fimmtudagur, maí 18, 2006

Stúlkan á bak við bloggið keyrði sig út.

Hún er farin til Finnlands þangað til í lok mánaðar.

Færslur á bloggsíðuna leggjast af þangað til stúlkan er komin til landsins á nýjan leik, búin að sofa úr sér og komin með skýra hugsun.

sunnudagur, maí 14, 2006

Blaðið í dag.

Sunnudaginn 14. maí, 2006 - Innlendar fréttir

Skýrslur skrifaðar en ábyrgð í málefnum barna með geðraskanir er enn á reiki
"Kerfið klofið í herðar niður"
Ráðherrar sammála um mikilvægi þess að samþætta þjónustuna

Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur sigridurv@mbl.is

Í málefnum barna með geðraskanir bendir hver á annan og oft virðast dyrnar ekki opnast fyrr en vandinn er orðinn mjög mikill og algjörlega komið í óefni. Þetta segir Sesselja Jörgensen, formaður Barnageðs. Anna Sigurbjörg Sigurðardóttir sálfræðingur segir kerfið þungt í vöfum, ábyrgðina í málaflokknum á reiki og að meiri samþættingu vanti.

"Ráðamenn eru tilbúnir að ákveða hitt og þetta en það vantar að taka kerfislegu afleiðingunum af því," segir Kristján Már Magnússon, er stjórnaði verkefni sem var liður í samhæfingu í málefnum barna og unglinga með geðraskanir og unnið árið 2004. "Ákvarðanatökur virka yfirhöfuð mjög tilviljanakenndar og í raun er engin prinsippafstaða tekin."
Hann bendir á að að minnsta kosti þrjár skýrslur hafi verið skrifaðar á síðustu árum um mikilvægi þess að samþætta þjónustu við börn með geðraskanir en segir oft ekki tekna faglega afstöðu til hlutanna. "Fagskrifstofur ráðuneytanna virðast hreinlega verða undir fjármálaskrifstofum þeirra. Auk þess bætist við hinn eilífi slagur á milli ríkis og sveitarfélaga. Slagurinn um kostnaðarskiptinguna heftir að menn taki afleiðingum í málum sem þessum."

Gretar L. Marinósson, prófessor í sérkennslufræðum við KHÍ, segir kerfin ekki einungis tala illa saman heldur sé þetta orðið fjárhagslegt deilumál á milli þessara tveggja aðila, ríkis og sveitarfélaga. "Þegar barn þarf að leita aðstoðar á mörgum stöðum kemur í ljós að allt þetta opinbera þjónustukerfi er klofið í herðar niður, frá toppi til táar."

Slagurinn tekinn við ríkiðÁ Akureyri er nýstofnuð deild við Hlíðarskóla sem er fyrir börn með miklar geðraskanir og mikil þroskafrávik. Gunnar Gíslason, deildarstjóri skóladeildar Akureyrar, segir sveitarfélagið hafa ákveðið að "taka slaginn við ríkið", leggja út fyrir meðferðarvinnu og reyna síðan að rukka ríkið eftir á. Ekki sé hægt að horfa á börnin og bíða eftir að ríkið geri eitthvað.

Ráðherrar eru sammála mikilvægi þess að samhæfa þjónustu við börn með geðraskanir sem mest. Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra segir enga ástæðu til að ætla annað en að vilji sé til samstarfs og samþættingar. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra segist vilja sjá margt í þessu ferli ganga hraðar og hún muni ekki láta sitt eftir liggja í því efni. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra bendir á að tæknilegir örðugleikar eigi ekki að þurfa að bitna á einstaklingum og megi ekki gera það.

Hver vill eiga mig? bls 10-16

fimmtudagur, maí 11, 2006

Jú, jú, umræðan í Viðskiptablaðinu snýst um það hvort blaðamenn megi hafa skoðun og er stórfín út af fyrir sig. Málið er bara að í mínu tilfelli þá snýst hún ekki um það heldur hvenær maður er orðinn blaðamaður.

Ég skal alveg hafa skoðanir og lýsa þeim fúslega, líkt og ég hef gert í viðhorfum í Morgunblaðinu. Ég reyni hins vegar að blogga ekki á sama hátt um fólk eða fréttamál, og ég gerði áður en ég varð blaðamaður, enda er slíkt ekki sæmandi.

Þarna er stórmunur á og ég vil ekki að gömul skrif stuðningsfulltrúa á sambýli sem er í heimsókn hjá bróður sínum í Ohio séu dregin fram, sett á prent og sagt: Sjáið, þetta er SVJ sem er blaðamaður á Morgunblaðinu.

Þegar ég skrifa stemmningslýsingu með undirrituninni "höfundur er BA í heimspeki" og þegar til mín er vitnað í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar með klausunni "sagði Sigríður Víðis Jónsdóttir sem er í heimsókn í Columbus í Ohio og fylgdist með kosningunum"- þykir mér ég ekki sérlega blaðamannsleg.

Enda er vísað til mín sem Íslendings sem er á svæðinu, á sama hátt og Íslendingar eru grafnir upp á flóðasvæðum, eftir jarðskjálfta erlendis og annað. Enda er ég að vinna á sambýli þegar þetta er og ekki farin að vera á Mogganum.

Hvað í ósköpunum er ég að eyða tíma í þetta þegar ég sé fram á að vera alla nóttina í vinnunni að skrifa um börn með geðraskanir og hegðunarfrávik og er algjörlega að falla á tíma?

Jú, vegna þess að þetta skiptir mig máli.

miðvikudagur, maí 10, 2006

Ég byrjaði að vinna sem blaðamaður 1. júní 2005.

