fimmtudagur, júní 30, 2005

Ef alþjóð einungis hefði innsýn inn í þær stórkostlegu hugmyndir sem brjótast um í höfði mér þegar ég vakna á nóttunni.

Þar sem ég ligg í fleti mínu álykta ég að ég hafi hreinlega aldrei fengið jafnstórkostlegar og magnaðar hugmyndir áður.

Síðan birtir af degi.

Þegar ég vakna við vekjaraklukkuna að morgni get ég ómögulega munað hvað ég var að hugsa.

Púff, hugsanirnar eru horfnar eitthvert út í sumarið.

mánudagur, júní 27, 2005

Sko bara.

Það hlaut að koma að því.

Ég vissi það.

MÚ HA HA.

Gemsinn minn byrjaði að hringja aftur í morgun.

Já, ó já. Þessi elska hefur ævinlega móttekið sms með hljóðum en hins vegar ekki hringt síðan fyrir jól.

- "Af hverju færðu þér ekki nýjan síma? Kræing ád lád, þetta er 5110.

- "Hví skyldi ég fá mér nýjan síma þegar þessi er ekki dauður? Hann er ekki látinn heldur einungis veikur. Og maður gefst ekki upp á vini sínum í veikindum, er það? Myndirðu henda barninu þínu ef það yrði langveikt?"

- "Og hvað, heldurðu að hringingarleysið eigi bara eftir að lagast si svona einn daginn?"

- "Ég held það, já. Í gegnum tíðina hefur síminn orðið veikur og síðan batnað, svona eins og mannfólkinu. Vírusinn þegar hann skellti á viðmælendur mína tók til dæmis fljótt af. Þrátlátt sambandsleysi gekk yfir á lengri tíma en tók að lokum af. Ruglaði skjárinn hætti að vera ruglaður, það var bara eitthvað smá kvef. Já, ef þér væri sama held ég að hringingaleysið geti vel lagast."

- "Þú ert rugluð."


27. júní 2005 - IN YOUR FACE

HA HA HA HA HA HA HA

Og lærdómurinn?

Aldrei hætta að trúa á að góðir hlutir geti gerst.

sunnudagur, júní 26, 2005

Á íslensku sumri langar mig stundum til Súdan og Kongó.

Kringlan eða Kongó?
Mig langar meira til Kongó.
Smáralindin hefur ekki sama sjarma yfir sér og Súdan.

Stundum sé ég mynd í blaði og langar að hoppa í sandalana og fljúga til Pakistan einn tveir og þrír. Taka bakpokann og fara til Vestur-Afríku eða Suður-Ameríku.

Aðrir heimar í þessum sama heimi og ég þó lifi í, eru ekki nema nokkrum klukkustundum frá mér í flugvél.

Síðan bráir af mér og ég anda að mér fersku sumarlofti og langar að vera á Íslandi og bara á Íslandi í sumar. Það er svo heimilislegt að ganga niður Laugaveginn og líða eins og í fjölskylduboði, fara í partý og allir tengjast öllum.

Ég er heima á landinu mínu í gúddí fíling.

En í haust, en í vetur, en einhvern tímann..

fimmtudagur, júní 23, 2005

Það skemmtilega við vinnuna er að ég hitti svo skrambi mikið af áhugaverðu fólki.

Stúlkan skrifar orðið reglulega viðhorf í Moggann.
Viðhorf um bandarísku herstöðina á Íslandi í gær. Burt með draslið.
Viðhorf um sautjánda júní um daginn.

...Sautjánda júní fyrir tveimur árum horfði ég á litla krakka arga sig hása í aðdáun á Birgittu Haukdal. Ég horfði yfir skarann á Arnarhóli, virti lætin fyrir mér hálfhneyksluð, en hóstaði síðan og varð aftur tólf ára gömul stúlka með skakkar tennur á Skaga. Tannréttingarmeistari minn hafði útbúið svo þykkan góm að ég mátti vart mæla. Með góm í munni og spöng í hári stóð ég klemmd uppi við svið í íþróttahúsinu á Akranesi. Ég horfði aðdáunaraugum á Todmobile, sömu augum og barnaskarinn horfði á Birgittu. Heim kom ég eftir Todmobile-tryllinginn með hælsæri og marbletti en sælli en á jólum.

