sunnudagur, desember 30, 2007

Að liggja uppi í sófa í vondu veðri og drekka te og vera þægilega þreytt eftir gærkvöldið og lesa góða bók og hlusta á útvarpið og spila á gítar og hita sér kaffi og lesa meira, getur verið svo fjári fín uppskrift að góðum sunnudegi.

Þegar gamla liðið var búið að hrúga sér allt inn í eldhúsið, og vodka-malt-og-appelsín-blandan góða komin í glösin, og búið að blaðra og blaðra og hlægja og rugla og slátra snakkpokum og taka hristumyndir, og þegar stúlkan var orðin raddlaus eins og hún varð alltaf einu sinni - þá var eins og ekkert hefði breyst og tíminn hreinlega staðið í stað síðan seinast.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Jólin eru fyrst og fremst samvera og góður matur og allt það.

En jú jú, nokkrar jólagjafanna sem stúlkan fékk verðskulda sérstaklega að á þær sé minnst. Til dæmis situr hún núna með fjarskalegar fallegar heimaprjónaðar úlnliðshlífar, ja eða grifflur. Og svitnaði duglega í gær af annarri jólagjöf, sem raunar er efni í langa og litríka sögu.

En hér og nú skal minnst á aðra gjöf.

Þetta var lítil kassalaga gjöf.
Á pakkanum grænt kort skrifað með gullpenna: "Sumar gjafir skipta gefandann meira máli en þiggjandann."

????

Jú, jú, börnin mín góð, í einni svipan voru öll vopn slegin úr höndum stúlkunnar. Hún starði ofan í kassann og áttaði sig á að nú yrði hún langlíklegast að gefast upp.

Þetta voru of samantekin ráð.
Kolólöglegt samráð vitanlega.
Of margir vinir stúlkunnar innvinklaðir í plottið stóra.
Í of mörgum vinahópum.
Fjölskyldan meðvituð sömuleiðis.

Ef stúlkan ætlaði að leggja pakkann þegjandi frá sér og hætta að tala við gefefndur myndi hún þegja lengi. Og það ferst henni ekki sérlega vel úr hendi.

Og í pakkanum?

Tjah.

Nýr Nokia sími.

Ha ha ha ha ha ha.
Þetta var óhugnanlega útsmogið!

Best að hafa árásina skipulagða úr öllum áttum og ráðast til atlögu á hátíð ljóss og friðar, þegar væntanlegar gagnárásir drukkna í smákökum og jólaboðum og gleði og frið og kertaljósum og fallegum fyrirheitum.

Viti menn, rauði sjö ára gamli 5110 síminn hefur verið alvarlega heilsulaus síðan nýja djásnið, fallega bleikt, barst í hús. Ég reyni að stappa í hann stálinu og minni hann á að þótt hann hafi veikst í gegnum tíðina hafi hann ævinlega náð fyrri heilsu á nýjan leik. Hann hafi til dæmis bæði komist í gegnum það að geta ekki sent sms og náð sér af hljóðleysinu sem plagaði hann um tíma. Og aldrei hafi hann kippt sér upp við það að lenda í snjó eða vatni eða rigningu eða að detta á steingólf.

En núna skynjar hann augljóslega að höggið stóra er skammt undan. Áttar sig á að hann er kominn í einhvers konar biðstöðu og að hann hafi misst hlutverk sitt í lífinu.

Það er alkunna að við slíkar aðstæður hrakar heilsunni verulega.

Þú og ég og jól, alein í fyrsta sinn, umm nei ég meina þriðja.
Það fór ekki svo að jólin yrðu ekki haldin í höllinni á Laugaveginum.

Hvað gerir maður á Þorláksmessu eftir skötuna?
Flytur úr fangi einnar vinkonu í fang annarrar.

Fer svo í bæinn og syngur um englakóra og Immanúel og aldin sem út eru sprungin, fyrir gesti og gangandi.

Og kaupir tvær jólagjafir tuttugu og fimm mínútur í lokun.

föstudagur, desember 21, 2007

Sumir eru alltaf að vinna til verðlauna , þannig að maður hefur ekki undan að drekka kampavín og borða konfekt með fyrirfólki. O sei sei.

Og þessir snillingar nota tækifærið í þakkarræðunni til að benda glottandi á undarlega notkun orðsins "skáldsaga" - og á það sem betur mætti fara varðandi börn og bóklestur. Klippu úr því má einmitt heyra aftast í þessari frétt hér.

Og hvað gerir maður þegar maður er búinn að fagna með einu skáldi?

Fer í útgáfupartý ljóðabókarinnar "Leitin að Fjalla-Eyvindi" eftir Höllu Gunnarsdóttur.

