fimmtudagur, september 30, 2004

Það vantar enn helling af sjálfboðaliðum fyrir landssöfnun Rauða krossins á laugardag: Göngum til góðs.

Til að hægt verði að ganga í öll hús á landinu og safna framlögum í þar til gerða bauka þarf 2500 manns. Ég trúi því ekki að við náum ekki þessum fjölda, kræst. Þetta tekur ekki nema ca. 2 klst á mann, það er engin stund.

Ágóði söfnunarinnar fer til að hjálpa börnum á stríðshrjáðum svæðum, þarft og gott verk það! Skráning fer fram hér.

Það er stemmning að taka þátt í söfnuninni, á söfnunarstöðvunum verður líf og fjör og um að gera að taka vini eða fjölskyldu með í göngutúrinn. Það er gaman að hjálpa til í kringum sig.

Við getum endalaust vælt um að heimurinn sé svo vondur og ósanngjarn og gæðunum misskipt og bla bla en það stendur ekki upp á neina nema okkur að breyta því.

Tækifæri eins og landssöfnunina á laugardaginn eigum við að grípa fegins hendi.

miðvikudagur, september 29, 2004

Merkilegt hvernig vindurinn virtist koma úr öllum áttum þegar ég hjólaði heim úr vinnunni. Gott ef hann kom ekki líka beint að ofan. Meðalhraði rennblautu manneskjunnar á hjólinu 5 km/klst.

Hjá Háskóla Íslands tókst ég á loft, gleraugun fuku af mér og handtaskan fauk upp úr hjólakörfunni. Íslenskt - já takk.

Ég vissi ekki að maður gæti tekist á loft á hjóli. Ég vissi heldur ekki að maður gæti sofnað undir stýri hjólandi fyrr en ég heyrði um einn sem afrekaði það. Ha ha.

Borð við umferðargötu. Brosandi maður stendur hjá. Sól skín í heiði. Um götuna er talsverð umferð. Á borðinu er venjulegur heimasími. Símtækið er almenningssími í Búrma.

Ég virði tólið fyrir mér, strýk svita af enninu og laga sólgleraugun. OgVodafone-og-gemsar-með-litaskjá-og-Síminn-og-þráðlaust-staðarnet- og-Frelsi-og-fastlínukerfi verða allt í einu svo ósköp langt í burtu.

Hér eru ekki símaklefar heldur standa venjulegir símar á borðum úti á götu. Sumir eru afar hrörlegir. Snúrurnar ná inn í hús eigendanna. Þeir sem nota símana borga þeim sem þá á.

Svona er símkerfið í Búrma.
Gemsar með litaskjá, myndavél og pólýtónum my ass.

þriðjudagur, september 28, 2004

Seinustu tveimur dögum hef ég eytt á sjálfsvarnarnámskeiði ásamt öðrum starfsmönnum Svæðisskrifsstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Mér fannst ég ekki bara töff heldur líka stæðileg og meðvituð um heimsins hættur þegar ég arkaði inn í salarkynni Júdófélags Reykjavíkur. Leiðbeinandi var Bjarni Friðriksson júdókappi með meiru.

Ég skellti Bjarna náttúrlega í gólfið án þess að blikka auga. Hann átti ekki roð í mig. Vippaði honum léttilega yfir mig og snéri hann niður þegar hann reyndi að taka mig haustaki. Ha, eða var það öfugt?

Það er ekki mikið mál að losa sig þótt einhver rífi í báðar hendurnar á manni eða taki utan um hálsinn á manni aftan frá. Það er ekkert svo erfitt að snúa einhvern niður og halda honum föstum. En ef enginn hefur sýnt manni hvernig maður gerir það, má maður sín lítils.

Heimurinn er því betri vegna manna eins og Bjarna - nýja goðsins míns..

laugardagur, september 25, 2004

Ferðafélagið Patrekur er svo mikið fyrir fjölmiðla að það skrifaði Viðhorf um sjálft sig í Moggann í dag.

Síða 32 í því herrans riti Morgunblaðinu er tileinkuð Patreki.

"Patrekur tekur engan þátt í útlitsdýrkun samfélagsins og þess vegna segir hann engum frá því þegar hann fer í ljós," segir í útdrættinum.