"Ég fékk eiginhandaráritun hjá Andreu Gylfa og mér tókst að koma við Eyþór Arnalds!" hrópaði ég og datt inn um dyrnar. Bræður mínir hlógu hátt en ég brosti einungis út að eyrum. Mér hafði tekist að snerta goðið þar sem það skók sellóið af miklum móð. Ég náði reyndar einungis að snerta hárið á því og það aðeins eitt brot úr sekúndu en sæl var ég. Ég var enda komin með andarteppu af hoppinu og hafði þurft að leggja allan minn kraft í stökkið.

"Hvað er að ykkur, Eyþór er frægur og þetta var ekkert auðvelt," sagði ég snúðug við bræðurna og hengdi eiginhandaráritun Andreu upp við hlið mynda af Bryan Adams og Kevin Costner. Kannski var þetta besti sautjándi júníinn minn af öllum...

...

... Í heimi sem er undirorpinn sífelldum breytingum veitir tilvist Brúðubílsins mér öryggi. Nöfn á bönkum og fyrirtækjasamstæðum breytast dag frá degi, kaupmaðurinn á horninu er horfinn og orðið group er sveipað töfraljóma. Lilli api er hins vegar á sínum stað. Íslenskir viðskiptajöfrar keppast við að setja heimsmet í útrás og gamla góða soðna ýsan má sín einskis gegn frumlegum fiskigratínum með sólþurrkuðum tómötum, ferskum kryddjurtum og fetaosti. Brúðurnar í Brúðubílnum halda samt áfram að tala björtum rómi við börnin.

"Gerið Brúðubílinn aldrei að The Puppet Car Group," segi ég titrandi röddu og reyni að setja mig inn í það hver keypti hvern og hvaða fyrirtækjablokk á hvað.

Ég er löngu hætt að hafa gaman af Lilla og hafði kannski aldrei gaman af honum. Mér fannst hann alltaf hálfapalegur. Annað væri nú svo sem þar sem hann er api. Það er hins vegar ekki mergurinn málsins. Það skiptir ekki máli hvort Lilli er skemmtilegur eða leiðinlegur. Lilli er þarna og það veitir öryggistilfinningu. Þessi brúðuapi er tenging mín við fortíðina. Þótt neyslumenningin verði æ gegndarlausari og einkavæðingin brjálæðislegri, er Lilli til staðar. Þrátt fyrir nýja tíma og netsmelli, erfðatækni og einkabanka, stafrænar myndavélar og tugmilljóna króna sumarbústaði, raðgreiðslur og raunveruleikasjónvarp, skemmtir Lilli ennþá börnunum...

þriðjudagur, júní 21, 2005

Íslenska sumarið er svo ágætt.
Svo ágætar björtu sumarnæturnar.
Svo ágætt að fara út úr bænum, úr gemsasambandi í birkiilm.
Að brjótast úr hverfum 101 og 105 og enda norður í Þingeyjarsýslu.

Svo ágætt að ganga um birkiskóg í gömlum stígvélum, vera reddað af löggunni í Borgarnesi sem reyndist vera gamall bekkjarbróðir eftir að hafa læst bíllyklana inni í bílnum, svo ágætt að grilla í fallegum dal, syngja ættjarðarlög og borða Mývatnssilung.

Ég missti af Brúðubíl og blöðrum í bænum á sautjándanum.
Ég fékk hins vegar fuglasöng og dans við íslensk útvarpslög úti á palli í kvöldblíðunni.