Þá bók er einmitt hægt að nálgast hjá undirritaðri. Glæsigripur sem kostar einungis 1500 krónur og verður að teljast sú bók fyrir jólin sem er á allra viðráðanlegasta verðinu.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Minni á þetta:

Gjöf sem gefur

sunnudagur, desember 16, 2007

Það er full vinna að vera í fríi.

Samkvæmt yfirliti frá ritara mínum var meðal annars á dagskrá helgarinnar:

Pitsuveisla, mjöööög metnaðarfull konfektgerð, bardrykkja, nuddtími skelfilega snemma á laugardegi, laufabrauðsgerð, jólaseríukaup, matarboð, innlit á barinn, hádegisjólahlaðborð, smákökuboð, jólasöngsæfing, tónleikar, kraftganga.

Amm.

föstudagur, desember 14, 2007

BÓKSTAFURINN S ER GULUR, EN K-IÐ ÞAÐ ER BLÁTT.
AKRANES ER GRÆNT Á LITINN, TALAN TVEIR RAUÐ, EN FEBRÚAR ER BRÚNN MÁNUÐUR.


Ég hafði aldrei velt fyrir mér að það að skynja hitt og þetta í ákveðnum litum, væri eitthvað sem ekki allir gerðu - fyrr en ég sá umfjöllun um þetta í Morgunblaðinu árið 2001.

22 ára gömul starði ég á dagblaðið: Ha?????

Þetta hljómaði eitthvað svo yfirmáta ruglað þegar þetta var sett í orð.
Á sama tíma var stórundarlegt að átta sig á að hér væri um eitthvert vísindalegt fyrirbæri "samskynjun" að ræða. Ha, gerðu þetta ekki allir? Hvernig í ósköpunum var hægt að sjá heiminn EKKI svona???

Ruglaðast af öllu var nefnilega að átta sig á að langflestir sjá heiminn ekki á þennan hátt - og að til væri fólk sem sæi bókstafi í öðrum litum en ég sjálf!

Það var dálítið fyndið að vera komin yfir tvítugt og átta sig þá fyrst á því að það að tengja liti við bókstafi, tölustafi, staðarnöfn, mannanöfn, tilfinningar, mánuði, vikudaga og gvöð má vita hvað, væri einhver svona extra fídus. Ég áttaði mig ekki einu sinni á því að ég gerði þetta - litirnir voru, og eru, bara svo samofnir skynjuninni að ég hafði aldrei fest á þessu hönd. Alveg eins og talan fimm kom á eftir fjórum og á undan sex, þá var hún í rauðbrúnum lit, og þannig var það bara.

Nokkru síðar rökræddi ég þetta við einhvern mann á einhverju ferðalagi. Hann sá allt í öðrum litum en ég sjálf. Ég man ekki einu sinni almennilega hvernig viðkomandi leit út eða hvar þetta var, en man bara að við sátum og rifumst um hvernig bókstafurinn B væri á litinn og hvaða form væri á árinu og hvernig vikur, mánuðir og árstíðir væru á litinn - og hlógum að svipnum á liðinu í kring sem hélt að við værum í besta falli snarrugluð, í versta falli á sýrutrippi.

Síðan féll þetta samskynjunardæmi eiginlega í gleymsku hjá mér. Þegar allt kemur til alls er sáraeðlilegt fyrir mér að skynja veröldina á þennan hátt, og ég pældi því ekki mikið meira í þessu.

Á Reykjavíkurflugvelli fyrir viku fékk ég aftur áhugann. Þar hitti ég Bíbí sem nýja bókin hennar Vigdísar Gríms fjallar um. Og hún sér veröldina í litum á þennan hátt.

Hennar litir eru aðrir en mínir en Bíbí benti mér á eitt, sem ég geri sjálf, og það er að sjá landsfjórðungana í mismunandi litum. Suðurland var gult hjá okkur báðum en hennar Norðurland var öðruvísi en mitt.

HA HA HA, þetta hljómar eitthvað svo hryllilega ruglað þegar þetta er sett í orð. En það ruglaða er aftur á móti að ég skil ekki hvernig hægt er að tala um París eða Ísafjörð eða mannanöfn eða ákveðin tónverk eða bækur eða mánuði eða Úganda eða Venesúela eða Færeyjar eða Kína án þess að skynja um leið ákveðna liti þessu tengt.

Fyrsta verk mitt á nýju ári verður að taka viðtöl við samskynjandi Íslendinga.

Eftifarandi fletti ég upp á netinu í morgun (mundi ekki hvað þetta fyrirbæri hét og vandræðast heillengi með hverju ég ætti að gúggla - "að sjá veröldina í litum" ha ha ha, nei, það gera allir. "Að sjá liti"??? döööö. "Að sjá bókstafi í litum" - já!!!):

Samskynjun er þegar áreiti sem venjulega skynjast með einu skynfæri skynjast með fleiri skynfærum. Dæmi um þetta er að sumt fólk finnur bragð að tónum eða finnst bókstafir eða tölur hafa lit.