Grín ársins - skrifa grein um sjálfan sig í blöðin, mú ha ha.

Mæli annars líka með HJÁLP, blaði Rauða kross Íslands, sem fylgir Fréttablaðinu í dag.

Góð lesning það, til dæmis greinarnar um börn í stríði, frásagnir íslenskra sendifulltrúa í Súdan og viðtöl við sjálfboðaliða.

föstudagur, september 24, 2004

Mynd dagsins er frá Búrma. Þessi voru á ferðalagi eftir þjóðvegi 1.Hver þarf bíl ef hann á uxa?

Lífið er furðuleg samsuða tilviljana. Ég hafði lýst því yfir að mig langaði meðal annars til Rúanda. Nema hvað, í mat hjá frænku minni um helgina frétti ég af merkilegu verkefni sem verður þar í landi næsta maí og það með hjálp Íslendinga: Nefnilega maraþonhlaupi!

Safnað verður áheitum og ágóðinn fer til styrktar rúönskum konum. Verkefnið gengur samt ekki síst út á að vekja athygli á stöðu þeirra. Hún er slæm og Rúanda gleymt svæði.

Nei, ekki hyggst ég sjálf hlaupa maraþonið - þótt ég hafi staðið mig vel í skemmtiskokkinu um daginn, ha ha - en það hljómar vel að aka til dæmis á eftir hlaupurunum. Fá að vita meira um konur í Rúanda, átta mig á stöðunni, skrifa pistla og jú reyna kannski að læra eitthvað um kolvetni og mjólkursýru af hlaupurunum.

mánudagur, september 20, 2004

Hér er grein eftir mig á Sellunni. Beini því til fólks að það pæli alvarlega í þessu og fái aðra til að gera slíkt hið sama.

Einn segir fimm og þeir segja allir öðrum fimm sem aftur segja öðrum fimm - og við komum þessu snöggvast í lag. Ekkert mál.

sunnudagur, september 19, 2004

Áðan ætlaði ég að sjóða egg og fyllti pott af vatni. "Gvöð hvað það er langt síðan maður hefur fengið sér soðið egg," sagði ég og mundaði eggið. Átti eitt stykki.

Úbbosí, vissi ekki fyrr en ég var búin að brjóta eggið og gusa því ofan í vatnið. Horfði steinhissa á rauðuna fljóta í vatninu og hnyklaði brýr. Góður Sigríður, gera vatns-ommilettu þegar maður ætlar einu sinni að sjóða egg.

Ég er aldrei utan við mig. Læsti bíllyklana bara inni í íbúð um daginn og símann minn inni í bíl. Og var hársbreidd frá því að blinda sjálfa mig. Greip vitlaust plastglas við að setja augndropa í augun á mér. Hélt á tonnataki og var viðbúin að dúndra líminu inn í augað.

laugardagur, september 18, 2004

Bendi á þetta Viðhorf sambýliskonu minnar - Meintur "gannislagur".

Í Mogganum í dag er síðan annað Viðhorf eftir hana, góð lesning það. Síðan má draga fram Sunnudagsmoggann frá því um seinustu helgi og lesa viðtal við hana.

Ferðafélagið Patrekur er svo mikið fyrir fjölmiðla.

Í búðinni áðan gat ég keypt risa kornflekspakka og fengið snyrtiveski í "kaupbæti". Ég ákvað að passa og kaupa frekar haframjöl, átta hundruð krónum ódýrara.

Svo er hafragrautur líka svo hollur. Það segir mamma alla vega.

föstudagur, september 17, 2004

Í Bandaríkjunum á ég litla frænku sem fæddist 17. janúar en ég hef ekki enn séð með berum augum. Hún er átta mánaða í dag og heitir Kristín Elísabet Steinsdóttir á Íslandi en Kristine Elisabeth Jonsson í Bandaríkjunum.

Við móðir hyggjum á ferðalag til að heimsækja barnabarnið/frænkuna. Verðum úti í rúma viku í lok október, byrjun nóvember. Það var að koma í ljós að við náum BÆÐI forsetakosningunum og Halloween. Magnað. Kannski verða kosningarnar líka hálfgert Halloween.