Fjallkonan var fjarri góðu gamni en faðir minn brá sér í gervi fjallmannsins.
Las ljóð með tilþrifum. Eftir sjálfa sig og aðra heimilismenn.
Í sumarbústaðnum var enginn skautbúningur en faldleysi var reddað með faldi úr gömlu Fréttablaði.

Þrestir og lóur sungu. Örugglega sína útgáfu af þjóðsöngnum. Gæsir flugu um bláan himinn. Áin niðaði í miðjum dalnum.

„Er ´etta þarna ekki þjóðarblómið?“

Jú, jú, holtasóleyin skartaði sínu fegursta.
Ísland bezt í heimi.

Sigríður Víðis eldri bauð oft Síríus súkkulaði úr fallegri glerskál. Molaskál.

Sigríður Víðis yngri handlék súkkulaðimolann og hreiðraði um sig í gömlum stól með grænu flauelsáklæði og fallegum tréörmum. Lítil stúlka skynjaði að það var eitthvað stórkostlega breytt síðan amma hafði fæðst í burstabæ með torfi á þakinu.

Amma upplifði merkilega tíma.
Sjálfstæðisbaráttu, kolakyndingu, kosningarétt kvenna, dönsk áhrif, siglingar með Gullfossi, lýðveldisstofnun, þorskastríð.
Og svo var hún komin til okkar í stóra húsið uppi á Skaga.

Lítil börn hlustuðu á ömmu segja frá spænsku veikinni og frostavetrinum mikla 1918 og amma hlustaði á lítil börn spila á blokkflautur og píanó. Svo klappaði hún og hló, stundum eilítið rámum hlátri því hún var orðin svo gömul.
Kannski fannst litlu barni amma vera jafngömul og heimurinn allur.

Stundum sagði amma frá því þegar hún fékk spænsku veikina og stundum fengu systkini að heyra um frostaveturinn mikla 1918. Stundum spiluðu börnin fyrir hana á blokkflautur og píanó og þá var hún svo glöð.

Í skóginum í Þingeyjarsýslu reistu amma og afi lítið steinhús og hingað kom fjölskyldan hvert sumar.

Aksturinn norður í land var svo langur fjölskyldan gisti á leiðinni. Appelsínuguli Volvo station bíllinn hristist á malarvegi og við borðuðum heimasmurt nesti.
Norðurlandið var sveipað ljóma. Það var svo langt í burtu að það hefði eins getað verið í annarri heimsálfu. Þetta var útlandaferð þess tíma.

Á nýrri öld fer ég sjálf til annarra heimsálfa og kannski er það ekkert meira ferðalag í huga mér en þegar ég fór norður í gamla daga. Líklegast var ferðalagið miklu meira þegar amma sigldi til Kaupmannahafnar sem ung stúlka með uppsett hár.

Árið 2005 er vegurinn norður í land malbikaður og aksturinn tekur ekki nema fjóra tíma. Sjarminn við litla steinhúsið í skóginum er hins vegar alltaf sá sami. Gerður G. Bjarklind er enn í gamla útvarpstækinu sem stendur í gluggakistunni. Matarstellið er enn það sama, frá ömmu, hvítt með bláum blómum. Fjöllin hinu meginn við dalinn eru þau sömu. Hafa líklega vakað í þúsund ár.

Tréin úti við vaxa en samt er eins og tíminn standi í stað í skóginum.
Reykurinn liðast upp úr skorsteininum og þrjár manneskjur dunda sér inni við.
Gerður Bjarklind talar þýðri röddu.
Allt nema sýsl í blámálaðri stofu úti í skógu verður fjarlægt.
Akureyri er langt í burtu, Reykjavík í útlöndum og útlönd í geimnum.

Lummur úr hafragraut og einu andareggi eru prýðismatur.

Hver þarf hveiti þegar hægt er að nota afganginn af hafragrautnum sem snæddur var um morguninn? Og skiptir einhverju máli þótt óvart hafi verið keypt andaregg en ekki hænuegg?

Bara að skella draslinu á steikarpönnu, brosa og vona það besta.

