miðvikudagur, ágúst 31, 2005

"Þetta Viðhorf vakti miklar spekúlasjónir. Menn hafa verið að pæla í því hvort þú hafir raunverulega verið að koma út úr skápnum eða hvað," var mér tjáð áðan.

HA HA HA HA HA HA HA.

Vefsíðunni finnst óóóógeðslega fyndið að fólk sé virkilega að misskilja greinina og haldi að frökenin hafi verið að opinbera samkynhneigð sína á síðum Morgunblaðins.

HA HA HA HA HA HA HA.

Stúlkan lýsir því í Viðhorfi dagsins hvernig hún gæti ákveðið í dag að gifta sig og ættleiða barn, frábært mál. Í nótt gæti hún síðan uppgötvað að hún væri samkynhneigð og vaknað í fyrramálið upp við vondan draum: Kirkjubrúðkaupið væri farið í vaskinn og draumurinn um ættleidda barnið floginn út á hafsauga.

Samt væri ég enn í sömu fötunum, drekkandi sama kaffið í sömu stofunni. Nágrannarnir væru þeir sömu, plantan í glugganum jafnilla vökvuð og þvottavélin full af þvotti gærdagsins.

Á einni nóttu hefði ég komið út úr skápnum en þar sem skápurinn væri orðinn laus, myndu réttindi mín hreinlega hrúgast inn í hann. Það verður náttúrlega að nýta plássið...


Bls. 26 í lö Morgunblaðið.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Þegar ég var lítil vorum við Eiki bróðir brúðarmær og brúðarsveinn hjá frænku okkar og karlfangi hennar. Við gengum inn kirkjugólfið handsveitt en með glampa í auga, vatnsgreidd og að rembast við að vera í takt við lagið.

Við vorum ofboðslega fín og sæt og spiluðum síðan Maístjörnuna ásamt Steina bróður. Ég á blokkflautu, Eiki á píanó og Steini á básúnu.

Þetta var góður dagur. Mér finnst hann hafa verið í gær.
Ég vaknaði upp við vondan draum þegar ég áttaði mig á að á laugardaginn var voru 17 ár síðan.

Sau-hautján.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Hæg-eldaði/hæ-geldaði fiskurinn snéri aftur í mötuneytinu í gær.
Nú sem ýsa.

Mánudagar og fimmtudagar eru fiskidagar.

Ég bíð spennt eftir hæ-geldaða hvalnum.

Bjór eftir vinnu mætti ef til vill réttlæta með því að í dag er þriðji e.K.
Þriðji eftir endurkomu Klóa.

Bjór vegna Klóa.
Klór.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Er hægt að vera bjargarlausari en þegar páfagaukur sem maður var beðinn um að passa er skyndilega floginn út um gluggann?

Nei.

Páfagaukurinn er 3 sentímetrar í þvermál og Reykjavík risastór.
Það er rigning úti. Skítkalt.

- Hvað gerir maður?
Fer að grenja.

- Hvað gerir maður síðan?
Hugsar um hvernig hægt sé að flytja eiganda þær fréttir að barnið hans hafi strokið. Páfagaukurinn sem er enginn eðlilegur gaukur heldur elskar að kúra og kela og róta í hárinu á manni og spjalla.

- Hvað gerist svo?
Maður horfir með tárin í augunum á tómt búrið. Hinn helmingurinn af manni setur í örvæntingu sinni auglýsingu í Velvakanda í Morgunblaðinu. Hefur einhver séð páfagauk? Ble, hverjar eru líkurnar? Það var kalt og dimmt og rigning þegar Klói páfagaukur fór að heiman og líkurnar á að hann sé á lífi hverfandi.

- En hvað síðan?
Ha ha ha. Auglýsingin ber árangur. Jedúddamía. Klói finnst í Bólstaðarhlíðinni. Búinn að búa sér heimili hjá vinalegri konu. Ha ha ha. Á dauða sínum átti Patrekur von.

- Hvað svo?
Patrekur tárast náttúrlega. Barnið er fundið. Í Bólstaðarhlíðinni.