Mér þykir illa til fundið að benda sérstaklega á það sem ég bloggaði áður en ég fór að taka af alvöru þátt í fjölmiðlun - áður en ég varð "blaðamaður" og meðan ég var 23 ára stúlka, nýlega útskrifuð úr háskólanum og alls óviss um hvert hugurinn stefndi.

Ekki meira um það í bili.

Get ekki hugsað um neitt annað en fréttaskýringuna þessa dagana.

Sextíu?

Miklu fleiri en það.

mánudagur, maí 08, 2006

Þegar ég var búin að vinna illa sofin heilan dag og heila nótt, sofa í þrjá tíma um hádegisbil og vinna aftur í þrjá tíma, fór mig að svima illilega.

Klukkutíma síðar áttaði ég mig á að ég var gjörsamlega búin að missa matarlystina.

Þegar ég var búin að vinna í fjóra tíma í viðbót, fór skyndilega að blæða úr nefinu á mér.

Þá átti ég enn eftir að vinna í 5 og hálfa klukkustund.

Uuuu... geðveiki?

Þegar ég kom út af Mogganum klukkan hálf þrjú á laugardagsnótt, búin að ganga frá grein númer tvö í greinaflokkinum mínum, áttaði ég mig á að á 39 klukkustundum var ég búin að vinna non-stop í 33.

Þá mundi ég hvorki símanúmer sem ég hringi í oft á dag né hvort ég hefði komið á hjóli, hvar síminn minn væri eða hvort ég væri yfirhöfuð búin að borða eitthvað.

Uuuu... geggjun?

Seinustu viku vann ég 82 klukkustundir.

Hvernig veit ég ekki, en það veit Allah að ég hlakka til þess að næsta sunnudagsblað fari í prentun.

Uuuu... dramatískt?
Já.

Þriðja og síðasta barn fæðist á föstudagsnótt eða laugardagsmorgun.

Haleljúja.

Lesa sunnudagsmoggann.

Kannski enn hægt að kaupa hann í búðum þótt kominn sé mánudagur.
Til á bókasafni.
Hjá ættingjum og vinum.

Barn númer tvö er fætt:

---

Sunnudaginn 7. maí, 2006 - Innlendar fréttir

Úrræðaleysi gagnvart börnum með geðraskanir
Innan við 1% íslenskra nemenda er í sérdeildum eða sérskólum

Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur sigridurv@mbl.is

ÚRRÆÐALEYSI ríkir hjá mörgum skólastjórum gagnvart nemendum með geðraskanir og erfiða hegðun. "Þetta brennur á stjórnendum. Ég finn að þetta liggur á þeim og þeir kvarta yfir þessu," segir Hanna Hjartardóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Sálfræðingar hjá þjónustumiðstöðinni Miðgarði segja að markmiðið hljóti að vera að gera skólana meira sjálfbjarga til að taka á þessum málum. "Kennarar segja gjarnan við okkur að þeir hafi ekki þekkingu til að takast á við margt af því sem fer fram inni í bekknum. Það eru kennararnir sem eru með þessum krökkum allan daginn og það er mikilvægt að styðja þá og gera þeim kleift að mæta þessu," segja þeir.

Kennaranemar benda á að meira þyrfti að kenna um börn með sérþarfir í náminu við KHÍ.
"Við þyrftum að læra um geðraskanir, líkamlegar fatlanir, langveik börn og svo framvegis," segir Auður Ásgeirsdóttir, sem útskrifast úr KHÍ í vor. Aðrir taka undir og benda á að meiri agastjórnun þyrfti sömuleiðis í námið.

Grétar Marínósson prófessor í sérkennslufræðum við KHÍ segir að eins og staðan sé í skólakerfinu í dag sé það ekki sérfræðimenntaða fólkið sem sinni börnunum með mestu sérþarfirnar, það er sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfar, námsráðgjafar eða sérkennarar. Þetta geri stuðningsfulltrúar.
"Við erum komin í þá stöðu að þeir sem hafa minnsta menntun í þessum efnum, sinna þessum börnum mest. Þetta er svolítið sorglegt og raunar gegn öllum hugmyndum um hvernig eigi að fara með þessi mál," segir hann.

Sú stefna að hverfisskólar taki við öllum nemendum, fötluðum sem ófötluðum, gengur undir nafninu skóli án aðgreiningar. "Ætli 95% kennara segist ekki vera fylgjandi þessari stefnu en síðan fylgir á eftir: Bara ekki í mínum bekk! Það er það sama og skólarnir segja oft: Við erum fylgjandi stefnunni, en bara ekki núna og ekki hér," segir Grétar.

Hann segir framkvæmd stefnunnar að stórum hluta fara eftir því hversu mikils skólinn treysti sér til og hvort menn séu til dæmis vanir að umgangast fatlaða. Aðrir segja að meiri bjargir verði aftur á móti að koma til.

Ísland er meðal þeirra landa sem hafa fæst börn í sérdeildum og sérskólum miðað við samanburðarlönd. Innan við 1% íslenskra nemenda er í sérdeildum eða sérskólum. Í Finnlandi er hlutfallið 5,3%.

Allt litrófið í einni skólastofu bls 10-15

þriðjudagur, maí 02, 2006

Vorið 2003 sat ég innan um blaðabunka, drakk Pepsi Max, svolgraði ótæpilega af kaffi og skrifaði BA ritgerð.

Núna er vor, blaðabunkar á borðinu mínu, kaffi og Pepsi Max.
Viðfangsefnið eins og BA ritgerð.

Umm. Ég er með óþægilegt flasback.

Þessi BA ritgerð fer hins vegar ekki til kennarans míns heldur í blöðin.

Viðmælendur eru að nálgast 60.

Ég verð geðveik.
eðveik.
ðveik.
veik.
eik.
ik.
k.