Kannski er útkoman bara svona góð og bragðið svona ágætt, því lummurnar eru snæddar í litlu steinhúsi úti í fallegum skógi.

Sprengjuleitarmenn nota málmleitartæki til að finna sprengjur.
„Dú dú dú.“
Tækinu er sveiflað um og beðið eftir pípi.

Gemsasambandslaus geng ég um með rauða FALLEGA símann minn, 5110 Nokia elskuna, og leita að símasambandi. Upp hlíð, niður hlíð, yfir birki, yfir þúfur.
Eins og ég væri með málmleitartæki.

„Dú dú dú.“
Af hverju kemst ég ekki í samband? Það á að vera hér í hlíðinni einhvers staðar.

Á Íslandi eru engar sprengjur og engin sprengjuleitartæki.
Ég er hins vegar í spreng að komast í gemsasamband.

Undir bláhimni blíðsumarnætur dett ég loksins niður á það.
Hoppa hæð mína af gleði og krem eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár undir skósólanum.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Norður-Ísland eða Norður-Úganda, skiptir það máli?

Ég er farin norður í land.
Með bakpoka og krumpað sænguver.
Gítar og góða skapið.

Gleðilegan sautjánda júní.
Gleðilegar blöðrur og Brúðubíl.

Það má lesa um sautjánda júní hugsanir frökenarinnar í Mogganum þann sautjánda.

Dálkurinn Viðhorf. Á milli miðopnunnar og aðsendra greina.

Morgunblaðið. Reykjavík, 2. nóvember 1913.
Fyrsta blað Morgunblaðsins.

Kemur út á hverjum morgni, venjulegt blað (4 bls.) á rúmhelgum dögum, tvöfalt blað (8 bls.) á sunnudögum.

Auglýsingum sé skilað fyrir kl. 2 deginum áður í Ísafoldarprentsmiðju.
Kostar 65 aura um mánuðinn.
Tekið við áskriftum í Ísafoldarprentsmiðju.
Einstök blöð kosta 3 aura.
Talsímar 500 og 48.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Ég var að hugsa um að setja mig alvarlega inn í mál Halldórs varðandi Búnaðarbankasöluna og meinta vanhæfni. Ég tók upp Fréttablaðið.

Á þessum tíma átti Halldór um 1,33% hlut í Skinney-Þingnesi, sem átti helmingshlut í Hesteyri, sem var einn stærsti hluthafinn í Keri, sem var hluti af S-hópnum.

Ákvörðun mín beið skipbrot og ég lagði frá mér blaðið.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Ég held að það hljóti að vera merki um þreytu þegar mann dreymir flóðhest. Og ekki bara flóðhest, heldur flóðhest sem brýst inn til manns með látum.

Draumurinn verður þó fyrst athyglisverður þegar flóðhesturinn hefur athafnað sig og maður uppgötvar að vinkona manns kann ekki lengur að tala. Babblar einungis.

Síðan kemst maður að því að það sé ekki allt sem sýnist varðandi Hildi Völu idolstjörnu. Hún sé í raun bara sextán.

sunnudagur, júní 12, 2005

Vefsíðan mælir með grein um óeirðirnar í Eþíópíu eftir kosningarnar þar og viðtali við Svein Einarsson leikstjóra og fyrrverandi leikhússtjóra í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sömuleiðis viðtali við mæðgurnar Auði og Auði um Hótel Mömmu í Tímariti Morgunblaðsins með sunnudagsblaðinu.

Yfir og út.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Ég hef hálfrotast af því að innbyrða innhald áfengsiflaskna en ekki lent í því fyrr en um daginn að hálfrotast af því að fá flöskurnar sjálfar í mig.

Hverjar eru líkurnar á því að fá tvær lítersflöskur úr massívu gleri beint í höfuðið úr tveggja metra hæð?

Töluverðar ef maður er fröken Sigríður.