- Daginn eftir?
Maður fer og kaupir rósir í tilefni þess að Klói fannst.
Klóarósir á Klóadegi.
Horfir væmin á appelsínugular rósir og fær heita og góða tilfinningu í magann. Magnað þetta líf, maður.

- Og lærdómurinn?
a) Ekki hætta að trúa á að góðir hlutir geti gerst.
b) Máttur Morgunblaðsins er algjör.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Sko bara, stúlkan komin með plan.

Vinna á Mogganum í september og líklega október líka.
Svo ferðalag.
Eitthvert.
Í einhvern tíma.

Svo aftur vinna.
Svo aftur ferðalag.

Áfangastaðir óákveðnir.
Maður má nú ekki ofskipuleggja sig.

Grænland - sjáið myndirnar í Sunnudagsblaði Moggans.

"Pabbi, ég ætla að vinna þennan!" - lesið greinina í Sunnudagsblaði Moggans.

Yfir og út.

föstudagur, ágúst 19, 2005

"Drullumst til að gera eitthvað", sagði stúlkan á Sellunni.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Grænland.

Hvað get ég sagt?

Mögnuð ferð.
Magnað land.
Mögnuð atvik.


Flugvél á föstudegi:

"Sjáðu pabbi, þarna er ísjaki!"
Flugvélin rétt yfir Grænlandi. Það væri hægt að snerta fjallstoppana sem skaga upp úr skýjaþykkni, út um gluggann.

Úps, það er of mikil þoka til að vélin geti lent.

???

Já, já, best að fljúga þá bara aftur heim.

???

"Ég er með kjúkling hérna sem farþegarnir á leið frá Kúlusúkk áttu að fá. Má ekki bjóða ykkur?"

Uuuu... jú jú.

Hvað gerirðu þegar þú áttir að vera á Grænlandi en er allt í einu komin aftur á Laugaveginn og búin að eyða öllum eftirmiðdeginum í flugvél?

Uuuu... dettur í það.

Hvað gerirðu síðan þegar þú vaknar næsta morgun?

Manst að þú ert að reyna að koma þér til Grænlands. Tékkar hvort flogið verði. Æðir út á völl, alltof sein. Fattar við komuna að fávitarnir í fluginu sögðu þér ekki að vélin færi ekki fyrr en klukkan tólf. Klukkan er tíu. Þú heimtar náttúrlega að fá bæði kaffi og með því í boði flugfélagsins og gefur þig ekki fyrr en kaffið er farið að rjúka og samlokan sigld á diskinn.

Þú situr með í maganum í flugvélinni yfir því að sagan endurtaki sig: Þú munir fljúga að ströndum Grænlands og aftur heim - í dag eins og í gær.

Þú ert himinlifandi þegar flugvélin hristist niður úr þokunni og lendir á Grænlandi.

Þú ert töff í þyrlunni frá vellinum til Tasiilaq og pælir í því hvert í andskotanum þú ert komin: Flýgur yfir drungalega ísjaka í þoku, rigningu og skítakulda. Ó mæ, ó mæ.

Þú fylgist með skákmóti.
Skákmót í stærsta bæ Austur-Grænlands, þar sem þó búa ekki nema 1600 manns, getur ekki verið annað en töff. Skákfélagið Hrókurinn er töff.

Þú lætur bjóða þér í ísbjarnarkjötsátveislu í heimahúsi.

Þú skorar á mann sem gengur undir nafninu Ísmaðurinn, í sjómann. Hann er ísbjarnarbani og þekktur fyrir að hafa kyrkt hákarl með berum höndum.

Þú kaupir brauð úti í kjörbúð og fattar daginn eftir af hverju það er svona vont. Það er myglað og var augljóslega bakað á steinöld.

Þú horfir yfir litrík tréhús sem líta út eins og dúkkuhús og hvessir augun á ísjakana í höfninni og stórkostleg fjöll handan fjarðar. Þarft við og við að slá þig utan undir og minna þig á að þig er ekki að dreyma.

Þú húkkar þér far með bát frá Tasiilaq til Kúlusúkk og situr gapandi uppi á stýrishúsinu. "Gegt, maður," segirðu spekingslega aftur og aftur. Þú hefur fyrir framan þig Grænlandshaf og ísjaka svo langt sem augað eygir. Seli í sjónum. Það er glampandi sól og skítakuldi. Um borð er fullt fólk, ofurölvi. Þó ekki þú, þú ert bara þunn eftir furðulegasta partý sem þú hefur á ævinni farið í, kvöldið áður. Á sunnudegi.