Þegar ég var á humarvertíð í Bandaríkjunum fyrir fimm árum var ég búningi djöfulsins í Halloween partýinu í bænum. Nú er ég að spá í að vera Bush. Síðan drífur maður sig náttúrlega á framboðsfund og tekur púlsinn á liðinu.

"So what do you think of all the dead american soldiers in Iraq? Wouldn´t it have been smarter to focus on your own economy, or let´s say world peace...? Really, have you thought of how many lives you actually could have saved by spending the money that went to the Iraqi war on vaccinations or HIV preventions? Don´t you think it´s brilljant to try to make the world a more stable place by reducing poverty?!!!"

Og svo framvegis, og svo framvegis.

Og auðvitað: "Do you know Bjork? No, it´s not a Halloween costume she is wearing, she is just like that."

1.000 bandarískir hermenn hafa látið lífið í Írak síðan "stríðinu lauk".
13.000 heimamenn hafa fallið.

Þrettán þúsund heimamennirnir eru að langstærstum hluta óbreyttir borgarar: Konur, karlar og börn sem voru ekki að taka þátt í stríðinu, höfðu væntanlega óbeit á því og langaði lítið að láta lífið á þennan hátt.

Ekki frekar en mig eða þig.

miðvikudagur, september 15, 2004

Það er stutt milli svefns og vöku, stutt milli lífs og dauða.

Hélt í gærkvöldi ég myndi drepa mig akandi á þjóðvegi í svartamyrkri í harðvítugri baráttu við að halda mér vakandi.

Pulsa í sjoppu, stopp til að horfa á Norðurljósin og hávær tónlist virkuðu takmarkað.

Ókei, best að syngja bara. "Snert hörpu mína himinborna dís, fa la la.."
Nei, djöfull. Syng þetta alltaf þegar ég svæfi börn. Vond hugmynd.

Uuuu.. finna eitthvað betra. Damn, söngurinn gerir mig bara enn syfjaðari. Er hægt að svæfa sjálfan sig undir stýri?

Fækkaði á endanum fötum og skrúfaði enn lengra niður bílrúðurnar. "Kuldi," tautaði ég. "Kuldi reddar mér." Áttaði mig um leið að ég hef ekki verið í almennilegum kulda síðan þarseinasta vetur. Seinasti vetur var í sól og einhverju tímaleysi.

Kom skjálfandi af kulda á áfangastað, enn á lífi, en búin að setja mér þá lífsreglu að aka aldrei þreytt og illa sofin.

Ja há.

Í seinustu viku bættist tíunda barnið í vinkvennahópinn af Skaganum.
Við erum tíu í hópnum, þannig að jafnmörg börn verða að teljast talsverður árangur.

Eitt í viðbót og búið verður að ná í heilt fótboltalið.
Jamm og já.

laugardagur, september 11, 2004

Í vikunni endurheimti ég dót sem ég skildi eftir í Austurríki í maí. Það var sérlega spennandi að opna pokana því ég mundi ekki svo gjörla hvað þar leyndist.

Jú, jú, þarna var plastpoki með arabísku letri - troðfullur af bókum. Í Qatar fékk ég gefins svo mikið af bókum að ég stefni á að opna bókasafn. Hver gefur manneskju með bakpoka þungar bækur?

Gvöð ég get ómögulega ákveðið hvort ég eigi að byrja að lesa bókina A study of Qatari-British relations 1914-1945 eða bók á frönsku um qatarskan arkitektúr. Læt ekki spilla fyrir mér að ég kann ekki frönsku. Svo er þarna ensk-qatörsk orðabók og stór og mikil bók um arkitektúr gömlu hallarinnar í höfuðborginni Doha.

Nú nú, svartur kufl með tilheyrandi slæðu leyndist í pokanum, að ógleymdu höfuðstykkinu sem vippa má yfir ef maður vill vera alveg viss um að enginn sjái í andlitið. Ég mátaði þetta á markaði í Doha til að prófa hvernig væri að sjá í gegnum svart efni en þá var mér bara gefinn gripurinn. Ég ætti kannski að prófa þetta trikk í fatabúðunum hérna heima..