Best að planta góssinu úr áfengissjoppunni á flugvellinum í Úganda í handfarangursgeymsluna beint fyrir ofan og liggja síðan gólandi í gólfinu með blóðið frussandi úr enninu, eftir að flugfreyjan opnaði hólfið að flugtaki loknu. Blúbbs, draslið skelltist niður.

"Who put this up there? Whose handluggage is this?!" sagði skelkuð flugfreyjan með tár í auga. Ég sá að hún sá fyrir sér fyrirsagnirnar í ensku útgáfu DV: Flugfreyjan reyndi að kála mér - farþeginn segir alla söguna. Dó áfengisdauða, án þess að innbyrða áfengið.

"It´s mine. It´s mine," sagði ég vankaðari en eftir sjö bjóra, hélt um höfuðið og þurrkaði blóðið í ókeypis sokkaparið sem fylgdi eyrnatöppunum í sætisvasanum fyrir framan. Glatað að fá tvo lítra af áfengi beint á skallann og enn glataðara að maður sjálfur eigi sökina. Ég gat ekki einu sinni hvæst framan í konuna við hliðina.

Níu tíma flugi til Evrópu eyddi ég með klaka á hausnum og sympatíska flugfreyju sem dældi í mig öllu heimsins gúmmilaði - súkkulaði sem verkjatöflum.

Reglulega fór ég inn á bað til að sjá kúluna vaxa og velta fyrir mér hvort ég myndi virkilega mæta á Ísland fagra Ísland lítandi út eins og nashyrningur. Rauði kuflinn minn hafði einmitt rifnað fyrr um daginn, þannig að þetta leit ekki vel út. Ég sá móður mína jesúsa sig á flugvellinum yfir útganginum á dótturinni.

Ég bað til Allah á leiðinni um að kúlan hjaðnaði. Hún gerði það.

Þar sem ég hef einu sinni vankast af umræddu áfengi, lít ég svo á að ég muni ekki gera það aftur. Humm.

miðvikudagur, júní 08, 2005

Aðeins fjórði hver blóðgjafi er kona.

Koma svo, stelpur.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Ég fann þessa stórkostlegu grein á netinu, Grautur úr sömu skál.

Mér þykir höfundurinn heita furðulega líku nafni og ég sjálf.

mánudagur, júní 06, 2005

Á Miðnesheiði hér á ástkæra bezt-í-heimi Íslandi er herstöð Bandaríkjanna. Vera hersins hér á landi gerir okkur hluta af alþjóðlegu herstöðvakerfi Bandaríkjanna, sama hers og hefur hernumið lönd og herjað á íbúa þeirra með gríðarlegu mannfalli. Sama hers og drepur daglega fólk í Írak.

Hér á ástkæra bezt-í-heimi Íslandi eru haldnar heræfingar á vegum bandaríska hersins og Nató. Þar er fólk þjálfað í að drepa annað fólk.

Við lifum ekki í tómi. Við lifum í heimi þar sem ríkisstjórn okkar ákvað að styðja innrás inn í annað land. Við lifum í veröld þar sem manndráp - hversu "göfug" sem þau eiga að vera - eru skipulögð rétt utan við Reykjavíkurborg.

Við lifum í heimi þar sem árlega er verslað með vígbúnað fyrir um 1500 milljarða íslenskra króna. Hlutur Nató ríkja í vopnasölunni er 80%. Í Nató eru fínar þjóðir eins og Ísland og Bretland og Bandaríkin og Frakkland og Þýskaland.

Við lifum í heimi þar sem hervæðing er gríðarleg. Hún er hins vegar ekki eðlileg og ekki sjálfsögð. Það er ekkert náttúrlegt við heri. Það er einhver sem ákveður að setja þá saman og viðhalda þeim. Það er ekkert óhjákvæmilegt við hervæðingu.

Við stærum okkur af því að vera ein af ríkustu þjóðum í heimi. Samt kveinkum við okkur yfir því að ef herinn fari sé það beinlínis hræðilegt því þá missi svo margir vinnuna.