Sá fyllsti - Íslendingur - dregur skyndilega upp 3 riffla og miðar út í loftið. Hann er svo fullur að hann getur varla staðið. Á einu sekúndubroti sérðu fyrir því hvernig skot muni sökkva bátnum, hvernig einhver verði skotinn í fótinn, hvernig ísbjörn verði særður en ekki drepinn og muni drepa þig. Þú gerir erfðaskrá á 1,7 sekúndum.

Ísjakarnir þéttast. Útsýnið er stórkostlegt. Þú ákveður að það sé best að þú haldir þig fjarri rifflunum og uppi á þaki stýrishússins. Þú tekur eftir því að eitthvað dinglar fyrir ofan þig og lítur upp. Þar hanga rifbein úr sel sem verið er að þurrka.

???

Sá fyllsti lofar að skjóta ekki neitt en einungis kenna hinum.

"Má ekki bjóða einhverjum lummur?" segir annar skyndilega.

???

Jú, einmitt það sem ég var að hugsa um siglandi innan um ísjaka með blindfullu liði og stórkostlegu útsýni. Lummur, það er það sem mig vantar.

Jæja, hvað á svo sem betra við furðulega senu en furðulegar lummur saltlausar og egglausar? Já og með eldspýtu sem datt ofan í deigið? Ha ha.

Skyndilega tekurðu eftir byggðinni í Kúlusúkk kúra á berangurslegum klettum. Býr einhver hér? Þér finnst þú vera komin hálfa leið til tunglsins og hugmynd um íbúabyggð verður fáranleg.

Þú uppgötvar að klukkan er orðin svo margt að bæði kjörbúðin og hótelið eru hætt að servera mat. Þú ert matarlaus í 300 manna þorpi einhvers staðar í rassgati. Þú gengur hálftíma á hótelið utan við bæinn og gaurinn sem á að tékka inn er ekki við. Þú bíður eftir kauða og sofnar á meðan. Liggjandi á miðju gólfi.

Næsta dag flýgurðu farangurslaus til Íslands. Vélin var orðin of þung og skilja varð allan farangur eftir.

???
Uuu... ókei.

Karlmaður klórar sér í hausnum inni í vélinni. Á brottfararspjaldinu stendur að hann eigi sæti 13D.

Það er hins vegar engin sætaröð 13 í vélinni, bara 12 og síðan 14.

Ha ha ha.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Ég má ekki vera að þessu.
Ég þarf að fara til Grænlands.

Sjáið myndirnar í Morgunblaðinu.

Ullarpeysan er komin ofan í bakpokann og ég íklædd gráu ferðabuxunum.
66 gráður norður regnfötin pökkuð niður.
Gönguskórnir líka.
Myndavélin.
Ullarsokkarnir.
Tannburstinn.

Mér líður eins og ég sé að fara í útilegu til Eyja.
Það eina sem passar ekki inn í myndina er danski gjaldeyrinn.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

"Hægeldaður glænýr þorskur" sem framreiddur er í starfsmannamötuneyti, getur á fimmtudagsmorgni auðveldlega orðið að "hæ-gelduðum" þorski. Viðkomandi starfsmaður starað lengi á matseðilinn og velt fyrir sér hvað í ósköpunum
hæ-geldaður fiskur sé.

Maður spyr sig.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Ja há, heræfingum gætu fjölgað á Íslandi með tilkomu nýs hugbúnaðarkerfis sem bandaríska herinn var að taka í gagnið hér á landi.

Væntanlega verði fleiri æfingar haldnar á og við Ísland með þátttöku flugvéla frá Bandaríkjunum og Evrópu.

Þetta segir Mogginn og Mogginn lýgur aldrei.

Nú eigum við bráðum ekki einungis alla verslun í Danmörku heldur æ stærri hlut í hernaðarbrölti heimsins. Bandaríkjamenn geta æft sig í stríðsleik á Íslandinu góða og Evrópubúar passað að vera með alla hátæknina á hreinu svo þeir séu fitt til að drepa á einfaldan og hreinan hátt. Einn, tveir og bang.