Svarta höfuðstykkið lyktar reyndar dálítið af qatörskum ilmolíum sem frökenin varð að taka við - en það er bara heimilislegt. Ein flaskan sprakk í pokanum en hinar lifðu það af. "You pick, I pay," og svo varð ég að velja nokkra ilmi.

Í pokunum voru líka nokkrar flíkur frá Singapúr og Malasíu. Meðal annars forkunnarfínn rauður kjóll. Ég er enn að bræða með mér hvort ég skelli mér ekki bara í honum í bæinn í kvöld. Verst að það er rigning úti.

Ég tel mig hafa tvo möguleika í stöðunni. Fara í svarta kuflinn yfir kjólinn og vefja slæðunni um höfuðið til að verjast íslensku slydduéljunum. Eða fara út í hjóla-hlífðarbuxurnar og hjóla-regnjakkanum.

Verst að ég er ekki komin með hjálminn.

föstudagur, september 10, 2004

Þegar ég hjóla frá heimili mínu rétt við Hlemm og út á Seltjarnarnes kl. 6:40 um morgun brosi ég tryllingslega og finnst ég eiga heiminn.

"Maður getur allt ef maður bara vill það," segi ég hátt og þeysi niður Hverfisgötuna. Ég er loksins orðin ein af þeim: Þeim sem vakna fyrir allar aldir og HJÓLA þar að auki í vinnuna. Á dauða mínum átti ég von.

Á götum eru fáir, borgin er að vakna. Merkilegt hvað ferskt loft og súrefni vekja mann vel. Upp Vesturgötuna og það fer að harðna á dalnum. "Kúlurass í lok næsta mánaðar," styn ég með brosið frosið.

Kortéri síðar hníg ég niður fyrir framan áfangastað og er svo andstutt að ég get ekki talað. Fötin klístruð við mig, rennblaut af svita.

Eftir að hafa náð andanum á nýjan leik á ég aftur heiminn. Er ánægð með hjólaframtakið og að vera komin í hóp ÞEIRRA: Hjólagúrúanna. Ég hugsa sem minnst um myrkra daga í desember þegar ég mun slást við skafrenning á Nesveginum og hálkubletti á Hofsvallagötunni.

Fyrsta daginn hjólaði ég í pilsi og sokkabuxum og það var rigning. Nú veit ég af hverju menn setja skítbretti á hjól og af hverju maður hjólar ekki í hvítum sokkabuxum. Svo lærir sem lifir.

Ég hef tekið hlífðarbuxur sambýliskonu minnar trausta taki og vippa mér í gallann í bleikum sokkabuxum og bol. Ég áttaði mig í vikunni á að ég á ekkert regnhelt. Í fataskápnum er hins vegar nóg af pilsum og sumarskóm og kjólum og veskjum. Í hitteð fyrra sníkti ég gamlan regnjakka af mömmu en gaf hann síðan einhvers staðar í Asíu.

Á leið út á Nes með pilsið mitt í töskunni flauta ég lag og ákveð að ræða hjólahjálm og önnur öryggisatriði við helstu ráðgjafa mína á sviði öryggis- og varnarmála.

Það verður verkefni helgarinnar.

miðvikudagur, september 08, 2004

Í fyrradag las ég tölvupóst frá Indlandi – frá eiginmanni konunnar sem ég skrifaði um á Sellunni nokkrum klukkustundum áður. Merkileg tilviljun.

Maðurinn vinnur í nálægum bæ, er að reyna að koma upp bisness með safaríferðir í eyðimörkinni. Honum var bent á að fá sér netfang og skoða póstinn sinn á netkaffi í bænum. Netið er dýrt á hans mælikvarða, rándýrt – en hann skoðar póstinn í von um að einhver hafi haft samband og vilji fara í safarí.

Í sögunni á Sellunni var konan ólétt. Barnið er núna komin í heiminn – lítil stúlka sem heitir Veinna. Fyrir þremur mánuðum datt einhvers konar járnhlutur á fótinn á félaga mínum. Enskan hans er torlesin en ég held að ein táin hafi farið af. „I can not wolk wel,“ segir hann síðan í bréfinu. Hann var á sjúkrahúsi í tvo mánuði og þá þýðir það að málið hafi verið alvarlegt. Einu sinni beit hann snákur og hann átti ekki efni á að fara til læknis, plús það að einhver þorpslæknir þóttist hafa reddað málunum. Mánuði síðar hafði sjónin á vinstra auga hins vegar horfið og fara þurfti á sjúkrahús langt í burtu. Þá var það orðið of seint.