Mér þykir fokið í flest skjól þegar fullvalda ríki álítur það bæði nauðsynlegt og eðlilegt að Bandaríkin sjái sér fyrir vinnu.

laugardagur, júní 04, 2005

Um að gera að hengja fundarboð um húsfund upp á vegg á móti útidyrunum, skrifa dauði á þau og bæta inn liðum á dagskrána eins og að senda manninn fyrir ofan í megrun. Ha ha.

Fá síðan bank á dyrnar frá nágrönnunum sem eru spenntir fyrir umræddum fundi og vilja endilega ræða hann þarna í dyragættinni. Steingleyma dauða-plagginu sem hangir fyrir aftan og vera bara hress og babla lengi um komandi fund.

Þegar ég geng um bæinn klukkan fimm um nótt og það er albjart, veit ég ekki hvað ég á að halda. "Is it really bright all night long?" hljómar í eyrunum á mér og ég man ekki hvort hreimurinn er eþíópískur eða úganskur eða kannski indverskur.

"What do I need to get a visa to your country?"

Þá kemur á mig. Það er erfitt að vera frá fátæku landi og fá vegabréfsáritun til Íslands. Maður þarf að eiga peninga inn á bankareikningi. Fimmföld árslaun fyrir marga. 2000 kall á dag hvern dag sem maður er á landinu. Það þarf að hafa flugmiða báðar leiðir. Boðsbréf til landsins. Sitthvað fleira.

"It´s difficult, I know. But really, Iceland is a good country. We have the most beautiful women in the world and the strongest men."

Þegar ég geng niður Laugaveginn og aftur upp hann og aftur niður, þá brosi ég og finnst eftir allt stórfínt að vera komin heim. Það er líka eins og ég hafi ekki farið. Útlandalíf verður eins og í öðrum heimi, kannski eins og í draumi, og birtan og íslenska neyslan að núinu.

Íslandið er gott og Íslandið er landið mitt. Á Íslandinu er fólkið mitt og það er heimilislegt að ganga í bænum. Íslandið mitt er ríka landið þar sem er nóg af peningum og líka nóg af góðum vilja. Kannski þarf bara dálítið að finna hann innan um Hagkaupsbæklingana og himnasæluna á útsölutilboðunum í Kringlunni.

Ég er þakklát fyrir stuðninginn í söfnuninni um daginn. Takk fyrir að trúa á málefnið, takk fyrir traustið, takk fyrir að vilja vera með.

Takk, takk, takk.

Ég skildi ekkert í því að það væri ekkert inni á debetkortinu mínu fyrr en ég uppgötvaði að ég var að reyna að borga með starfsmannakortinu í vinnunni.

Ég var líka búin að steingleyma því að ég gekk með stóra ginflösku á mér, fyrr en ég var stoppuð í dyrunum á skemmtistað.

"Hvað er í pokanum þínum?"

Ha, já, einmitt.

Það var mun afslappaðara að taka viðtal við tvo Gusgus meðlimi en Indlandsforseta. Meira að segja enginn hreimur eða neitt.

Sunnudagsblaðið, maður. Sunnudagsblaðið.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Viðtalið við indverska forsetann, já?

Ja, viðtalið er alla vega á miðopnu í Mogganum í dag.

Sagan í kringum viðtalið mun hins vegar ekki birtast á opinberum vettvangi fyrr en síðar. Þetta verður stó-hór-kostlegur kafli í ævisögu minni.

Eftir fimmtíu ár.

Ég hætti ekki á að vera meinað um vegabréfsáritun til Indlands, koma óorði á Morgunblaðið eða vera sagt upp störfum, ha ha.

Sagan er hins vegar mögnuð. Sérlega myndræn. Þyrfti eiginlega að verða leikrit.

Þegar ég lét Indverja í jakkafötum súpa hveljur og sármóðgaði þá.

....