Þessi skynhrif eru ekki kölluð fram viljandi af viðkomandi einstaklingum, heldur blasir litur bókstafsins við þeim á sama hátt og lögunin blasir við okkur hinum.

Almennt getur talist viðurkennt að samskynjun komi að minnsta kosti fyrir hjá einum af hverjum 2000 manns. (Ættu sem sé að vera að minnsta kosti 150 manns á Íslandi - spurning um að stofna félag).

Þessari fullyrðingu hér ég síðan mjööööög hrifin af...
Hæfileikinn til samskynjunar er talinn arfgengur.

(HÆFILEIKINN. Mér finnst smart að tala um þetta sem hæfileika en ekki rugl eða böl eða einhverja vitleysu.)

Þau sem lesa þetta og kannast við þetta og finnst eitthvað af þessu meika einhvern minnsta sens eru beðin um að hafa vinsamlega samband. Samskynjandi lesendum, sem eru til í rökræður um það hvernig "Víðis" er á litinn, verður síðan upp á stóran bjór á skrifstofunni, ég meina Ölstofunni.

mánudagur, desember 10, 2007

Þessar stelpur eru snillingar og ekkert annað, þið verðið að horfa á þetta atriði:

Hvað er fullkomnun?
Grunnskólastelpur fjalla á áhrifaríkan hátt um brenglaða kvenímynd

Til hamingju með sigurinn, Iðunn Ýr!

föstudagur, desember 07, 2007

Hver þarf að fara í helgarferð til útlanda þegar hann getur farið í helgarferð til Akureyrar?

Akureyri hér kem ég.

Með kjól og kuldaúlpu á leið í brúðkaup.

Kaupa svo Sunnudagsmoggann börnin mín blíð.

"Ný Orleans?"

Klukkan hálfeitt um nótt slökkti hún á tölvunni og sagði við sjálfa sig að nú væri hún komin í jólafrí, ég meina sumarfrí.

Sníkti far heim, opnaði bjór og merkti við margar margar margar bækur í Bókatíðindum.

Hó hó hó.

mánudagur, desember 03, 2007

Bráðum, ó já bráðum, fer stúlkan í sumarfrí.

Síðbúið sumarfrí í desember.

Í sumarfríinu 2007 mun stúlkan baka sörur og búa til jólakrans.
Hrista fram grafinn lax með bros á vör.

Þessi jól gætu líka verið þau fyrstu í mörg ár þar sem stúlkan aksjúallí klárar að skrifa jólakortin fyrir jól.

Dásamlegt.

"Þegar ég sá plastborð fljóta framhjá svefnherbergisglugganum áttaði ég mig á að eitthvað mikið var að.“ Sólin skín inn um glugga sem í vantar rúðu, á mann í bláröndóttum sloppi. Hann heitir Willis J. Tate og hefur búið í þessu húsi í 30 ár. Nema hvað, núna er þetta ekki hús, einungis útveggir og burðarbitar.

Hinn 81 árs Willis býr í litlum húsvagni á lóðinni sinni því að heimili hans er enn óíbúðarhæft. Milliveggir, gólfefni og innbú gjöreyðilögðust í menguðu vatninu sem lá yfir borginni.

„Við vöknuðum snemma morguns á mánudeginum við að allt var á floti,“ segir Willis. Mánudagurinn 29. október 2005 var örlagadagurinn í New Orleans, sem stendur undir sjávarmáli og er umkringd bæði vötnum og sjó. Þá gekk fellibylurinn Katrína á land og ruddi með sér miklu af sjó, sem bar varnargarðana í borginni ofurliði. Yfir milljón manns flúði af svæðinu helgina áður, aðrir sátu fastir í sökkvandi borg. Margir voru ósyndir – fólk eins og Willis.

„En sem betur fer er ég nú með háaloft,“ segir gamli maðurinn og bjástrar við að draga frá hlerann og ná mjóum tréstiganum niður. Upp á loft fóru hann og fimmtugur sonur hans og höfðust við í þrjá daga, borðuðu dósamat, veltu fyrir sér hvað í ósköpunum hefði gerst og vonuðu að þeim yrði komið til bjargar.

Augu heimsbyggðarinnar voru á fólki eins og þeim feðgum, en sjálfir voru þeir úr tengslum við umheiminn – símar dottnir úr sambandi, ónýt útvörp, engin sjónvörp. Munir og minningar seinustu áratuga á kafi í brúnleitu vatni blönduðu skólpi.

Meira í sunnudagsblaði Moggans....