„Wel sigga this is lif,“ skrifaði hann í gær og óskaði mér alls hins besta. Bað fyrir bestu kveðjum til Íslands. Ég sá hann fyrir mér skælbrosandi með skjannahvítar tennur og blinda augað dálítið út á hlið.

Ég býst við að sjúkrahúsferðin vegna fótmeiðslanna hafi verið rándýr fyrir fjölskylduna. Eitt af því sem eiginkonan og tengdamóðirin gera er að rækta vatnsmelónur, skera þær, plokka úr þeim fræin, þurrka þau og selja. Til að ná einu kílói af fræjum þurfa þær að meðaltali 20 melónur. Kílóið er síðan selt á 10 rúpíur – 17 íslenskar krónur. Jebb, sautján krónur fyrir puðið.

Ég ætla að senda fjölskyldunni lítinn pakka með barnafötum, smá aur og öðru sem að gagni gæti komið. Litla stúlkan er sjö mánaða. Endilega hafið samband ef þið hafið eitthvað í pakkann; siggavidis@hotmail.com eða 690 1175.

Á mánudag las ég líka annan tölvupóst frá Indlandi: Fréttir af byggingu heimalærdómsskýlisins sem við söfnuðum fyrir um daginn, kæra fólk.

Um helgina var fundur í þorpinu þar sem byggingin var rædd í þaula. Búið er að panta allt efni og sjálf vinnan er síðan unnin í sjálfboðastarfi. Stefnt var á að framkvæmdir hæfust í gær!

mánudagur, september 06, 2004

Hér er grein sem ég var að setja á Selluna. "Geimvera í eyðimörk".

Vestlendingum bendi ég síðan á grein mína "Vinur nágranna móðurbróður míns" í nýjasta blaði Skessuhorns. Frökenin veltir fyrir sér hvort djúpstæður munur sé á höfuðborgarbúum og landsbyggðarfólki. Af hverju er svona miklu lengra að aka frá Reykjavík og upp á Skaga en öfugt?

"Jæja, þá er komið haust og allir búnir að fylla sultukrukkurnar fyrir veturinn," sagði þýð rödd á Gufunni í morgun.

Það kom á mig. Ég hafði ekki farið í berjamó. Mér hafði ekki einu sinni dottið í hug að ég gæti sjálf búið til sultu. Á miða á eldhúsborðinu hafði ég þremur mínútum áður skrifað að mig vantaði sultu, enda von á her manna í vöfflur í kvöld í fallegu íbúðina við Laugaveginn.

Mér fannst ég allt í einu komin svo langt frá upprunanum að það væri beinlínis orðið vafasamt. Ég skellti hnefanum í borðið og ákvað að skella mér í berjamó. Sulta síðan fyrir kvöldið. Já, það var tími aðgerða. Maður verður að gera eitthvað uppbyggilegt á frídegi úr vinnunni.

Meðan ég leitaði að útivistarfatnaði hugkvæmdist mér að það gæti nú verið gaman að kíkja aðeins upp í Háskóla og drekka kaffi með skemmtilegu fólki. Ég eyddi enda ófáum klukkustundum á kaffistofunum í HÍ. Þegar ég hugsa um háskólaárin finn ég ósjálfrátt kaffilykt. Mér fannst þessi nýjasta hugmynd svakaleg góð og mundi líka að ég veit ekki um neinn góðan berjamó í göngu/hjóla/strætófæri frá Reykjavík. Svo var líka rigning úti.

Meðan ég sendi sms út og suður fannst mér ég hins vegar ögn þroskaðari en þegar ég vaknaði í morgun. Á ákveðnum tímapunkti hafði ég raunverulega ætlaði í berjamó og að sjóða sultu. Það hef ég ekki gert síðan ég flutti af Skaga fyrir nokkrum árum og hóf eiginn búskap.