Svo er bara að vona að liðið skelli sér í Bónus og Smáralind eftir á og sé umfram allt flippað og flott á Fróni. Há dú jú læk Æsland?

mánudagur, ágúst 08, 2005

- Jæja, fröken, ertu komin með einhver meiri plön varðandi líf þitt - hvað þú ætlar til dæmis að gera í haust?

- Nei. Haustið er svo langt í burtu.

- Ja, það er nú 8. ágúst.

- Ha, já einmitt. Áttundi, segirðu? Nei, málið er sko í nefnd. Þetta þarf að fara í gegnum gæðamat og umhverfismat og allsherjarskipulag og allsherjarnefnd. Það er bara einfaldlega ekki tímabært á þessari stundu að segja nokkuð til um þetta, ha.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Vil ég fara til Grænlands og fylgjast með skákmóti og borða selspik og vera á dagpeningum og tala við skemmtilegt fólk og sjá ísjaka og spjalla við seli og hafa það gaman?

Uuuuu... .

Verð að punkta hjá mér að eiga fleiri svona vinnudaga þar sem mér er boðið að fara til Grænlands.

Töff.

Tinni fór til Kongó.
Sigga fer um næstu helgi til Grænlands.

Ritstjórinn: Sigga, það er þessi Kiri te Kanawa sem þarf að tala við. Getur þú gert það?

Frökenin: Ha, kýrin í Havana? (Þetta hlýtur að vera eitthvað leikrit)

Ritstjórinn: Nei, Kiri Te Kanawa.

Frökenin: Já, einmitt (what the???)

Ritstjórinn: Hún er heimsfræg óperusöngkona.

Frökenin: Jú jú, akkúrat (hefði nú frekar haldið að þetta væri vatn í Afríku). Ég redda þessu.

Ha ha ha. Súrrealískt að elta uppi aðalkvenstjörnuna í óperuheiminum og finna hana við bakka Rangár. Tala við heimsfræga konu sem maður hélt að væri freaking Kýrin í Havana og heyrði fyrst um daginn áður. Líða eins og fávita að hafa ekki verið með hana á hreinu. Stjörnukýrin hefur sungið með Pavarotti, Carreras og hele gengen og sló í gegn í brúðkaupi Díönu og Karls bretaprins.

Verst að ég var ekki nema tveggja ára þá.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Morgunblaðið í dag - sjáið myndirnar.
Eða bara Viðhorfið, bls. 26.
Ofsa sæt stelpa sem skrifar og er nafna mín.

Stúlkan lýsir því hvernig hugurinn fer á flug í strætó. Í þankahríð í gulu drossíunni leysir hún heimsmálin á einu augnabliki. Ekkert er of yfirgripsmikið til að ekki sé hægt að taka á því og lausnirnar liggja í augum uppi. Í huganum fara fram samtöl við ráðamenn þjóðarinnar.

..."Já, og af hverju í ósköpunum gerum við ekki meira fyrir þá sem verst eru settir í samfélaginu?" tauta ég og er komin á flug. "Endemis rugl er þetta að berja sér sigurviss á brjóst, röfla um aukinn kaupmátt, þenslu og bætt lífskjör og stoppa síðan ekki almennilega í götin á velferðarkerfinu," bæti ég við og muldra ískalt að ég þurfi að muna að bjóða Halldóri í saumatíma. Ég þarf að kenna honum að stoppa í göt. Ég glotti og sé fyrir mér hvernig ég hef nálina á loft, klappa Halldóri á öxlina og spyr hann hví við hugsum til dæmis ekki betur um eldra fólkið en raun ber vitni.

"Dóri minn, þetta er þegar allt kemur til alls fólkið sem kom okkur til manns og groups," mun ég segja og Halldór kinka heillaður kolli. Síðan hjóla ég á fund Davíðs sem lofar að hætta að unga út íslenskum hermönnum í útlöndum og heitir mér að nota heldur fé merkt þróunarsamvinnu til að minnka fátækt í heiminum. Hann sér í hendi sér að hugmyndin um fyrirbyggjandi stríð gengur ekki upp og ákveður að selja bílinn sinn. Meðan hann samþykkir að berjast með kjafti og krullum gegn klámvæðingu á Íslandi, vefur hann hárlokkunum annars hugar um fingurna og spyr hvar þessi snjalla stúlka hafi leynst allt hans líf.

