höfuðstól og helling af góðum mat í frystinum. Sóóóó 2008...

föstudagur, október 17, 2008

Hvaða ruuuuuuugl er það að fá svo mikla túrverki að mann svimar og finnst maður þurfa að gubba.

Getur ekki gengið um upprétt, ekkert hægt annað en að liggja í keng.
Vinna? Ekki fræðilegur.
Skokka þetta af sér? Ekki séns.

Það undarlega er að ég fékk þetta aldrei þegar ég var yngri - hvort sem ég var á pillunni eða ekki. Núna fæ ég þetta stundum og stundum ekki, mismikið, stundum bara í tvo til þrjá tíma, stundum lengur - aldrei eins mikið og í gær og í dag. Hvers vegna verkirnir eru svo mismiklir hef ég ekki grænan grun um.

Þar sem ég lá í keng uppi í rúmi í gær, gnístandi tönnum því ég missti af tveimur skemmtilegum samkomum vegna þessa rugls, fór ég að pæla. Ef karlmenn fengju túrverki væri viðhorfið til verkjanna (og viðbúnaður við þeim, til dæmis á vinnustöðum) einhvern veginn öðruvísi?

Vinir mínir frá hinum ýmsu þróunarlöndum hafa haft samband seinustu daga og spurt hvort það sé allt í lagi með mig. Hef ég ekki örugglega ennþá húsaskjól? Er kominn vöruskortur á Íslandi? Geta þau hjálpað eitthvað?

Fahim frá Afganistan var að enda við að skrifa og spyrja hvort hann gæti aðstoðað.

Skemmtilegt tvist í þessu öllu saman.

Ég athuga náttúrlega hvort hann geti reddað láni frá Afganistan.

Skelli mér kannski bara til Kabúl til að tékka á því. Nei, úps, ég fæ ekki gjaldeyri til fararinnar. Jæja.

fimmtudagur, október 16, 2008

Þetta hér er náttúrlega bara bíó.

Skylduáhorf..

mánudagur, október 13, 2008

Efnahagsástandið?

Veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja. Bólan sem sprakk - efnahagsundrið sem var byggt á sandi. Undarlegir dagar.

Verðbólga?

Tjah - um daginn spáði ég verulega í að koma mér MacBook tölvu.

Þá var hún á tilboði á 128.000 krónur í Appleversluninni. Mér var bent á þetta í fjölskylduboði og ég sannfærð um að gerast Makkari. "Þeir sem hugsa sjónrænt eiga allir MacBook!"

Ókei, fair enough.
Gott tilboð.

Einni og hálfri viku síðar þegar ég gekk í málið var tilboðið hins vegar runnið út. Tölvan kostaði 159.000.

Ég efaðist. Þvældist með málið í nokkra daga. Tók pabba svo með mér í búðina að skoða gripinn.

Þá var hann kominn í 167.000!
What?

Þetta var á föstudegi fyrir einni og hálfri viku.

Og í dag?
Verð: 186.000.

sunnudagur, október 05, 2008

Árleg sumarbústaðaferð Skagasaumósins, Pækanna, var hressandi. Mr. Big, Dorrit og Glanni glæpur skemmtu sér öll stórvel í bústað í Brekkuskógi, ræ ræ ræ.

Svarti dagurinn í efnahagsmálunum - þessi þar sem byrjaði að snjóa svona til að landsmönnum væri kólnun hagkerfisins morgunljós - var einmitt dagurinn þar sem hinn ábúðarfulli íbúðareigandi í Barmahlíðinn hugðist setja niður haustlauka.

Nágranninn hafði þegar komið sínum hluta fyrir en ég sjálf var á hinn bóginn um það bil að fara að koma túlípönunum fyrir þegar kólnun hagkerfisins, ég meina snjórinn blessaður, mætti mér.

Í húsi númer sex standa nú yfir stífir fundir þar sem reynt er að móta samhæfðar björgunaraðgerðir í Stóra Túlípanamálinu.

Og vitanlega að vinna á lausamoldarkrísunni.

Það er einfaldlega ekki nógu mikið af lausri mold aðgengilegri til að hægt sé að koma laukunum fyrir. Í alvörunni.

Beðin eru samt vel sett og þeim vel stjórnað. Ekki missa tiltrú á þeim.

Framkvæmdastjóri blómabænda er á leiðinni, sem og aðilar blómamarkaðarins og aðilar garðyrkjumarkaðarins, en ég get því miður ekki sagt neitt um það á þessari stundu hvað verður aðhafst í málinu.

Og ég neita að svara öllum spurningum um það.

Hérna er blaðið.

föstudagur, október 03, 2008

Einungis tveir gjaldmiðlar í heiminum hafa staðið sig ver en krónan á síðustu 12 mánuðum - manatinn í Túrkmenistan og dalurinn í Zimbabve.

A ha!

Hvet ykkur öll til að ganga til góðs á laugardag. Skráning á raudikrossinn.is

Svo skuluð þið líka endilega lesa Hjálpina, blaðið sem ég skrifaði um söfnunina og var dreift í hús í gær, fimmtudag. Vú hú.

Bendi sérstaklega á Kongó-opnuna og viðtalið við Jynu frá Kólumbíu sem fann bróður sinn á ótrúlegan hátt í gegnum leitarþjónustu Rauða krossins - fyrir tilstilli Rauða kross Íslands.

Jhoan bróðir Jynu týndist þegar þau þurftu að flýja heimili sitt í Kólumbíu, daginn sem pabbi þeirra var myrtur. Jyna og yngri systkinin enduðu í Ekvador og síðan hér á Íslandi en höfðu ekki hugmynd um hvað varð um Jhoan bróður þeirra og hann ekki hugmynd um að þau hefðu endað í Reykjavík - þangað til Rauða krossinum tókst að finna hann.

fimmtudagur, október 02, 2008

Í Kaupmannahöfn var ég með skemmtilegu fólki og hitti skemmtilegt fólk.
Það var nú skemmtilegt.

Óskemmtilegri voru kaffibollarnir sem kostuðu 600 krónur íslenskar. Við því var bara eitt ráð: Banna að umreikna danskar krónur yfir í íslenskar..

Í Köben var líka sól og hægt að vera í sumarkjól.
Það var hressandi.

Það er alltaf best að vera bara í kjól. Einungis í einni flík.
Síðbuxur, sokkabuxur, þunnar peysur, þykkar peysur yfir, sokkar, ullarsokkar - sorrý en ég nenni bara ekki að klæða mig í svona mörg lög af fötum!