Þar sem ég hélt upp í Háskóla í kaffidrykkjuna varð mér hugsað til sultugerðar og sláturtíðar í eldhúsinu á Akranesi. Þá sagði amma ef til vill frá Frostavetrinum mikla 1918 eða lýsti Spænsku veikinni. Amma veiktist en lifði af. "Kirkjuklukkurnar hættu naumast að hringja því sífellt voru einhverjir jarðaðir," sagði hún en ég horfði aðdáunaraugum á ömmu.

Hún var fædd árið 1897 í burstabæ en ég bara 1979 á sjúkrahúsinu við Heiðarbraut.

föstudagur, september 03, 2004

Þegar ég var lítil, með skakkar tennur og safnaði frímerkjum, hélt ég að fyrsta orðið mitt hefði ekki verið mamma eða pabbi eða eitthvað svona venjulegt heldur gleraugu.

Einmitt það. GLERAUGU. Svo þjált sem það er.

Af hverju?
Því elsti bróðir minn staðhæfði það.
Máttur sannfæringarinnar er mikill.

Í dag sé ég lymskulegt brosið fyrir mér og myndi ekki blekkjast. Eða hvað?

Var ég ekki blekkt til að halda að innrásin í Írak hefði fínar ástæður eins og það að tryggja öryggi í heiminum og "frelsa" Íraka?

Og þó, ég sá í gegnum það.

Vona bara að sá dagur komi að allir hinir sjái í gegnum svikamylluna.
Kannski Bush trúi því enn að fyrsta orðið sem hann sagði hafi verið gleraugu?
Gleraugu, því hann hafi verið svo gáfaður. Humm.

fimmtudagur, september 02, 2004

Sumt veit maður að maður ætti að gera en gerir samt ekki. Hummar og hæjar það fram af sér.

Eitt af því er að kaupa sér reykskynjara. Ég veit ekki hversu mörgum ég hef bent á að kaupa sér slíkt tæki og ég hef ekki tölu á því hversu mörgum hefur fundist það stórgóð hugmynd en hafa aldrei komið henni í framkvæmd. Já, eða skipta um batterí eða festa skynjarann upp. Og venja sig á að taka hann ekki úr sambandi þótt hann væli einu sinni eða tvisvar yfir stórsteik um helgar.

Ég veit heldur ekki hversu marga ég hef innt eftir því hvernig þeir ætli að slökkva eld komi hann upp. Maður slekkur ekki eld með berum höndum einum saman. Hvað ætlarðu að gera ef þú kemur inn í stofuna til þín og sófaborðið stendur í ljósum logum? Eldvarnarteppi og handslökkvitæki eru grundvallaratriði – og það verður líka að kunna að nota þessa hluti. Það verður að vera meðvitaður um að eldur breiðir úr sér á sekúndubrotum. Hvaða neyðarútganga ætlarðu að nota?

Stórbruni og tugir slökkviliðsmanna og húsarústir og þyrla og flugferð á sjúkrahús og sjúkrahúsvist – allt út frá einum saklausum kertaloga – er náttúrlega bara eitthvað sem kemur fyrir aðra og þess vegna þarf ég ekkert að pæla í því.
Þetta sagði ég líka þangað til það kom fyrir sjálfa mig, ha ha.

Ég segi einn, tveir og þrír og allir að koma eldvörnum heimilisins í lag.
Ekki á morgun, ekki hinn, heldur Í DAG.
Það er nákvæmlega ekki eftir neinu að bíða. Engu.

Ýmsa hluti er ekkert vandamál að koma í veg fyrir eða minnka líkurnar á. Húsbruni er ekki náttúrlegur. Að vera ekki með reykskynjara og eldvarnartæki, að vera ekki meðvitaður um að fara aldrei frá logandi kerti og að fara ekki í huganum yfir það hvernig maður ætlar að bregðast við útbreiðslu elds – er ekki bara heimskulegt heldur stórhættulegt.

Það er að leika sér að eldinum.
Í orðsins fyllstu merkingu.

miðvikudagur, september 01, 2004

Sýn - sjálfsögð mannréttindi.

Hvaða grín er það?

Má ég frekar biðja um öryggi, frið fyrir stríðsátökum og pyntingum sem sjálfsögð mannréttindi.