Hugarflæðið stöðvast við að karlmaður stígur inn í strætisvagninn á Miklubrautinni. Eitt augnablik sýnist mér þetta vera Jón Ásgeir. Nei, hann myndi örugglega ekki taka strætó. Og þó, nú gengur strætó orðið á tíu mínútna fresti á stofnleiðum. Á leið framhjá Grensásvegi minnist ég orða kunningjakonu minnar sem fannst eins og hún myndi einn daginn hreinlega sjá risastóran bleikan Bónusgrís birtast upp úr Norður-Atlantshafinu í stað Íslands farsældar fróns.

"Og þá yrði bara bleikt svínsnef þar sem Reykjavík ætti að vera," muldra ég og hlæ asnalega. Ég er löngu búin að missa töluna á því hvað Baugur á. Ég heyri Björgólfsfeðga nefnda, Burðarás og Straum, eyrun á mér lokast og ég hætti hreinlega að skilja.


...

Írak hefur tekið við af Afganistan sem "miðstöð" alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi og ástandið þar kyndir undir ofbeldisverkum íslamskra öfgamanna víða um heim.

"Miðstöð alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi er ekki lengur í Afganistan, heldur í Írak," sagði einn af mestu sérfræðingum heims í starfsemi al-Qaeda, á ráðstefnu í Singapúr.

Þetta kemur fram í Mogganum í dag og Mogginn lýgur aldrei.

"Innrás Bandaríkjamanna í Írak hefur ekki orðið til að draga úr hryðjuverkastarfsemi, heldur þvert á móti," sagði sérfræðingurinn og bætti við að þótt al-Qaeda hefði orðið fyrir miklum hnekki, þá hefðu sprottið upp í sporum þeirra 30-40 hópar. Heimsbyggðin öll stætði nú frammi fyrir hryðjuverkaógn, sem erfitt yrði að uppræta.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Það er mánudagur í mér og það á þriðjudegi.

Ógisslega flippað.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Með sumu fólki er hreinlega alltaf gaman að fara í útilegu.

Og hvaða máli skiptir þótt maður eigi hvorki heima á fjölskyldutjaldstæðinu í fellihýsadýrðinni né á unglingatjaldstæðinu þar sem meðalaldurinn er fjórtán ára og regnfatnaður virðist hafa vikið fyrir stuttum gallapilsum? Ussu suss.

Nei, þá er bara að fara í rúbbífótbolta og glímu, láta bjóða sér í partý í sumarbústað, skíttapa í Actionary og troða ættjarðarlagasöng upp á partýhaldara.

Staulast síðan heim, horfa yfir hlíðina og segja: Kra-hakkar, djöfull er þetta fallegt. Ganga illa að leika þorsk en betur með rolluna. Sumir rústa því að leika harna fuglinn harna, hvað heitir hann, harna hrossagaukur.

Óttast um einn útilegumeðlima. Í guðanna bænum, mun hún skilar sér heim í tjald?
Eða er hún alveg að Sturlast?
Ha ha ha ha.
Föttuðiðiðennan?

Og hví ekki á laugardeginum að flæma börnin upp úr lauginni í æsispennandi sundbolta og leita síðan að rauðum trukk á tjaldstæðinu á Flúðum? Rústa wannabe Árna Johnsen í brekkusöng, grilla pulsur um miðja nótt, láta bjóða sér upp á kakó með eðalwhisky og hefja síðan á loft gítarinn þegar kærustuparið og kakóeigendurnir hafa horfið inn í rauða trukkinn og ískra fer í bílnum. Góla: Hit me baby one more time.
Oh, baby baby, how was I supposed to know, that people really listened?

Ha ha, bíllinn stoppar. Kannski fannst þeim þetta ekki eins fyndið og mér.

Hvað um það.
Sumarið er tíminn.